Hoppa yfir valmynd

Nr. 197/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 28. maí 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 197/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20030036

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 23. mars 2020 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Hvíta-Rússlands (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. mars 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 5. nóvember 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 7. nóvember 2019 og 3. febrúar 2020 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 4. mars 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 23. mars 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda og fylgigagn þann 6. apríl 2020.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að kærandi sé í hættu í heimaríki sínu vegna áreitis af hálfu skipulagðra glæpasamtaka.Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi. Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra skuli fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kemur fram að kærandi sé fæddur og uppalinn í borginni [...] í Hvíta-Rússlandi og hafa búið þar áður en hann flúði land. Kærandi hafi flúið heimaríki sitt vegna ofbeldis- og líflátshótana sem honum hafi borist í kjölfar þess að hann hætti að greiða mútugreiðslur í formi verndargjalda til aðila sem hafi tengsl við yfirvöld og glæpasamtök. Í greinargerð kemur fram að kærandi hafi rekið matvöruverslun í heimaborg sinni ásamt systur sinni og mági. Árið 2015 hafi maður komið með ónýtar vörur í verslunina og krafist skaðabóta. Þar sem vörurnar hafi ekki verið úr verslun kæranda hafi hann neitað að taka við þeim en maðurinn hafi þá leitað til heilbrigðiseftirlitsins sem hafi gefið út háar sektargreiðslur á hendur kæranda. Viku síðar hafi annar maður komið til kæranda og tjáð honum að til þess að koma í veg fyrir að sambærileg atvik endurtækju sig þyrfti kærandi að greiða 500 bandaríkjadali í verndargjald mánaðarlega. Kærandi og systir hans hafi vitað að um glæpastarfsemi væri að ræða en ákveðið að gangast við greiðslunum til að halda áfram rekstri verslunarinnar í friði. Kærandi hafi innt umræddar greiðslur af hendi þar til í september 2019 þegar hann sá sér ekki fært að greiða svo háa upphæð lengur. Kærandi hafi leitast við að semja um lægri upphæð án árangurs. Þegar hafi komið að skuldadögum hafi kærandi fengið val um að greiða 50.000 bandaríkjadali eða selja búðina fyrir sömu upphæð en hann hafi fengið frest til 1. október s.á. til að gera upp hug sinn. Við lok frestsins hafi mennirnir ítrekað valkostina og hótað honum og fjölskyldu hans. Kærandi hafi leitað til lögregluyfirvalda, á skjön við leiðbeiningar mannanna, en lögreglan hafi sagst ekki geta aðstoðað hann. Næsta dag hafi verið sprungið á öllum dekkjum á bíl kæranda. Kærandi hafi þá skipt um símkort en honum hafi áfram borist hótanir í eigin persónu og símleiðis. Nokkrum dögum seinna hafi hann farið með fjölskyldu sína til borgarinnar Minsk en þar hafi honum verið rænt af ókunnugum mönnum sem hafi krafið hann svara vegna umræddrar skuldar. Mennirnir hafi farið með kæranda í hús þar sem honum hafi verið hótað og hann barinn með kylfu. Kærandi hafi verið þvingaður til að lofa að greiða upphæðina innan viku, en annars yrði fjölskyldu hans unnið mein. Í kjölfarið, í lok október 2019, hafi eiginkona hans og börn flúið til Moskvu en kærandi hafi talið sig þurfa að flýja lengra í burtu.

Í viðtali hafi kærandi kveðið mikla spillingu ríkja í heimaríki sínu og algengt að fólk í einkarekstri þurfi að borga aukagjöld ofan á hefðbundna skatta. Þrýst sé á fólk til að greiða slík gjöld með tíðum heimsóknum frá ríkisskattstjóra, heilbrigðiseftirliti og brunamálaeftirliti. Algengt sé að þeir sem komi í slíkar heimsóknir krefjist mútugreiðslna á staðnum og peningarnir fari beint í einkavasa yfirmanna þessara stofnana. Kærandi hafi talið að í sínu tilviki hafi mennirnir verið fyrrverandi lögreglumenn sem væru aðilar að glæpasamtökum með tengsl við lögregluyfirvöld, og hafi þetta verið ástæða þess að hann hafi ekki fengið aðstoð lögreglu. Þá hafi kærandi lýst því að hann hafi glímt við hjarta- og lungnasjúkdóm síðastliðin tólf ár. Hjartasjúkdómurinn, arterial hypertension, hafi haft varanleg áhrif á hjartað og hann muni alltaf þurfa að taka lyf, forðast álag og líkamlega áreynslu til að halda sjúkdómnum í skefjum. Hafi hann sjálfur greitt fyrir læknisaðstoð og lyf í heimaríki. Lungnasjúkdóminn mætti rekja til þátttöku hans í íþróttamóti í Tsjernóbíl þegar kjarnorkuslysið hafi átt sér stað. Þá hafi kærandi glímt við andleg veikindi en hann taki nú þunglyndislyf. Kærandi telji að þeir sem staðið hafa í hótunum við hann í heimaríki tilheyri bæði yfirvöldum og glæpasamtökum. Hann óttist um líf sitt og að vera beittur ofbeldi ásamt því að óttast um öryggi fjölskyldu sinnar. Loks kveði kærandi að hann óttist fangelsisvist, en þekkt sé að fólk sé hneppt í fangelsi í þeim tilgangi að þvinga úr því pening. Kærandi geti ekki flust um set innan heimaríkis því umræddir aðilar myndu finna hann hvar sem er á landinu.

Í greinargerð kæranda kemur fram að ýmis mannréttindabrot tíðkist í heimaríki hans, svo sem pyndingar, gerræðislegar handtökur, lífshættulegar aðstæður í fangelsum, gerræðisleg inngrip í einkalíf fólks og takmarkanir á tjáningarfrelsi, fjölmiðlafrelsi og netfrelsi. Spilling sé á öllum stigum stjórnkerfisins og stjórnvöld á öllum stigum starfi í skjóli refsileysis. Þrátt fyrir lög sem mæli fyrir um refsingar fyrir spillingu opinberra aðila sé spilling talin vera alvarlegt vandamál í landinu, en algeng spillingarbrot séu mútuþægni, svik og valdníðsla. Þó sé talið nánast ómögulegt að áætla yfirgrip spillingar í landinu eða vinna á henni vegna skorts á sjálfstæði dómstóla og fjölmiðla. Lög sem banni afskipti af einkalífi fólks séu ekki virt af stjórnvöldum og notast þau við hleranir, myndbandseftirlit og uppljóstrara sem brjóti á rétti fólks til friðhelgi einkalífs og heimilis. Eftirlitsaðilar telji spillingu, óskilvirkni og pólitísk afskipti af dómstólum vera útbreidda. Dómstólar sakfelli einstaklinga á röngum og pólitískum grundvelli sem ákæruvaldið beri upp. Þá telji eftirlitsaðilar að háttsettir embættismenn og staðbundin stjórnvöld hafi afskipti af niðurstöðum dómsmála. Starfsemi tollayfirvalda, opinberra innkaupa ríkisins og byggingariðnaðarins sé sérstaklega berskjölduð fyrir spillingu. Einkafyrirtæki eigi á hættu að sæta mismunun og spillingu í þágu opinberra fyrirtækja við opinber innkaup, og algengt sé í viðskiptum að óformlegar greiðslur og gjafir séu inntar af hendi af hálfu rekstraraðila til þess að tryggja samninga og óáreitta starfsemi. Enn fremur sé opinber stjórnsýsla í landinu ógangsæ, sem skapi góðar aðstæður fyrir opinbera starfsmenn til að viðhafa spillta stjórnunarhætti. Þá sé spilling útbreidd og refsileyfi alvarlegt vandamál meðal lögregluyfirvalda.

Kærandi byggir aðalkröfu sína á því að hann óttist ofsóknir í heimaríki vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, n.tt. sem aðili í einkarekstri sem sætt hafi mútugreiðslum í formi verndargjalda, af hálfu ótilgreinds glæpahóps með tengsl við yfirvöld. Hann hafi orðið fyrir ofsóknum sem hafi falið í sér fjárkúganir, alvarlegar hótanir í garð kæranda og fjölskyldu hans, og ofbeldi. Vegna spillingar telji kærandi ljóst að lögregluyfirvöld hafi hvorki vilja né getu til að veita honum vernd í heimaríki. Telur kærandi að framangreint bendi til þess að ótti hans sé ástæðuríkur og að skilyrðum 1. mgr. 37. gr. sé því fullnægt. Þar sem kærandi óttist aðila sem tilheyri bæði glæpagengjum og yfirvöldum verði að telja að a- og c-liðir 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga eigi við. Kærandi geti því ekki leitað ásjár yfirvalda í heimaríki, enda hafi hann þegar gert það án árangurs.

Kærandi gerir í greinargerð sinni ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Um stöðu og hlutverk kæranda innan umræddrar matvöruverslunar kveður kærandi að hann hafi verið verslunarstjóri og séð um allan daglegan rekstur verslunarinnar, t.a.m. séð um öll fjármál, samskipti við birgja og samskipti við yfirvöld. Verslunin sé fjölskyldufyrirtæki sem kærandi hafi fjárfest í en skráður eigandi hafi verið eiginmaður systur kæranda. Þar sem kærandi hafi í raun rekið verslunina hafi hann verið sá sem sætti umræddum hótunum og séð um greiðslur og framkvæmd verndartollanna. Þá hafi kærandi ekki getað lagt fram nein gögn varðandi greiðslurnar önnur en framburð sinn þar sem ekki hafi verið um löglegar og opinberar greiðslur að ræða og þær hafi verið greiddar í peningum. Þá gerir kærandi frekari athugasemdir við mat Útlendingastofnunar á framburð hans og trúverðugleika. Kærandi mótmælir því að hann hafi ekki sýnt fram á ástæðuríkan ótta í heimaríki og að hann geti leitað til lögreglu og yfirvalda vegna mála sinna. Með því að senda kæranda til Hvíta-Rússlands sé brotið gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 42. gr. laga um útlendinga, 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi sætt ofbeldi og alvarlegum hótunum í heimaborg sinni, sem og í Minsk þegar hann hafi flúið þangað. Kærandi óttist um líf sitt í Hvíta-Rússlandi, og jafnframt að vera hnepptur í fangelsi í þeim tilgangi að þvinga úr honum peninga. Vísar kærandi til heimilda um útbreidda spillingu yfirvalda sem þrífist í skjóli refsileysis auk slæmra aðstæðna í fangelsum í heimaríki sem skapi hættu gagnvart heilsu og lífi fanga. Kærandi kveður að hann geti ekki búið annars staðar í heimaríki og verið öruggur. Vísar kærandi til þess að hann hafi flúið frá heimaborg sinni til Minsk og honum hafi áfram borist hótanir og hann verið beittur ofbeldi. Þá hafi kærandi talið of mikil tengsl milli heimaríkis og Moskvu og því hafi hann talið sig þurfa að flýja lengra. Með vísan til framangreinds sé flutningur innan Hvíta-Rússlands hvorki raunhæfur né sanngjarn kostur fyrir hann skv. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks leyfis þegar útlendingur er staddur hér á landi og getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Líkt og kemur fram hér að ofan kveður kærandi að hann hafi glímt við hjarta- og lungnasjúkdóm síðastliðin tólf ár ásamt því að hafa átt við andleg veikindi að stríða. Þá komi fram í komunótum frá Göngudeild sóttvarna að kærandi hafi fengið hjartsláttartruflanir á u.þ.b. þriggja mánaða fresti. Mikilvægt sé að kærandi hafi greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu, eftirfylgni og lyfjum vegna framangreindra kvilla.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram neitt sem væri til þess fallið að sanna á honum deili og yrði því leyst úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. Það var mat Útlendingastofnunar að engin ástæða væri til að draga í efa að hann sé ríkisborgari Hvíta-Rússlands. Kærunefnd telur ekkert hafa komið fram í málinu sem gefur tilefni til að draga í efa þjóðerni kæranda og verður því lagt til grundvallar að kærandi sé ríkisborgari Hvíta-Rússlands.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Hvíta-Rússlandi m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2018 Country Reports on Human Rights Practices - Belarus (U.S. Department of State, 13. mars 2019);
  • 2019 Country Reports on Human Rights Practises - Belarus (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
  • Amnesty International Report 2017/2018 (Amnesty International), 22. febrúar 2018);
  • Belarus 2019 Crime and Safety Report (OSAC, 28. febrúar 2019);
  • Belarus: health system review (Health Systems in Transition, 2013);
  • Common core document forming part of the reports of States parties (UN International Human Rights Instruments, 18. janúar 2016);
  • Concluding observations on the fifth periodic report of Belarus (UN Human Rights Committee, 22. nóvember 2018);
  • Freedom in the World 2019 – Belarus (Freedom House, 4. febrúar 2019);
  • Freedom in the World 2020 – Belarus (Freedom House, 4. mars 2020);
  • Hviterussland: Forhold for regimekritikere (Landinfo, 25. apríl 2014);
  • Mänskliga rättigheter, demokrati och rättsstatens principer i Vitryssland 2015-2016 (Utrikesdepartementet, 26. apríl 2017);
  • Nations in Transit 2018 – Belarus (Freedom House, 11. apríl 2018);
  • Report of the Special Rapporteur on the situation of human rights in Belarus (UN Human Rights Council, 21. apríl 2017);
  • Report of the Special Rapporteur on the situation of human rights in Belarus (UN Human Rights Council, 8. maí 2019);
  • The World Factbook (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 28. apríl 2020) og
  • World Report 2020 – Belarus (Human Rights Watch, 14. janúar 2020).

Lýðveldið Hvíta-Rússland er ríki með um níu og hálfa milljón íbúa. Ríkið gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum árið 1945. Hvíta-Rússland gerðist aðili að sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2004, flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna 2001, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi 1968 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu 1985.

Samkvæmt framangreindum gögnum hefur Alexander Lukashenko gegnt embætti forseta Hvíta-Rússlands síðan árið 1994. Í gögnunum kemur fram að stjórnskipan landsins feli forseta völd yfir ríkisstjórn, dómskerfi og löggjafarvaldi. Þá séu forsetatilskipanir æðri lögum landsins. Löggjöf í tengslum við framkvæmd kosninga í Hvíta-Rússlandi uppfylli ekki alþjóðlegar lýðræðislegar kröfur og hafi framkvæmd kosninga margsinnis sætt gagnrýni alþjóðasamfélagsins. Talsverð spilling sé innan löggæslu- og réttarkerfisins þar sem stjórnarskrárvarin réttindi séu ekki ávallt virt í framkvæmd. Samkvæmt gögnunum starfi stjórnvöld í skjóli refsileysis og einstaklingar á vegum þeirra, sem gerist sekir um mannréttindabrot, ekki sóttir til saka vegna brotanna. Sjálfstæði dómstóla sé takmarkað og stjórnvöld hafi oft áhrif á meðferð mála sem varða pólitíska eða efnahagslega hagsmuni. Einstaklingar hafi t.a.m. verið sakfelldir á grundvelli rangra og pólitískra sakargifta að undirlagi stjórnvalda. Tjáningarfrelsi séu settar skorður í landinu, helstu fjölmiðlar landsins lúti stjórn yfirvalda og sjálfstæðir fjölmiðlar ritskoði fréttaefni til að forðast þrýsting frá yfirvöldum.

Samkvæmt framangreindum gögnum er spilling refsiverð samkvæmt lögum í Hvíta-Rússlandi og stjórnvöld hafi reglulega sótt opinbera starfsmenn sem grunaðir séu um spillingu til saka. Hins vegar komi fram í skýrslum að refsileysi meðal opinberra starfsmanna sé vandamál. Þá sé meirihluti spillingarmála tengd mútuþægni, fjársvikum og valdamisnotkun en einstakar frásagnir benda þó til þess að slík spillingarmál séu ekki algeng í daglegum samskiptum almennings og opinberra starfsmanna. Þó sé erfitt að meta umfang spillingar þar sem opinberar upplýsingar séu óáreiðanlegar vegna skorts á gagnsæi innan stjórnsýslunnar, sjálfstæði löggæslu- og réttarkerfisins og aðgengi óháðra fjölmiðla að störfum stjórnvalda.

Framangreindar skýrslur frá bandaríska utanríkisráðuneytinu, Freedom House og Sameinuðu þjóðunum gefa til kynna að stjórnvöld hafi afskipti af fólki sem mótmæli stjórnvöldum eða gagnrýni þau. Í gögnunum kemur fram að fyrri hluta árs 2017 hafi fjöldi fólks safnast saman í höfuðborg landsins til að mótmæla og að rúmlega hundrað mótmælendur hafi verið dæmdir til að sæta varðhaldi vegna þátttöku sinnar í mótmælunum. Þá hafi nær allir leiðtogar stjórnarandstöðunnar verið færðir í varðhald og sektaðir. Aðgerðir stjórnvalda til að draga úr mótmælunum hafi einkum beinst gegn mótmælendum en pólitískir aðgerðarsinnar hafi einnig verið færðir í varðhald og sektaðir. Í gögnunum segir að aðgerðarsinnar, sem séu andvígir stjórnvöldum, séu stöku sinnum færðir í langt varðhald á landamærum Hvíta-Rússlands meðan leitað sé á þeim og í eigum þeirra. Samkvæmt gögnunum hafi löggæsluyfirvöld víðtækar heimildir til að grípa til líkamlegrar valdbeitingar gegn einstaklingum sem grunaðir eru um refsiverðan verknað og að öryggissveitir landsins beiti fólk ítrekað órétti við yfirheyrslur. Framangreind gögn benda til þess að aðstæður í fangelsum landsins séu bágar og að skortur sé á mat, lyfjum og svefnplássum. Hreinlæti sé ábótavant og þá sé takmakaður aðgangur að heilbrigðisaðstoð. Þá hafi fangar sætt illri meðferð af hálfu fangelsisyfirvalda.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir kröfu sína m.a. á því að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í heimaríki sínu og að grundvallarmannréttindi hans séu ekki tryggð af hálfu stjórnvalda. Þá tilheyri hann sérstökum þjóðfélagshópi sem aðili í einkarekstri sem sætt hafi kröfu um verndargjöld, af hálfu ótilgreinds glæpahóps með tengsl við yfirvöld. Þá hafi lögregluyfirvöld hvorki vilja né getu til að veita honum vernd vegna spillingar.

Kærandi hefur lýst því að formlegt eignarhald umræddrar matvöruverslunar hafi verið í höndum eiginmanns systur hans en um fjölskyldufyrirtæki hafi verið að ræða. Kærandi hafi verið verslunarstjóri ásamt því sem hann hafi séð um allan daglegan rekstur verslunarinnar, þ. á m. öll fjármál, samskipti við birgja og samskipti við yfirvöld. Af þeim sökum hafi kröfum um mútugreiðslur verið beint til hans og hann verið í stöðu til að taka ákvarðanir hvað þær hafi varðað.

Kærandi lagði fram ýmis gögn til stuðnings frásögn sinni. Lagði hann fram ráðningarsamning, dags. 10. september 2018, sem undirritaður er af forstöðumanni verslunarinnar. Þá lagði kærandi fram kvörtun sína til lögreglu um það áreiti sem hann hafi orðið fyrir. Kærunefnd hefur tekið umrædd gögn til skoðunar og að mati nefndarinnar verður ekki séð af ráðningarsamningi kæranda að hann sé í forsvari fyrir umrædda verslun. Þá sé óljóst af frásögn kæranda eða gögnum sem hann hefur lagt fram á hvaða grundvelli hann geti tekið ákvarðanir um greiðslu verndartolla fyrir hönd verslunarinnar. Ennfremur telur kærunefnd að gögn málsins bendi ekki til þess að hann hafi getað afsalað eignarrétti yfir versluninni til þeirra sem kærandi kveðst hafa falast eftir henni, en framburður kæranda bendir ekki til þess að raunverulegur eigandi hennar, mágur hans, hafi verið áreittur. Kvörtun kæranda til lögreglu hafi jafnframt takmarkað sönnunargildi þar sem um einhliða yfirlýsingu kæranda er að ræða en ekki upplýsingar um rannsókn lögreglu á umræddum atvikum.

Að mati kærunefndar er frásögn kæranda um atvik máls óljós um ýmsa þætti og gögn sem hann hefur lagt fram ekki til þess fallin að renna stoðum undir hana. Þá er ósamræmi í frásögn kæranda varðandi starf hans hjá versluninni sem grefur undan trúverðugleika frásagnar hans. Kærunefnd útilokar ekki að kærandi hafi orðið fyrir einhvers konar áreiti í starfi sínu sem verslunarstjóri en með vísan til framangreinds og mats á trúverðugleika frásagnar kæranda, er það mat kærunefndar að hann hafi ekki lagt grunn að þeirri málsástæðu sinni að hann eigi á hættu ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna, vegna áreitis af hálfu ótilgreinds glæpahóps.Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Krafa kæranda um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða er byggð á því að hann hafi þörf fyrir vernd vegna heilsufarsástæðna þar sem hann glími við hjarta- og lungnasjúkdóm. Þá hafi hann glímt við andleg veikindi en taki nú þunglyndislyf. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum sé aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómurinn væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki sé læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans. Í gögnum málsins liggja fyrir samskiptaseðlar frá Göngudeild sóttvarna, dags. 12. nóvember til 6. desember 2019. Þar kemur fram að kærandi glími við of háan blóðþrýsting og hjartsláttatruflanir auk þess að vera haldinn streitu. Þá kemur einnig fram að röntgenmyndataka hafi leitt í ljós að ekki væri merki um hjartabilun eða bólgu í lungum. Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 3. febrúar 2020, að hjartasjúkdómurinn hefði ekki lífsgæðaskerðingu eða skertar lífslíkur í för með sér en að honum bæri að fylgja fyrirmælum lækna til að halda honum í skefjum. Kærandi hefur lýst því að hann hafi fengið heilbrigðisþjónustu í heimaríki, þ. á m. farið í aðgerð og fengið lyf. Því megi ráða af framburði kæranda, framlögðum gögnum, sem og skýrslum um heimaríki hans, að honum standi til boða heilbrigðisþjónusta í heimaríki, þ. á m. geðheilbrigðisþjónusta. Þá er kærandi ekki í meðferð hér á landi sem sé læknisfræðilega óforsvaranlegt að rjúfa.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 4. nóvember 2019 og sótti um alþjóðlega vernd 5. nóvember 2019. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun. Kærandi er við ágæta heilsu. Með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Kærunefnd bendir á að með reglugerð nr. 460/2020, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, setti ráðherra bráðabirgðaákvæði sem kveður á um að útlendingur sem dvaldi hér á landi fyrir 20. mars 2020 í samræmi við 8. gr. reglugerðarinnar og 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga, en hefur ekki komist til síns heima vegna ferðatakmarkana, sóttkvíar eða einangrunar er heimilt að dvelja hér á landi án dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar til og með 1. júlí 2020. Í 2. mgr. ákvæðisins er þó vísað til þess að framangreint komi ekki í veg fyrir frávísun eða brottvísun þeirra sem voru í ólögmætri dvöl fyrir 20. mars 2020 eða frávísun eða brottvísun á öðrum grundvelli samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga. 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                     Ívar Örn Ívarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta