Mál nr. 75/2008
Fimmtudaginn 2. apríl 2009
A
gegn
Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.
Þann 30. desember 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 29. desember 2008.
Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 28. október 2008 um að endurkrefja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði mánuðina febrúar, mars og júlí 2007 að viðbættu 15% álagi samtals fjárhæð X kr.
Í kærubréfi segir:
„Kærð er sú ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs frá því 28. október 2008 að krefjast endurgreiðslu á greiðslum er undirritaður fékk vegna fæðingarorlofs í febrúar, mars og júlí árið 2007.
Vinnumálastofnun vill meina að undirritaður hafi verið til sjós febrúar og mars þar sem launagreiðsla vegna apríl var há. Úrskurðarnefnd verður að gera sér grein fyrir að laun sjómanna fara eftir aflaverðmæti og eru því mis há eftir mánuðum, meðfylgjandi er útskrift frá Fiskmarkaði Íslands þar sem fram kemur aflaverðmæti vegna apríl 2007. Undirritaður er skipstjóri og fær því tvo hluti. Með orlofi, starfsaldursálagi, hlífðarfötum og öðrum kjarasamningsbundnum greiðslum gerir hlutur hans fyrir umrætt aflaverðmæti X kr. eins og fram kemur í meðfylgjandi launaseðli.
Eins og fram kemur í skýringu launagreiðanda á greiðslu í júlí er það um að ræða leiðréttingu á launum frá fyrri mánuðum að ræða sem fyrir mistök voru færð á júlí mánuð 2007.“
Með bréfi, dagsettu 12. janúar 2009, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.
Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 18. febrúar 2009. Í greinargerðinni segir meðal annars:
„Við vinnslu umsóknar kæranda vegna yngra barns hans er fæddist Z. júní 2008 kom í ljós að svo virtist vera sem kærandi hefði ekki lagt niður launuð störf mánuðina febrúar og mars 2007 og geymt greiðslur frá vinnuveitanda sem gerðar hafi verið upp með launum aprílmánaðar 2007. Einnig hafi kærandi ekki lagt niður launuð störf í júlí 2007 á sama tíma og hann þáði greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna eldra barns sem fæddist Z. febrúar 2007.
Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 23. september 2008, var óskað eftir launaseðlum fyrir apríl og júlí 2007 þar sem kærandi hafði komið fram með laun frá vinnuveitanda í staðgreiðsluskrá RSK á þeim tíma sem hann var í fæðingarorlofi og þáði greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Einnig var óskað útskýringar vinnuveitanda kæranda á laununum. Þann 14. október 2008 barst skýring frá vinnuveitanda á launum fyrir júlí 2007, dags. 10. október 2007, en engir launaseðlar né heldur skýringar á greiðslu aprílmánaðar 2007. Var kæranda send greiðsluáskorun í kjölfarið, dags. 17. október 2008. Launaseðlar fyrir júní og júlí 2007 bárust 23. október 2008 en hvorki skýringar á greiðslu aprílmánaðar né heldur launaseðill fyrir mánuðinn. Kæranda var í kjölfarið send ný greiðsluáætlun, dags. 28. október 2008, með leiðréttum fjárhæðum endurkröfu Fæðingarorlofssjóðs. Auk þess lágu fyrir við ákvörðunina upplýsingar úr staðgreiðsluskrá RSK (í kæru merkt nr. 1-5), greiðsluáætlun með tilhögun fæðingarorlofs dags. 29. apríl 2008, umsóknargögn í fæðingarorlofi með barni fæddu Y. febrúar 2007 og upplýsingar úr þjóðskrá Hagstofu Íslands.
Þann 11. nóvember 2008 var kæranda sendur tölvupóstur þar sem ákvörðunin var útskýrð frekar. Með kæru kæranda barst loks launaseðill fyrir apríl 2007 ásamt útprentun frá Fiskmarkaði Íslands þar sem fram kemur aflaverðmæti í apríl 2007. Í kærunni kemur m.a. fram að laun sjómanna fari eftir aflaverðmæti. Kærandi sé skipstjóri og fái því tvo hluti og með orlofi og öðrum kjarasamningsbundnum greiðslum hafi laun hans fyrir apríl verið X kr. Í kærunni kemur jafnframt fram að greiðsla fyrir júlí 2007 sé leiðrétting á launum frá fyrri mánuðum sem færð hafi verið á júlí 2007. Var í framhaldinu ákveðið að afla frekari gagna. Aflað var útprentana frá Fiskmarkaði Íslands fyrir skipið B fyrir mánuðina janúar – maí 2007 og fyrir skipið D mánuðina júní – september 2007. Einnig var aflað launaseðla frá E fyrir janúar, maí, ágúst og september 2007 auk útprentana úr skipaskrá yfir bæði skipin sem og útprentunar úr fyrirtækjaskrá RSK yfir E.
Óskað var eftir sundurliðuðum launaseðlum/uppgjöri fyrir febrúar, mars og apríl 2007 ásamt frekari útskýringum með fjölmörgum tölvupóstum til kæranda og vinnuveitanda hans, dags. 26. janúar og 4., 10., 13., 16. og 17. febrúar 2009. Þann 17. febrúar voru veittir tveir lokafrestir til að skila umbeðnum gögnum að öðrum kosti yrði litið svo á að ekki væri ætlunin að skila gögnunum. Í tölvupóstum, dags. 17. febrúar, var jafnframt óskað eftir afriti af kvittun(um) millifærsla frá E að fjárhæð X kr. sem koma fram á launaseðli aprílmánaðar 2007. Umbeðin gögn bárust ekki frá kæranda.
Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er fæðingarorlof samkvæmt lögunum leyfi frá launuðum störfum sem stofnast til við fæðingu, frumættleiðingu barns yngra en átta ára eða töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur.
Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, eins og ákvæðið hljóðaði fyrir gildistöku laga nr. 74/2008, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.
Í 9. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, kemur fram að greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru hærri en nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris skv. 2. eða 5. mgr. skulu koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þó er heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launabreytinga sem rekja má til breytinga á störfum foreldris. Í athugasemdum með 9. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 segir orðrétt:
Talið er mikilvægt að lögin kveði skýrar á um tilgang greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði en þeim er ætlað að bæta fyrir 80% af tekjumissi foreldra er þeir leggja niður störf í fæðingarorlofi. Fái foreldri tekjutapið bætt frá vinnuveitanda er eðlilegt að það komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þó er gert ráð fyrir að foreldri geti fengið bætur annars staðar frá fyrir þann tekjumissi er Fæðingarorlofssjóði er ekki ætlað að bæta. Kæmi sá hluti því ekki til frádráttar. Er því lagt til að kveðið verði skýrt á um að allar greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru umfram 20% af meðaltali heildarlauna foreldris komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóðnum. Þegar foreldri hefur hærri tekjur en hámarkstekjurnar sem lagt er til að verði miðað við skv. 3. mgr. þá er gert ráð fyrir að hærri greiðslur en sem nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris komi til frádráttar greiðslum úr sjóðnum. Þó er heimilt að taka tillit til tiltekinna breytinga sem geta orðið á tekjum foreldra á þeim tíma sem líður frá því að viðmiðunartímabili lýkur og fram til upphafs fæðingarorlofs foreldris og geta talist vera í samræmi við það sem almennt tíðkast á íslenskum vinnumarkaði. Með þessum hætti er verið að undirstrika tilgang greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem er aðallega ætlað að gera foreldrum kleift að leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi án þess að fjárhagsleg hagnaðarsjónarmið liggi þar að baki. Er með þessu enn fremur lögð rík áhersla á að foreldrar leggi sannanlega niður launuð störf á þeim tíma er þeir nýta sér rétt sinn samkvæmt lögunum.
Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, kemur fram hvaða laun skuli telja með við útreikning á meðaltali heildarlauna. Samkvæmt ákvæðinu skal telja til launa hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald er stofn til tryggingagjalds allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyld eru skv. 1. tölul. A – liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í 7. og 8. gr. laga um tryggingagjald er frekari upptalning á því hvað teljist til gjaldstofns tryggingagjalds skv. 6. gr. laganna og í 9. gr. er upptalning á því hvaða greiðslur séu undanþegnar tryggingagjaldi. Við mat á því hvaða greiðslur vinnuveitenda mega fara með og hvaða greiðslur mega ekki fara með greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði er því nauðsynlegt að hafa til hliðsjónar hvaða greiðslur það eru sem sjóðurinn telur með þegar fundið er út meðaltal heildarlauna foreldris.
Í 15. gr. a. ffl., sbr. 6. gr. laga 90/2004, er fjallað um leiðréttingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. kemur fram að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi foreldri rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í 3. mgr. er heimild til skuldajafnaðar ofgreiddum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði á móti inneign foreldris vegna ofgreiddra skatta, barnabóta, og vaxtabóta og í 4. mgr. er kveðið á um hvernig skuli fara með innheimtu ofgreidds fjár úr Fæðingarorlofssjóði. Í athugasemdum með 6. gr. segir svo um þetta:
Þannig er gert ráð fyrir að foreldri endurgreiði til Fæðingarorlofssjóðs þá fjárhæð sem ofgreidd var í þeim tilvikum er foreldri fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en því bar. Á þetta bæði við um þegar upplýsingar [Tryggingastofnunar ríkisins] hafa ekki verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda og þegar foreldri hefur fengið greiðslur úr sjóðnum án þess að hafa lagt niður störf. Enn fremur á þetta við um öll önnur tilvik þar sem af einhverjum ástæðum hefur verið ofgreitt úr sjóðnum. Þá verður það að teljast nauðsynlegt til að tryggja að samkeyrsla fæðingarorlofskerfisins við skattkerfið hafi tilætluð áhrif að lögin heimili skuldajöfnuð við útgreiðslur skattkerfisins, svo sem endurgreiðslu frá skattyfirvöldum hafi greiðsla foreldris verið meiri en sem nemur endanlega álögðum sköttum, barnabótum og vaxtabótum. Er þess vegna lagt til að í þeim tilvikum er foreldri ber að endurgreiða til [Tryggingastofnunar ríkisins] verði stofnuninni veittar heimildir til að leita aðstoðar innheimtumanns ríkissjóðs um skuldajöfnun við inneign foreldris hjá hinu opinbera. Í þeim tilvikum þegar skuldajöfnun verður ekki komið við og foreldri sinnir ekki áskorun um endurgreiðslu fer um innheimtu kröfunnar skv. 111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Er félagsmálaráðherra enn fremur gert heimilt að fela sérstökum innheimtuaðila að annast innheimtu.
Í 6. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, er fjallað um leiðréttingar á ofgreiddum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir:
1. Hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum skal Vinnumálastofnun senda út greiðsluáskorun til foreldris vegna fjárhæðarinnar ásamt viðbættu 15% álagi. Þegar foreldri telur að því verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar um hærri greiðslur úr sjóðnum skal foreldri færa skriflega fyrir því rök innan fjögurra vikna frá því að greiðsluáskorun sannanlega barst foreldri. Vinnumálastofnun skal taka afstöðu til þess innan fjögurra vikna frá því að erindið barst stofnuninni hvort rök foreldris leiði til þess að fella skuli niður álagið. Ákvarðanir Vinnumálastofnunar samkvæmt ákvæði þessu eru kæranlegar til Úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.
2. Endurgreiði foreldri ekki ofgreiddar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt greiðsluáskorun, sbr. 1. mgr., skal innheimtuaðilum skv. 111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, falin innheimtan. Um skuldajöfnun á móti inneign foreldris vegna ofgreiddra skatta, barnabóta og vaxtabóta samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt gilda almennar reglur um skuldajöfnuð og reglugerðir um barnabætur og vaxtabætur.
3. Endurgreiðsla foreldra á ofgreiddum greiðslum ásamt viðbættu álagi samkvæmt ákvæði þessu skulu renna í Fæðingarorlofssjóð.
Í samræmi við framangreind ákvæði og skýringar og með vísan til tilhögunar fyrirhugaðs fæðingarorlofs kæranda með barni fæddu Z. febrúar 2007, fyrirliggjandi gagna og skýringa vegna fæðingarorlofs með barni fæddu Z. febrúar 2007 og upplýsinga úr staðgreiðsluskrá RSK verður ekki annað séð en að kærandi hafi ekki lagt niður launuð störf í samræmi við ákvæði laga um fæðingar- og foreldraorlof á þeim tíma er hann hugðist taka fæðingarorlof mánuðina febrúar, mars og júlí 2007.
1. Í febrúar og mars 2007 var kærandi skráður í 100% fæðingarorlof og
þáði samtals X kr. frá Fæðingarorlofssjóði (útborgað X kr.). Kærandi var ekki með nein uppgefin laun frá E fyrir þessa mánuði en fékk í apríl greiddar X kr. frá E, sbr. útprentun úr Navision merkt nr. 1 – 5 í kæru sem sýnir laun kæranda skv. staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og greiðsluáætlun dags. 29. apríl 2008.
2. Í júlí 2007 var kærandi skráður í 100% fæðingarorlof og þáði X kr. frá Fæðingarorlofssjóði (útborgað X kr.). Á sama tíma var kærandi með X kr. í mánaðarlaun frá E, sbr. útprentun úr Navision merkt nr. 1 – 5 í kæru sem sýnir laun kæranda skv. staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og greiðsluáætlun dags. 29. apríl 2008.
Samkvæmt gögnum málsins var kærandi skipstjóri á skipinu B í apríl 2007 og þáði fyrir það tvo hluti ásamt öðrum kjarasamningsbundnum greiðslum skipverja. Til áréttingar skal það tekið fram að í júní 2007 var skipt um skip og eftir það gerði E út skipið D sjá útprentanir úr skipaskrá.
skipið B er dagróðrabátur og var á dragnótaveiðum og landaði afla sínum á markaði, sbr. útprentanir frá Fiskmarkaði Íslands þar sem fram kemur að aflaverðmæti aprílmánaðar hafi verið X kr. Samkvæmt tölvupóstum frá kæranda og fyrrum vinnuveitandi hans hjá E sem jafnframt er bróðir kæranda, sbr. tölvupóstur frá kæranda dags. 16. febrúar 2009, voru 3 skipverjar um borð. Samkvæmt launaseðli kæranda frá E fyrir apríl 2007, sem fylgdi með kæru, eru uppgefin laun kæranda X kr. en án nokkurrar sundurliðunar eða uppgjörs. Ítrekað hefur verið óskað eftir sundurliðuðu uppgjöri fyrir mánuðinn sem og vegna febrúar og mars 2007 en án árangurs. Á launaseðli aprílmánaðar kemur fram að kærandi hafi fengið X kr. greiddar fyrirfram en ekki kemur fram hvenær þær greiðslur áttu sér stað. Óskað hefur verið eftir kvittunum fyrir þessum greiðslum frá kæranda en án árangurs. Kærandi og fyrrum vinnuveitandi hans hjá E staðhæfa að einungis sé verið að greiða laun fyrir aprílmánuð 2007 og að F hafi verið með skipið í febrúar og mars 2007. Er sú fjárhæð mun miklu hærri en aðrar greiðslur sem kærandi hefur haft frá E að teknu tilliti til aflaverðmætis og þá hvort heldur sem litið er til launa sem kærandi hafði á árinu 2007 á skipunum B og D. Samkvæmt tölvupósti frá vinnuveitanda kæranda, dags. 13. febrúar 2009, var þó greitt eftir kjarasamningum milli LÍÚ og sjómanna (dragnótaveiðar).
Þar sem hvorki bárust sundurliðaðir launaseðlar frá kæranda fyrir febrúar, mars og apríl 2007 né heldur afrit af kvittunum millifærsla að fjárhæð X kr. var óskað eftir því við framkvæmdastjóra Sjómannasambands Íslands, með tölvupósti dags. 17. febrúar 2009 að hann aðstoðaði við að reikna út áætlaðan hlut kæranda fyrir aprílmánuð 2007 út frá þeim forsendum sem fyrir lágu í málinu. Ítarlegur útreikningur barst frá sambandinu samdægurs þar sem fram kemur að hlutur skipstjóra hefði átt að vera í kringum X kr. Samkvæmt því hefur kærandi fengið greiddar X kr. of mikið í aprílmánuði 2007 sem Fæðingarorlofssjóður telur að sé greiðsla vegna febrúar og mars 2007.“
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 23. febrúar 2009, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og með bréfi dagsettu 16. mars 2009 óskaði nefndin sérstaklega eftir viðbótargögnum frá kæranda. Þann 25. mars 2009 barst frá kæranda staðfesting sýslumannsins á Selfossi á lögskráningu árið 2007 og útreikningur á aflahlut og öðrum greiðslum til kæranda í apríl 2007.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að endurkrefja kæranda um greiðslur sem hann fékk úr Fæðingarorlofssjóði mánuðina febrúar, mars og júlí 2007 vegna fæðingar barns þann Z. febrúar 2007.
Í hinni kærðu ákvörðun er á því byggt að kærandi muni ekki hafa lagt niður launuð störf í samræmi við ákvæði laga um fæðingar- og foreldraorlof á þeim tíma er hann hugðist taka fæðingarorlof og fékk greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði mánuðina febrúar, mars og júlí 2007.
Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. fæðingar- og foreldraorlofsmála nr. 95/2000 (ffl.) er fæðingarorlof samkvæmt lögunum leyfi frá launuðum störfum sem stofnast til við fæðingu, frumættleiðingu barns yngra en átta ára eða töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur.
Í 2. mgr. 10. gr. segir að með samkomulagi við vinnuveitanda sé starfsmanni heimilt að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. þó 3. mgr. 8. gr. Þó megi aldrei taka fæðingarorlof skemur en tvær vikur í senn.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, eins og ákvæðið hljóðaði við fæðingu barns kæranda þann Z. febrúar 2007 skyldi mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skyldi miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.
Í 15. gr. a. ffl., sbr. 6. gr. laga 90/2004, er fjallað um leiðréttingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. segir að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi foreldri rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.
Í athugasemdum í greinargerð með 6. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 90/2004 segir:
„Þannig er gert ráð fyrir að foreldri endurgreiði til Fæðingarorlofssjóðs þá fjárhæð sem ofgreidd var í þeim tilvikum er foreldri fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en því bar. Á þetta bæði við um þegar upplýsingar Tryggingastofnunar ríkisins hafa ekki verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda og þegar foreldri hefur fengið greiðslur úr sjóðnum án þess að hafa lagt niður störf. Enn fremur á þetta við um öll önnur tilvik þar sem af einhverjum ástæðum hefur verið ofgreitt úr sjóðnum.“
Á staðgreiðsluyfirliti ársins 2007 koma ekki fram launagreiðslur til kæranda í febrúar og mars 2007. Í apríl 2008 er launagreiðsla frá E samkvæmt launaseðli ósundurgreind að fjárhæð X kr. og fyrirframgreidd laun X kr. Af hálfu Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs var ítrekað óskað eftir sundurliðun á launaseðlinum. Í gögnum málsins kemur fram að í aprílmánuði hafi kærandi verið skipstjóri og vélstjóri á skipinu B. Samkvæmt yfirliti Fiskmarkaðar Íslands hf. sem fylgdi kæru nam aflaverðmæti bátsins þann mánuð X kr. Af hálfu Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs var talið að laun samkvæmt launaseðli aprílmánaðar 2007 væru einnig vegna starfa kæranda í febrúar og mars. Við meðferð málsins aflaði stofnunin m.a. útreiknings á hlut skipstjóra miðað við aflaverðmætið í apríl, þriggja manna áhöfn og kjarasamning L.Í.Ú. og sjómanna (dragnótaveiðar). Samkvæmt útreikningnum voru aflahlutir og aðrar greiðslur skipstjóra X kr. en tekið var fram að um grófa nálgun væri að ræða. Fram kemur einnig að reiknað sé með tveimur hásetahlutum en þó megi vera að kærandi hafi fengið viðbótarhlut vegna vélstjórastöðu. Reiknaður hásetahlutur er X kr. Samkvæmt vottorði sýslumannsins á Blönduósi var kærandi lögskráður (B) tímabilið 1. janúar til 5. febrúar 2007 og síðan frá 2. apríl til 4. júní 2007. Þá hefur frá kæranda borist sundurliðun á launaseðli aprílmánaðar 2007. Mismunur á sundurliðun sem barst frá kæranda og útreikningi sem aflað var af Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði við meðferð málsins er aðallega vegna þess að kæranda er þar reiknaður aukahlutur vélstjóra en einnig er tilgreindur hásetahlutur hærri eða X kr. Með hliðsjón af þeim viðbótargögnum sem borist hafa telur nefndin að reikna skuli með að kærandi hafi verið í fæðingarorlofi tímabilið 5. febrúar til 2. apríl 2007.
Fyrir liggur yfirlit Fiskmarkaðar Íslands hf. um aflaverðmæti skipsins D mánuðina júní til september 2007. Samkvæmt launaseðli kæranda í júlí 2007 er aflaverðmæti bátsins tilgreint X X kr. lögskráningardagur og heildarlaun X kr. sem er í samræmi við það sem kemur fram á staðgreiðsluyfirliti. Í yfirlýsingu E dagsettri 10. október 2008 segir að þau leiðu mistök hafi orðið við launakeyrslu fyrir E. í júní mánuði 2007 að ekki hafi verið reiknuð rétt laun á kæranda. Ekki eru í málinu frekari skýringar eða gögn um þá leiðréttingu með hliðsjón af aflaverðmæti skipsins D í mánuðunum júní og júlí 2007. Samkvæmt vottorði sýslumannsins á Blönduósi var kærandi lögskráður (D) tímabilið 4. júní til 28. júní 2007 og síðan aftur 16. júlí til 27. júlí 2007 og síðan aftur lögskráður 8. ágúst og þá til 31. desember 2007. Með hliðsjón af því telur nefndin rétt að reikna með því að kærandi hafi verið fyrri hluta júlí mánaðar í fæðingarorlofi eða þar til hann var lögskráður 16. júlí 2007. Kærandi var afskráður á bátinn (D) tímabilið frá 27. júlí til 8. ágúst 2007. Hann verður þó ekki talinn hafa verið í fæðingarorlofi þann tíma þar sem aldrei má taka fæðingarorlof skemur en tvær vikur í senn, sbr. 2. mgr. 10. gr. ffl.
Með hliðsjón af því sem að framan er rakið og einkum þeim gögnum sem úrskurðarnefndin aflaði við meðferð málsins er hinni kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs hrundið. Við ákvörðun um fjárhæð endurkröfu á hendur kæranda skal við það miðað að hann hafi verið í fæðingarorlofi tímabilið 5. febrúar til 2. apríl 2007 og tímabilið 28. júní til 16. júlí 2007.
ÚRSKURÐARORÐ:
Hrundið er hinni kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs. Við ákvörðun um fjárhæð endurkröfu á hendur A skal við það miðað að hann hafi verið í fæðingarorlofi tímabilið 5. febrúar til 2. apríl 2007 og tímabilið 28. júní til 16. júlí 2007.
Guðný Björnsdóttir
Heiða Gestsdóttir
Gunnlaugur Sigurjónsson