Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 132/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 11. maí 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 132/2009.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 27. nóvember 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi á fundi sínum þann 26. nóvember 2009 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 1. desember 2008. Fallist var á umsókn kæranda en réttur hans til atvinnuleysisbóta var felldur niður í 40 daga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sbr. c-lið 3. gr. laganna, þar sem hann hætti í námi. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 10. nóvember 2009. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi kveðst hafa hætt námi við Iðnskólann en hann hafi ekki getið haldið áfram í námi vegna fjárhagserfiðleika. Hann kveðst hafa rætt við ráðgjafa hjá Vinnumálastofnun og verið sagt að hætta námi til þess að eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Hann kveðst ekki hafa fengið þær upplýsingar að hann yrði settur á 40 daga bið. Í vottorði frá Tækniskólanum, skóla atvinnulífsins, dags. 7. október 2009, kemur fram að kærandi óskar eftir úrsögn úr námi sínu í skólanum.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 21. apríl 2010, kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 12. október 2009. Með umsókninni hafi fylgt afrit af beiðni um úrsögn úr námi frá Tækniskólanum, dags. 7. október 2009, og skýringarbréf þar sem gerð sé grein fyrir ástæðum þess að kærandi hætti námi. Málið hafi verið tekið fyrir í nóvember 2009. Hafi það verið mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda á því hvers vegna hann hætti námi væru ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda hafi verið tilkynnt sú ákvörðun að réttur hans til atvinnuleysisbóta væri felldur niður í 40 daga sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir skv. 1. mgr. 55. laga um atvinnuleysistryggingar. Bent er á að í athugasemdum við umrædda grein frumvarps til laga um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að eðlilegt sé að þeir sem hætti námi án þess að hafa til þess gildar ástæður sæti sams konar biðtíma og þeir sem hætti störfum án gildra ástæðna, sbr. 54. gr. frumvarpsins. Orðalagið „gildar ástæður“ hafi verið skýrt þröngt sem hafi þýtt í raun og veru að fá tilvik falli þar undir. Ágreiningurinn snúist um það hvort ástæður kæranda fyrir því að hætta námi sínu teljist gildar í skilningi framangreindra ákvæði. Hafi orðalagið „gildar ástæður“ verið túlkað þröngt og hafi fá tilvik verið talin falla þar undir. Skýringar þær er kærandi gefi fyrir því að hætta námi lúti aðallega að fjárhagsaðstæðum eins og fram komi í skýringarbréfi hans, dags. 12. október 2009.

Kærandi fékk námssamning vegna náms sem hann stundaði í Tækniskólanum á vorönn 2009. Af hálfu Vinnumálastofnunar kemur fram að kæranda hafi mátt vera kunnugt um reglur stofnunarinnar hvað varðar nám samhliða töku atvinnuleysisbóta. Engar færslur séu í samskiptasögu kæranda í tölvukerfi stofnunarinnar sem styðji frásögn kæranda um að honum hafi verið ráðlagt að hætta námi, án þess að vera upplýstur um ákvæði 55. gr. laganna hvað varðar biðtíma.

Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafa fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Því beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum eða hætta námi sínu um að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að stunda nám eða gegna launuðu starfi. Í máli kæranda telji Vinnumálastofnun ljóst að með því að hætta námi sínu hafi kærandi tekið ákvörðun um að vera skráður atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun í stað þess að halda áfram námi sínu. Það sé mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda á því hvers vegna hann hafi hætt námi teljist ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og sé bótaréttur kæranda því felldur niður í 40 daga.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. apríl 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 7. maí 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur hætt námi, sbr. c-lið 3. gr., án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Staðfesting frá viðkomandi skóla um að námi hafi verið hætt skal fylgja umsókninni.

Í athugasemdum við 55. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar segir að eðlilegra þyki að þeir sem hætta í námi án þess að hafa til þess gildar ástæður þurfi að sæta sams konar biðtíma og þeir sem hætti störfum án gildra ástæðna, sbr. 54. gr. frumvarpsins. Skipti þá ekki hvenær á námsönn hlutaðeigandi hætti námi. Gert sé ráð fyrir að vottorð frá hlutaðeigandi skóla um að hann hafi hætt námi fylgi umsókninni. Að öðru leyti er vísað til athugasemda við 54. gr. frumvarpsins. Þar segir að nefnd er fjallaði um efni laganna hafi tekið afstöðu til þess hvað gætu talist gildar ástæður og komist að þeirri niðurstöðu að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega slíkar ástæður í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagaregla þessi verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun sé þar með falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur falli að umræddri reglu. Stofnuninni beri því að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Niðurstaða máls kæranda veltur á þeirri forsendu að hann ákvað sjálfur að hætta námi í Tækniskólanum. Ástæður þess segir hann vera „fjárhagsástæður“. Þá vísar kærandi einnig til þess að starfsmaður Vinnumálastofnunar hafi ráðlagt honum að hætta námi til að fá greiddar óskertar atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun hefur mótmælt síðastnefndum fullyrðingum kæranda sem röngum enda ekkert sem bendi til slíks auk þess sem það færi algerlega í bága við starf fulltrúa Vinnumálastofnunar að ráðleggja skjólstæðingum slíkt. Eftir standa því framangreindar ástæður sem kærandi hefur gefið fyrir því að hafa hætt námi sínu áður en hann sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta. Fallist er á þá niðurstöðu Vinnumálastofnunar að ekki sé unnt að líta svo á að ástæður kæranda fyrir því að hætta námi teljist gildar ástæður. Er hin kærða ákvörðun því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 26. nóvember 2009 um niðurfellingu á bótarétti A í 40 daga í upphafi bótatímabils er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta