Hoppa yfir valmynd

Nr. 175/2023 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 30. mars 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 175/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU22120054

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 14. desember 2022 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fædd […] og vera ríkisborgari Írak (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. desember 2022, um að synja henni um alþjóðlega vernd á Íslandi en veita henni dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar um að veita henni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga verði staðfest.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 21. júlí 2021. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum hinn 28. júlí 2021 kom í ljós að fingraför hennar höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Grikklandi. Þá kom fram að kæranda hefði verið veitt alþjóðleg vernd þar í landi 19. október 2018. Með umsókn framvísaði kærandi dvalarleyfisskírteini frá Grikklandi með gildistíma frá 17. janúar 2019 til 16. janúar 2022 og flóttamannavegabréfi gefnu út af grískum stjórnvöldum með gildistíma til 16. september 2024. Útlendingastofnun ákvað 23. ágúst 2021 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að henni skyldi vísað frá landinu. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 615/2021, dags. 2. desember 2021, var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest. Hinn 25. júlí 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Með úrskurði kærunefndar nr. 346/2022, dags. 7. september 2022, var fallist á beiðni kæranda um endurupptöku og var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og stofnuninni gert að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 18. október 2022 ásamt löglærðum talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 5. desember 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd en veitti henni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 14. desember 2022. Kærunefnd barst greinargerð kæranda 28. desember 2022.

 

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu í heimaríki sínu vegna slæms ástands og ofsókna vegna stöðu sinnar sem kona og trúarbragða sinna.

Niðurstaða Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og henni skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er um málavexti vísað til viðtals við hana hjá Útlendingastofnun hinn 18. október 2022. Þar hafi kærandi greint frá því að vera fædd og uppalin í borginni Mósúl í Írak en að hún hafi yfirgefið landið 10. september 2017 og haldið til Grikklands. Kærandi hafi greint frá því að eftir að hryðjuverkasamtökin ISIS hafi misst yfirráð sín yfir borginni hafi yfirvöld byrjað að berja að dyrum almennra borgara, handtaka þá og fangelsa og krefjast lausnargjalds frá aðstandendum þeirra. Kærandi hafi lýst því í viðtali að hafa sjálf upplifað slíkt atvik þar sem þáverandi eiginmaður hennar hafi verið fangelsaður í tíu daga og hann þurft að þola barsmíðar á meðan á vistinni hafi staðið. Þá hafi kæranda borist símtal þar sem hún hafi verið krafin um greiðslu lausnargjalds upp á 12 milljónir íraskra dínara fyrir eiginmanninn. Kærandi hafi greitt skuldina en skömmu síðar hafi þrír bræður hennar verið handteknir. Kærandi hafi greint frá því að íröksk yfirvöld væru á eftir fyrrverandi eiginmanni hennar þar sem hann hafi verið mótmælandi og hafi verið ranglega bendlaður við viðveru ISIS á svæðinu. Súnní-múslimar væru ítrekað ranglega bendlaðir við ISIS í Írak og óttist kærandi fangelsun, ofbeldi, nauðgun og morð þar í landi. Kærandi hafi lýst óeðlilegri æsku sinni, en hún hafi verið gift manni þegar hún hafi verið 15 ára gömul sem hafi m.a. beitt hana grófu líkamlegu ofbeldi og takmarkað athafnafrelsi hennar. Þegar þau hafi dvalið í Grikklandi hafi hann skilið við hana, en staða fráskilinna kvenna í Írak sé sérstaklega skammarverð. Kærandi hafi lýst því að frelsi fráskilinna kvenna til að fara út úr húsi í Írak væri háð því skilyrði að þær þyrftu að vera með karlmanni. Jafnframt væru fráskildar konur gerðar nær útlægar úr samfélaginu. Þá gætu geðþóttahandtökur, lausnargjöld við þeim og kúganir átt sér stað við daglegar athafnir kæranda í Írak. Hún upplifi ekki öryggi í heimaríki sínu vegna stöðu sinnar sem kona og súnní-múslimi og óttist ofbeldi í sinn garð, auk ýmissa athafna yfirvalda sem myndu ekki veita borgurum aðstoð eða vernd í landinu.

Í greinargerð kæranda er m.a. að finna umfjöllum um öryggisástand, stöðu mannréttinda, slæma stöðu kvenna og stöðu súnní-múslima í Írak. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til alþjóðlegra skýrslna.

Í greinargerð sinni gerir kærandi athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, einkum trúverðugleikamat stofnunarinnar og umfjöllun stofnunarinnar um stöðu kæranda sem kona í Írak. Í ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið vísað til heimilda um að virkni ISIS í Írak hafi aukist á árinu 2021 og að samtökin hafi markvisst ráðist á raforkuver, m.a. í heimahéraði kæranda. Einungis hafi náðst að byggja upp innviði í Mósúl að takmörkuðu leyti og séu árásir ISIS enn viðvarandi vandamál. Þá hafi komið fram í ákvörðun Útlendingastofnunar sú afstaða stofnunarinnar að kærandi ætti ekki á hættu að sæta ofsóknum í heimaríki sínu sem súnní-múslimi. Að mati kæranda liggi ekki ljóst fyrir með hvaða rökum Útlendingastofnun hafi komist að því að ástæður hennar fyrir flótta sínum væru ótrúverðugar, enda varði trúverðugleikamat stofnunarinnar að mestu leyti fræðilega umfjöllun um aðstæður í heimaríki kæranda sem séu fremur til þess fallnar að styrkja ástæður fyrir flótta hennar. Þá telur kærandi að rannsókn Útlendingastofnunar á stöðu hennar sem kona í Írak hafa verið háð annmörkum samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga sem hafi haft áhrif á niðurstöðu stofnunarinnar varðandi 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga í máli hennar. Heimildum beri saman að staða kvenna í Írak sé verulega bág og eigi konur og stúlkur í landinu undir högg að sækja sem eigi sér rætur að rekja til samfélagsskipunar og strangra menningarlegra viðhorfa. Í ákvörðun Útlendingastofnunar komi fram að við mat á stöðu kvenna verði að líta til persónulegrar stöðu viðkomandi, hvaðan hún komi, menntunarstigs og efnahagslegrar stöðu hennar. Þrátt fyrir þá lýsingu hafi ekki verið tekin afstaða til matsþáttanna í ákvörðun Útlendingastofnunar, en kærandi telur ljóst að hún falli vel að þeim. Kærandi hafi þurft að þola kynbundið ofbeldissamband og þvingað hjónaband, auk þess sem hún komi frá borg sem þekkt sé fyrir kynbundið ofbeldi. Kærandi hafi ekki hlotið menntun eftir að hún hafi verið gefin í barnahjónaband 15 ára gömul og fjárhagsleg staða hennar sé bág, en hún eigi í raun engar eignir. Lagt hafi verið til grundvallar í ákvörðun Útlendingastofnunar að kærandi ætti stuðningsnet hjá fjölskyldu sinni í heimaríki og þar með væri staða hennar sem kona ekki slík að hún næði alvarleikastigi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur rökstuðning að baki þeirri niðurstöðu óljósan, sbr. 22. mgr. stjórnsýslulaga og ekki í samræmi við rannsóknarskyldu stofnunarinnar, enda hafi kærandi einungis verið spurð í viðtali hjá Útlendingastofnun hvort hún væri í sambandi við fjölskyldu sína. Þá sé kærandi súnní-múslimi sem tilheyri minnihlutahópi í Írak og sæti ofbeldi og mannréttindabrotum. Trúarbrögð kæranda hafi sérstök áhrif á einstaklingsbundnar aðstæður hennar þar sem fjölskyldumeðlimir hennar sem hafi verið virkir mótmælendur hafi sætt geðþóttahandtökum og eiginmaður hennar sætt ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð. Það að tilheyra þjóðarbroti súnní-múslima í Írak leiði venjulega ekki eitt og sér til þess að einstaklingur teljist hafa ástæðuríkan og rökstuddan ótta við ofsóknir en þó geti einstaklingur verið í slíkri aðstöðu að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna að hann geti átt á hættu ofsóknir, einkum á grundvelli stjórnmálaskoðana eða vegna ætlaðra tengsla við ISIS eða Ba‘ath flokkinn. Kærandi telur að aðstæður hennar falli vel að því sem fram komi í heimildum um heimaríki hennar, enda hafi hún m.a. verið ranglega bendluð við ISIS. Þá telur kærandi að horfa verði til þess að konur í Írak séu nær alfarið háðar karlmönnum og að ofsóknir gegn þeim hafi svo mikil áhrif að ofsóknirnar varði einnig konur í skilningi 1. mgr., og eftir atvikum 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar að auki hafi kærandi sjálf sætt ofsóknum í beinum tengslum við ofsóknir gagnvart fjölskyldumeðlimum sínum.

Kærandi krefst þess aðallega að henni verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi, samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Hún eigi á hættu ofsóknir vegna trúarbragða, stjórnmálaskoðana og aðildar hennar að þjóðfélagshópi sem kona í Írak og aðstandandi manns sem hafi verið haldið föngnum gegn lausnargjaldi og beittur ofbeldi og vanvirðandi meðferð. Kærandi hafi verið föst í ofbeldissambandi og þvinguðu hjónabandi, sbr. a-lið 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, þar sem löggjöf og aðgerðir yfirvalda feli í sér mismunun í garð kvenna í Írak, sbr. b-lið 2. mgr. 38. gr. laganna. Jafnframt telur kærandi að aðstæður hennar falli undir c- og d-lið 2. mgr. ákvæðisins. Kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu vegna fyrri reynslu sinnar af barnahjónabandi, kynbundnu ofbeldi og núverandi stöðu sinnar sem fráskilin kona. Ekki hafi verið tekin afstaða til ofbeldissambandsins og barnahjónabands sem kærandi hafi þolað í ákvörðun Útlendingastofnunar sem og þess að hún sé fráskilin. Telur kærandi það brot á rannsóknar- og andmælareglu stjórnsýslulaga, sbr. 10. og 13. gr. laganna og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga, enda hafi kæranda ekki verið gefið tækifæri til þess að tjá sig um samband sitt við fjölskyldu sína í samræmi við það vægi sem því hafi verið gefið í máli hennar. Þá bendi heimildir til þess að fólk sem snúi aftur til Írak og sé ranglega bendlað við ISIS eigi á hættu hótanir og ofbeldi. Ekki hafi verið tekin afstaða til þess að kærandi hafi verið bendluð við ISIS í heimaborg sinni Mósúl og þess að hún sé súnní-múslimi í ákvörðun Útlendingastofnunar sem samrýmist ekki rannsóknarskyldu stjórnvalda. Séu aðstæður kæranda virtar heildstætt verði að telja að hún hafi lögmætt tilkall til alþjóðlegrar verndar á grundvelli samsafns ástæðna. Þá telur kærandi að a-, b- og c-liðir 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga eigi við í máli hennar.

Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að henni verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi lagst gegn endursendingum einstaklinga til Írak sem komi frá svæðum þar sem átök geisi eða þar sem ástandið sé veikburða eða óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn ISIS. Kærandi sé ung, fráskilin kona, súnní-múslimi og þolandi ofbeldis- og mannréttindabrota. Öryggisástand í Mósúl sé slæmt, m.a. vegna átaka í júlí 2017 sem hafi lagt borgina í rúst og hryðjuverkaárása ISIS sem enn sé hætta af. Aukning hafi orðið í fjölda árása í Ninewa héraði árið 2022 og þrátt fyrir endurbyggingu í Mósúl sé um hæga þróun að ræða. Heilbrigðiskerfið í Mósúl sé að hruni komið og sýni heimildir fram á að brýn þörf sé á heilbrigðisaðstoð, en stór hluti spítala og heilsugæsla í borginni sé óstarfhæfur. Ekki hafi verið fjallað um það í ákvörðun Útlendingastofnunar í tengslum við 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá telur kærandi að staða hennar sem ung og fráskilin kona kunni að ná því alvarleikastigi að teljast ómannúðleg og vanvirðandi meðferð vegna takmörkunar á aðgengi hennar að heilbrigðisþjónustu, húsnæðismarkaði og opinberri þjónustu og vegna efnahagslegra örðugleika og félagslegrar útskúfunar. Telur kærandi að umfjöllun og niðurstaða Útlendingastofnunar hafi ekki uppfyllt skilyrði 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar, þess efnis að veita henni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, verði staðfest. Aðstæður einstæðra kvenna í Írak séu bágbornar og gæti kærandi átt erfitt með að sjá sér farboða sem einstæð kona þar í landi. Þá væri félagsleg staða hennar sem fráskilin kona í landinu veik.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað grísku og palestínsku vegabréfi og því væri það mat stofnunarinnar að kærandi hafi sannað hver hún væri með fullnægjandi hætti.

Samkvæmt gögnum málsins lagði kærandi fram dvalarleyfisskírteini og flóttamannavegabréf, útgefin af grískum stjórnvöldum, og írakskt kennivottorð en ekki grískt og palestínsk vegabréf líkt og kemur fram í ákvörðun Útlendingastofnunar. Með vísan til þess er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sannað hver hún sé með fullnægjandi hætti. Með vísan til trúverðugleika kæranda telur kærunefnd þó ekki ástæðu til að draga í efa að hún sé ríkisborgari Írak og verður það því lagt til grundvallar.

 

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Írak m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2021 Country Reports on Human Rights Practices: Iraq (U.S. Department of State, 12. apríl 2022);
  • 2022 Country Reports on Human Rights Practices: Iraq (U.S. Department of State, 20. mars 2023);
  • 2021 Report on International Religious Freedom: Iraq (U.S. Department of State, 2. júní 2022);
  • 5 years since Mosul retaking, young people face education, employment crisis (Norwegian Refugee Council, 6. júlí 2022);
  • Country Guidance: Iraq (European Union Agency for Asylum (EUAA), 29. júní 2022);
  • Country Guidance: Iraq; Common analysis and guidance note (European Asylum Support Office, janúar 2021);
  • Country of Origin Information Report – Iraq – Actors of Protection (European Asylum Support Office, nóvember 2018);
  • Country of Origin Information Report – Iraq: Internal Mobility (European Asylum Support Office, febrúar 2019);
  • Country of Origin Information Report – Iraq – Security situation (European Union Agency for Asylum, janúar 2022);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Actors of protection (UK Home Office, desember 2020);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Humanitarian situation (UK Home Office, ágúst 2022);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Internal relocation, civil documentation and returns (UK Home Office, maí 2020);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Medical and healthcare provision (UK Home Office, janúar 2021);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Religious minorities (UK Home Office, júlí 2021);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Security situation (UK Home Office, nóvember 2022);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Sunni Arabs (UK Home Office, janúar 2021);
  • DFAT Country Information Report Iraq (Australian Government, Department of Foreign Affairs and Trade, 16. janúar 2023);
  • Freedom in the World 2022 – Iraq (Freedom House, 28. febrúar 2022);
  • International Protection Considerations with Regard to People Fleeing the Republic of Iraq (UNHCR, maí 2019);
  • Iraq: Relevant COI for Assessments on the Availability of the Internal Flight or Relocation Alternative (IFA/IRA)(UNHCR, 12. apríl 2017);
  • Iraq – Targeting of Individuals (European Union Agency for Asylum, janúar 2022);
  • Relevant Country of Origin Information to Assist with the Application of UNHCR’s Country Guidance on Iraq - Ability of Iraqis to Legally Access and Settle Durably in Proposed Areas of Internal Relocation (UNHCR, nóvember 2022);
  • Sixteenth report of the Security-General on the threat posed by ISIL (Da’esh) to international peace and security and the range of United Nations efforts in support of Member States in countering the threat (UN Security Council, 1. febrúar 2023);
  • The World Factbook – Iraq (Central Intelligence Agency, uppfært 13. mars 2023);
  • UNHCR Fact Sheet – Iraq (UNHCR, 13. febrúar 2022);
  • Upplýsingasíða United States Institute of Peace (Iraq Timeline: Since the 2003 War United States Institute of Peace (usip.org), sótt 30. mars 2023) og
  • World Report 2023 – Iraq (Human Rights Watch, 12. janúar 2023).

Írak er lýðræðisríki með tæplega 40 milljónir íbúa. Árið 1945 gerðist Írak aðili að Sameinuðu þjóðunum og fullgilti ríkið bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1971. Ríkið fullgilti samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1986, alþjóðsamning um vernd allra gegn mannshvörfum árið 2010 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2011.

Samkvæmt upplýsingasíðu leyniþjónustu Bandaríkjanna eru flestir Írakar arabar, n.t.t. 75-80%, og Kúrdar eru u.þ.b. 15-20%. Önnur þjóðarbrot séu til að mynda Túrkmenar, Yezidi, Shabak, Kaka´I og Bedouin. Í skýrslu EASO frá janúar 2021 kemur fram að Túrkmenar séu þriðja stærsta þjóðarbrotið í Írak. Séu Túrkmenar bæði súnní og síja múslimar.

Á vefsíðu Friðarstofnunar Bandaríkjanna (e. United States Institute of Peace) kemur fram að eftir að Saddam Hussein var steypt af stóli árið 2003, hafi nýir leiðtogar Íraks átt í erfiðleikum með að marka lýðræðislega stefnu eftir áratuga einræði og hafi einkum tvær aðgerðir átt veigamikinn þátt í því. Í fyrsta lagi hafi ákvörðun Bandaríkjanna um að útiloka Baath-flokkinn, sem hafi lengi verið við völd og hvernig það hafi verið útfært, frá stjórn ríkisins skapað pólitískt tómarúm. Í öðru lagi hafi sú aðgerð að leysa upp her landsins og útiloka hundruð þúsunda þjálfaðra manna frá störfum við varnir ríkisins, án þess að koma á fót öðrum valkostum, skilið eftir öryggistóm. Í kjölfarið hafi Írak mátt þola borgarastyrjöld, pólitíska ringulreið, víðtæka spillingu, spennu á milli flokka og öfgahópa sem hafi hertekið þriðjung landsins. Við þessa atburði hafi hið pólitíska valdajafnvægi sem ríkt hefði undir stjórn súnníta um aldir riðlast verulega. Sjítar hafi krafist forsætisráðuneytisins og haft nægilegt vald til að stjórna helstu ráðuneytum. Þá hafi í fyrsta skipti verið kúrdískur forseti í Írak og urðu Kúrdar, sem lengi höfðu krafist sjálfsstjórnar frá Bagdad, hluti af ríkinu. Stjórnarskráin viðurkenni sjálfstjórn Kúrdistan héraðs (KRG) og formlega stöðu Pehmerga herafla hennar. Súnnítar, sem höfðu drottnað yfir ríkinu undir stjórn Saddams, hafi haldið lykilstöðu forseta þingsins en misst aðrar valdastöður. Árið 2011 ákváðu Bandaríkin að hverfa frá Írak með samkomulagi við stjórnvöld í Bagdad um að þau myndu innlima súnníta í íröksku öryggissveitirnar til að halda aftur af starfsemi sértrúarsafnaða. Íröksk stjórnvöld hafi hins vegar ekki fylgt því eftir að ráða minnihlutahópi súnníta í sína þjónustu og það hafi leitt til þess að öfgasamtökin Islamic State in Iraq (ISI) hafi endurskipulagt sig og fengið til liðs við sig þúsundir súnníta innan og utan Íraks, þar á meðal fyrrverandi stjórnarhermenn. Árið 2013 hafi hernaður samtakanna færst yfir til Sýrlands og endurnefndu þau sig sem Islamic State in Iraq and Syria (ISIS). Samtökin séu einnig þekkt sem ISIL (Islamic State in Iraq and the Levant (ISIL)) og Daesh (hér eftir verður notað Daesh). Fram kemur að hersveitir Daesh hafi hertekið Al Fallujah borg í Al Anbar héraði í desember 2013 og hafi írakski herinn, þrátt fyrir mun fleiri meðlimi, fallið í kjölfarið. Í júní 2014 hafi Daesh náð þriðjungi landsins á sitt vald og hafi leiðtogi Daesh, Abu Bakr al-Baghdadi, lýst yfir stofnun íslamsks ríkis í Mósúl, næststærstu borg Íraks, og nefnt sig kalífa. Á árunum 2015 til 2017 hafi írakskar öryggissveitir, kúrdískar Peshmerga-sveitir og PMF sveitir, studdar af flugherjum frá bandalagi undir forystu Bandaríkjanna, smám saman náð landsvæðum frá Daesh. Í desember 2017 lýsti Haider al-Abadi forsætisráðherra yfir sigri gegn Daesh.

Í skýrslu EUAA frá 2022 kemur fram að Daesh hafi ekki náð yfirráðum yfir frekara landsvæði síðan en reyni að festa sig í sessi á óaðgengilegum svæðum svo sem í dölum, fjöllum, eyðimörkum og á norður- og miðsvæði landsins. Þá hafi einhver starfsemi hópsins verið skráð í Al Anbar, Ninewa, Erbil, Bagdad beltinu, Diyala, Kirkuk og Salah al-Din. Baráttan um frelsun Mósúl frá Daesh sem hafi hafist í október 2016 hafi staðið yfir í níu mánuði og valdið gríðarlegri eyðileggingu borgarinnar. Frá því lýst var yfir sigri gegn Daesh í desember 2017 hafi samtökin háð skæruhernað með minna móti. Árásum hafi fækkað á seinni hluta árs 2020 en aukist á ný árið 2021, en fjöldi þeirra hafi þó haldist tiltölulega lágur. Flestar árásir í Ninewa héraði hafi verið ætlaðar til þess að halda óbreyttum borgurum og öryggissveitum frá því svæði sem helsta starfsemi samtakanna fari fram. Flestar árásir samtakanna í Ninewa árið 2021 hafi verið á raforkukerfið í héraðinu. Daesh noti svæði í Ninewa sem séu með litla viðveru öryggissveita sem eins konar flutningamiðstöð og treysti á afskekktar bækistöðvar á eyðimerkursvæðum til að hýsa bardagamenn og koma á fót stjórnstöðvum. Hópur meðlima Daesh dvelji leynilega meðal þeirra sem séu skotmörk samtakanna og bíði eftir tækifæri eða fyrirmælum um að fremja árás. Meirihluti árása Daesh í Ninewa hafi átt sér stað innan umdæmis Mósúl. Samkvæmt gögnum ACLED hefur mannfall óbreyttra borgara árin 2021 og 2022 verið mjög lítill hluti af heildarfjölda íbúa og verulega lægri en á þeim tíma sem átök áttu sér stað milli stjórnarhers Íraks og Daesh á árunum 2014 til 2017.

Af skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2023 má ráða að spilling sé mikið vandamál í Írak, þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu af hálfu embættismanna í landinu og eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum. Í upplýsingaskýrslu EEAS frá árinu 2014 kemur fram að á tímabilinu 2005 til 2013 hafi íröksk stjórnvöld unnið í samstarfi við Evrópusambandið að umbótum á stofnunum ríkisins, svo sem lögreglu, dómstólum og fangelsum landsins. Áætlunin nefnist The European Union Integrated Rule of Law Mission for Iraq (EUJUST-LEX-Iraq) og hafi m.a. 7000 opinberir starfsmenn undirgengist þjálfun í því skyni að koma á skilvirkri laga- og mannréttindavernd í landinu.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2022 um trúfrelsi kemur fram að Íslam sé hin opinbera trú í Írak. Um 97% íbúa Íraks séu múslimar og flestir þeirra séu síja-múslimar eða um 55-60% íbúa landsins. Þá séu um 40% íbúa landsins súnní-múslimar en um 15% íbúa séu súnní-múslimskir Kúrdar og 24% súnní-múslimskir arabar. Síja-múslimar séu ráðandi í suður- og austurhlutum landsins auk þess sem flestir íbúar höfuðborgarinnar Bagdad séu síja-múslimar. Íbúar norður-og vesturhluta landsins séu flestir súnní-múslimar sem og íbúar miðsvæðisins, þó að undanskilinni Bagdad. Íslam, kristni, Sabaean-mandaen, jasídi séu einu trúarbrögðin sem geti verið tilgreind á írökskum skilríkjum, en skilríki útgefin árið 2016 og síðar beri ekki með sér hverrar trúar handhafi sé. Í skýrslu Landinfo frá 2018 kemur fram að í íröksku samfélagi séu einstaklingar skilgreindir út frá þeim trúarhópum sem þeir fæðist inn í og að litið sé með vanþóknun á trúleysi. Þá kemur fram í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2021 að það hafi verið einstök tilvik í Írak þar sem meðlimir trúarlegra minnihlutahópa hafi verið beittir ofbeldi eða drepnir en þau tilvik megi ekki alltaf rekja til trúarbragða viðkomandi. Einstaklingar sem skipti úr íslam yfir í aðra trú kunni að mæta erfiðleikum innan fjölskyldu sinnar og samfélags, s.s. að verða útskúfaðir, hótað lífláti eða jafnvel drepnir. Mögulegar afleiðingar af trúskiptum séu breytilegar milli ættbálka og einstakra fjölskyldna.

Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2021 um súnní-múslima kemur fram að dæmi séu um að írakski stjórnarherinn hafi misnotað súnní-múslima, m.a. með beitingu gerræðislegra handtaka, varðhalds og þvingaðra mannshvarfa, pyndinga og annarrar vanvirðandi meðferðar vegna meintra tengsla þeirra eða stuðnings við Daesh. Þá séu dæmi um að sveitir PMU (e. Popular Mobilization Forces) hafi tekið þátt í mannránum, fjárkúgunum, morðum, pyndingum súnní-múslima og eyðileggingu eigna þeirra á grundvelli ásakana um tengsl þeirra við Daesh, einkum á þeim svæðum sem áður hafi verið undir stjórn samtakanna. Samkvæmt framangreindri skýrslu breska innanríkisráðuneytisins er þó meðferð írakskra yfirvalda á súnní-múslimum almennt ekki nægilega alvarleg í eðli sínu og endurtekningu til að hún geti talist ná þeim þröskuldi að teljast ofsóknir eða ómannúðleg eða vanvirðandi meðferð nema einstaklingur geti sýnt fram á að atvik sem tengist honum persónulega setji hann í aukna hættu, t.a.m. ætluð tengsl við Daesh.

Í framangreindum skýrslum, þ. á m. skýrslu EUAA frá 2022, er fjallað um erfiða stöðu kvenna í Írak. Fram kemur að efnahagsþvinganir og langvarandi átök hafi leitt til þess að lífsgæði þeirra hafi farið versnandi. Karllæg gildi séu ríkjandi í Írak og skortur sé á umræðu um réttindi kvenna og getu þeirra til að taka frekar þátt í samfélaginu. Konur séu jaðarsettar á mörgum sviðum samfélagsins og hafi mætt margvíslegum hindrunum, þ. á m. hvað varðar aðgengi að vinnumarkaði og heilbrigðiskerfi. Þá hafi margvísleg mannréttindabrot beinst að konum, þ. á m. kynferðis- og heimilisofbeldi, kynfæralimlestingar, heiðursmorð og þvinguð hjónabönd. Konur hafi veigrað sér við að leita aðstoðar lögregluyfirvalda vegna þessa, m.a. vegna viðmóts yfirvalda í garð kvenna, og séu málin því oft leyst innan viðkomandi fjölskyldu eða ættbálks. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2023 og skýrslu EUAA frá 2022 virða íröksk lög og venjur almennt ekki ferðafrelsi kvenna og koma lög t.a.m. í veg fyrir að þær geti sótt um vegabréf án samþykkis karlkyns forráðamanns eða lögmanns. Þá geti konur ekki fengið útgefin persónuskilríki, sem krafist sé fyrir aðgang að opinberri þjónustu, mataraðstoð, heilsugæslu, atvinnu, menntun og húsnæði, án samþykkis karlkyns ættingja. Konur í Írak séu berskjaldaðar fyrir ýmis konar misnotkun af hálfu vinnuveitenda. Einstæðar og fráskildar konur, ekkjur og konur á vergangi séu sérstaklega viðkvæmar fyrir félagslegum fordómum, efnahagslegri misnotkun, mismunun í tengslum við vinnuskilyrði og varnarlausar gagnvart nauðungarvinnu. Samkvæmt skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2022 hafi ótryggt félagshagfræðilegt ástand í Írak óhófleg áhrif á konur, ásamt fólki sem búi við fötlun, sem eigi oft erfiðara með að fá vinnu og lifa sjálfstætt sökum stofnana- og menningarlegra hindrana. Yfirvöld í Írak hafi gerst aðili að alþjóðlegum samningum um réttindi kvenna, s.s. samningi Sameinuðu þjóðanna frá 1986 um afnám allrar mismunar gagnvart konum (e. UN‘s Convention on the Elimination of All Forms of Discrimination Against Women, CEDAW), en hafi gert fyrirvara við nokkur af helstu ákvæðum samningsins. Þá hafi yfirvöld komið á fót aðgerðaráætlun um stöðu kvenna í Írak (e. National Action Plan concerning women for 2014-2018, NAP), sem byggð er á ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá 2014. Fyrrnefnd aðgerðaráætlun hafi átt að ná fram því markmiði að auka þátttöku kvenna í stjórnmálum og bæta réttindi þeirra en skort hafi á útfærslu og framkvæmd áætlunarinnar.

Í skýrslu EUAA frá árinu 2021 kemur fram að um 150 ættbálkar séu í Írak. Allt að 80% íbúa í Írak séu meðlimir ættbálka eða hafi tengsl við ættbálk. Ættbálkar í Írak séu gjarnan þungvopnaðir og hafi tekið þátt í innanlandsátökum. Einstaklingar sem fari ekki að vilja ættbálka sinna geti átt það á hættu að vera vísað á brott úr ættbálknum, vera útskúfað eða jafnvel drepin. Þá geti einstaklingar sem fari ekki að menningarlegum, samfélags- eða trúarlegum venjum ættbálks átt refsiaðgerðir á hættu, s.s. fjárhagsþvinganir. Í sömu skýrslu kemur fram að einstaklingar sem fylgi ekki hefðum og venjum samfélagsins í Írak og hegði sér á “vestrænan” hátt kunni að verða fyrir ofbeldi og hótunum, þá einkum konur. Síja hersveitir hafi framfylgt ströngum reglum um klæðaburð, þ. á m. í Bagdad og Basra, og hafi ráðist á konur sem þeir telji að séu klæddar á óviðeigandi hátt eða séu án andlitsslæðu (a. hijab).

Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2021 um heilbrigðiskerfið í Írak kemur fram að stjórnarskrá landsins tryggi ríkisborgurum aðgang að heilbrigðiskerfi landsins. Heilbrigðiskerfið í Írak hafi hafi sætt gagnrýni, m.a. fyrir skort á starfsfólki, lyfjum og almennu aðgengi. Þá sé aðgangur að heilbrigðisþjónustu takmarkaður og mismunandi eftir landsvæðum. Meirihluti heilsugæslustöðva og almennra sjúkrahúsa séu staðsettur í þéttbýli og geti ríkisborgarar þar sótt sér heilbrigðisþjónustu, m.a. geðheilbrigðisþjónustu, gegn vægu gjaldi. Flestar heilbrigðisstofnanir séu í Bagdad og þar á eftir komi héröðin Ninewa, Najaf og Basra. Þá sé einkarekin heilbrigðisþjónusta í vexti í landinu auk þess sem ýmis frjáls félagasamtök vinni með stjórnvöldum að því að tryggja aðgengi fyrir fólk á innri flótta sem og fólk sem snýr til baka til Íraks eftir að hafa flúið heimaríki sitt.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir á því að hún hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í Írak sem rekja megi til þess að hún sé súnní-múslimi sem íröksk yfirvöld bendli ranglega við hryðjuverkasamtökin Daesh. Fyrrverandi eiginmaður kæranda hafi verið handtekinn og honum haldið föngnum í tíu daga eða þar til fjölskylda hans hafi náð að greiða lausnargjald fyrir hann. Jafnframt hafi þrír bræður kæranda verið handteknir og hún og fjölskylda hennar viti ekki hvar þeir séu eða hvort þeir séu á lífi þar sem fjölskyldan hafi ekki haft tök á að greiða lausnargjald. Kærandi byggir jafnframt á því að hún sé í hættu í heimaríki sínu vegna kyns síns, en hún sé einstæð og fráskilin kona.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hennar hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Framburður kæranda hefur í meginatriðum verið stöðugur og var kærandi að mestu leyti samkvæm sjálfri sér í frásögn sinni um ástæður flótta síns frá Írak í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Frásögn kæranda um aðstæður í Mósúl og meðferð írakskra yfirvalda gagnvart súnní-múslimum fær jafnframt stoð í þeim heimildum sem kærunefnd hefur skoðað. Af gögnum er ljóst að fjöldi súnní-múslimskra karlmanna hafi verið ranglega bendlaðir við Daesh á undanförnum árum, einkum á þeim tíma er mikil upplausn og átök áttu sér stað í Írak á árunum 2014 til 2018, þ. á m. í Mósúl í Ninewa þar sem kærandi hafði búsetu. Með vísan til framangreindra upplýsinga um heimaríki kæranda verður frásögn hennar um að fyrrverandi eiginmaður hennar og bræður hafi verið handteknir og að krafist hafi verið lausnargjalds gegn lausn þeirra úr haldi árið 2018 ekki dregin í efa. Þá er ljóst að súnní-múslimar hafa sætt mismunun og fordómum að ákveðnu marki af hálfu írakskra stjórnvalda þó að sú mismunun verði almennt ekki talin ná því marki að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr., sbr. 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst hafa gengið í hjúskap að íslömskum sið í Írak á meðan Daesh hafi farið með völd í Mósúl og því sé ólíklegt að hjúskapur þeirra hafi verið sérstaklega skráður hjá yfirvöldum. Þá kveðst kærandi ekki hafa fengið neina pappíra í hendurnar varðandi hjúskap hennar og af þeim sökum hafi hún ekki getað fengið nein gögn um skilnað við eiginmann sinn í Grikklandi. Kærandi hefur greint frá því að fyrrverandi eiginmaður hennar hafi verið handtekinn vegna þátttöku hans í mótmælum í heimaríki og honum hafi síðan verið sleppt gegn greiðslu. Ekkert í frásögn kæranda eða gögnum málsins bendir þó til þess að hann sé eftirlýstur af írökskum stjórnvöldum í dag. Með vísan til framangreinds telur kærunefnd ekki sýnt fram á að óskrásett tengsl kæranda við fyrrverandi eiginmann hennar muni leiða til þess að hún eigi á hættu að verða handtekinn vegna tengsla við hann. Þá hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að kærandi sjálf hafi verið ranglega bendluð við hryðjuverkasamtökin Daesh og eigi af þeim sökum á hættu að sæta ofsóknum af hálfu írakskra yfirvalda. Ennfremur bera heimildir með sér að geðþóttahandtökur írakskra yfirvalda hafi einkum beinst að karlmönnum. Þrátt fyrir að bræður kæranda hafi verið handteknir er ekkert sem bendir til þess að kærandi eigi á hættu að verða handtekin eða beitt áreiti eða annarri meðferð sem nái því marki að teljast ofsóknir af hálfu stjórnvalda vegna fjölskyldutengsla hennar, enda liggur fyrir að foreldrar kæranda og tveir bræður eru búsett í Mósúl. Hefur ekkert komið fram í frásögn kæranda sem bendir til þess að hún eða fjölskylda hennar séu berskjaldaðri en aðrir súnní-múslimar í sambærilegri stöðu og kærandi fyrir ofsóknum írakskra yfirvalda. Þau gögn sem kærunefnd hefur skoðað bera með sér að almennar aðstæður í Mósúl hafi breyst til batnaðar frá þeim tíma sem kærandi bjó þar síðast árið 2017. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hún eigi á hættu ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga sem rekja megi til þess að hún sé súnní-múslimi og muni verða ranglega bendluð við hryðjuverkasamtökin Daesh í heimaríki sínu, sbr. d- og e-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Auk framangreinds ber kærandi fyrir sig að hún eigi á hættu ofsóknir í Írak sem rekja megi til þess að hún sé kona. Þrátt fyrir slæma stöðu kvenna í Írak eru aðstæður kvenna samkvæmt skýrslu EUAA frá 2022 ekki slíkar að allar konur teljist hafa ástæðuríkan ótta við ofsóknir á grundvelli kyns síns. Einstaklingsbundið mat þurfi að fara fram í hverju og einu tilfelli þar sem tekið sé tillit til ýmissa áhættuþátta sem setji konuna í sérstaka hættu á að sæta ofsóknum. Kærandi lýsti almennt slæmri stöðu kvenna í Írak í viðtali hjá Útlendingastofnun en að mati kærunefndar bar frásögn hennar ekki með sér að hún hafi sætt meðferð í heimaríki sínu eða eigi hana á hættu sem geri hana útsettari fyrir ofsóknum en aðrar konur í sambærilegri stöðu og hún. Kærandi á auk þess fjölskyldu í heimaríki, föður, móður og tvo bræður og hefur því stuðning karlkyns ættingja í heimaríki. Telur kærunefnd að aðstæður fráskilinna kvenna í Írak séu ekki nægilega alvarlegar til að þær geti talist til ofsókna í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Er það því mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hún eigi á hættu ofsóknir á grundvelli kyns síns í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. sömu laga.

Kærandi telur að samsafn athafna eigi að leiða til þess að henni verði veitt alþjóðleg vernd, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hún hafi ástæðuríkan ótta á að sæta ofsóknum á grundvelli trúarbragða, aðildar að þjóðfélagshópi og stjórnmálaskoðana. Líkt og að framan er rakið eru súnní múslimar í miklum meirihluta í Ninewa héraði og Mósúl borg. Þá hefur ekkert komið fram í málinu sem gefur til kynna að kærandi hafi orðið fyrir ofsóknum í heimaríki vegna framangreindra ástæðna eða eigi það á hættu. Í ljósi þess, og að virtum gögnum málsins, telur kærunefnd að samlegðaráhrif þeirra atriða sem kærandi hefur vísað til sem hugsanlegar ástæður ofsókna séu ekki þess eðlis eða nái því marki að hún teljist eiga á hættu ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi ástæðu til að óttast ofsóknir í heimaríki af öðrum ástæðum.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hún hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í framangreindum gögnum kemur fram að á árunum 2015 til 2017 hafi írakskar öryggissveitir, kúrdískar Peshmerga-sveitir og PMF sveitir, studdar af flugherjum frá bandalagi undir forystu Bandaríkjanna, smám saman náð landsvæðum frá Daesh og forsætisráðherra landsins hafi lýst yfir sigri gegn Daesh í desember árið 2017. Glæpahópurinn hafi einhverja viðveru í Ninewa, heimahéraði kæranda, en ítök þeirra séu ekki slík að þau teljist hafa stjórn á nokkru landsvæði innan héraðsins. Í skýrslu EUAA frá 2022 kemur fram að ofbeldisbrot Daesh í Ninewa beinist að mestu að raforkukerfi héraðsins og að tilgangur árása samtakanna sé helst sá að halda óbreyttum borgurum og öryggissveitum frá því svæði sem Daesh hafist við. Þá sé mannfall almennra borgara mjög lítill hluti af íbúum Ninewa og sé það verulega minna en á þeim tíma sem átök hafi átt sér stað milli stjórnarhers Íraks og Daesh. Í skýrslunni kemur fram að meirihluti íbúa í Ninewa séu súnní-múslimar en kærandi hefur greint frá því að tilheyra þeim trúarhópi. Af gögnum málsins verður ekki séð að kærandi muni verða í sérstakri hættu á að sæta ofsóknum í heimaríki sínu af hálfu meðlima hryðjuverkasamtaka sem hafi að einhverju leyti farið með stjórn á heimasvæði hennar í Ninewa fram til ársins 2017. Benda allar heimildir um Írak til þess að öryggisástand í landinu, þ.m.t. í heimahéraði kæranda, hafi breyst til batnaðar síðan kærandi yfirgaf landið árið 2017.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur lagst gegn endursendingum einstaklinga til Íraks sem koma frá þeim svæðum þar sem átök geisa, svæðum þar sem ástand er brothætt eða óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn Daesh samtakanna og þeim svæðum þar sem Daesh er enn við völd. Þá telur Flóttamannastofnun óráðlegt að senda einstaklinga frá slíkum svæðum til annarra svæða innan Íraks. Líkt og rakið er að framan í umfjöllun um aðstæður í Ninewa var héraðið frelsað undan yfirráðum Daesh árið 2017. Samtökin hafa þó haldið áfram hryðjuverkaárásum í héraðinu en í talsvert minna mæli. Nýlegar skýrslur um öryggisástand í héraðinu, þ. á m. skýrslur EUAA frá 2022 og breska utanríkisráðuneytisins frá nóvember 2022, benda til þess að öryggisástandið í héraðinu hafi batnað þó nokkuð frá því að Flóttamannstofnun gaf út framangreinda afstöðu árið 2019 og sé nú nokkuð stöðugt einkum í stærri borgum í héraðinu. Samkvæmt skýrslu EUAA frá 2022 eiga írakskir ríkisborgarar sem snúa aftur til Ninewa héraðs almennt ekki á hættu að sæta alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá benda framangreindar heimildir um aðstæður í Írak til þess að lögregla og öryggissveitir hafi að mestu leyti stjórn á aðstæðum í Ninewa.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hennar þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar þess efnis að veita henni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða verði staðfest. Aðstæður einstæðra kvenna í Írak séu bágbornar og gæti kærandi átt erfitt með að sjá sér farboða sem einstæð kona þar í landi. Þá væri félagsleg staða hennar sem fráskilin kona í landinu veik.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir í athugasemdunum að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum.

Kærandi hefur greint frá því að staða kvenna sé bág í Írak. Kvaðst kærandi ekki hafa upplifað eðlilega æsku þar sem fjölskylda hennar hafi neytt hana í hjúskap þegar hún hafi verið 15 ára gömul með manni sem hafi síðar beitt hana líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi í Grikklandi. Kvað kærandi fjölskyldu sína hafa látið hana ganga í hjúskap því fólk hafi almennt óttast að stúlkum í Mósúl yrði rænt af meðlimum Daesh. Kvað hún líf sitt hafa stöðvast þegar hún hafi verið 15 ára gömul þar sem hún hafi þurft að vera með eiginmanni sínum. Hafi hún hætt í skóla þegar hún hafi verið í níunda bekk. Eiginmaður kæranda hafi skilið við hana í Grikklandi og hún sé því fráskilin í dag sem sé álitið skammarlegt í Írak. Greindi kærandi frá því að fráskildar konur fengju ekki að fara út án fylgdar og að þær séu almennt neyddar til að ganga aftur í hjónaband. Kærandi kvað samfélagið í Írak einkennast af karllægum gildum og að konur megi ekkert gera. Frásögn kæranda um stöðu kvenna í Írak fær vissan stuðning í þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað.

Kæranda var með ákvörðun Útlendingastofnunar veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Sjónarmið stofnunarinnar sem lögð voru til grundvallar þeirri niðurstöðu voru nokkuð hagfelld kæranda í ljósi aðstæðna hennar í heimaríki. Þar sem mat Útlendingastofnunar var byggt á málefnalegum sjónarmiðum verður með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fallist á niðurstöðu stofnunarinnar hvað þetta varðar.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndarinnar að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar um að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta