Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 89/2012

Miðvikudaginn 3. apríl 2013

 

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 25. október 2012 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra B, fyrir hönd A, dags. 22. október 2012. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 24. september 2012, um að fæðingarorlof kæranda væri stytt um tvær vikur þar sem hún hafði ekki verið í fæðingarorlofi í að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barnsins.

Með bréfi, dags. 26. október 2012, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 30. október 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 27. nóvember 2012, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir.

 

I. Sjónarmið kæranda.

Maki kæranda greinir frá því að hringt hafi verið í Fæðingarorlofssjóð um það leyti er barn kæranda hafi fæðst og starfsmaður Fæðingarorlofssjóðs hafi verið spurður hvort það væri vandamál að sækja um fæðingarorlof síðar, þar sem þau hjónin hafi bæði verið mjög upptekin og ekki getað klárað umsóknir um fæðingarorlof. Því hafi verið svarað á þá leið að það yrði ekki vandamál. Maki kæranda hafi þá spurt hvort þau misstu við það einhver réttindi en starfsmaður sjóðsins hafi fullvissað hann um að betra væri fyrr en seinna en það myndi ekki hafa nein áhrif á umsóknina.

Þegar umsókn kæranda var send hafi svo komið í ljós að ekki hafi verið send nægileg gögn með umsókninni. Það hafi verið leyst og í því markmiði að fyrirbyggja allan misskilning hafi maki kæranda hringt og athugað hvort hann hafi skilið rétt hvaða gögn hafi vantað upp á. Í sama samtali hafi maki kæranda spurt hvers vegna fæðingarorlof kæranda virtist hafa verið stytt í upphafi og hafi hann þá fengið þau svör að sé ekki sótt um á réttum tíma þá skerðist fæðingarorlof móður.

Kærandi tekur fram að gott sé að senda umsókn á eðlilegum tíma en hann hafi þó orðið mjög hissa á því misræmi sem fram hafi komið hjá Fæðingarorlofssjóði. Kæranda hafi verið bent á að skýra málið betur með tölvupósti og hafi hann gert það. Þá hafi hann fengið þau svör að skv. 3. mgr. 8. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof skuli móðir vera í fæðingarorlofi í að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns. Jafnframt hafi honum verið bent á að skv. 9. mgr. 13. gr. sömu laga séu greiðslur inntar af hendi eftir á, fyrir undanfarandi mánuð eða hluta úr mánuði, fyrsta virka dag hvers mánaðar. Auk þess sem fram hafi komið að í 1. mgr. 15. gr. laganna segi að foreldri skuli sækja um greiðslu í fæðingarorlofi sex vikum fyrir áætlaðan fæðingardag. Þar sem umsókn kæranda hafi ekki borist fyrr en 11. september hafi ekki verið hægt að afgreiða fæðingarorlofið lengra aftur í tímann en frá 1. ágúst.

II. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Tekið er fram í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs að í 1. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sé kveðið á um að foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., skuli sækja um greiðslur í fæðingarorlofi til Fæðingarorlofssjóðs sex vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns.

Með umsókn sem barst Fæðingarorlofssjóði þann 11. september 2012 hafi kærandi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í fjóra og hálfan mánuð vegna fæðingar barns hennar þann Y. júní 2012. Auk umsóknar kæranda hafi borist tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs þann sama dag þar sem fram hafi komið að kærandi hafi óskað eftir því að hefja töku fæðingarorlofs þann Y. júlí 2012 eða tveimur vikum eftir fæðingu barnsins. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra, Þjóðskrá Íslands og samskiptasaga kæranda við Fæðingarorlofssjóð.

Í framhaldinu hafi kæranda verið sent bréf, dags. 24. september 2012, þar sem fram hafi komið að fæðingarorlof hennar muni styttast um tvær vikur þar sem hún hafi ekki hafið töku fæðingarorlofs við fæðingu barnsins og næstu tvær vikur þar á eftir. Einnig komi fram í bréfinu að ekki sé unnt að afgreiða kæranda með greiðslur meira en einn mánuð aftur í tímann frá því að umsókn hafi borist. Einnig hafi verið óskað eftir launaseðlum kæranda og undirskrift á umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Í kjölfarið hafi borist umbeðnir launaseðlar frá kæranda, undirrituð umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og breyting á tilhögun fæðingarorlofs. Einnig hafi maki kæranda haft samband símleiðis þann 28. september 2012 og sent tölvupóst þann 2. október 2012.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 26. október 2012, hafi henni verið tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla hennar yrði X kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof. Í október 2012 hafi kærandi fengið greitt fyrir ágúst og september 2012 í samræmi við umsókn hennar og fyrirhugaða töku fæðingarorlofs, sbr. móttöku umsóknar og eyðublað um breytingu á tilhögun fæðingarorlofs, og að greiðslur í fæðingarorlofi skuli inntar af hendi eftir á, fyrir undanfarandi mánuð eða hluta úr mánuði, fyrsta virka dag hvers mánaðar skv. 9. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 1. mgr. 15. gr. ffl.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að ágreiningur málsins snúi að því að fæðingarorlof kæranda hafi verið stytt um tvær vikur þar sem hún hafi ekki verið í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barnsins. Barn kæranda fæddist þann Y. júní 2012, hún hafi hins vegar ekki sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði fyrr en Y. september 2012, eða þremur mánuðum eftir fæðinguna og þá óskað eftir því að fæðingarorlofið myndi hefjast þann Y. júlí 2012, eða tveimur vikum eftir fæðingu barnsins. Eins og fram hafi komið hafi kærandi verið afgreidd í fæðingarorlof frá 1. ágúst 2012 í kjölfar breytinga á tilhögun fæðingarorlofs kæranda.

Í 3. mgr. 8. gr. ffl. sé skýrt kveðið á um að móðir skuli vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns.

Í athugasemdum með ákvæðinu kemur fram að í 3. mgr. sé kveðið á um skyldu kvenna sem hafi nýlega alið barn til að vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu þess. Skuli orlofið eigi hefjast síðar en við fæðingu barns. Ákvæðið byggi á 2. mgr. 8. gr. tilskipunar ráðs Evrópusambandsins um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið börn eða hafa börn á brjósti, nr. 92/85/EBE. Þetta sé þáttur í ráðstöfunum til verndar öryggi og heilbrigði starfsmanna en talið sé að konur sem nýlega hafa alið börn þurfi að njóta hvíldar eftir fæðingu barns til að jafna sig líkamlega áður en störf séu hafin að nýju. Þessar tvær vikur séu hluti af þeim tíma sem konan á rétt á í fæðingarorlofi.

Í samræmi við framangreint hafi kærandi því ekki tekið fæðingarorlof sitt í samræmi við ófrávíkjanlegt skilyrði 3. mgr. 8. gr. ffl., sbr. einnig athugasemdir með þeirri grein, um að móðir skuli vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns og þessar tvær vikur séu hluti af þeim tíma sem konan á rétt á í fæðingarorlofi.

Í tölvupósti maka kæranda frá 2. október 2012 og í kæru komi fram að hann hafi haft samband símleiðis við Fæðingarorlofssjóð síðastliðið sumar vegna umsóknar hans og kæranda. Í því símtali hafi verið spurt hvort það væri vandamál að sækja um fæðingarorlof síðar þar sem þau hafi verið mjög upptekin og ekki getað klárað umsóknina. Hafi hann fengið þau svör að það væri ekkert vandamál og hafi hann þráspurt hvort að það afsalaði þeim nokkrum réttindum en fengið þau svör að betra væri fyrr en seinna en það myndi ekki hafa nein áhrif á umsóknina.

Í samskiptasögu kæranda við Fæðingarorlofssjóð sé ekki að finna neinar upplýsingar um þetta símtal eða að kæranda hafi verið veittar þær upplýsingar og leiðbeiningar sem hann vísar til.

Með vísan til framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að fæðingarorlof kæranda hafi réttilega verið stytt um tvær vikur þar sem hún hafi ekki tekið fæðingarorlof að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barnsins þann Y. júní 2012.

 

III. Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að stytta fæðingarorlof kæranda um tvær vikur þar sem ekki sé hægt að greiða fyrir fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns hennar vegna ákvæða ffl.

Kærandi byggir á því að maki hennar hafi fengið rangar upplýsingar frá Fæðingarorlofssjóði um það leyti er barn þeirra hafi fæðst, um það hvenær umsókn þyrfti að berast Fæðingarorlofssjóði. Hann hafi verið upplýstur um að það hefði engin áhrif á réttindi kæranda til fæðingarorlofs, þótt það drægist að senda inn umsókn til Fæðingarorlofssjóðs. Vegna þeirra röngu upplýsinga sem maki kæranda segist hafa fengið hjá Fæðingarorlofssjóði beri að líta fram hjá því að kærandi hafi ekki tekið orlof fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu, en ekki stytta orlofið um þessar tvær vikur.

Hin kærða ákvörðun byggir á því að einungis sé hægt að greiða fæðingarorlof einn mánuð aftur í tímann, þar sem 9. mgr. 13. gr. ffl. mæli fyrir um að greiðslur í fæðingarorlofi skuli inntar af hendi eftir á fyrir undanfarandi mánuð eða hluta úr mánuði, fyrsta virka dag hvers mánaðar. Þar sem umsókn kæranda hafi ekki borist fyrr en Y. september 2012 hafi einungis verið hægt að afgreiða kæranda með fæðingarorlof frá 1. ágúst, en ekki frá 1. júlí eins og sótt var um. Þar sem kærandi hafi ekki tekið fæðingarorlof fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barnsins þann Y. júní 2012, í samræmi við 3. mgr. 8. gr. ffl. styttist fæðingarorlof hennar um þessar tvær vikur.

Kærandi byggir þannig á því í fyrsta lagi að hún eða maki hennar hafi fengið rangar upplýsingar frá Fæðingarorlofssjóði. Í samskiptasögu kæranda við Fæðingarorlofssjóð, sem lögð hefur verið fram í málinu, er ekki að finna neinar upplýsingar um þessi samskipti kæranda eða maka hennar við sjóðinn, eða að þeim hafi verið gefnar þessar upplýsingar sem um er deilt. Verður því að teljast ósannað að kæranda eða maka hennar hafi verið gefnar rangar upplýsingar um áhrif þess að sækja seint um fæðingarorlof.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. ffl. skal foreldri sækja um greiðslu í fæðingarorlofi til Vinnumálastofnunar sex vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Í athugasemdum með frumvarpi til ákvæðisins segir að það verði að teljast hæfilegur tími til að reikna út þær fjárhæðir sem foreldrið á rétt á úr sjóðnum meðan á fæðingarorlofi stendur. Ekki er í lögunum mælt fyrir um áhrif þess að sótt er um fæðingarorlof eftir umræddan tíma en af ákvæði 1. mgr. 15. gr. leiðir þó að Fæðingarorlofssjóður getur ekki afgreitt greiðslur vegna fæðingarorlofs fyrr en umsókn um greiðslur í fæðingarorlofi hafa borist honum.

Í 9. mgr. 13. gr. ffl. segir síðan að greiðslur í fæðingarorlofi skuli inntar af hendi eftir á, fyrir undanfarandi mánuð eða hluta úr mánuði, fyrsta virkan dag hvers mánaðar. Fæðingarorlofssjóður byggir hina kærðu ákvörðun meðal annars á því að vegna 9. mgr. 13. gr. ffl. sé ekki unnt að afgreiða fæðingarorlof lengra en einn mánuð aftur í tímann. Þar sem umsókn kæranda barst Fæðingarorlofssjóði þann Y. september 2012 hafi sjóðnum einungis verið heimilt að afgreiða greiðslur til kæranda vegna orlofs í ágústmánuði 2012. Í lögskýringargögnum með 9. mgr. 13. gr. ffl. er ekki að finna neinar frekari skýringar á ákvæðinu eða tilgangi þess, en ákvæðið er í samræmi við þá meginreglu laganna, sem fram kemur í 1. mgr. 15. gr. laganna, að sækja skuli um greiðslu í fæðingarorlofi fyrir fæðingu barnsins. Þrátt fyrir að ekki sé í lögunum mælt skýrt fyrir um hvernig með skuli fara þegar ekki er sótt um fæðingarorlof fyrr en eftir fæðingu barnsins, þykja málefnaleg sjónarmið styðja þá túlkun Fæðingarorlofssjóðs á 9. mgr. 13. gr. laganna, sem byggt er á í hinni kærðu ákvörðun, að einungis sé unnt að afgreiða fæðingarorlof fyrir undanfarandi mánuð. Önnur túlkun myndi leiða til þess að Fæðingarorlofssjóði yrði gert að reikna fæðingarorlof langt aftur í tímann, sem óhjákvæmilega gerir sjóðnum óhægt um vik að staðreyna meðal annars hvort foreldri hafi raunverulega lagt niður störf og hvaða laun voru raunverulega greidd. Nefndin staðfestir því þá niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar að þegar umsókn kæranda um fæðingarorlof loks barst, tæpum þremur mánuðum eftir fæðingu barnsins eða þann Y. september 2012, hafi sjóðurinn ekki getað afgreitt greiðslur til hennar meira en einn mánuð aftur í tímann, þ.e. ekki lengra aftur en fyrir ágústmánuð 2012.

Í 2. mgr. 10. gr. ffl. segir að með samkomulagi við vinnuveitanda sé starfsmanni heimilt að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. þó 3. mgr. 8. gr. Í 2. mgr. 10. gr. ffl. felst því almenn heimild foreldra til að haga töku fæðingarorlofs vegna fæðingar barna sinna á hvern þann hátt sem þeim hentar best, þó þannig að töku fæðingarorlofs verði lokið fyrir 36 mánaða aldur barnsins, sbr. 2. mgr. 8. gr. ffl. Í 2. mgr. 10. gr. er þó vísað til 3. mgr. 8. gr., en í henni segir að móðir skuli vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns. Í athugasemdum við frumvarp til ffl. segir að ákvæði þetta byggist á 2. mgr. 8. gr. tilskipunar ráðs Evrópusambandsins um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið börn eða hafa börn á brjósti, nr. 92/85/EB. Þetta sé þáttur í ráðstöfunum til verndar öryggi og heilbrigði starfsmanna en talið er að konur sem nýlega hafi alið börn þurfi að njóta hvíldar eftir fæðingu barns til að jafna sig líkamlega áður en störf eru hafin að nýju. Þá er tekið fram í athugasemdunum að þær tvær vikur sem ákvæðið fjallar um séu hluti af þeim tíma sem konan eigi rétt á í fæðingarorlofi.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat nefndarinnar að heimild foreldra til að ákveða tilhögun töku fæðingarorlofs takmarkist meðal annars af ákvæði 3. mgr. 8. gr. um að mæðrum sé skylt að vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns. Þá verður að líta til þeirra ummæla í greinargerð að umræddar tvær vikur séu hluti af þeim tíma sem konan eigi rétt á í fæðingarorlofi sem svo að markmið löggjafans hafi verið að skylt yrði fyrir mæður að vera í fæðingarorlofi fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns þannig að sá tími teljist hluti þess tímabils sem móðir eigi rétt á skv. 1. mgr. 8. gr. ffl. Auk þess verður ekki litið framhjá því að réttur til greiðslu frá Fæðingarorlofssjóði vegna þessara tveggja vikna, sem móður er skylt að taka í beinu framhaldi af fæðingu, er að öðru leyti háður öðrum ákvæðum ffl., svo sem 1. mgr. 15. gr. og 9. mgr. 13. gr. laganna.

Með vísan til alls framangreinds er hin kærða ákvörðun því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að stytta fæðingarorlof A um tvær vikur er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta