Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 23. október 2006
Mánudaginn 23. október 2006 var tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 12/2006
Vegagerðin
gegn
Jónasi Jóhannssyni
og kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r :
I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:
Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur og Benedikt Bogason, dómstjóri, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.
II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:
Með matsbeiðni dags. 28. júní 2006, sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 7. júlí 2006, óskað Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, (eignarnemi) eftir því að matsnefndin mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á 16,67% eignarhlut í 3,08 ha. landspildu úr landi Drápuhlíðar-Ytri. Þá er einnig krafist mats á 16.700 m³ af jarðefni sem skiptist þannig að 10.100 m³ eru fyllingarefni en 5.600 m³ burðarlagsefni. Hið eignarnumda malarefni er allt tekið úr fyrirhuguðu vegstæði. Eigandi hins eignarnumda er Jónas Jóhannsson, kt. 160551-4379, Hraunbæ 178, Reykjavík, en aðrir sameigendur hans að jörðinni hafa samið við eignarnema um bætur vegna eignarnámsins.
Eignarnámið er til komið vegna færslu Snæfellsvegar og byggingu nýrrar brúar yfir Gríshólsá. Eignarnámið styðst við heimild í 45. gr. vegalaga nr. 45/1994.
III. Málsmeðferð:
Föstudaginn 7. júlí 2006 var mál þetta fyrst tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta. Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum. Málinu var að því búnu frestað til vettvangsgöngu.
Þriðjudaginn 22. ágúst 2006 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður kannaðar. Sættir voru reyndar en án árangurs. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerða og annarra gagna af hálfu aðila.
Föstudaginn 1. september 2006 var málið tekið fyrir. Þá höfðu nefndinni borist gögn til framlagningar frá eignarnema og voru þau lögð fram. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar gagna af hálfu eignarnámsþola.
Föstudaginn 29. september 2006 var málið tekið fyrir. Voru þá lögð fram gögn af hálfu eignarnámsþola. Matsnefndin taldi ekki þörf á munnlegum flutningi málsins fyrir nefndinni og var það því tekið til úrskurðar að framlagningunni lokinni.
IV. Sjónarmið eignarnema:
Eignarnemi kveður hið nýja vegstæði vera það hagkvæmasta sem mögulegt er á þessu svæði út frá vegtæknifræðilegu, umferðaröryggislegu og kostnaðarlegu sjónarmiði. Af þessum sökum hafi ekki verið fallist á þá kröfu eignarnámsþola að færa veginn, þó vissulega hafi tillaga eignarnámsþola í því sambandi verið rækilega könnuð.
Eignarnemi kveðst hafa freistað þess að bjóða eignarnámsþola ákveðið verð fyrir landið sem færi undir nýja veginn að frátöldu því malarefni sem hann gæti nýtt sér úr vegstæðinu. Þannig kveðst eignarnemi hafa boðið eignarnámsþola kr. 100.000 pr. ha. lands, kr. 8,00 pr. m³ fyrir fyllingarefni og kr. 24,00 pr. m³ burðarlagefnis. Þá hafi hann að auki boðið kr. 40.000- fyrir rask og óhagræði. Hlutur eignarnámsþola í boðnum bótum var því 16,67% af kr. 563.200- eða kr. 93.852-. Þessu tilboði hafi eignarnámsþoli hafnað.
Eignarnemi gerir þá kröfu að bætur fyrir hið eignarnumda verði ekki metnar hærri en sem nemur framangreindu tilboði hans til eignarnámsþola. Miðað verði við að hið eignarnumda land hefði að öðrum kosti verið nýtt sem efnistökustaður utan markaðssvæða. Gerir eignarnemi þá kröfu að einungis verði ákvarðað verð fyrir landið og með í því hljóti að fylgja réttur hans til að nýta það malarefni sem á því er.
Eignarnemi bendir á að hin fyrirhugaða framkvæmd sé minniháttar og hafi óverulegt rask í för með sér sem breyti engu um framtíðarnot hins eignarnumda lands. Því sé öll aðstaða til búskapar og annarrar nýtingar jarðarinnar óskert á eftir. Eignarnemi kveður fasteignamat jarðarinnar vera kr. 139.000- fyrir utan ræktað land, en 2,4 ha. ræktaðs lands á jörðinni séu kr. 105.000- að fasteignamati.
Eignarnemi telur fram boðnar bætur vera fullnaðarbætur fyrir hið eignarnumda, samtals um kr. 170.000- pr. ha., að teknu tilliti til greiðslu fyrir malarefnið. Telur hann að það verð sé í samræmi við fyrri úrskurði Matsnefndar eignarnámsbóta auk þess sem aðrir eigendur jarðarinnar samþykktu það, sem hljóti að gefa vísbendingu um að það sé ásættanlegt verð.
Eignarnemi vísar til nánar tilgreindra úrskurða Matsnefndar eignarnámsbóta til stuðnings sjónarmiðum sínum í málinu.
Eignarnemi mótmælir þeirri kröfu eignarnámsþola að eignarnámið skuli ná til stærri spildu en gerð er krafa um. Eignarnámsþoli geti ekki með þeim hætti losað sig við spildur á landi sínu sem hann vilji ekki. Þá mótmælir eignarnemi einnig kröfu eignarnámsþola um að honum verði gert að greiða sérstaklega fyrir jarðefni auk þess að greiða fullt verð fyrir landspilduna sjálfa. Eignarnemi telur að miða eigi við að malarefnið sé utan markaðssvæða þegar verð fyrir hið eignarnumda er ákvarðað. Eignarnemi kveðst fallast á að greiða kr. 40.000- fyrir rask og annað óhagræði sem framkvæmdin hefur í för með sér fyrir eignarnámsþola.
V. Sjónarmið eignarnámsþola:
Eignarnámsþoli gerir þá kröfu aðallega að bætur til hans skuli nema kr. 2.702.285-, til vara er þess krafist að bætur verði metnar kr. 422.162- og til þrautavara kr. 332.844-. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.
Sundurliðun eignarnámsþola á aðalkröfu er þannig:
3,08 ha. lands x kr. 433.334- kr. 1.334.667-
Nýtanlegt malarefni undir vegsvæði,
meðaldýpt 2 m.x kr. 70- x 3,08 ha. kr. 4.312.000-
Samtals kr. 5.646.667-
Rask og óhagræði kr. 352.133-
Samtals kr. 5.998.800-
Hlutdeild eignarnámsþola er kr. 16.67% eða kr. 1.000.000-
Varakrafa eignarnámsþola sundurliðast þannig:
3,08 ha. lands x kr. 433.334- kr. 1.334.667-
Nýtanlegtmalarefni undir vegsvæði,
16.540 m³ x kr. 70 kr. 1.157.800-
Samtals kr. 2.492.467-
Rask og óhagræði kr. 40.000-
Samtals kr. 2.532.467-
Hlutdeild eignarnámsþola er kr. 16.67% eða kr. 422.162-
Þrautavarakrafa eignarnámsþola sundurliðast eins og varakrafan nema þar er krafist kr. 50 pr. m³ fyrir burðarlagsefni og kr. 15 pr. m³ fyrir fyllingarefni.
Til viðbótar ofangreindum fjárhæðum gerir eignarnámsþoli kröfu til að eignarnema verði gert að taka eignarnámi 5,57 ha. spildu neðan vegar. Hlutdeild hans í þeirri spildu sé kr. 1.702.285- eða 16.67% af kr. 10.211.670-. Framangreind fjárhæð er þannig sundurliðuð af eignarnámsþola:
Landbætur 5,57 ha. x kr. 433.334- kr. 2.413.670-
Malarefni 55.700 m² x 2 m. x kr. 70 kr. 7.798.000-
Samtals kr. 10.211.670-
Eignarnemi gerir þá kröfu að við verðmatið verði miðað við að nýtanlegt malarefni undir hinum nýja vegi muni ónýtast við veglagninguna og því beri eignarnema að greiða fyrir það tjón sem eignarnámsþoli verði fyrir vegna þessa. Telur eignarnámsþoli í þessu sambandi eigi að miða við að nýtanlegt efni á vegsvæðinu sé 2 m. þykkt.
Eignarnámsþoli telur hið eignarnumda land vera fyrirtaks ræktunarland. Telur hann hæfilegt verð pr. ha. sé kr. 400.000- miðað við byggingarvísitölu í febrúar 2006, en uppreiknað nemi sú fjárhæð nú kr. 433.334- pr. ha.
Varðandi bætur fyrir malarefnið bendir eignarnámþoli á að hann hafi fengið tilboð um kr. 70 pr. m³ beint úr námu frá fyrirtækinu Berglín ehf. Þá sé í gildi samningur frá árinu 2002. Samkvæmt þeim samningi sé fastagreiðsla kr. 50.000- á ári auk þess sem kr. 35,00 eru greiddar pr. m³. Teknir hafi verið 650 m³ á árinu 2003 sem geri kr. 112 pr. m³ og 250 m³ á árinu 2004 sem geri kr. 235 pr. m³. Eignarnámsþoli telur því einsýnt að malarnáman sé á markaðssvæði, enda sé hún nærri Stykkishólmi. Til stuðnings þessu bendir eignarnámsþoli á að efni úr námunni hafi m.a. verið nýtt sem sand og malarefni að hitaveiturörum þegar hitaveita var lögð til Stykkishólms.
Eignarnámsþoli gerir sérstaka kröfu um að eignarnámið nái einnig til 5,57 ha. spildu neðan hins fyrirhugaða vegar. Telur eignarnámsþoli að þetta land muni ekki nýtast honum til malartöku í framtíðinni þar sem ólíklegt sé að honum verði heimilað að opna nýja námu þar, en nú sé það svæði hluti af námu sem þegar er opin og því sé ekki þörf á sérstöku leyfi vegna malartökunnar. Eignarnámsþoli bendir á að hefði eignarnemi fallist á ágætis tillögu hans um færslu vegarins hefði mátt komast hjá því tjóni sem hann verði fyrir á svæðinu fyrir neðan hinn fyrirhugða veg.
VI. Niðurstaða:
Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Stærð og lega hinnar eignarnumdu spildu er ágreiningslaus með aðilum. Fyrir liggur að malarefni það sem eignarnemi mun nýta vegna veglagningarinnar er allt tekið úr hinni eignarnumdu spildu. Ekki er fallist á það með eignarnámsþola að greiða þurfi sérstaklega fyrir það efni, heldur er verðmæti hinnar eignarnumdu spildu ákvarðað með tilliti til þeirra gæða sem á henni eru og munu nýtast eignarnema.
Eignarnámsþoli hefur lagt fram gögn er sýna að efni hefur verið selt úr námunni þó eftirspurnin sé greinilega ekki mjög mikil. Náman telst því að einhverju leyti vera á markaðssvæði.
Ekki er fallist á það með eignarnámsþola að gera eignarnema að greiða að auki fyrir 5,57 ha. spildu neðan hins fyrirhugaða vegar. Ekkert liggur fyrir um að það land muni, þrátt fyrir hina fyrirhuguðu veglagningu, verða á einhvern hátt lakara miðað við það sem nú er.
Hin eignarnumda spilda er nærri þéttbýlinu á Stykkishólmi og telst að auki innan þess svæðis sem áhrifa Reykjavíkursvæðisins gætir hvað verðlag snertir. Að öllu framangreindu virtu þykir hæfilegt verð fyrir hina eignarnumdu spildu vera kr. 250.000 pr. ha. eða samtals kr. 770.000- auk samtals kr. 250.000- fyrir rask og óhagræði vegna framkvæmdar eignarnema. Fyrir liggur að eignarnámsþoli er eigandi 16,67% landsins og því ákvarðast eignarnámsbætur til hans í máli þessu kr. 170.034-.
Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþola kr. 320.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna matsmáls þessa og kr. 600.000- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.
ÚRSKURÐARORÐ:
Eignarnemi, Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, greiði eignarnámsþola, Jónasi Jóhannssyni, kt. 160551-4379, Hraunbæ 178, Reykjavík, kr. 170.034- í eignarnámsbætur og kr. 320.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna matsmáls þessa.
Þá skal eignarnemi greiða kr. 600.000- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta að máli þessu.
_________________________________
Helgi Jóhannesson
___________________________ ______________________________
Benedikt Bogason Ragnar Ingimarsson