Hoppa yfir valmynd

Nr. 747/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 13. desember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 747/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23090019

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 5. september 2023 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Kenía ( hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. ágúst 2023, um að synja umsókn hennar um endurnýjun dvalarleyfis á grundvelli lögmæts og sérstaks tilgangs, sbr. 79. gr. laga um útlendinga.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umsókn kæranda um endurnýjun dvalarleyfis á grundvelli lögmæts og sérstaks tilgangs samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga um útlendinga verði samþykkt. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda til meðferðar á ný á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst dvalarleyfi vegna lögmæts og sérstaks tilgangs útgefið 10. desember 2021 með gildistíma til 6. desember 2022. Kærandi sótti um endurnýjun leyfisins 3. nóvember 2022. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. ágúst 2023, var umsókn kæranda synjað. Ákvörðunin var móttekin af kæranda 21. ágúst 2023. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála 5. september 2023 og lagði fram greinargerð og frekari fylgigögn 18. september 2023. Vegna áskilnaðar um framlagningu frekari gagna í greinargerð kæranda sendi kærunefnd kæranda tölvubréf, dags. 16. nóvember 2023, þar sem óskað var eftir framlagningu umræddra gagna. Með tölvubréfi, dags. 27. nóvember 2023, lagði kærandi fram frekari gögn vegna málsins.

Samkvæmt 1. mgr. 103. gr. laga um útlendinga frestaði kæra réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til áður útgefins dvalarleyfis hennar og þeirra ástæðna sem dvalarleyfisumsókn hennar grundvallast á. Kærandi kveðst glíma við heilsufarsvandamál og hafi heilsa hennar ekki batnað frá útgáfu leyfisins. Kveðst kærandi munu að öllum líkindum þurfa að gangast undir skurðaðgerð vegna tiltekinna sjúkdóma. Kærandi eigi fjögur börn og fimm barnabörn hér á landi en í heimaríki eigi kærandi einungis maka og einn son. Kærandi kveður aðstandendur sína í heimaríki ekki geta veitt henni þá umönnun sem hún þarfnist. Þá glími þeir enn fremur sjálfir við veikindi sem valdi kæranda miklum kvíða og vanlíðan. Vegna heilsufars telji kærandi nauðsynlegt að hún geti notið aðstoðar aðstandenda sinna hér á landi.

Kærandi kveðst ósammála ákvörðun Útlendingastofnunar um breyttar forsendur og vísar til umsóknar og fylgigagna hvað það varðar. Í fylgigögnum komi m.a. fram að kærandi glími við slitgigt í hné, kviðverkjaköst sem talin séu gallsteinaköst auk kvíða og depurðar sem hún taki lyf við. Þá sé kærandi einnig í lyfjameðferð vegna háþrýstings. Kærandi lagði enn fremur fram ný heilsufarsgögn á kærustigi þar sem fram kemur að kærandi glími enn við mikla heilsufarskvilla og þurfi að öllum líkindum að fara í skurðaðgerðir á næstunni, m.a. vegna gigtar eða gallsteina.

Kærandi vísar til rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og skyldu stjórnvalds til þess að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Kærandi telur mál sitt ekki hafa verið nægjanlega rannsakað enda hafi eingöngu legið fyrir eitt heilbrigðisvottorð og hafi Útlendingastofnun ekki leitast eftir því að fá frekari upplýsingar frá kæranda um heilsufar sitt þrátt fyrir að fyrir lægi að hún glímdi við frekari heilsufarsvanda. Telur kærandi ljóst að gögn bendi til þess að hún glími við mikla heilsufarskvilla og muni þurfa að gangast undir skurðaðgerðir eða aðrar sértækari meðferðir á næstunni og það hafi hvílt skylda á Útlendingastofnun að ganga úr skugga um að heilsufar kæranda og forsendur dvalar hafi í raun og veru breyst frá fyrri útgáfu dvalarleyfis.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli lögmæts og sérstaks tilgangs að uppfylltum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt ákvæðum laganna. Dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu skal einungis veitt til eins árs í senn. Heimilt er að endurnýja leyfið haldist tilgangur dvalar óbreyttur. Með 3. mgr. 79. gr. laga um útlendinga er ráðherra gert að setja í reglugerð leiðbeiningar um hvað skuli teljast til lögmæts og sérstaks tilgangs.

Í athugasemdum í frumvarpi með ákvæði því er varð að 79. gr. laga um útlendinga kemur fram að ákvæðið nái til tilfella þegar engin önnur dvalarleyfisákvæði nái utan um tilgang dvalar hér á landi en hann hafi engu að síður verið þess eðlis að rétt hafi þótt að veita dvalarleyfi á Íslandi. Ákvæði fyrri laga um útlendinga hafi verið skýrt þröngt en ætlun löggjafans ekki verið að breyta þeirri túlkun heldur að skerpa á þeirri framkvæmd sem verið hefur. Í dæmaskyni tilgreina athugasemdirnar tilvik þar sem aðili hefur slasast eða veikst hér á landi og þörf er á að framlengja dvalarleyfi fyrir hann og aðstandanda á meðan sjúkrahúsdvöl stendur eða vegna dómsmáls sem útlendingur er aðili að fyrir íslenskum dómstólum. Einnig hefur ákvæðið náð til vistráðninga sem þurft hefur að framlengja vegna veikinda barna á heimili þess vistráðna. Þá ber Útlendingastofnun að meta hvort tilgangur teljist lögmætur og sérstakur og skal ráðherra setja reglugerðarákvæði til frekari leiðbeininga.

Með 22. gr. reglugerðar um útlendinga hefur ráðherra mælt fyrir um hvaða tilvik komi m.a. til greina sem grundvöllur dvalarleyfis samkvæmt 79. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið mælir ekki fyrir um tæmandi talningu en það nefnir m.a. tilvik þar sem útlendingur slasast eða veikist hér á landi sem krefst framlengingar dvalar, hvort heldur hins veika eða slasaða, eða aðstandanda hans. Einnig er tilgreind tilvik þar sem að útlendingur á von á barni sem á rétt á íslenskum ríkisborgararétti, svo og vegna nauðsynlegrar dvalar vegna reksturs dómsmáls.

Af framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum,með hliðsjón af athugasemdum í frumvarpi, er ljóst að dvalarleyfi vegna lögmæts og sérstaks tilgangs er m.a. ætlað að koma útlendingum til aðstoðar vegna heilsufarsvanda. Er sérstaklega vísað til þess þegar útlendingar hafa veikst eða slasast hér á landi og dveljast á sjúkrahúsi. Með þessum hætti hefur löggjafinn búið til dvalarleyfisflokk sem grípur fólk í slíkum aðstæðum og spornar við því að dvöl þeirra verði ólögmæt. Þegar aðilar hafa jafnað sig af slíkum atvikum má áætla að þau séu ferðafær á ný, og tilgangi með dvöl þeirra á landinu lokið. Samkvæmt athugasemdum í frumvarpi skal grundvöllurinn túlkaður þröngt og er það hlutverk Útlendingastofnunar að meta hvort tilgangur umsóknar falli undir ákvæði um lögmætan og sérstakan tilgang.

Af gögnum málsins má ráða að Útlendingastofnun hafi lagt fyrir kæranda að leggja fram gögn sem lúta að veikindum eða fötlun og þeim þjónustuþörfum sem kærandi hefur af þeim sökum. Jafnframt var kærandi beðin um að leggja fram staðfestingu þess hvort hún þyrfti nauðsynlega að fara í aðgerð. Þá vísar ákvörðun stofnunarinnar til þess að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að kærandi þurfi á sértækum meðferðum við heilsufarskvillum öðrum en lyfjameðferðum að halda. Í læknisvottorði, dags. 4. september 2023, kemur fram að kærandi sé með slitgigt í hægra hné sem hái henni við gang og sé hún á leið í segulómun og sjúkraþjálfun. Kærandi hafi einnig fengið kviðverkjaköst, sem talin séu gallsteinaköst. Hún hafi farið í skoðun hjá skurðlækni og muni fara í gallblöðrutöku fái hún slæm gallsteinaköst á ný. Þá glími kærandi einnig við mikinn kvíða, depurð og háan blóðþrýsting. Sé kærandi að hefja aftur lyfjameðferð við kvíða og þunglyndi, og bíði eftir meðferð hjá sálfræðingi. Kærandi sé einnig í lyfjameðferð vegna hás blóðþrýstings. Samkvæmt beiðni um sjúkraþjálfun, dags. 4. september 2023, hefur kærandi verið slæm af verkjum í hægra hné til langs tíma og sé á leið í segulómun. Samkvæmt niðurstöðum úr segulómun, dags. 3. október 2023, er kærandi með slitgigt í hné og vægan beinbjúg í hnjálið og er henni ráðlagt að hvíla hnéð og forðast mikinn gang í sex vikur.

Kærunefnd hefur yfirfarið gögn málsins en af þeim er ljóst að kærandi glími við ýmiss konar heilsufarsbresti og hefur gert lengi. Fyrirséð er að kærandi muni þurfa áfram læknismeðferð og lyfj vegna heilsufarskvilla sinna til skemmri og lengri tíma. Líkt og áður hefur komið fram telur kærunefnd að lögmætur og sérstakur tilgangur vegna heilsubrests sé fyrst og fremst ætlað að bregðast við veikindum eða slysum sem rétt þyki að útlendingur fái meðferð við hér á landi. Kærunefnd telur gögn málsins ekki benda til þess að kærandi glími við slík vandamál að hún geti ekki yfirgefið landið eða sem krefjist sértækrar meðferðar í náinni framtíð sem mæli með endurnýjun umbeðins dvalarleyfis. Þá hefur heilsufar aðstandenda kæranda í heimaríki ekki áhrif á umsókn hennar um dvalarleyfi hér á landi.

Loks bendir kærunefnd á að kæranda voru send bréf, dags. 22. desember 2022 og 11. apríl 2023, þar sem óskað var eftir frekari gögnum vegna málsins. Hvað tilvísun kæranda til 10. gr. stjórnsýslulaga varðar telur kærunefnd ekki ástæðu til þess að gera athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar eða að ógilda ákvörðun stofnunarinnar af þessum sökum.

Að öllu framangreindu virtu verður staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á umsókn kæranda um dvalarleyfi.

Hinn 15. desember 2022 voru samþykkt lög um landamæri nr. 136/2022 á Alþingi þar sem m.a. voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga. Var a-liður 1. mgr. 98. gr. felldur brott og orðalagi 2. mgr. ákvæðisins breytt á þann veg að svo framarlega sem 102. gr. laga um útlendinga eigi ekki við skuli vísa útlendingi úr landi sem dveljist ólöglega í landinu eða þegar tekin hafi verið ákvörðun sem bindi enda á heimild útlendings til dvalar í landinu. Í frumvarpi því er síðar varð að lögum um landamæri kemur fram að lagt sé til í 2. tölul. e-liðar 25. gr. laga um landamæri að 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga verði breytt þannig að lögin verði í samræmi við brottvísunartilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2008/115/EB og kveði skýrt á um að stjórnvöld skuli vísa brott útlendingum sem dveljist hér á landi án heimildar. Þannig skuli útlendingum sem dveljast hér á landi án heimildar vísað brott og í kjölfarið veittur frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugir. Þannig verði breyting á ákvörðunum er lúta að ákvörðun um umsóknir um dvalarleyfi og alþjóðlega vernd hér á landi.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda synjað um endurnýjun dvalarleyfis. Afleiðingar ákvörðunar Útlendingastofnunar eru þær að kærandi dvelst á Íslandi án dvalarleyfis og hefði stofnunin með réttu átt að taka ákvörðun um brottvísun og endurkomubann kæranda í samræmi við áðurnefndar lagabreytingar nr. 136/2022. Kæranda er því veittur 30 daga frestur til þess að yfirgefa landið sjálfviljug. Að öðrum kosti skal Útlendingastofnun taka ákvörðun um brottvísun hennar frá landinu og ákveða henni endurkomubann til Íslands og Schengen-svæðið.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Valgerður María Sigurðardóttir

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta