Úrskurður nr. 198 Makabætur
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú r s k u r ð u r.
Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.
A kærir til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins um áframhaldandi greiðslu makabóta. Kæran er móttekin 4. júlí 2006.
Óskað er endurskoðunar.
Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi naut greiðslna makabóta vegna sjúkdóms maka. Þegar kærandi náði 67 ára aldri sótti hann um ellilífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun og féllu þá makabætur til hans niður. Þegar ljóst var að með greiðslu ellilífeyris í stað makabóta lækkuðu samanlagðar mánaðarlegar greiðslur til kæranda og maka hans afturkallaði kærandi umsókn um ellilífeyri og óskaði þess í stað eftir makabótum frá Tryggingastofnun. Með bréfi Tryggingastofnunar dags. 9. júní 2006 til kæranda var tilkynnt að stofnunin teldi ekki heimilt að greiða honum makabætur þar sem ekki væri gert ráð fyrir að makabætur væru greiddar í þeim tilvikum þegar hjón eiga bæði rétt til lífeyris samkvæmt almannatryggingalögum.
Í rökstuðningi fyrir kæru segir m.a.:
„Með bréfi 16. maí 2002 voru mér úrskurðaðar makabætur með afturvirkri greiðslu frá l. janúar 2001, vegna sjúkleika konu minnar sem þarfnast mikillar umönnunar sökum síversnandi M.S sjúkdóms. Í bréfi frá Tryggingarstofnun dags. janúar 2006 var mér tjáður réttur minn til töku ellilífeyris vegna 67 ára aldurs. Áður en ég skilaði inn umsókn þar að lútandi leitaði ég upplýsinga hjá fulltrúa stofnunarinnar að Laugavegi 114. Ég spurði sérstaklega um áhrif töku ellilífeyris á aðar greiðslur og var tjáð að ellilífeyrisgreiðslur myndu ekki skerða þáverandi greiðslur til okkar hjóna. Á þeim forsendum sótti ég um ellilífeyri.
Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins dags. 24. febrúar 2006 kom hins vegar í ljós að umsókn mín um ellilífeyri orsakaði rúmlega 40 þúsund króna lækkun á sameiginlegum bótum okkar hjóna. Af mér voru teknar makabæturnar kr. 55.049.00 í stað þess greidd ellilaun kr. 22.873.00 og tekjutrygging kr.16.351.00. Lækkun nemur kr.15.825.00. Hjá konu minni B var tekjutryggingin lækkuð um kr. 25.516.00 úr kr. 43.710.00 í kr.18.194.00.
Þegar í ljós komu afleiðingar umsóknarinnar um ellilífeyri afturkallaði ég hana með bréfi til Tryggingarstofnunar dags. 3. apríl 2006 og óskaði eftir að mér yrðu áfram greiddar makabætur og að konan héldi tekjutryggingunni óbreyttri. Það gerði ég með vísan m.a. til 3. mgr. 43. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar þar sem segir: „Ef maður á rétt á fleiri tegundum bóta en einni sem ekki geta farið saman má hann taka hærri eða hæstu bæturnar. " Lög skylda engan til móttöku ellilífeyris en skv. 1. mgr. 11. gr laga um almannatryggingar segir að “Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára og eldri...”
Í svarbréfi Tryggingarstofnunar dags. 9. júní 2006 kemur fram:
"Í 5.gr. laga 118/1993 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum er til staðar heimild til greiðslu makabóta og umönnunarbóta, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þar kemur fram að heimild sé, ef sérstakar aðstæður séu fyrir hendi, að greiða maka elli- eða örorkulífeyrisþega makabætur, sem eru allt að 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu almannatrygginga. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur sett reglur nr. 407/2002 um framkvæmd ákvæðisins. Í 1. gr. reglanna er tekið fram, líkt og í lagaákvæðinu, að makabætur skuli greiddar til maka elli- eða örorkulífeyrisþega að uppfylltum nánar tilteknum „skilyrðum þar um”.
Í bréfi Tryggingastofnunar var ekki tekin afstaða til óskar minnar um afturköllun ellilífeyris og henni ekki svarað. Tryggingastofnun hafnar hins vegar greiðslu makabóta á grundvelli þess að þar sem ég og eiginkona mín séu nú bæði lífeyrisþegar sé ekki lengur heimilt að greiða mér makabætur og vísa þar til 5. gr. laga um félagslega aðstoð. Ekki er hins vegar unnt að sjá að í lögum, hvorki lögum um félagslega aðstoð né lögum um almannatryggingar, séu ákvæði sem koma í veg fyrir greiðslu makabóta vegna töku lífeyris.
Að lokum vil ég benda á að í 7.gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993...er stjórnvöldum gert skylt að "...veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess”. Á leiðbeiningaskyldu þessari er sérstaklega hnykkt í almannatryggingalögum þar sem segir í 4. mgr. 47. gr. að "Starfsfólk Tryggingastofnunar og umboðsmenn hennar skulu kynna sér til hlítar aðstæður umsækjenda og bótaþega og gera þeim grein fyrir ýtrasta rétti þeirra samkvæmt lögum þessum, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar". Verður ekki annað séð að bæði þessi lagaákvæði hafi verið brotin við meðferð máls okkar hjóna. Umrædd staða væri ekki komin upp ef starfsmenn Tryggingarstofnunar hefðu uppfyllt leiðbeiningarskyldu sína.“
Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 5. júlí 2006 eftir greinargerð Tryggingastofnunar. Greinargerðin er dags. 21. ágúst 2006. Þar segir m.a.:
„Í bréfi kæranda til Tryggingastofnunar, dags. 3. apríl s.l., afturkallaði hann umsókn sína um ellilífeyrisgreiðslur og fór fram á að í staðinn yrði honum greiddar makabætur vegna sjúkdóms eiginkonu hans.
Í 5. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, er til staðar heimild til greiðslu makabóta og umönnunarbóta, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þar kemur fram að heimilt sé, ef sérstakar aðstæður séu fyrir hendi, að greiða maka elli- eða örorkulífeyrisþega makabætur, sem eru allt að 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu almannatrygginga. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur sett reglur nr. 407/2002 um framkvæmd ákvæðisins. Í 1. gr. reglnanna er tekið fram, líkt og í lagaákvæðinu, að makabætur skuli greiddar til maka elli- eða örorkulífeyrisþega, að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum þar um.
Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum, kemur fram að rétt til ellilífeyris eigi þeir sem eru 67 ára eða eldri og uppfylla búsetuskilyrði laganna. Tryggingastofnun lítur svo á að þar sem kærandi og eiginkona hans eru nú bæði lífeyrisþegar þá sé ekki lengur heimilt að greiða kæranda áfram makabætur, þar sem bæði 5. gr. laga um félagslega aðstoð og reglur settar með stoð í því ákvæði geri ráð fyrir því að makabætur greiðist maka elli- eða örorkulífeyrisþega. Þannig sé ekki gert ráð fyrir því að makabætur greiðist í þeim tilvikum þegar hjón eiga bæði rétt til lífeyris samkvæmt almannatryggingalögum.
Í kæru er því haldið fram að upplýsingar af hálfu fulltrúa í þjónustumiðstöð Tryggingastofnunar hafi verið ófullnægjandi. Ekki þykir unnt að fullyrða um hvað kann að hafa farið á milli kæranda og viðkomandi starfsmanns á þeim tíma og hvaða skilningur hafi verið lagður í þær upplýsingar sem veittar voru. Hins vegar telur Tryggingastofnun, með hliðsjón af því sem að framan er rakið, ekki heimilt að verða við kröfu kæranda um áframhaldandi greiðslu makabóta.“
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 23. ágúst 2006 og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.
Niðurstaða úrskurðarnefndar:
Mál þetta varðar heimild kæranda til afturköllunar á umsókn um ellilífeyri til Tryggingastofnunar og synjun stofnunarinnar um áframhaldandi greiðslu makabóta.
Í kæru kemur fram að kærandi hafi á tímabilinu frá 1. janúar 2001 fengið greiddar makabætur vegna sjúkleika konu hans. Með bréfi Tryggingastofnunar dags. í janúar 2006 hafi honum verið kynntur réttur til ellilífeyris vegna 67 ára aldurs. Kveðst kærandi þá hafa kannað hjá Tryggingastofnun hvort umsókn um ellilífeyri hefði áhrif á samanlagða fjárhæð bóta til þeirra hjóna en honum hafi verið tjáð að ellilífeyrisgreiðslur myndu ekki skerða aðrar greiðslur til þeirra. Hafi hann þess vegna sótt um ellilífeyri. Þegar taka lífeyris hófst hafi bætur til þeirra hjóna hins vegar lækkað og hafi kærandi þá afturkallað umsókn um ellilífeyri. Segir í kæru að ekki hafi verið tekin afstaða til afturköllunar á umsókn um ellilífeyri heldur eingöngu tekið fram að stofnunin teldi sér ekki heimilt að greiða makabætur þar sem kærandi og maki hans væru nú bæði ellilífeyrisþegar.
Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að með bréfi kæranda dags. 3. apríl 2006 hafi hann afturkallað umsókn um ellilífeyri og jafnframt óskað eftir að greiddar yrðu makabætur vegna sjúkdóms eiginkonu hans. Vísað er til 5. gr. laga nr. 118/1193 um félagslega aðstoð sem mæli fyrir um heimild til greiðslu makabóta. Einnig er vísað til reglna nr. 407/2002 sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti hafi sett um framkvæmd ákvæðisins. Í lagaákvæðinu og 1. gr. reglnanna komi fram að makabætur skuli greiddar til maka elli- eða örorkulífeyrisþega, að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum þar um. Í greinargerðinni er svo vísað til 1. mgr. 11. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar þar sem fram kemur að þeir sem eru 67 ára eða eldri og uppfylli búsetuskilyrði laganna eigi rétt til ellilífeyris. Ekki sé gert ráð fyrir að makabætur greiðist í þeim tilvikum þegar hjón eiga bæði rétt til lífeyris samkvæmt almannatryggingalögum.
Að mati úrskurðarnefndar er það rétt túlkun Tryggingastofnunar að ekki geti farið saman makabætur og greiðslur ellilífeyris. Tilgangur með greiðslu makabóta var í upphafi að koma til móts við þá sem hefðu skertar eða engar atvinnutekjur vegna þess að þeir væru bundnir heima við vegna veikinda maka.
Í 1. málsl. 5. gr. laga nr. 118/1993 segir orðrétt:
„Heimilt er, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða maka elli- eða örorkulífeyrisþega makabætur sem eru allt að 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu almannatrygginga.“
Um ellilífeyri er fjallað í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 117/1993:
„Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára eða eldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla A, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs.“
Í kæru kemur fram að Tryggingastofnun hafi ekki tekið afstöðu til afturköllunar kæranda á umsókn um ellilífeyri. Honum hafi eingöngu verið synjað um makabætur þar sem hann og kona hans séu nú bæði ellilífeyrisþegar og telji stofnunin sér ekki heimilt við slíkar aðstæður að greiða makabætur. Ekki er komið fram að kærandi hafi að öðru leyti ekki lengur uppfyllt skilyrði fyrir greiðslu makabóta.
Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 117/1993 er einungis kveðið á um rétt til ellilífeyris en ekki skyldu. Að mati úrskurðarnefndar var sú staða uppi þegar kærandi uppfyllti aldursskilyrði ákvæðisins að hann gat valið hvort hann fengi ellilífeyri eða héldi makabótum. Kærandi tók ákvörðun um að sækja um ellilífeyri eftir að hafa fengið upplýsingar um að slíkt hefði ekki áhrif á þær bætur sem hann og kona hans fengu þá greiddar. Kærandi afturkallaði svo umsókn um ellilífeyri þegar ljóst var að samanlagðar bætur til hans og maka lækkuðu.
Í 1. málsl. 3. mgr. 43. gr. laga nr. 117/1993 segir: „Ef maður á rétt á fleiri tegundum bóta en einni sem ekki geta farið saman má hann taka hærri eða hæstu bæturnar.“
Úrskurðarnefndin telur með vísan til 3. mgr. 43. gr. laga nr. 117/1993 að kæranda hafi verið heimilt að velja á milli þess hvort hann vildi fá áframhaldandi greiðslur makabóta eða hefja töku ellilífeyris, þ.e. að velja hærri bæturnar.
Afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins er hnekkt. Kæranda er heimiluð afturköllun umsóknar um ellilífeyri og skal fara fram leiðrétting á greiðslum til hans frá því tímamarki þegar hann fékk fyrstu greiðslu ellilífeyris, þ.e. 1. mars 2006
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Viðurkenndur er réttur A, til makabóta frá 1. mars 2006.
F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga
___________________________________
Friðjón Örn Friðjónsson,
formaður