Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 594/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 594/2023

Fimmtudaginn 8. febrúar 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 11. desember 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 30. ágúst 2023 um að synja beiðni kæranda um styrk vegna kaupa á bifreið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa með rafrænni umsókn 23. júlí 2023. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. ágúst 2023, var umsókn kæranda um styrk til bifreiðakaupa samþykkt að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 30. ágúst 2023, var umsókn um styrk vegna kaupa á bifreiðinni B synjað á þeirri forsendu að meira en tvö ár voru liðin frá kaupum bifreiðarinnar. Með tölvupósti 4. október 2023 var ákvörðun stofnunarinnar andmælt. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. október 2023, var ákvörðun stofnunarinnar nánar rökstudd. Með bréfi, dags. 29. október 2023, var óskað eftir endurskoðun á framangreindri ákvörðun. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. desember 2023, var beiðninni synjað og vísað í bréf stofnunarinnar, dags. 26. október 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. desember 2023. Með bréfi, dags. 13. desember 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 12. janúar 2024, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. desember 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að í ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 6. desember 2023, hafi ekki verið svarað þeim atriðum sem kærandi hafi borið upp í bréfi til stofnunarinnar, dags. 29. október 2023. Kærandi hafi að öllu leyti uppfyllt skilyrði fyrir styrk til kaupa á bifreið og því sé þess krafist að ákvörðunin verið endurskoðuð

Samkvæmt framlögðum gögnum hafi kærandi sannarlega í apríl 2023 keypt hlut og hafi  gerst meðeigandi í bifreið sem eigandi hafi keypt árið 2016.

Hvorki sé að finna ákvæði í lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð né reglugerð nr. 905/2021, um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, um að meiðeigandi og eigandi verði að ganga frá kaupum á sama tíma svo ekki séu það haldbær rök fyrir höfnun.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kæran varði ákvörðun, dags. 30. ágúst 2023, um að synja umsókn kæranda um uppbót eða styrk vegna kaupa á bifreið samkvæmt 10. gr. laga um nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á styrk vegna kaupa á bifreið samkvæmt 10. gr. laga um félagslega aðstoð.

Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð sé Tryggingastofnun heimilt að veita styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti.

Í 7. gr. reglugerðar nr. 905/2021 sé þetta ákvæði útfært frekar, þar segi að heimilt sé að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti, til dæmis að hinn hreyfihamlaði sé bundinn hjólastól eða noti tvær hækjur að staðaldri og því metinn verulega hreyfihamlaður. Skilyrði sé að hinn hreyfihamlaði sé sjúkratryggður hér á landi.

Í 1. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 905/2021 segi að áður en til greiðslu uppbótar eða styrks vegna bifreiðakaupa komi skuli lagðar fram upplýsingar um kaupverð og kaup bifreiðar. Í 4. mgr. sömu greinar segi að hinn hreyfihamlaði eða maki hans skuli vera skráður eigandi bifreiðarinnar. Í 4. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 905/2021 segi að um umsóknir og framkvæmd að öðru leyti fari samkvæmt IV. kafla A, V. og VI. kafla laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð.

Í IV. kafla laga um almannatryggingar sé að finna 32. gr. þar sem í 4. mgr. segi að greiðslur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berist umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að unnt sé að taka ákvörðun um rétt til greiðslna og fjárhæð þeirra.

Í 37. gr. laga um almannatryggingar sé fjallað um réttarstöðu sambýlisfólks. Í 1. mgr. sé kveðið á um það að einstaklingar sem séu í óvígðri sambúð njóti sömu réttinda og beri sömu skyldur og hjón samkvæmt lögunum. Í 2. mgr. segi að sameiginlegt lögheimili eða sambúð eftir öðrum ótvíræðum gögnum lengur en eitt ár skuli lögð að jöfnu við skráningu sambúðar í þjóðskrá.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi með umsókn, dags. 23. júlí 2023, sótt um uppbót eða styrk vegna kaupa á bifreið. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. ágúst 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að samkvæmt hreyfihömlunarmati uppfylli hún læknisfræðileg skilyrði fyrir greiðslu styrks til öflunar bifreiðar og að styrkurinn skyldi greiddur henni að uppfylltum öðrum skilyrðum. Auk þess hafi komið fram í bréfinu að það væri meðal annars skilyrði fyrir greiðslu styrksins að bifreið hefði verið keypt og að ekki skyldi hafa liðið lengra en tvö ár frá kaupum bifreiðar þegar umsókn sé lögð fram.

Kærandi hafi áður verið eigandi bifreiðar með skráningarnúmerið C sem hafi verið keypt 2016 og hafi verið seld í apríl 2023 þar sem kærandi hafi ekki getað lengur ferðast um ein. Andvirðið hafi kærandi notað til kaupa hlut í bifreið maka sem sjái um allan nauðsynlegan akstur fyrir kæranda.

Með bréfi, dags. 30. ágúst 2023, hafi umsókn kæranda um uppbót eða styrk vegna kaupa á bifreið verið synjað á þeim grundvelli að liðið hafi meira en tvö ár frá kaupum bifreiðar þegar umsókn hafi verið lögð fram. Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi vegna synjunarinnar sem hafi verið veittur með bréfi stofnunarinnar, dags. 26. október 2023. Kærandi hafi óskað eftir frekari rökstuðningi og endurskoðun á umdeildri ákvörðun með bréfi, dags. 29. október 2023. Með bréfi, dags. 6. desember 2023, hafi stofnunin tilkynnt kæranda að ekki væri tilefni til breytinga á fyrri ákvörðun.

Heimilt sé að greiða styrk til öflunar bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti, samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Um sé að ræða heimildarákvæði sem sé nánar útfært í reglugerð, sbr. 3. málsl. 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Í reglugerð nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða sé kveðið á um frekari skilyrði sem þurfi að uppfylla til að eiga rétt á að fá styrk vegna kaupa á bifreið.

Heimilt sé að greiða út styrk til öflunar bifreiðar sem keypt hafi verið allt að tveimur árum áður en stofnuninni berist umsókn og önnur nauðsynleg gögn, sbr. 4. mgr. 32. gr. laga um almannatryggingar. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að greiða styrk til öflunar bifreiðar hafi lengra en tvö ár liðið frá kaupum bifreiðarinnar þegar umsókn og önnur nauðsynleg gögn hafi verið lögð fram. Umsókn kæranda um uppbót eða styrk vegna kaupa á bifreið hafi borist Tryggingastofnun 23. júlí 2023. Tryggingastofnun sé því ekki heimilt að greiða kæranda styrk til öflunar bifreiðar sem keypt hafi verið fyrir 23. júlí 2021.

Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu hafi bifreiðin sem kærandi hafi sótt um styrk til öflunar á upprunalega verið keypt af D þann 3. maí 2016. D hafi verið skráður eini eigandi bifreiðarinnar frá þeim degi þar til 13. apríl 2023 þegar kærandi hafi verið skráð meðeigandi, rúmlega sjö árum eftir að bifreiðin hafi verið upphaflega keypt af D.

Samkvæmt reikningi, útgefnum 24. apríl 2023, hafi kærandi greitt D 1.022.800 kr. fyrir 12% hlutaeign í 2016 árgerð af […] með skráningarnúmerið B.

Í 10. gr. laga um félagslega aðstoð sé fjallað um bifreiðakostnað. Í ákvæðinu sé meðal annars kveðið á um heimildir Tryggingastofnunar til þess að greiða uppbót eða styrk vegna kaupa á bifreið. Greiðsla uppbótar og styrks sé þannig háð því grundvallarskilyrði að kaup á bifreið hafi átt sér stað. Í 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð segi að heimilt sé að greiða styrk til öflunar bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti. Heimildin hafi síðan verið nánar útfærð af ráðherra í reglugerð á þann hátt að kaup og sala á bifreið, eða hluta hennar, milli maka teljist ekki vera öflun á bifreið í skilningi ákvæðisins þar sem hinn hreyfihamlaði hafi afnot af bifreið sem maki hans sé eigandi að, sbr. 4. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 905/2021 þar sem segi að hinn hreyfihamlaði eða maki hans skuli vera skráður eigandi bifreiðarinnar. Eins geti hinn hreyfihamlaði fengið styrk til öflunar bifreiðar vegna kaupa maka hans á bifreið. Réttaráhrif þess að maki umsækjanda um styrk til öflunar bifreiðar kaupi bifreið séu því þau sömu og ef umsækjandinn hefði keypt bifreiðina sjálfur. Styrkur til öflunar á bifreið sé því ekki veittur ef kaupin eiga sér stað milli maka, þ.e. einstaklinga sem séu í hjúskap, óvígðri sambúð eða með sameiginlegt lögheimili, sbr. 37. gr. og 7. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar. Eins sé styrkur ekki veittur vegna kaupa umsækjanda á bifreið af sjálfum sér. Í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 23. ágúst 2023, sé athygli kæranda vakin á því að styrkurinn sé ekki greiddur ef bifreið sé keypt af maka. Samkvæmt upplýsingum í þjóðskrá hafi kærandi og D haldið sama lögheimili síðan árið 2011. Kærandi og D hafi því haft réttarstöðu sambýlisfólks þegar kærandi hafi keypt hlut í þeirri bifreið sem hún hafi sótti um styrk til öflunar á, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um almannatryggingar. Kaup kæranda á hlut í bifreið maka síns teljist því ekki vera öflun á bifreið í skilningi 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð og lengra sé liðið en tvö ár síðan maki hennar keypti bifreiðina upprunalega. Þegar af þeirri ástæðu hafi umsókn kæranda um styrk til öflunar bifreiðar, dags. 23. júlí 2023, verið synjað.

Tryggingastofnun hafi einnig litið til þess að D, maki kæranda og heimilismaður í skilningi reglugerðar nr. 905/2021, sé skráður ökumaður bifreiðarinnar í umsókn kæranda um styrk til öflunar bifreiðar. Afnot af eða aðgengi kæranda að bifreiðinni hafi því ekki breyst í raun við kaup hennar á 12% hlutaeign í bifreiðinni. Enn fremur hafi stofnunin litið til þess að markmið 10. gr. laga um félagslega aðstoð og reglugerðar nr. 905/2021 sé að stuðla að því að hreyfihamlaðir einstaklingar geti lifað sjálfstæðu lífi með því að gera þeim kleift að komast nauðsynlegra ferða sinna í þeim tilgangi að sækja vinnu, skóla og reglubundna þjónustu innan heilbrigðiskerfisins. Kaup kæranda á 12% hlut í bifreið sem skráð sé á maka hennar þjóni ekki því markmiði, sérstaklega í ljósi þess að 12% hlutaeign gefi ekki til kynna að kærandi komi til með að hafa slík afnot af bifreiðinni að markmiði 10. gr. og reglugerðar nr. 905/2021 verði náð.

Stofnunin telji að miðað við fyrirliggjandi gögn sé ljóst að afgreiðsla málsins hafi að fullu og öllu verið í samræmi við gildandi lög og reglur. Með hliðsjón af öllu framangreindu fari Tryggingastofnun fram á að úrskurðarnefndin staðfesti ákvörðun stofnunarinnar frá 30. ágúst 2023 þess efnis að synja umsókn kæranda um greiðslu styrks til öflunar bifreiðar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um styrk vegna bifreiðakaupa á þeim grundvelli að meira en tvö ár voru liðin frá því að bifreið maka var keypt.

Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er heimilt að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða líkamshluta vanti. Í 2. mgr. sömu greinar segir að heimilt sé að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 905/2021 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða þar sem þessi heimild er útfærð nánar.

Í 10. gr. reglugerðarinnar er fjallað um kaupverð og eignarhald bifreiða. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar skulu lagðar fram upplýsingar um kaup og kaupverð bifreiðar áður en til greiðslu uppbótar eða styrks til bifreiðakaupa kemur. Þá segir í 3. mgr. 10. gr. að hinn hreyfihamlaði eða maki hans skuli vera skráður eigandi bifreiðarinnar.

Í 11. gr. reglugerðarinnar segir um endurnýjun umsókna:

„Heimilt er að veita uppbætur og styrki vegna bifreiðakaupa á fimm ára fresti til sama einstaklings.

Þegar um er að ræða styrki skv. 7. og 8. gr. reglugerðar þessarar er heimilt að víkja frá tímamörkum skv. 1. mgr. eyðileggist bifreið á tímabilinu. Þó er eingöngu heimilt að víkja frá tímamörkum 1. mgr. þegar um styrk skv. 7. gr. er að ræða hafi bifreiðin verið tólf ára eða yngri þegar hún eyðilagðist.“

Þá segir í 3. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar að ákvörðun um að veita umsækjanda uppbót eða styrk gildi í tólf mánuði hverju sinni. Nýti umsækjandi ekki rétt sinn áður en því tímabili sé lokið falli ákvörðunin úr gildi.

Í 1. mgr. 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um að sækja skuli um allar bætur og greiðslur samkvæmt lögunum. Samkvæmt 4. mgr. 32. gr. laga um almannatryggingar skulu greiðslur aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berst umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um rétt til greiðslna og fjárhæð þeirra. Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Þá segir í 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð að beita skuli IV. kafla A, V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna.

Í 37. gr. laga um almannatryggingar er fjallað um réttarstöðu sambýlisfólks. Í 1. mgr. er kveðið á um það að einstaklingar sem séu í óvígðri sambúð njóti sömu réttinda og beri sömu skyldur og hjón samkvæmt lögunum.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um styrk vegna bifreiðakaupa 23. júlí 2023 og Tryggingastofnun ríkisins samþykkti með bréfi, dags. 23. ágúst 2023, að hún uppfyllti læknisfræðileg skilyrði til greiðslu styrks vegna bifreiðakaupa. Í kjölfarið keypti kærandi 12% hluta í bifreið maka síns, en hann hafði keypt umrædda bifreið 3. maí 2016. Tryggingastofnun synjaði umsókn kæranda á þeim grundvelli að meira en tvö ár voru liðin frá kaupum bifreiðarinnar en stofnunin miðaði við að bifreiðakaupin hefðu farið fram 3. maí 2016.

Fyrir liggur að það er verklagsregla hjá Tryggingastofnun ríkisins, með vísan til 4. mgr. 32. gr. laga um almannatryggingar, að kaupsamningur eða afsal fyrir bifreiða megi ekki vera eldri en tveggja ára við framlagningu umsóknar. Í 3. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 905/2021 segir að ákvörðun um að veita umsækjanda styrk gildi í tólf mánuði hverju sinni. Nýti umsækjandi ekki rétt sinn áður en því tímabili sé lokið falli ákvörðunin úr gildi. Gerir reglugerðin þannig ráð fyrir að umsækjandi sæki um og fái samþykkta uppbót áður en hann kaupir sér bifreið. Með hliðsjón af því er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að framangreind verklagsregla Tryggingastofnunar sé ívilnandi fyrir umsækjendur og málefnaleg.

Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar er það skilyrði fyrir greiðslu styrks að hinn hreyfihamlaði eða maki hans skuli vera skráður eigandi bifreiðarinnar. Fyrir liggur að maki kæranda keypti umrædda bifreið 3. maí 2016. Að mati úrskurðarnefndar er rétt að miða við þau bifreiðakaup, enda var þá þegar uppfyllt það skilyrði 3. mgr. 10. gr. að maki kæranda var skráður eigandi bifreiðarinnar. Sú túlkun er einnig í samræmi við það markmið laga um félagslega aðstoð og reglugerðar nr. 905/2021 að veita uppbót/styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg vegna hreyfihömlunar umsækjanda, enda verður ekki séð að aðgengi kæranda að bifreiðinni hafi breyst við kaup hennar á 12% hluta í bifreiðinni.

Þar sem að maki keypti umrædda bifreið árið 2016 en kærandi sótti ekki um styrk fyrr en árið 2023 er staðfest sú niðurstaða Tryggingastofnunar ríkisins að synja kæranda um greiðslu styrks vegna bifreiðakaupa.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um styrk vegna kaupa á bifreið, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta