Mál nr. 60/2008
Fimmtudaginn, 22. janúar 2009
A
gegn
Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.
Þann 7. október 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 5. október 2008.
Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 10. júlí 2008 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.
Í upplýsingum um kæruefni og rökstuðningi með kæru segir meðal annars:
„Þann Z. júli síðastliðinn ól kærandi dreng. Hafði hún þá áður sótt um fæðingarstyrk námsmanna en honum hafði verið hafnað af þeirri forsendu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof skv. bréfi Vinnumálastofnunar dagsett 10. júli 2008. í því bréfi kemur þó ekki fram ástæður þess hvers vegna umsókninni var hafnað og er þá í staðinn veittur styrkur sem foreldri utan vinnumarkaðar. Þegar leitað var eftir nánari upplýsingum hjá starfsmanni sjóðsins er sú ástæða gefin að kærandi hafi uppfyllt fullnægjandi árangri á vorönn 2008 skv. tölvubréfi dagsett 1. september síðastliðinn en hinsvegar hafi kærandi ekki uppfyllt það skilyrði um viðunandi námsárangur haustið 2007.
Saga kæranda er sú að hún var skráð upphaflega í 16 einingar á haustönn 2007, hún skráði sig síðan úr einum 5 eininga kúrs og sátu þá eftir 11 einingar. Öll verkefnaskil og próf voru tekin á tímabilinu september fram til desember og var góður árangur úr því, eins og sjá má með vottorðum kennara við B-deild D-háskóla sem eru meðfylgjandi. Þá gerist það í desember að 3 ára stúlkubarn kæranda fær sýkingu í hálsi og þarf að leggjast inn á barnaspítala Hringsins í rúma viku og var svo fjarverandi úr leiksskóla lengi eftir að heim var komið. Eru báðir foreldrar stúlkunnar í námi og var tekin sú ákvörðun að móðir barnsins (kærandi) myndi sitja við á spítalanum en faðir stúlkunnar skyldi klára sín nám en hann er í meistaranámi við E-deild D-háskóla. Fékk kærandi vottorð frá barnaspítalanum sem skilað var inn til B-deildar og fékk hún þar að leiðandi ekki fall á sínum prófum heldur heimild til að skila inn vottorði. Náði hún þó að skila inn þremur einingum vegna próflaus námskeiðs á haustönn 2007. Á þessu tímabili glímdi kærandi við mikla morgunógleði og fékk ráð hjá læknum vegna þessara og stóð það tímabil fram í febrúar.
Á vorönn náði kærandi svo viðunandi 75% námsárangri skv. tölvubréfi starfsmanns sjóðsins dagsett 1. sept síðastliðinn og er meðfylgjandi kæru þessari. Kærandi hafði þá náð 10 einingum en hafði verið skráð í 15 einingum. Var þá talið í lagi að láta þessar 10 einingar gilda þar sem aðeins var um 5 eininga áfanga og hafði kærandi því ekki möguleika á að skrá sig úr aðeins 4 einingum. Er þetta samþykkt af starfsmanni sjóðsins í áðurgreindu tölvubréfi og verður því að telja að um stjórnvaldsákvörðun að þessu leyti sé að ræða sem birt hefur verið kæranda og er því bindandi eftir að hún er komin til aðila skv. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þess má svo geta að kærandi kláraði 15 einingar á vorönn 2007 sem er 100% nám sem þó telst ekki inn í þetta tímabil skv. lögunum en sýnir þó fram á að um námsmann sé að ræða. Telur kærandi lögin hafi að geyma það skilyrði að skráning í fullt nám eigi við og eins og það sé skilgreint sé um að ræða 75-100% nám við viðurkennda menntastofnun. Þá skal sýna fram á viðunandi námsárangur. Telur kærandi að hún hafi sýnt fram á viðunandi námsárangur miðað við þau áföll sem komu upp.
Málsástæður kæranda eru í raun þrískiptar, í fyrsta lagi að skerðingarreglan um „viðunandi námsárangur" sé ekki nægjanlega skýrt afmarkaður í lögum eða reglugerð og geti þar af leiðandi ekki komið til álita og að framsal þeirrar ákvörðunar til vinnumálastofnunar sé ekki heimil. Þá telur kærandi að brotið sé gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar sem og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga með því að gera kröfu um námsárangur á lokaprófum tvívegis. Þá telur kærandi að sú skerðingarregla sem nú kemur fram í lögum um fæðingar og foreldraorlof geti ekki komið til greina við háttsemi hennar og að skerðingin hefði þurft að koma fram skýrt fram í lögum frá upphafi. Verður fjallað um þessar málsástæður í frekara mæli hér að neðan. Bendir kærandi á hlutverk kærunefndar til að fjalla um þær meginmáls ástæður sem kærandi byggir á og hefur þýðingu fyrir úrlausn málsins, sbr. álit umboðsmanns nr. 4030/2004.
Í l. mgr. 19.gr. laga nr. 95/2000 með síðari breytingum segir „Foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, .... og sýnt viðunandi námsárangur eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði, hvort um sig vegna fæðingar.." Þá kemur fram að foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Í 2. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks kemur fram þessi sama regla að foreldrar skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um skráningu og viðunandi námsárangur. Þá segir reglugerðin að fullt nám teljist vera 75 - 100% nám á háskólastigi meðal annars. Kærandi telur að heimild fyrir þeirri skerðingu sem hún varð fyrir, þ.e. að hún hafi ekki sýnt fram á viðunandi námsárangur geti ekki staðist almenn sjónarmið um skerðingar úr opinberum sjóðum. Verði að gera þá kröfu til löggjafans að lög geymi skýr og ótvíræð ákvæði um þá skerðingu greiðslna úr sjóðum hins opinbera. Er nærtækast í þessu sambandi að benda á dóm Hæstaréttar frá 19. desember 2000 nr. 125/2000 þar sem þessi regla kemur fram. í því tilviki sem hér um ræðir kemur hvergi fram nein ákvæði um hvað teljist vera viðunandi árangur að mati löggjafans, ráðherra eða annarra. Þá skýringu verður því að beita að þær skerðingar sem koma til greina verði að geyma skýr ákvæði um umfang og efni þeirrar skerðingar. Ef heimilt sé að fela ráðherra til að setja nánari reglur um þetta ákvæði verði að koma fram reglur um þetta umfang, það hefur hann hinsvegar ekki gert og því hefur þetta skerðingarvald verið framselt til fæðingarorlofssjóðs og starfsmanna þeirrar stofnunar að ákveða skerðinguna án þess að borgarar geti áttað sig á því hvernig skerðingunni er háttað. Verður að telja að þetta framsal löggjafans til fæðingarorlofssjóðs að ákveða skerðingu þessara réttinda fari langt fram úr leyfilegum mörkum sbr. almennar reglur um framsal löggjafarvalds. Í áliti umboðsmanns nr. 4030/2004 kemur fram í svörum úrskurðarnefndar fæðingar og foreldraorlofsmála að námsárangur sem jafngildi a.m.k. 75% námi hafi ekki verið talið ófrávíkjanlegt skilyrði. Þá bendir umboðsmaður á úrskurð nefndarinnar í máli nr. 31/2002 þar sem kærandi ól barn Z. janúar en þó var litið til námsárangurs á vorönn 2001 sem og tvo áfanga á haustönn 2001 og talið að það fullnægði skilyrðum reglugerðarinnar þar sem hún gat sýnt fram á vottorð um vinnu við ritgerð. Meðfylgjandi kæru þessari eru vottorð frá dósent í B-deild þar sem kemur fram að kærandi hefði skilað fjórum verkefnum og hefði staðist allar þær kröfur sem gerðar voru til verkefna sem og hefði náð fullnægjandi einkunn upp á X í heimaprófi sem gilti 20% af einkunn í áfanganum F-fræði. Þá er vottorð frá deildarforseta B-deildar þar sem kemur fram að kærandi sótti námskeiðið G-fræði við deildina og lauk verklegum þætti námskeiðsins sem gildir 30% með einkunninni X með tímasókn upp á 90%. Samkvæmt námsmati vegna þess námskeiðs er skyldumæting í tíma, þar sem kærandi uppfyllti þá tímasókn haustið 2007 er ekki gerð sú krafa á þessu hausti heldur fær kærandi tímasókn sína frá 2007 metna. Með þessum vottorðum sést að kærandi stundaði nám á þeirri haustönn þar sem ekki er viðurkenndur fullnægjandi námsárangur. Með vísan til úrskurðar nefndarinnar í máli 31/2002 krefst kærandi að litið verði til sambærilegra ástæðna og í því máli. Þá bendir kærandi einnig á mál nefndarinnar nr. 55/2005 en þar taldi úrskurðarnefndin að kærandi hefði uppfyllt skilyrði um fullt nám þó einungis hafi verið uppfyllt 7 einingum á vorönn. Telur kærandi hennar mál vera jafngilt og þau mál sem hér hafa verið nefnd.
Eins og áður segir ól kærandi barn þann Z. júlí 2008. Skv. 65. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands kemur fram að allir eigi að vera jafnir fyrir lögum. Skv. l. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að við úrlausn mála skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Telur kæranda sér mismunað á þessum grundvelli miðað við hvenær barn er alið skv. lögum nr. 95/2000. Samkvæmt þeim lögum er litið til 6 mánaða af síðustu 12 þegar metið er hvort aðili eigi rétt til styrks. Eignist aðili barn t.d. 1 mars þá er litið til haustannar árið áður sem og janúar og febrúar mánuð. Er því aðeins litið til námsárangurs að hausti en ekki að vori. Fyrra barn kæranda er fætt Z. mars 2005 og var sú aðferð notuð þá að aðeins var litið til eininga að hausti til þess að ákvarða hvort fullnægjandi árangur hefði náðst. Fæðist barn því í mars, apríl, október, nóvember, þá er aðeins litið til lokaprófa á einni önn en ekki tveimur eins og gert er ef barn er fætt á öðrum tíma ársins. Telur kærandi því að ekki sé gætt jafnræðissjónarmiða við ákvörðun á námsárangri til framkvæmdar laganna. Kærandi vill gjarnan að nefndin rökstyðji beitingu þessara reglna í framkvæmd og upplýsi hvort sú framkvæmd sem hér er lögð til, þ.e. að ef barn sé fætt í mars, apríl, október og nóvember þá sé miðað við námsárangur úr lokaprófum einnar annar en ekki tveggja eins og annars er gert.
Þá telur kærandi ekki vera heimilt að miða við námsárangur á þeim tíma sem um ræðir hjá kæranda. Í lögum nr. 95/2000 um fæðingar og foreldraorlof áður en þeim var breytt með lögum 74/2008 kom eingöngu fram það skilyrði að foreldri þyrfti að vera í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Kom því ekki fram skilyrði um viðunandi námsárangur. Það skilyrði kemur hinsvegar fram í reglugerð nr. 1056/2004, telur kærandi að slík skerðing hafi ekki lagastoð. Telur kærandi að í lögum þurfi að koma fram umfang og eðli skerðingar sem ráðherra er heimilt að beita, þó svo að í 7.mgr. hafi verið um heimild ráðherra til setningar reglugerða til framkvæmda á lögunum geti ekki falist í því heimild til að hafa ný skilyrði til skerðingar með ákvæðum á borð við námsárangur sem ekki hafi verið samþykkt af Alþingi. Er það ekki gert hér og fæðingarorlofssjóði gert það heimilt að kveða á um hvað sé viðunandi árangur. Þau rök sem hér liggja að baki eru að lög nr. 74/2008 voru samþykkt af Alþingi 29. maí 2008 og voru staðfest af Forseta Íslands 11. júní 2008. Kemur fram í 22. gr. laganna að lögin öðlist gildi 1. júní 2008 og eigi við um foreldra barna sem fæðast 1. júní 2008 eða síðar. Telur kærandi að skv. almennum reglum um afturvirkni laga geta lögin ekki átt við um kæranda þar sem kærandi gat ómögulega fylgt lögunum á því tímabili sem fæðingarorlofssjóður lítur til, þar sem þau höfðu hvorki tekið til framkvæmda né höfðu verið samþykkt, né hafði frumvarp verið dreift meðal þingmanna.
Er það krafa kæranda að ákvörðun fæðingarorlofssjóðs sem birt var kæranda með bréfi dagsett 10. júli síðastliðinn verði ógild og gengið að hennar kröfum að hún uppfylli og eigi rétt á styrk úr fæðingarorlofssjóði sem námsmaður. “
Með bréfi, dagsettu 9. október 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.
Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 10. nóvember 2008. Í greinargerðinni segir:
„Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 10. júlí 2008, var henni synjað um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni þar sem hún hefði ekki verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barns.
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns og sýnt viðunandi námsárangur, rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.
Frekari skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur kemur fram að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Einstök námskeið teljast ekki til fulls náms. Í 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.
Barn kæranda fæddist þann Z. júlí 2008 og verður því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá Z. júlí 2007 fram að fæðingardegi barnsins. Samkvæmt námsferilsyfirliti frá D-háskóla stundaði kærandi nám við skólann á haustönn 2007 og vorönn 2008. Samkvæmt gögnum frá kæranda var hún upphaflega skráð í 16 einingar á haustönn 2007. Hún dró sig úr einum áfanga í október og eftir stóðu 11 einingar. Vegna veikinda eldra barns kæranda gat hún ekki tekið nein próf í desember og skilaði læknisvottorði þess efnis, dags. 12. desember 2007. Hún lauk 3 einingum á haustönn 2007. Á vorönn 2008 var kærandi skráð í 15 einingar og lauk 10 einingum.
Þegar um er að ræða nám við háskóla teljast 15 einingar á önn vera 100% nám og því teljast 11-15 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Fallist er á að kærandi uppfylli skilyrði um fullt nám á vorönn 2008 og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Kærandi hefur hins vegar ekki sýnt fram á viðunandi námsárangur á haustönn 2007. Engar undanþágur er að finna í lögum um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, og reglugerð sem sett hefur verið með stoð í lögunum fyrir því þegar foreldri getur ekki sýnt fram á viðunandi námsárangur vegna veikinda barna. Með hliðsjón af því og þeim gögnum sem fyrir liggja um námsframvindu kæranda lítur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. 6 mánuði síðustu 12 mánuðina fyrir fæðingardag barns.
Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er að finna nokkrar undanþágur frá framangreindu skilyrði um fullt nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu tólf mánuðum fram að fæðingu barns. Er m.a. í 13. mgr. 16. gr. ffl. nr. 74/2008 að finna undanþáguákvæði fyrir móður frá skilyrðum 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Móðir skal leggja fram vottorð sérfræðilæknis sem annast hefur hana á meðgöngu því til staðfestingar ásamt staðfestingu frá skóla um að hún hafi verið skráð í fullt nám. Ekki er að sjá að undanþágan eigi við í tilviki kæranda.
Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 10. júlí 2008. Kærandi á þess í stað rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar.“
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 24. nóvember 2008, og henni gefin kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs að synja kæranda umgreiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns og sýnt viðunandi námsárangur rétt á fæðingarstyrk. Þá kemur þar fram að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangur á þeirri skólaönn sem barn fæðist.
Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðarinnar teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.
Barn kæranda fæddist Z. júlí 2008. Með hliðsjón af því er við það miðað að tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl , sbr. og 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, sé frá Z. júlí 2007 til Z. júlí 2008.
Kærandi stundar nám í B-fræði við D-háskóla. Fullt háskólanám eða 100% nám telst 15 einingar á önn og teljast því 11-15 einingar fullt nám í skilningi 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, sem og 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Óumdeilt er í máli þessu að kærandi lauk 3 einingum á haustönn 2007, en hafði upphaflega skráð sig til 16 eininga náms á þeirri önn. Er vísað til þess að vegna veikinda eldra barns kæranda hafi hún ekki getað tekið nein próf í desember og fyrir liggur læknisvottorð vegna veikinda barnsins í gögnum málsins. Þá hefur kærandi jafnframt lagt fram gögn um ástundun náms á haustönninni.
Af hálfu kæranda er á því byggt að skerðingarreglan um „viðunandi námsárangur" sé ekki nægjanlega skýrt afmörkuð í lögum eða reglugerð og hafi ekki verið. Skýrt kemur fram í 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, að skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks námsmanns sé að foreldri hafi verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Í ákvæðinu kemur einnig fram að það er eingöngu á þeirri önn sem barn fæðist að heimilt sé að taka tillit til námsástundunar í stað námsárangurs. Samkvæmt 22. gr. laga nr. 74/2008 eiga lögin við um foreldra barna sem fædd eru 1. júní 2008 og síðar. Með hliðsjón af því er ekki tilefni til að fjalla frekar um þessa málsástæðu kæranda.
Þá vísar kærandi til þess að brotið sé gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar sem og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga með því að gera kröfu um námsárangur á lokaprófum tvívegis. Ekki verður fallist á með kæranda að heimild til þess að taka tillit til námsástundunar í stað námsárangurs á þeirri önn sem barn fæðist samkvæmt skýru lagaákvæði feli í sér brot á jafnræðisreglum. Beiting ákvæðisins getur leitt til þess að námsárangur einnar annar nægi eins og fram kemur hjá kæranda en beiting þess kemur eingöngu til álita þegar fæðingarorlof foreldris hefst áður en önn sem nám er stundað á er lokið. Ákvæðið á þannig við og er beitt í sambærilegum tilvikum.
Þegar af þeirri ástæðu að kærandi lauk ekki fullu námi á haustönn 2007 er óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi uppfylli ekki skilyrði framangreindra laga og reglugerðar um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Hvorki lög né reglugerð heimila að vikið sé frá skilyrði um fullt nám og viðunandi námsárangur við þær aðstæður sem kærandi vísar til, að henni hafi ekki verið unnt að ljúka námi vegna veikinda eldra barns síns.
Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um greiðslu til A í fæðingarorlofi er staðfest.
Guðný Björnsdóttir
Heiða Gestsdóttir
Gunnlaugur Sigurjónsson