Mál nr. 118/2009
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 18. maí 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 118/2009.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur með rafrænum hætti á heimasíðu Vinnumálastofnunar í maí 2009. Hann staðfesti umsóknina með undirskrift þann 4. júní 2009 og einnig þann 3. júlí 2009. Eftir það láðist honum að staðfesta atvinnuleit sína. Kæranda var synjað um atvinnuleysisbætur aftur í tímann samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 7. október 2009 sem tilkynnt var kæranda símleiðis. Kærandi vildi ekki una þessu og kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 10. nóvember 2009. Hann krefst þess að sér verði greiddar atvinnuleysisbætur fyrir umrætt tímabil. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Kærandi sótti rafrænt um atvinnuleysisbætur í maí 2009 og staðfesti umsóknina með undirskrift þann 4. júní og aftur þann 3. júlí 2009. Kærandi hafði síðan samband við Vinnumálastofnun símleiðis þann 20. júlí 2009. Það var metið sem staðfesting á atvinnuleit og fékk kærandi greiddar bætur í samræmi við það. Kærandi hafði næst samband við Vinnumálastofnun þann 7. september 2009 en þá hafði hann verið afskráður úr tölvukerfi Vinnumálastofnunar og hætt var að greiða honum atvinnuleysisbætur. Kærandi segir að það komi hvergi fram í umsóknarferlinu um atvinnuleysisbætur að það þurfi að stimpla sig inn mánaðarlega. Hann hafi heldur aldrei verið boðaður á fund vegna atvinnuleysisbótanna eða haft samband við hann á annan hátt. Hann kveðst heldur aldrei hafa fengið pappaspjald sem honum hafi verið tjáð að væri afhent meðal annars þegar umsækjendur skiluðu gögnum, en þar kæmi fram áminning um að stimpla sig. Kærandi vonar að Vinnumálastofnun sjái sér fært að greiða honum þær bætur sem hann hafi átt rétt á að fá greiddar.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 25. febrúar 2010, kemur fram að í 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um það markmið laganna að tryggja tímabundna fjárhagsaðstoð meðan sá tryggði leiti að nýju starfi eftir að hafa misst sitt fyrra starf. Í III. kafla laganna séu svo tilgreind almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Eitt af meginskilyrðum 13. og 14. gr. laganna sé að einstaklingur sem þiggur atvinnuleysisbætur sé í virkri atvinnuleit. Atvinnuleitanda sé gert að staðfesta að hann sé virkur í atvinnuleit, mánaðarlega hjá stofnuninni. Umsækjendur geti hringt í þjónustufulltrúa, skráð sig rafrænt á heimasíðu stofnunarinnar eða mætt á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar til þess að staðfesta atvinnuleit sína.
Vinnumálastofnun haldi úti heimasíðu þar sem atvinnuleitendum sé gert kleift að staðfesta atvinnuleit mánaðarlega. Staðfestingin fari fram með þeim hætti að atvinnuleitandinn skrái inn kennitölu sína og lykilorð. Þá sé mögulegt að koma að skriflegum athugasemdum með staðfestingu. Regluleg staðfesting á atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun sé nauðsynleg til að tryggja greiðslur atvinnuleysistrygginga. Þau samskipti milli umsækjenda um atvinnuleysisbætur og Vinnumálastofnunar sem felist í því að staðfesta mánaðarlega atvinnuleit séu því mikilvægur þáttur í því að vera skráður atvinnulaus hjá stofnuninni. Þegar umsækjendur um atvinnuleysisbætur komi á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar til að staðfesta rafræna umsókn sína skriflega sé þeim því ávallt bent á að skrá sig mánaðarlega hjá stofnuninni. Vinnumálastofnun hafi gefið út kort til leiðbeiningar vegna þessa. Það kort sé sýnilegt og fáanlegt á öllum þjónustuskrifstofum stofnunarinnar, ásamt því að vera dreift til allra umsækjenda. Jafnframt séu á heimasíðu stofnunarinnar upplýsingar fyrir umsækjendur atvinnuleysisbóta. Sé þar meðal annars að finna ítarlegar upplýsingar um staðfestingu á atvinnuleit. Komi skýrt fram að staðfesta skuli atvinnuleit 20.–25. hvers mánaðar og að mögulegt sé að skrá staðfestingu á heimasíðu stofnunarinnar. Vinnumálastofnun telur að kærandi hafi verið nægilega upplýstur um skyldur sínar gagnvart Vinnumálastofnun, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Þá telji stofnunin að ekki hafi komið fram nægjanleg rök fyrir því að veita kæranda undanþágu frá því að staðfesta atvinnuleit sína hjá Vinnumálastofnun.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. mars 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 15. mars 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
Samkvæmt svari Vinnumálastofnunar við fyrirspurn úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. maí 2010, fékk kærandi greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. júní 2009 til 17. júlí 2009 en ekkert eftir það.
2.
Niðurstaða
Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi taldi sig ekki þurfa að veita Vinnumálastofnun þær mánaðarlegu upplýsingar að hann væri í virkri atvinnuleit, þ.e. hann taldi sig ekki skyldugan til að stimpla sig, hvort sem það væri gert með rafrænum hætti eða öðrum hætti. Afstaða kæranda var reist á því að Vinnumálastofnun hafi ekki upplýst hann um þær starfsvenjur stofnunarinnar að skylda atvinnuleitendur til að stimpla sig í virkri atvinnuleit 20.–25. hvers mánaðar. Þessari fullyrðingu kæranda um skort á upplýsingagjöf til hans hefur ekki verið hnekkt í málinu.
Greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda voru stöðvaðar án þess að honum væri tilkynnt um það formlega og á hvaða forsendum það væri gert. Í framhaldi af því að greiðslur til kæranda voru stöðvaðar sendi hann Vinnumálastofnun fyrirspurnir um ástæður þessa. Telja verður að svör stofnunarinnar við fyrirspurnum kæranda hafi verið rýr miðað við hversu íþyngjandi hin kærða ákvörðun var. Þessi vinnubrögð ber að átelja.
Þrátt fyrir framangreinda annmarka á meðferð málsins hjá Vinnumálastofnun verða úrslit þessa máls ekki látin ráðast af þeim.
Með stoð í 2. mgr. 7. gr. eldri laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 var atvinnuleitendum, sem ekki höfðu gert starfsleitaráætlun, gert að skrá sig vikulega hjá svæðisbundinni vinnumiðlun eða þar til bærum skráningaraðila ella ættu þeir á hættu að missa rétt til atvinnuleysisbóta frá og með þeim degi sem þeir síðast höfðu skráð sig. Hvergi í gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 er mælt fyrir um þá skyldu atvinnuleitanda að skrá sig í virkri atvinnuleit með reglubundnu millibili. Í krafti lokamálsgreinar 14. gr. laganna gæti ráðherra sett reglugerð um slíka skyldu en það hefur hann ekki gert. Jafnframt ber til þess að líta að skv. 10. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal atvinnuleitandi tilkynna til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit og skal tilkynningin gerð með sannanlegum hætti. Þar skal taka fram ástæðu þess að atvinnuleit er hætt. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar, sagði meðal annars svo um þá frumvarpsgrein sem varð að 10. gr. laganna:
„Einstaklingi sem hefur skráð sig atvinnulausan í gildandi kerfi hefur verið skylt að skrá sig reglulega einu sinni í viku eða á tveggja vikna fresti hjá svæðisvinnumiðlun Vinnumálastofnunar. Að öðrum kosti hefur hlutaðeigandi fyrirgert rétti sínum til atvinnuleysisbóta. Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að regluleg skráning verði lögð niður en í stað hennar komi til regluleg samskipti við ráðgjafa innan vinnumarkaðskerfisins. Tíðni slíkrar ráðgjafar, þar á meðal þátttaka í vinnumarkaðsaðgerðum, miðast við þarfir hlutaðeigandi. Ástæðan fyrir þessari breytingu er einkum sú að regluleg skráning hefur ekki þótt reynast það eftirlit með því að fólk sé í virkri atvinnuleit sem gengið var út frá í upphafi enda þótt það sé að sjálfsögðu misjafnt eftir einstökum svæðum. Reglubundin skráning er tímafrek og þegar atvinnuleysi hefur verið mikið eða á fjölmennari stöðum hafa jafnvel myndast biðraðir sem mörgum hefur þótt niðurlægjandi að standa í.“
Með vísan til framanritaðs er ljóst að sú starfsvenja Vinnumálastofnunar að krefjast þess að atvinnuleitendur skrái sig í virkri atvinnuleit 20.–25. hvers mánaðar styðst ekki við skráða réttarheimild. Þótt kærandi hafi ekki farið eftir starfsvenjum Vinnumálastofnunar að þessu leyti þá átti það sér ekki stoð í lögum að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans. Þetta er ekki síst reist á því að engin gögn hafa verið lögð fram í málinu sem leiða í ljós að kærandi hafi brotið á reglum um virka atvinnuleit, sbr. 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Í ljósi þess sem að framan hefur verið ritað verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi. Kærandi á rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta frá 17. júlí 2009 að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 7. október 2009 í máli A um synjun atvinnuleysisbóta er felld úr gildi. Kærandi á rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta frá 17. júlí 2009 að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson