Hoppa yfir valmynd

Nr. 496/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 20. september 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 496/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23060186

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 20. júní 2023 kærði […], kt. […], ríkisborgari Gana ( hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. júní 2023, um að synja umsókn hans um ótímabundið dvalarleyfi á grundvelli 58. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Ráða má að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt ótímabundið dvalarleyfi á grundvelli 58. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi vegna náms 19. ágúst 2019 með gildistíma til 15. júlí 2020. Samkvæmt skráningu í Þjóðskrá var kærandi skráður í sambúð með EES-borgara frá 30. janúar 2020 en henni var svo slitið 10. maí 2021. Hinn 25. maí 2020 lagði kærandi fram umsókn um dvalarskírteini hér á landi á grundvelli sambúðar við EES-borgara. Afgreiðslu þeirrar umsóknar var ekki lokið þegar hún var felld niður hjá Útlendingastofnun 4. mars 2022 vegna breyttra aðstæðna kæranda. Kærandi lagði inn umsókn um dvalarleyfi á grundvelli skorts á starfsfólki 15. febrúar 2022 og var kærandi veitt slíkt dvalarleyfi hér á landi 27. apríl 2022. Hefur það verið endurnýjað einu sinni með gildistíma til 25. apríl 2024. Hinn 11. febrúar 2023 lagði kærandi fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. júní 2023, var umsókn kæranda synjað með vísan til þess að hann uppfyllti ekki búsetuskilyrði 58. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar barst kæranda með ábyrgðarbréfi 16. júní 2023. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar 20. júní 2023. Kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt fylgiskjölum 28. júní 2023.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur m.a. fram að hann hafi flutt til Íslands frá Eistlandi í ágúst 2019 til að búa með þáverandi kærustu sinni. Kærandi hafi skráð sig í sambúð með henni í janúar 2020. Í september 2019 hafi kærandi lagt fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sambúðar sinnar en fengið þær upplýsingar að a.m.k. níu mánuðir yrðu að vera liðnir frá útgáfu fyrsta dvalarleyfis. Kærandi hafi þó fengið þær upplýsingar að vegna sambúðar sinnar við EES-borgara hefði hann heimild til að stunda atvinnu hér á landi án sérstaks leyfis. Hinn 25. maí 2020 hafi kærandi aftur lagt fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sambúðar sinnar. Kærandi kvað Útlendingastofnun hafa móttekið umsókn hans en ekki veitt honum ferðaskilríki. Í tæplega tvö ár hafi kærandi verið í sambandi við Útlendingastofnun vegna ferðaskilríkja svo að hann gæti heimsótt veika móður sína, en hann hafi fengið þau svör að umsókn hans væri í vinnslu. Þegar móðir kæranda hafi látist hafi kærandi aftur haft samband við Útlendingastofnun og óskað eftir heimild til þess að ferðast. Hinn 16. nóvember 2021 hafi Útlendingastofnun sent kæranda bréf sem hann gæti sýnt flugvallaryfirvöldum. Á þessum tíma hafi kærandi ekki verið lengur í sambúð vegna ofbeldis af hálfu fyrrverandi maka hans. Kærandi hafi tilkynnt það til Útlendingastofnunar og hann hafi fengið að halda dvalarleyfi sínu svo hann gæti sótt sér læknishjálp og sálfræðimeðferð. Hinn 16. nóvember 2021 hafi kærandi fengið þær fréttir frá Útlendingastofnun að ekkert hefði verið unnið í umsókn hans um dvalarleyfi á grundvelli sambúðar og að gleymst hefði að láta hann vita að hann yrði að sækja um annars konar dvalarleyfi til að fá útgefið ferðaskilríki. Kærandi hafi þá lagt fram umsókn um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki og fengið útgefið dvalarleyfi 27. apríl 2022 á þeim grundvelli, en á þeim tíma hefði kærandi verið búinn að vinna hjá Freyju ehf. í tvö ár. Dvalarleyfið hafi síðan verið framlengt í apríl 2023 með gildistíma til apríl 2024.

Frá árinu 2019 til mars 2022 hafi Útlendingastofnun litið framhjá dvöl kæranda hér á landi þrátt fyrir að hafa veitt honum dvalarleyfi. Fullyrðing Útlendingastofnunar um að kærandi hafi afturkallað umsókn sína sé röng. Hið rétta sé að stofnunin hafi látið hjá líða að afgreiða umsókn hans. Þrátt fyrir það hafi kæranda verið veitt öll þau réttindi er fylgdu sambúð hans við EES-borgara frá árinu 2019. Kærandi hafi t.a.m. hætt námi sínu en áfram haft rétt til dvalar hér á landi vegna sambúðar hans við þáverandi maka sinn og haldið áfram að vinna hér á landi. Kærandi hafi því notið þeirra réttinda sem fylgi dvalarleyfi á grundvelli sambúðar án þess þó að hafa fengið dvalarleyfið útgefið sem slíkt af Útlendingastofnun. Í dag sé kærandi í hjúskap með ríkisborgara Eþíópíu, en umsókn hennar um fjölskyldusameiningu hér á landi sé í vinnslu hjá Útlendingastofnun.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalið hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Um nánari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis er m.a. mælt fyrir um í a-e-liðum 1. mgr. 58. gr. laganna.

Samkvæmt gögnum málsins dvaldi kærandi fyrst hér á landi frá 19. ágúst 2019 til 15. júlí 2020 á grundvelli dvalarleyfis vegna náms, sbr. 65. gr. laga um útlendinga. Kærandi lagði fram umsókn um dvalarskírteini fyrir aðstandanda EES-borgara hér á landi 25. maí 2020 á grundvelli sambúðar sinnar við EES-borgara. Sú umsókn var þó aldrei afgreidd af Útlendingastofnun, þrátt fyrir ítrekuð samskipti kæranda við stofnunina. Hinn 16. nóvember 2021 upplýsti kærandi Útlendingastofnun um að hann væri ekki lengur í sambúð með maka sínum. Kom þá í ljós samkvæmt gögnum málsins að umsókn kæranda hefði gleymst hjá Útlendingastofnun og var kæranda ráðlagt að leggja fram nýja umsókn um dvalarleyfi á öðrum grundvelli. Kærandi sótti því um og fékk útgefið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli skorts á starfsfólki 27. apríl 2022 og hefur það verið endurnýjað með gildistíma til 25. apríl 2024. Ráða má af gögnum málsins að kærandi hafi staðið í þeirri trú að frá 15. júlí 2020 til 27. apríl 2022 hafi hann dvalið hér á landi á grundvelli dvalarleyfis sem aðstandandi EES-borgara en aðeins hefði átt eftir að gefa út dvalarskírteini hans.

Eins og áður hefur komið fram er það skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga að útlendingur hafi dvalist hér á landi samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Í XI. kafla laganna er að finna sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Í köflum V. – X. kafla laga um útlendinga er sérstaklega tekið fram hvaða dvalarleyfi geta verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis og hver ekki. Í XI. kafla laga um útlendinga er hins vegar að finna sérreglur sem eiga einungis við um réttindi EES- og EFTA-borgara og aðstandendur þeirra. Að mati kærunefndar getur dvalarréttur samkvæmt XI. kafla ekki verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis í skilningi 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga.

Að framangreindu virtu er ljóst að jafnvel þótt talið yrði að kærandi hafi dvalið hér á landi á grundvelli dvalarleyfis sem aðstandandi EES-borgara frá 15. júlí 2020 til 27. apríl 2022 þá getur slíkt dvalarleyfi ekki talist grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis í skilningi 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Uppfyllir kærandi því ekki skilyrði ákvæðisins um að hafa dvalið hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, en hann hefur einungis dvalið hér á landi á grundvelli dvalarleyfis sem veitir slíkan rétt frá 27. apríl 2022 eða í um eitt ár og fimm mánuði.

Samkvæmt b-lið 2. mgr. 58. gr. er heimilt að víkja frá skilyrðinu um að útlendingur hafi dvalist hér á landi síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfi þegar útlendingur hefur haft slíkt dvalarleyfi í a.m.k. tvö ár og hefur áður dvalið hér á landi í samfelldri dvöl samkvæmt dvalarleyfi vegna náms samkvæmt 65. gr. þannig að heildardvöl sé a.m.k. fjögur ár. Lengd dvalar kæranda hér á landi á grundvelli dvalarleyfis sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis er, þegar þessi úrskurður er kveðinn upp, um eitt ár og fimm mánuðir. Þá dvaldi kærandi á grundvelli dvalarleyfis vegna náms samkvæmt 65. gr. laga um útlendinga í tæplega eitt ár. Nær heildardvöl kæranda þannig ekki fjórum árum, sbr. b-lið 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Kærandi hefur heimild til dvalar hér á landi á grundvelli dvalarleyfis með gildistíma til 24. apríl 2024.

Athugasemdir kærunefndar við málsmeðferð Útlendingastofnunar

Kærunefnd tekur undir með kæranda að málsmeðferð Útlendingastofnunar á umsókn hans um dvalarskírteini sem aðstandandi EES-borgara hafi verið ábótavant. Eins og áður greinir lagði kærandi fram umsókn um dvalarskírteini 25. maí 2020. Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir kæranda afgreiddi Útlendingastofnun ekki umsókn hans, en ráða má samkvæmt gögnum málsins að umsókn hans hafi gleymst. Aðilar stjórnsýslumáls hafa alla jafnan ríka hagsmuni af því að mál þeirra hljóti hraða afgreiðslu hjá stjórnvöldum, þótt slíkur hraði megi eðli málsins samkvæmt ekki bitna á gæðum málsmeðferðarinnar og ákvörðunar. Í stjórnsýslurétti teljast tafir á meðferð máls þó almennt ekki til annmarka sem leiði til ógildingar á ákvörðun nema sérstök lagafyrirmæli komi til, en slík fyrirmæli er ekki að finna í XI. kafla laga um útlendinga. Þá hefur kærunefnd einnig komist að þeirri niðurstöðu að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun og getur dráttur á málinu einn og sér því ekki orðið til þess að veita beri kæranda dvalarleyfi á Íslandi.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Þorsteinn Gunnarsson

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta