Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 103/2009

Miðvikudaginn 9. desember 2009

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r.

Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

Með bréfi til úrskurðarnefndar almannatrygginga dags. 12. mars 2009 kærir A, synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um heimilisuppbót.

Málsatvik eru þau að kærandi sótti þann 2. mars 2009 um heimilisuppbót til Tryggingastofnunar ríkisins. Umsókn var ekki formlega synjað af Tryggingastofnun ríkisins en greint er frá því að starfsmaður stofnunarinnar hafi sagt kæranda að honum hafi verið synjað þar sem hann búi ekki í íbúð heldur herbergi með aðgangi að eldhúsi og fái hann því ekki heimilisuppbót.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir kærandi meðal annars:

„Tilkynnti nýtt lögheimili í desember síðastliðinn og skilaði húsaleigusamningi til Tryggingastofnunar. Fékk bréf (meðfylgjandi) um að ég þyrfti að sækja um heimilisuppbót að nýju og sótti um að nýju. – við næstu útborgun eftir umsókn þ.e. 1. mars, féllu niður 15-17 þús. krónur. Við kvörtun mína við þessu var þetta snarlega leiðrétt um 11.038 krónur sem uppbót vegna húsaleigu – en ekki heimilisuppbót. Svo þarna vantar enn u.þ.b. 6 þúsund krónur, sem ég hef misst við það að skipta um húsnæði !! Þó að enginn munur sé á stærð herbergis né aðstöðu í nokkru! Þetta sætti ég mig ekki við. Og hvers vegna er heimilisuppbót skyndilega orðin uppbót vegna húsaleigu? Enginn munur er á núverandi og fyrrverandi húsnæði, hvað snertir stærð né aðstöðu. Svo, hvers vegna lækka ég í upphæð og hvers vegna breytist heimilisuppbót í uppbót vegna húsaleigu ? Er þetta ekki augljóslega rugl og verið að hringla í hlutunum? – Í meðfylgjandi bréfi frá 5. mars segist Réttindasvið hafa afgreitt umsókn mína um uppbót vegna húsaleigu – en ég sótti aldrei um uppbót vegna húsaleigu, heldur heimilisuppbót að nýju ! – eins og á var um kveðið. – Svo segir þjónustufulltrúi mér ýmsa undarlega hluti í samtali, t.d. að fyrrverandi húsnæði hafi verið íbúð en ekki herbergi fyrst ég hafi fengið fulla heimilisuppbót þar. En, húsnæði mitt að B-götu þar sem ég bjó áður var herbergi með aðgangi að eldh. baði og þvottahúsi, hvað sem þjónustufulltrúi segir!.“

 

Úrskurðarnefndin óskaði greinargerðar Tryggingastofnunar með bréfi dags. 31. mars 2009. Greinargerð er dags. 17. apríl 2009. Þar segir:

Kæruefni

Kærð er afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um að fá greidda heimilisuppbót.

Lög og reglugerðir sem máli skipta

Samkvæmt 8.gr. laga nr. 99/2007 er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að greiða einstaklingum svokallaða heimilisuppbót að upphæð 27.242 kr. á mánuði. Skilyrði er að hlutaðeigandi sé einhleypingur sem njóti óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar. Enn fremur að hann sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Tekið er fram að eigi hlutaðeigandi rétt á skertri tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar skuli lækka heimilisuppbótina eftir sömu reglum.

Um þetta er síðan nánar fjallað í reglugerð nr. 595/1997 um heimilisuppbót og frekari uppbætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð með síðari breytingum.

Málavextir – Gangur málsins

Undanfarin ár hefur kærandi leigt herbergi að B-götu í Reykjavík. Um hefur verið að ræða eitt herbergi með aðgangi að eldhúsi, baði og þvottahúsi. Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt kæranda heimilisuppbót þennan tíma, enda þótt það hafi verið í andstöðu við vinnureglur Tryggingastofnunar sem hafa byggst meðal annars á reglugerð nr. 595/1997. Hefur verið talið að maður sem leigir eitt herbergi með aðgangi að öðrum nauðsynlegum vistarverum sé ekki einn um heimilisrekstur. Hann njóti fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu og eigi því ekki rétt á heimilisuppbót. Tryggingastofnun lítur svo á að hér hafi verið um mistök hennar að ræða sem hún beri ábyrgð á og verður kærandi ekki krafinn um endurgreiðslu á þessari greiddu heimilisuppbót.

Þann 1. desember 2008 flytur kærandi úr B-götu í annað húsnæði að C-götu í Reykjavík (hann mun reyndar ekki búa þar lengur).  Aðstaðan sem kærandi leigði þar er sams konar eins og sjá má á fyrirliggjandi húsaleigusamningi. Um var að ræða 10 fermetra herbergi með aðgangi að eldhúsi, baði og þvottahúsi. Kærandi lagði inn þennan nýja húsaleigusamning til Tryggingastofnunar 8. desember 2008, enda er umsækjendum um heimilisuppbót skylt að gefa allar nauðsynlegar upplýsingar og skýringar og skila inn umbeðnum gögnum til þess að hægt sé að ákvarða bætur eða endurskoða bótarétt samkvæmt 2.gr. reglugerðar nr. 595/1997.

Kærandi flytur lögheimili sitt nokkru síðar á þennan stað, þ.e. að C-götu. Tölvukerfi Tryggingastofnunar vaktar slíkt hjá þiggjendum heimilisuppbótar og lætur starfsfólk stofnunarinnar vita. Kæranda var því sent hefðbundið bréf 12. janúar 2009 og honum bent á að vegna breytingar á lögheimili þurfi hann að sækja um heimilisuppbót að nýju. Hann var beðinn að fylla út nýja umsókn um heimilisuppbót ef heimilisaðstæður hans væru óbreyttar, þ.e. það skilyrði að hann væri einn um heimilisrekstur. Enn fremur var tekið fram að hann yrði að senda afrit af nýjum húsaleigusamningi með umsókninni. Það var þó að sjálfsögðu óþarfi, enda kærandi búinn að leggja inn afrit af hinum nýja húsaleigusamningi eins og fram kemur hér að ofan.

Kærandi flytur reyndar síðan lögheimili sitt á enn nýjan stað í apríl 2009 samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá og er því væntanlega fluttur núna af C-götu.

Þegar verið er að fara yfir þetta mál hjá Tryggingastofnun í febrúar 2009 kemur í ljós að samkvæmt hinum nýja húsaleigusamningi (og reyndar þeim gamla líka) taldist hann ekki búa við þær aðstæður að hann ætti rétt á heimilisuppbót. Þess vegna fékk hann ekki greidda heimilisuppbót frá og með 1. mars 2009. Kærandi mætir síðan í þjónustumiðstöð Tryggingastofnunar ríkisins 2. mars vegna þessa og þar er málið skýrt fyrir honum. Honum er bent á að sækja um uppbót vegna húsaleigu en reglur um þá uppbót er að finna í sömu reglugerð nr. 595/1997, 8.gr. Sú uppbót er reyndar lægri en heimilisuppbót eða 17.576 kr. á mánuði, en Tryggingastofnun lítur einfaldlega svo á að heimilisaðstæður kæranda uppfylli ekki kröfur þær sem lög og reglugerðir gera fyrir því að fá greidda heimilisuppbót. Kærandi sótti samdægurs um uppbót á húsaleigu sbr. meðfylgjandi afrit af umsókn. Í kæru sinni segist kærandi aldrei hafa sótt um uppbót vegna húsaleigu. Það er ekki rétt.

Það var sem sagt um tvær umsóknir frá kæranda að ræða. Annars vegar sótti hann um heimilisuppbót 22. janúar 2009. Hins vegar sótti hann um uppbót á húsaleigu 2. mars 2009 þegar búið var að greina honum frá því að hann fengi heimilisuppbótina ekki greidda.  Uppbót á húsaleigu var samþykkt með bréfi til kæranda 5. mars 2009.

Kærandi mun hins vegar aldrei hafa fengið skriflega synjun á umsókn sinni um heimilisuppbót og verða það að teljast mistök Tryggingastofnunar sem beðist er velvirðingar á.

Lagarök

4.gr. reglugerðar nr. 595/1997 er að efni til samhljóða 8.gr. laga um félagslega aðstoð. Þar kemur skýrt fram að skilyrði þess að fá greidda heimilisuppbót eru þrjú:

Að umsækjandi sé einhleypingur (þ.e. ógiftur)

Að umsækjandi njóti tekjutryggingar

Að umsækjandi sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað

Enn fremur má benda á 5.gr. reglugerðar nr. 595/1997 en þar segir í 3. tl. að heimilisuppbót verði ekki greidd ef umsækjandi um hana leigi herbergi eða húsnæði með sameiginlegri eldunaraðstöðu með öðrum. Þessari reglugerð hefur ekki verið breytt.

Fyrir liggur að kærandi uppfyllir skilyrði a) og b) hér að ofan. Tryggingastofnun ríkisins telur hins vegar að maður sem leigir 10 fermetra herbergi í stórri íbúð (118 ferm) með aðgangi að eldhúsi, baði og þvottahúsi sé ekki einn um heimilisrekstur og njóti fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra.

Að auki má benda á að fyrir liggur í málinu synjun Reykjavíkurborgar á greiðslu húsaleigubóta til kæranda. Í þeirri yfirlýsingu kemur fram að húsaleigubætur greiðist ekki vegna leigu á einstaklingsherbergjum eða ef eldhús eða snyrting er sameiginleg fleirum. Sama gildir um heimilisuppbót að dómi Tryggingastofnunar ríkisins. 3.tl. 8.gr. reglugerðar nr. 595/1997 heimilar Tryggingastofnun einmitt að greiða uppbót á húsaleigu sem fellur utan húsaleigubóta, enda var sú uppbót samþykkt þremur dögum eftir að kærandi sótti um hana.

Niðurstaða

Tryggingastofnun telur því að það hafi verið rétt að synja kæranda um greiðslu heimilisuppbótar.“

 

Greinargerðin var send kæranda með bréfi dags. 22. apríl 2009 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Athugasemdir bárust með bréfi dags. 28. maí 2009, sem kynnt var Tryggingastofnun ríkisins.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar um greiðslu heimilisuppbótar til kæranda.

Kærandi taldi sig eiga rétt á geiðslu heimilisuppbótar á nýja lögheimilinu rétt eins og hann hafði fengið þegar hann bjó í herbergi með aðgang að eldhúsi, baði og þvottaherbergi á heimili sínu þar á undan. Í báðum tilvikum hafði hann verið í sömu stöðu.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kæranda hafi verið greidd heimilisuppbót undanfarin ár þar sem hann hafi leigt herbergi með aðgangi að eldhúsi, baði og þvottahúsi, enda þótt það hafi verið í andstöðu við vinnureglur Tryggingastofnunar ríkisins. Þar hafi hann notið fjárhagslegs hagræðis af sambýlinu eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu og hafi því ekki átt rétt á heimilisuppbót. Tryggingastofnun líti svo á að hér hafi verið um mistök að ræða og kærandi verði ekki krafinn um endurgreiðslu þessara heimilisuppbótar. Þann 1. desember 2008 hafi hann síðan flutt í nýtt húsnæði sem hafi verið samskonar og það fyrra, herbergi með aðgangi að eldhúsi, baði og þvottahúsi. Hann teljist ekki samkvæmt nýja húsaleigusamningi uppfylla skilyrði til greiðslu heimilisuppbóta þar sem hann njóti fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra um húsnæðisaðstoð og hafi ekki samkvæmt framangreindu gert það samkvæmt eldri húsaleigusamningi. Tryggingastofnun telur kæranda því réttilega hafa verið synjað um greiðslu heimilisuppbótar.

Samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er heimilt að greiða einhleypingi heimilisuppbót, sem nýtur óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli og samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Í 5. gr. reglugerð nr. 595/1997 um heimilisuppbót, sérstaka heimilisuppbót og frekari uppbætur er kveðið á um að heimilisuppbót verði ekki greidd ef, umsækjandi leigir herbergi/húsnæði með sameiginlegri eldunaraðstöðu með öðrum.

Kærandi hafði fengið greidda heimilisuppbót undanfarin ár, en hann hafði leigt herbergi með aðgang að eldhúsi, baði og þvottaherbergi. Þegar hann síðan tilkynnir breytt heimilisfang þann 1. desember 2008 með hliðsjón af nýjum húsaleigusamningi, kemur fram að hann sé að leigja herbergi með aðgangi að eldhúsi, baði og þvottaherbergi, en fær hann synjun um greiðslu heimilisuppbótar.

Fyrir liggur að í kjölfar þess að kærandi skipti um húsnæði sótti hann að nýju um heimilisuppbót. Úrskurðarnefnd almannatrygginga leggur sjálfstætt mat á umsókninna á grundvelli nýrra og breyttra forsendna. Kærandi býr að C-götu, Reykjavík en fyrir liggur leigusamningur um herbergi með sameiginlegum aðgangi að eldhúsi.

Skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar er samkvæmt tilvitnuðum laga- og reglugerðarákvæðum að um einhleyping sé að ræða sem leigi húsnæði þar sem hann nýtur ekki fjárhagslegs hagræði vegna sambýlis við aðra. Meta verður sjálfstætt í hverju tilviki að teknu tilliti til allra aðstæðna hvort viðkomandi njóti fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra í skilningi reglna um heimilisuppbót. Að mati úrskurðarnefndar er ljóst að kærandi greiðir lægri húsaleigu fyrir herbergi með sameiginlegum aðgangi að eldunaraðstöðu en ef hann væri einn um húsnæðið. Að mati nefndarinnar nýtur kærandi fjárhagslegs hagræðis af því að hafa aðgang að, eldhúsi, baði og þvottaherbergi, ásamt öðrum. Auk þess sem þetta kemur fram í lægri leigu skiptist hitunar- og rafmagnskostnaður af sameiginlegu rými á leigjendur.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um greiðslu heimilisuppbótar er staðfest.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson, formaður

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta