Mál nr. 14/2006
Þriðjudaginn, 27. júní 2006
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.
Þann 7. mars 2006 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 1. mars 2006.
Kært var mat Tryggingastofnunar ríkisins á starfshlutfalli við ákvörðun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, sem tilkynnt var með bréfi stofnunarinnar dagsett 5. janúar 2006.
Í kæru kemur fram að kærandi telur það starfshlutfall sem Tryggingastofnun ríkisins reiknaði með sé ekki rétt og vill að útreikningur á hlutfalli tekna fyrir októbermánuð 2004 verði endurskoðaður. Vísar kærandi til þess að hún hafi verið með yfir 100% tekjur þann mánuð. Óskar kærandi eftir því að tekið verði tillit til allra teknanna en ekki einungis upp að 100% við útreikning hlutfalls.
Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:
„Kæranda var tjáð á sínum tíma að tekjum sem sjálfstætt starfandi yrðu alltaf dreift yfir allt tekjutímabilið en svo var ekki gert í þessu tilfelli. Ég vitna í 2 reglugerðir frá fæðingarorlofssjóði.
Reglugerð um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks 11.2 grein. Sé foreldri ekki í sama starfshlutfalli á sex mánaða samfelldu tímabili fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur skal miða við meðaltal starfshlutfalls yfir tímabilið þó má foreldri aldrei vera í minna en 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði, sbr. 1. mgr. 4. gr.
Lög um fæðingar- og foreldraorlof IV. kafli 13. gr. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði.“
Með bréfi, dagsettu 9. mars 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.
Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 2. maí 2006. Í greinargerðinni segir meðal annars:
„Í 2. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Í lokamálslið 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, sem er til fyllingar lagaákvæðinu, segir að jafnframt teljist til launa þær greiðslur sem koma til samkvæmt a. - d. liðum 3. gr. reglugerðarinnar.
Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof segir enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði, aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Þessu til fyllingar segir í 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 að meðaltal heildarlauna miðist við þann fjölda mánaða á umræddu viðmiðunartímabili sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar.
Í 5. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna segir síðan að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris skuli nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hafi verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil og kveðið er á um í 2. mgr. Samhljóða ákvæði er að finna í 3. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.
Þá er í 4. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar tekið fram að mánaðarleg greiðsla til foreldris sem hefur bæði verið starfsmaður og sjálfstætt starfandi skuli nema 80% af meðaltali heildartekna skv. 2. og 3. mgr. greinarinnar.
Í 4. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna er kveðið á um að uppfylli starfsmaður skilyrði 1. mgr. en hafi ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili samkvæmt 2. mgr. skuli hann öðlast rétt til lágmarksgreiðslna samkvæmt 6. mgr. í samræmi við starfshlutfall hans. Í 6. mgr. 13. gr. eru lágmarksgreiðslur til foreldra í fæðingarorlofi tilgreindar eftir starfshlutfalli.
Í 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er kveðið á um starfshlutfall. Þar segir í 1. mgr. að þegar meta eigi starfshlutfall starfsmanns samkvæmt 6. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof skuli fara eftir fjölda vinnustunda foreldris á mánuði á sex mánaða samfelldu tímabili fyrir fæðingardag barns. Síðan segir í 5. mgr. að þegar meta eigi starfshlutfall sjálfstætt starfandi foreldris skuli fara eftir viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu á því ári sem um ræðir. Þá segir enn fremur í 2. mgr. að sé foreldri ekki í sama starfshlutfalli á sex mánaða samfelldu tímabili fyrir fæðingardag barns skuli miða við meðaltal starfshlutfalls yfir tímabilið. Þá megi foreldri aldrei vera í minna en 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.
Barn kæranda er fætt þann 24. janúar 2005. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna er því frá 24. júlí fram að fæðingardegi barnsins.
Á skattframtali kæranda árið 2005 vegna tekjuársins 2004 taldi kærandi fram reiknað endurgjald að fjárhæð X kr., án þess að hafa verið skráð sem sjálfstætt starfandi í tiltekinn starfaflokk. Lífeyristryggingasvið féllst á að framtalið reiknað endurgjald hennar væri vegna starfa hennar í júlí 2004 við vefsíðugerð fyrir B. og taldi jafnframt að heimfæra mætti þessi störf kæranda samkvæmt leiðbeiningum ríkisskattstjóra undir starfaflokk E (2), þar sem gert var ráð fyrir að mánaðarlaun væru að lágmarki X kr. árið 2004. Á þessum grundvelli reiknaðist lífeyristryggingasviði að starfshlutfall kæranda í júlí 2004 hefði verið 31%, sbr. 5. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.
Samkvæmt staðfestingu D, dags. 19. desember 2005, starfaði kærandi í 45 klukkustundir bæði í ágúst og september 2004, sem samkvæmt 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 telst vera 26% starf.
Af hálfu lífeyristryggingasviðs var kærandi á grundvelli launaseðla reiknuð í 100% starfi í október 2004. Vegna röksemda kæranda í kæru hennar skal tekið fram að lög um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, með síðari breytingum, gera ekki ráð fyrir foreldri sé í meira en 100% starfi, sbr. ákvæði 6. mgr. 13. gr. laganna.
Þá var kærandi samkvæmt launaseðli í 42% starfi í nóvember 2004 og samkvæmt upplýsingum úr skrám ríkisskattstjóra um tekjur hennar frá sama vinnuveitandanum í nóvember og desember 2004 leit lífeyristryggingasvið svo á sem kærandi hefði einnig verið í 42% starfi í desember 2004.
Niðurstaða lífeyristryggingasviðs var því sú að á grundvelli framlagðra gagna og upplýsinga úr skrám skattyfirvalda uppfyllti kærandi framangreind skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði um að hafa starfað samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði.
Þar sem starfshlutfall kæranda var breytilegt á sex mánaða samfelldu tímabili fyrir fæðingardag barns hennar var reiknað meðaltal starfshlutfalls hennar yfir tímabilið, sbr. framangreint ákvæði 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Meðaltal starfshlutfalls kæranda á umræddu sex mánaða tímabili reiknaðist samkvæmt framangreindu vera 44,5%.
Því var það niðurstaða lífeyristryggingasviðs að greiða skyldi kæranda lágmarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eins og þær eru ákvarðar í 6. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaga, sbr. 7. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 1148/2005, fyrir foreldra í 25-49% starfi.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið telur lífeyristryggingasvið að greiðslur til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði hafi réttilega verið ákvarðaðar í bréfi, dags. 5. janúar 2006.“
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 15. maí 2006, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kæra varðar mat Tryggingastofnunar ríkisins á starfshlutfalli við ákvörðun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 (ffl.), sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingaorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði.
Samkvæmt 5. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil og kveðið er á um í 2. mgr. Að öðru leyti gildi 2.-4. mgr. eins og við geti átt. Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks skal mánaðarleg greiðsla til foreldris sem hefur bæði verið starfsmaður og sjálfstætt starfandi nema 80% af meðaltali heildartekna.
Í 4. mgr. 13. gr. ffl. segir að þegar starfsmaður uppfylli skilyrði 1. mgr. en hafi ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. skuli hann öðlast rétt til lágmarksgreiðslna skv. 6. mgr. í samræmi við starfshlutfall hans. Í 6. mgr. 13. gr. ffl. er kveðið á um lágmarksgreiðslur í fæðingarorlofi annars vegar lágmarksgreiðslu til foreldris í 25-49% starfi og hins vegar til foreldris í 50-100% starfi.
Kærandi ól barn 24. janúar 2005. Viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna eru því árin 2003 og 2004. Árið 2003 voru laun hennar samkvæmt skattframtali samtals X kr. en í fylgibréfi með umsókn kveðst kærandi hafa lokið námi í ársbyrjun 2004. Árið 2004 voru laun hennar í skilningi ffl. launatekjur X kr., atvinnuleysisbætur X kr. og reiknað endurgjald X kr. Ljóst er að kærandi var ekki á vinnumarkaði allt viðmiðunartímabilið og óumdeilt er að henni beri lágmarksgreiðsla skv. 6. mgr. 13. gr. ffl. í samræmi við starfshlutfall hennar.
Í 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um hvernig meta skuli starfshlutfall foreldris. Þar segir í 1. mgr. að þegar meta eigi starfshlutfall starfsmanns skv. 6. mgr. 13. gr. ffl. skuli fara eftir fjölda vinnustunda foreldris á mánuði á sex mánaða samfelldu tímabili fyrir fæðingardag barns. Foreldri sem unnið hafi 86-172 vinnustundir á mánuði teljist vera í 50-100% starfi en foreldri sem unnið hafi 43-85 stundir á mánuði teljist vera í 25-49% starfi. Þó skuli jafnan taka tillit til fjölda vinnustunda sem teljast fullt starf samkvæmt kjarasamningi. Síðan segir í 5. mgr. 5. gr. að þegar meta eigi starfshlutfall sjálfstætt starfandi foreldris skuli fara eftir viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu á því ári sem um ræðir. Þá segir í 2. mgr. 5. gr. að sé foreldri ekki í sama starfshlutfalli á sex mánaða samfelldu tímabili fyrir fæðingardag barns skuli miða við meðaltal starfshlutfalls yfir tímabilið. Þó megi foreldri aldrei vera í minna en 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.
Samkvæmt gögnum málsins var kærandi í breytilegu starfshlutfalli á viðmiðunartímabilinu frá júlí til desember 2004. Þarf því að reikna meðaltal starfshlutfalls hennar yfir tímabilið. Kærandi var ekki skráð sem sjálfstætt starfandi hjá skattyfirvöldum en taldi fram í skattframtali vegna tekjuársins 2004 reiknað endurgjald 60.000 kr. sem samkvæmt gögnum málsins var fyrir störf í júlí 2004 að vefsíðugerð fyrir B. Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála er sammála þeirri aðferð Tryggingastofnunar ríkisins að heimfæra þau störf kæranda undir starfaflokk E (2) í leiðbeiningum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald. Samkvæmt því er starfshlutfall hennar sem sjálfstætt starfandi í júlí 2004 32,4%.
Samkvæmt staðfestingu D starfaði kærandi 45 stundir bæði í ágúst og september 2004 sem gerir 26,2% hvorn mánuð sbr. 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Í nóvember og desember 2004 er starfshlutfall kæranda hjá E, samkvæmt launaseðli 42%. Samkvæmt staðfestingu D starfaði kærandi 20 stundir á tímabilinu 1. til 6. október 2004 sem gerir 11,6% starfshlutfall. Í október starfaði hún einnig hjá F en samkvæmt launaseðli er ekki tilgreindur fjöldi vinnustunda eða starfshlutfall og jafnframt starfaði hún hjá E þar sem tilgreint starfshlutfall samkvæmt launaseðli var 22%. Miðað við að kærandi hafi verið í 100% starfi í október 2004 er meðalstarfshlutfall hennar 44,8% á tímabilinu júlí til desember 2004. Gögn málsins staðfesta ekki að kærandi hafi verið í meira en 100% starfi í október 2004. Þegar af þeirri ástæðu er ekki unnt að verða við kröfu kæranda um breytingu á mati á starfshlutfalli hennar þann mánuð.
Með hliðsjón af framanrituðu er mat Tryggingastofnunar ríkisins á starfshlutfalli við ákvörðun greiðslu til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Mat Tryggingastofnunar ríkisins á starfshlutfalli við ákvörðun greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði til A í fæðingarorlofi er staðfest.
Guðný Björnsdóttir
Heiða Gestsdóttir
Gunnlaugur Sigurjónsson