Hoppa yfir valmynd

Nr. 267/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 14. júlí 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 267/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22060022

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

I.       Málsatvik og málsmeðferð

Hinn 6. desember 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. maí 2018, um að synja einstaklingi er kveðst heita […], vera fæddur […], ríkisborgara Pakistan, um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda hinn 10. desember 2018. Hinn 14. desember 2018 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Með úrskurði kærunefndar nr. 24/2019, dags. 1. febrúar 2019 var beiðni kæranda synjað. Hinn 14. desember 2018 barst kærunefnd einnig beiðni um endurupptöku. Með úrskurði kærunefndar nr. 45/2019 í stjórnsýslumáli nr. KNU18120038, dags. 31. janúar 2019, var beiðni kæranda synjað.

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda veitt bráðabirgðadvalarleyfi hér á landi á grundvelli 77. gr. laga um útlendinga hinn 26. júní 2017, á meðan umsókn hans um alþjóðlega vernd var til meðferðar hjá stjórnvöldum. Var það leyfi endurnýjað nokkrum sinnum, síðast með gildistíma til 16. mars 2019. Hinn 8. júlí 2019 sótti kærandi um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga, sem var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar hinn 16. mars 2020. Sú ákvörðun var ekki kærð til kærunefndar. Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið hinn 20. maí 2020. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. desember 2020, var umsókninni synjað. Sú ákvörðun var staðfest með úrskurði kærunefndar nr. 62/2021, dags. 17. febrúar 2021 í stjórnsýslumáli KNU20120054.

Hinn 8. júní 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kærunefndar nr. 534/2018, frá 6. desember 2018, ásamt fylgiskjölum.

Ráða má af beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans að hún sé reist á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Ráða má af beiðni kæranda um endurupptöku að krafa hans sé byggð á því að niðurstaða í máli hans hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um auðkenni hans og að atvik hafi breyst verulega frá því úrskurður kærunefndar var kveðinn upp, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Byggir kærandi þetta einkum á niðurstöðu Landsréttar í máli konu er kærandi kveður vera systur sína og upplýsingum sem þar koma fram. Þá lagði kærandi fram ýmis gögn sem hann telur styðja við málsástæðu sína einkum hvað varðar auðkenni sitt. Þar sem ekki leiki lengur vafi á auðkenni kæranda þá eigi að endurupptaka mál hans og veita honum dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

 

III.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði kærunefndar í máli kæranda, dags. 6. desember 2018, var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 4. september 2016 og liðu því rúmir 27 mánuðir frá umsóknardegi og þar til úrskurður kærunefndar var kveðinn upp. Kærandi fékk því ekki niðurstöðu í máli sínu innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að auðkenni kæranda hafi ekki verið upplýst, auk þess sem hann hefði ekki veitt aðstoð við úrlausn málsins einkum í ljósi trúverðugleikamats. Að mati kærunefndar voru skilyrði b- og d-liðar 2. mgr. 74. gr. því ekki uppfyllt.

Samhliða beiðni sinni um endurupptöku lagði kærandi fram talsvert magn gagna, m.a. reifanir á tilteknum ákvæðum laga um útlendinga og túlkanir hans á þeim, ljósmyndir af fæðingarvottorði hans og fjölskylduvottorði og eldri skjöl sem lágu fyrir við meðferð máls hans hjá stjórnvöldum árið 2018. Þá lagði kærandi fram, máli sínu til stuðnings, afrit af dómi Landsréttar, nr. 599/2020, í máli konu sem hann kveður vera systur sína, þar sem úrskurður kærunefndar um að synja beiðni hennar um endurupptöku var ógiltur. Kærunefnd telur að þau gögn sem kærandi lagði fram til stuðnings beiðni sinni um endurupptöku hafi ekki að geyma nýjar upplýsingar sem gefi tilefni til þess að endurupptaka málið. Líkt og fram kemur í úrskurði kærunefndar frá 6. desember 2018 uppfyllti kærandi ekki skilyrði b- og d-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, um að ekki leiki vafi á því hver umsækjandi sé og að hann hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn málsins.

Þau gögn sem kærandi lagði fram beiðni sinni til stuðnings eru ekki til þess fallin að sanna auðkenni hans, en framlögð gögn um auðkenni hans lágu öll fyrir við meðferð fyrri mála hans hjá kærunefnd og hefur nefndin þegar tekið afstöðu til þeirra. Þá er það mat kærunefndar að niðurstaða Landsréttar í framangreindu máli hafi ekki þýðingu fyrir mál kæranda þar sem að ekki hefur verið sýnt fram á tengsl kæranda við þá konu sem sá dómur laut að. Þá þykir rétt að ítreka að með úrskurði kærunefndar frá 6. desember 2018 var kæranda ekki eingöngu synjað um dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. vegna þess að hann hafi ekki sannað auðkenni sitt heldur var það niðurstaða kærunefndar að frásögn kæranda hefði í heild sinni verið ótrúverðug og að skilyrði d-liðar 2. mgr. 74. gr. laganna væri því ekki uppfyllt. Þá var sú niðurstaða ítrekuð með úrskurði kærunefndar nr. 45/2019 þar sem framlögð fjölskyldgögn þóttu enn frekar draga úr trúverðugleika kæranda og gildi vegabréfs hans.

Að framangreindu virtu verður ekki fallist á að úrskurður kærunefndar frá 6. desember 2018 hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að aðstæður kæranda eða aðstæður í heimaríki hans hafi breyst þannig að rétt sé að fallast á beiðni um endurupptöku af þeim sökum, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Beiðni kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.


 

 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Sindri M. Stephensen                                                                     Þorbjörg I. Jónsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta