Mál nr. 176/2016
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 176/2016
Miðvikudaginn 25. janúar 2017
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.
Með kæru, dags. 9. maí 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. febrúar 2016 þar sem örorka var metin minni en 50% og var honum því synjað um örorkulífeyri og örorkustyrk.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 24. nóvember 2015. Með örorkumati, dags. 19. febrúar 2016, var umsókn kæranda synjað þar sem örorka var metin minni en 50%. Með bréfi, dags. 7. mars 2016, óskaði kærandi rökstuðnings fyrir ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins og var hann veittur með bréfi stofnunarinnar, dags. 21. mars 2016.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. maí 2016. Með tölvupósti sama dag óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 24. maí 2016, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar sama dag. Með tölvupósti 13. september 2016 bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær kynntar Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. september 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu, en ráða má af kæru að hann óski eftir því að synjun Tryggingastofnunar ríkisins verði felld úr gildi og umsókn hans um örorkulífeyri samþykkt.
Í kæru segir að kærandi sé með mikla hryggskekkju sem hefti hann mjög í daglegu amstri. Hann hafi stundað nám í B síðastliðin fjögur ár. Hann hafi byrjað í námi á [...] en þurft að skipta um braut þar sem hann hafi ekki getað klárað námið og enn síður unnið í faginu vegna líkamlegra annmarka. Honum hafi reynst erfitt að sitja og standa lengi í einu. Bak hans sé mjög stíft og hann eigi mjög erfitt með að beygja sig.
Kærandi eigi langa sjúkrasögu að baki. Hann hafi verið mikill fyrirburi og fyrstu árin verið mjög erfið og sett mark sitt á hann til dagsins í dag. Hann þurfi og hafi fengið sjúkra- og iðjuþjálfun frá fæðingu og tvisvar til þrisvar í viku allan uppvöxt sinn. Þeirri þjálfun sé að þakka stöðu hans í dag en sökum kostnaðar síðastliðið ár hafi hann þurft að skera niður þjálfun í eitt til tvö skipti á mánuði. Það sé engan veginn nóg og merkjanlegt líkamlega. Hann hafi verið „fatlaður“ sem barn og fengið nauðsynlega þjónustu en við átján ára aldur sé eins og það hafi þurft að byrja upp á nýtt á öllum sviðum. Kærandi hafi stundað vinnu á sumrin á [...]. Hann hafi getað sinnt léttum störfum, svo sem [...]. Það sé ljóst að hann búi við skerta starfsgetu og muni í framtíðinni ekki geta sinnt fullu starfi. Hann þurfi að fá niðurgreidda nauðsynlega þjálfun. Að sögn C bæklunarlæknis á Landspítala, geti hann haldið sér góðum með mikilli sjúkraþjálfun.
Kærandi sé vel gefinn og geti stundað nám. Hann glími við líkamlega hindrun og samkvæmt lögum eigi hann rétt á þjálfun við hæfi. Sumir þurfi aðstoðarmann með sér í vinnu, hvort sem það sé á leikskóla eða Alþingi. Allir eigi að sitja við sama borð.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að 24. nóvember 2015 hafi stofnunin móttekið umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Í gögnum málsins komi fram að hann stríði við hryggskekkju og hafi greinst með heilalömun á barnsaldri. Hann hafi fengið meðferð vegna athyglisbrests og auk þess fengið flog í þrjú skipti en sé nú á lyfjum og hafi ekki fengið flog síðan. Í læknisvottorði, dags. 20. október 2015, segi að ekki sé fyrirhuguð bæklunaraðgerð vegna hryggskekkju en kærandi muni vera áfram í eftirliti hjá bæklunarlækni og heimilislækni. Kærandi hafi verið að sækja þjálfun einu sinni í viku og þyrfti að fara oftar með tilheyrandi kostnaði. Kærandi sækist eftir að minnsta kosti 20% örorku á grunni færniskerðingar vegna hryggskekkju.
Kærandi stundi nám í B og stefni á stúdentspróf í X. Hann æfi […] þrisvar sinnum í viku og syndi að lágmarki tvo kílómetra á æfingu.
Með hinu kærða örorkumati hafi kæranda verið synjað um örorkulífeyri þar sem skilyrði til staðals um hæsta örorkustigs var ekki uppfyllt. Færni kæranda til almennra starfa hafi virst skert en þó ekki að hálfu leyti og örorka því metin minni en 50%. Örorka kæranda hafi því verið metin minni en 50% og hann því hvorki átt rétt á örorkulífeyri né örorkustyrk.
Við örorkumatið hafi verið stuðst við staðal samkvæmt reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat en honum sé skipt í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá fimmtán stig í líkamlega hlutanum en tíu stig í þeim andlega til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki, þó nægi að umsækjandi fái sex stig í hvorum hluta fyrir sig. Kærandi hafi fengið níu stig fyrir líkamlega þáttinn en fyrri saga og upplýsingar sem komu fram í viðtali skoðunarlæknis hafi ekki bent til þess að um væri að ræða andlega erfiðleika eða geðrænan heilsuvanda. Hann hafi verið í meðferð vegna athyglisbrests án ofvirkni frá sjö til átta ára aldri. Hvorki hafi komið fram kvartanir á því sviði né vísbending um andlega færniskerðingu.
Við skoðun með tilliti til staðals hafi komið fram að kærandi geti ekki setið nema eina klukkustund án þess að neyðast til að standa upp, stundum ekki beygt sig eða kropið til að taka pappírsblað upp af gólfinu og rétt sig upp aftur og ekki staðið nema í þrjátíu mínútur án þess að ganga um.
Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem metnir séu til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilegra viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur.
Heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.
Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar.
Fjallað sé um framkvæmd örorkumats í reglugerð um örorkumat. Samkvæmt 1. og 2. gr. reglugerðarinnar meti Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sæki um örorkubætur frá stofnuninni samkvæmt staðli sem byggður sé á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 með reglugerðinni.
Tryggingastofnun ríkisins hafi lagt heildarmat á þau gögn sem liggi fyrir í máli þessu. Eins og að framan hafi verið rakið hafi kærandi ekki uppfyllt hæsta stig örorku. Hann hafi hlotið níu stig fyrir líkamlega hlutann og ekkert fyrir andlega þáttinn þar sem fyrri saga og þær upplýsingar sem fram komu í viðtali hjá skoðunarlækni hafi ekki bent til þess að um væri að ræða andlega erfiðleika eða geðrænan heilsuvanda.
Þá hafi kærandi ekki hlotið örorkustyrk þar sem örorka hans hafi verið metin minni en 50% og út frá gögnum málsins virðist kærandi hafa þó nokkra starfsgetu þar sem hann virðist stunda fullt nám, æfa […] og hafa eitthvað unnið með skóla.
Tryggingastofnun ríkisins telji ekki ástæðu til að meta kæranda utan staðals, sbr. 4. gr. reglugerðar um örorkumat, þar sem um undantekningarákvæði sé að ræða sem skýra verði þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki sé í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um hvenær ákvæðið eigi við, en þar sem 18. gr. mæli fyrir um staðlað mat, verði að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi vísað til þess að heimilt sé að beita undantekningarákvæðinu sé líkamleg og andleg færni svo mikið skert að augljóst sé að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða að fötlun hans verði jafnað til þess. Stofnunin telji kæranda ekki falla þar undir.
Með hliðsjón af framangreindu sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu. Hin kærða ákvörðun hafi byggt á faglegum sjónarmiðum og gildandi lögum og reglugerðum.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. febrúar 2016. Umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað og honum ekki metinn örorkustyrkur. Ágreiningur snýst um hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar eða eftir atvikum örorkustyrk samkvæmt 19. gr. sömu laga.
Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins að tilteknum skilyrðum uppfylltum veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.
Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkubætur samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkubætur frá stofnuninni samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 með reglugerðinni. Samkvæmt fylgiskjalinu fjallar fyrri hluti örorkustaðalsins um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni. Þar leggjast öll stig saman og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki nái hann sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.
Með umsókn kæranda um örorkulífeyri fylgdi vottorð D, dags. 20. október 2015, en samkvæmt því eru sjúkdómgreiningar kæranda: „Scoliosis, mjóbaksverkur, unspecified behavioural and emotional disorders with onset usually occurring in c[hildhood and adolescene], og other epliepsy“. Þá er sjúkrasögu lýst svo:
„Er greindur með mikla hryggskekkju […]. Þessu fylgir verkir í baki, sérstaklega ef hann þarf að standa til lengri tíma. Einnig mikill stirðleiki í baki og mjöðmum sem gerir sumar athafnir erfiðar svo sem að beygja sig fram og teygja sig eftir hlutum. Hefur til langs tíma verið 1 sinni í viku í sjúkraþjálfun sem hefur gert honum gott og gerir honum kleypt að stunda skóla og vinna á sumrin.“
Um skoðun á kæranda 20. október 2015 segir í vottorðinu:
„Kemur skoðun er um hraustlega útlítandi X ára kk að ræða, kemur vel fyrir, hreyfingar eðlilegar en áberandi stirðlegar. Það er áberandi hægri convex hryggskekkja og mismunandi útstæðir mjaðmakambar. Gríðarlega stirður í hreyfingum, fingur-gólf fjarlægð við beygju fram á við léleg og vantar trúlega um 50 cm á að fingurgómar nemi við gólf, hliðarsveigur einnig stirðar og vantar nokkuð að hann nái niður að hnéliðslínu sér í lagi hæ megin. Nokkuð rauður að sjá á handleggjum. Eðlilegir kraftar og kraftar handleggjum og ganglimum bæði proximalt og distalt. Laseque neikvætt. Babinski ekki til staðar. Hressileg hné- og ökklaviðbrögð bilateralt. Hjarta- og lungnahlustun án athugasemda.“
Samkvæmt vottorðinu var kærandi metinn vinnufær. Í athugasemdum í vottorðinu segir að kærandi hafi hingað til verið í þjálfun einu sinni í viku og þyrfti ef til vill að fara oftar með tilheyrandi kostnaði. Hann sækist því að minnsta kosti eftir 20% örorku á grunni færniskerðingar vegna hryggskekkju sem myndi tryggja niðurgreiðslu vegna sjúkraþjálfunar-kostnaðar.
Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar, dags. 20. október 2015, sem hann skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að hann sé með 33% hryggskekkju og flogaveiki. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að standa upp af stól svarar hann þannig að það sé stundum erfitt. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að beygja sig eða krjúpa svarar hann þannig að hann eigi erfitt með framsveigju um mjöðm og liðleiki í baki sé lítill. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi í erfiðleikum með að standa þannig að hann fái verki í bak við að standa lengur en í klukkustund. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að teygja sig eftir hlutum svarar hann þannig að það sé oftast erfitt, hann sé svo stífur í baki. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera þannig að það sé mjög erfitt og nefnir bakverki. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með meðvitundarmissi svarar hann þannig að hann hafi ekki fengið flogakast síðastliðna tólf mánuði, hann sé á lyfjum. Að lokum svarar kærandi spurningu um það hvort hann eigi við geðræn vandamál að stríða neitandi.
Skýrsla E skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hann að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins 5. febrúar 2016. Samkvæmt skýrslunni telur skoðunarlæknir að kærandi geti ekki setið nema eina klukkustund án þess að neyðast til að standa upp. Kærandi geti stundum ekki beygt sig eða kropið til að taka pappírsblað upp af gólfinu og rétt sig upp aftur. Kærandi geti ekki staðið nema 30 mínútur án þess að ganga um. Kærandi hafi fengið ósjálfráðan meðvitundarmissi eða breytingu á meðvitund einu sinni undanfarin þrjú ár. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu samkvæmt örorkustaðli. Þá var andleg færni kæranda ekki metin af skoðunarlækni þar sem fyrri saga og þær upplýsingar sem komu fram í viðtali bentu ekki til þess að um væri að ræða geðræna erfiðleika. Fram kemur að hann hafi verið í meðferð vegna athyglisbrests án ofvirkni frá um X til átta ára aldri. Honum gangi vel í skóla og hvorki hafi komið fram kvartanir á þessu sviði né vísbendingar um andlega færniskerðingu.
Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun á kæranda þannig í skýrslu sinni:
„X sm, X kg. Göngulag eðlilegt. Hann situr í viðtali í 40 mínútur, rís upp án stuðnings. Eðlileg hreyfigeta í öxlum og hálsi. Þreifanlegt shunt undir húð hæ megin á hálsi. Hendur eðlilegar, kraftar og reflexar eðl. Mikil hryggskekkja með snúningi, mest áberandi convexitet til hæ um brjósthrygg. Stirður í frambeygju baks, vantar 15 sm á að fingur nemi við gólf. Getur farið niður á hækjur. Ekki áberandi eymsli í baki, stuttir hamstings. Líflegir reflexar í ganglimum. “
Um geðheilsu kæranda segir í skýrslunni að það sé saga um athyglisbrest en geðheilsa sé eðlileg. Í athugasemdum skýrslunnar segir að um sé að ræða ungan mann, fyrirbura með vægt CP, flog í bernsku og aftur fyrir tveimur árum. Færniskerðing vegna hryggskekkju og verkja í baki en ekki mjög mikil.
Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, metur örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu felst líkamleg færniskerðing kæranda í því að hann geti ekki setið meira en eina klukkustund án þess að neyðast til að standa upp, hann geti stundum ekki beygt sig eða kropið til að taka pappírsblað upp af gólfinu og rétt sig upp aftur, hann geti ekki staðið nema 30 mínútur án þess að ganga um og hafi fengið ósjálfráðan meðvitundarmissi eða breytingu á meðvitund einu sinni undanfarin þrjú ár. Hvert matsatriði gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðlinum að undanskildu því síðasta sem gefur ekki stig. Líkamleg færniskerðing kæranda er því samtals metin til níu stiga.
Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst sé að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar hefur ekkert komið fram sem bendir til að það eigi við í tilviki kæranda.
Úrskurðarnefndin leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Í örorkumatinu segir að kærandi stríði við hryggskekkju. Einnig hafi hann verið greindur með heilalömun á barnsaldri og fengið meðferð vegna athyglisbrests, auk þess sem hann hafi í þrjú skipti fengið flog. Hann sé í námi og hafi unnið sumarstörf.
Úrskurðarnefndin telur að niðurstöður, sem koma fram í áðurnefndri skoðunarskýrslu, séu í samræmi við gögn málsins og leggur hana því til grundvallar við úrlausn málsins. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þar sem kærandi fékk níu stig úr þeim hluta staðals sem varðar líkamlega færni og ekkert stig úr þeim hluta staðals sem varðar andlega færni, þá uppfylli hann ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat. Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðarinnar sem gerir ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðals.
Í umsókn um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er tekið fram að hún verði meðhöndluð sem umsókn um örorkustyrk, séu skilyrði örorkulífeyris ekki uppfyllt.
Með lögum nr. 62/1999 var 12. gr. þágildandi laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, sbr. núgildandi 18. gr. laga nr. 100/2007, breytt og ákveðið að skilyrði örorkulífeyris skyldu metin samkvæmt læknisfræðilegu örorkumati með hliðsjón af fyrrgreindum staðli en samkvæmt ákvæðinu hafði verið horft til skerðingar á starforku. Í 19. gr. núgildandi laga um almannatryggingar er kveðið á um örorkustyrk og hefur ákvæðið staðið óbreytt frá fyrri almannatryggingalögum. Hvorki verður ráðið af lögum nr. 62/1999 né lögskýringargögnum að breyta hafi átt reglum um skilyrði örorkustyrks að þessu leyti og því telur úrskurðarnefnd að styðjast eigi við mat á starfsorkuskerðingu, þ.e. skerðingu á getu til að afla vinnutekna, við mat á örorkustyrk.
Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi stundað nám í menntaskóla og stefndi á útskrift X. Fram hafa komið upplýsingar um að hann hafi unnið á [...] yfir sumartíma. Þá kemur fram í læknisvottorði D, dags. 20. október 2015, það mat læknis að kærandi sé vinnufær. Úrskurðarnefnd telur gögn málsins því ekki benda til þess að kærandi búi við örorku sem sé 50% eða meiri, enda verður hvorki ráðið að hann hafi verið í skertu námi né skertu starfshlutfalli. Þegar af þeirri ástæðu fellst úrskurðarnefnd á synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um örorkustyrk.
Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið hér að framan er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri og örorkustyrk staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og örorkustyrk er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir