Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 41/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 41/2023

Föstudaginn 14. apríl 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 19. janúar 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 27. desember 2022, vegna umsóknar hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 20. október 2022, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna væntanlegrar fæðingar barns þann X. febrúar 2023. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 27. desember 2022, var fallist á umsókn kæranda. Í greiðsluáætlun kom fram að mánaðarleg greiðsla til hennar yrði 415.877 kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 19. janúar 2023. Með bréfi, dags. 20. janúar 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 2. febrúar 2023, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. febrúar 2023. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi óskað eftir og fært rök fyrir því að mánuðirnir ágúst 2021 til janúar 2022 yrðu ekki teknir með í viðmiðunartímabili útreiknings á greiðslum frá sjóðnum. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun hafi beiðni hennar verið hafnað.

Ástæða beiðninnar hafi verið sú að á þessu tímabili hafi kærandi enn verið í meistaranámi við Háskóla Íslands og útskrifast í febrúar 2022 eins og komi fram í fylgiskjali með staðfestum námsferli. Þá vísar kærandi í upplýsingar á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs þar sem stendur:

„Foreldrar sem hafa t.d. verið í meira en 10 ECTS námi, starfandi erlendis eða í minna en 25% starfi gætu átt rétt á því að fá mánuði undanskilda við útreikning á greiðslum og þannig hækkað greiðslur til sín í fæðingarorlofi.“ 

Á þessu tímabili hafi kærandi óskað eftir því að ekki yrði tekið til viðmiðunar að hún hafði verið í 10 ECTS eininga námi. Eftir að kærandi hafi sent inn umsókn þar sem hún hafi bent á umræddan texta á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs hafi klausunni verið breytt og þá tekið fram að: „Foreldrar sem hafa t.d. verið í meira en 10 ECTS námi og í minna en 25% starfi.“ Þessi breyting hafi þó verið gerð eftir að kærandi hafi sent inn sína umsókn þar sem hún vitni beint í þessa klausu en í svarbréfi hafi ekki verið minnst á að þessu hafi verið breytt.

Væru þessir mánuðir teknir frá séu þó eftir sex mánuðir til viðmiðunar, þ.e. febrúar 2022 til júlí 2022, og falli því innan löglegra marka líkt og fram komi á heimasíðu Fæðingarorlofsjóðs: „Aldrei skal þó miða við færri mánuði en 4 við útreikninginn.“

Því fari kærandi fram á að gengið verði út frá þeim upplýsingum sem Fæðingarorlofssjóður hafi gefið út á heimasíðu sinni á þeim tíma sem hún hafi sent inn sína umsókn og að þeir mánuðir sem hún hafi verið skráð í 10 ECTS eininga nám eða meira verði dregnir frá viðmiðunartímabilinu.

Kærandi kveðst hafa verið í 60% stöðu þessa mánuði sem hún óski eftir að dregnir verði frá þar sem hún hafi einnig verið í námi. Yfirmenn á B hafi ekki verið tilbúnir að veita henni fulla stöðu fyrr en hún kláraði námið. Þá hafi C einungis verið tilbúinn að lána henni 38.687 krónur samanlagt fyrir alla önnina eins og sjá megi á lánsáætlun og því ekki mögulegt að lifa á námslánum. Síðan í febrúar 2022 hafi kærandi verið fastráðin og með ráðningarsamning en launin á því tímabili sem hún hafi verið námsmaður endurspegli engan veginn þau laun sem hún hefði verið með á því tímabili sem hún komi til með að vera í fæðingarorlofi.

Þá vísar kærandi í 25. gr. laganna um fæðingar- og foreldraorlof, nánar tiltekið:

„Þó er heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launahækkana sem rekja má til breytinga á störfum foreldris frá því að viðmiðunartímabili skv. 1.–3. mgr. 23. gr. lýkur og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris. Taka skal tillit til breytinga á framangreindu tímabili á sama hátt og gert er við útreikninga á meðaltali heildarlauna foreldris skv. 1.–3. mgr. 23. gr.“

Eins og sjáist á ráðningarsamningum kæranda fari hún úr því að vera með titilinn aðstoðarmaður í launaflokki 10-1 í það að vera sérfræðingur í 13-0 þann 1. febrúar 2022. Þessi breyting sé beintengd því að hún hafi klárað námið og farið beint í fulla stöðu sem sérfræðingur hjá stofnuninni með breyttri starfslýsingu. Síðan þá hafi kærandi fengið enn eina launahækkunina og sé nú í launaflokki 13-2. Breyting hafi því átt sér stað á störfum hennar frá viðmiðunartímabilinu og þar til fyrsti dagur fæðingarorlofs hófst. Því óski kærandi eftir því að litið verði til þeirra launa sem hún samkvæmt ráðningarsamningi hefði fengið væri hún ekki í fæðingarorlofi yfir þetta tímabil við mat á því hvort viðmiðunartímabilið verði stytt líkt og nefnt hafi verið í upphafi.

III.  Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærð sé ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn, dags. 20. október 2022, hafi kærandi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna fæðingar barns sem áætluð var þann X. febrúar 2023. Við vinnslu umsóknar kæranda hafi því verið miðað við áætlaðan fæðingardag þar til fæðingardagur barns lægi fyrir. Auk umsóknar kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hafi legið fyrir námsferilsyfirlit, dags. 7. janúar 2022, launaseðlar frá B vegna ágúst 2021 til janúar 2022 og frá D vegna ágúst 2021, ásamt upplýsingum úr skrám skattyfirvalda.

Í 1. mgr. 21. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er kveðið á um að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns eða fyrir þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. 

Óumdeilt sé að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 21. gr. ffl. og eigi tilkall til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði miðað við fyrirliggjandi gögn, sbr. bréf Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 27. desember 2022.

Ágreiningur málsins snúi að útreikningi greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði og þá um það hvort heimilt sé að undanskilja þá mánuði sem kærandi var í námi á viðmiðunartímabili greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, en óumdeilt sé að kærandi hafi jafnframt starfað sem starfsmaður á þeim mánuðum.

Í 1. mgr. 23. gr. ffl. kemur fram að mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna samkvæmt 4. og 5. mgr. og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex almanaksmánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann almanaksmánuð sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá almanaksmánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 22. gr., án tillits til þess hvort laun samkvæmt því ákvæði eða reiknað endurgjald samkvæmt 2. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri almanaksmánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Í 4. mgr. 23. gr. ffl. komi meðal annars fram að til launa á innlendum vinnumarkaði samkvæmt 1.-3. mgr. teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Jafnframt skuli telja til launa þau tilvik sem teljast til þátttöku á innlendum vinnumarkaði samkvæmt a-[f] lið[um] 2. mgr. 22. gr. Auk þess skuli telja til launa greiðslur samkvæmt a- og b-liðum 5. gr. laga nr. 88/2003 um Ábyrgðasjóð launa.

Í 5. mgr. 23. gr. ffl. sé kveðið á um að útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun afli um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila samkvæmt 1.–3. mgr.

Skilgreiningu á starfsmanni sé að finna í 4. tölul. 4. gr. ffl. en þar komi fram að starfsmaður sé foreldri sem vinnur launað starf í annarra þjónustu samfellt í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Hið sama gildir um foreldri samkvæmt 3. tölul. sem starfar við eigin rekstur samfellt í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í félagi sem það á 25% eða minni eignarhlut í.

Loks komi fram í 1. mgr. 22. gr. ffl. að fullt starf starfsmanns miðist við 172 vinnustundir á mánuði en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljist fullt starf.

Fæðingardagur barns kæranda hafi verið áætlaður X. febrúar 2023 og því hafi, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar þá mánuði sem kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði tímabilið ágúst 2021 til júlí 2022.

Í kæru geri kærandi þá kröfu að mánuðirnir ágúst 2021 til janúar 2022 verði undanskildir við útreikning á meðaltali heildarlauna hennar þar sem hún hafi verið í námi á þeim tíma. Á þessu tímabili hafi kærandi jafnframt verið starfsmaður og þegið greiðslur frá vinnuveitanda sínum, B, samkvæmt skrám skattyfirvalda, launaseðlum og staðfestingu kæranda sjálfrar. Samkvæmt fyrirliggjandi launaseðlum og staðfestingu kæranda í kæru hafi hún verið í 50-60% starfi sem starfsmaður á innlendum vinnumarkaði mánuðina ágúst 2021 til janúar 2022 og því hafi borið að hafa þá með við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda líkt og mánuðina febrúar 2022 til júlí 2022.

Þá vísi kærandi í kæru sinni til 1. mgr. 25. gr. ffl. sem eigi ekki við um aðstæður kæranda í málinu, en ákvæðið fjalli um hvenær og með hvaða hætti skuli koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þegar foreldri fær greiðslur frá vinnuveitanda á meðan það sé í fæðingarorlofi.

Í kæru fari kærandi fram á að gengið verði út frá þeim upplýsingum sem finna hafi mátt á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs um viðmiðunartímabil og útreikning greiðslna þegar hún hafi skilað umsókn sinni um greiðslu til sjóðsins. Hvað þetta atriði varði þá hafi verið og sé að finna upplýsingar á heimasíðunni þar sem talin séu upp í dæmaskyni nokkur tilvik sem geti leitt til þess að heimilt sé að undanskilja mánuði við útreikning á meðaltali heildarlauna og sé foreldri jafnframt leiðbeint um að ef slíkar aðstæður geti átt við hjá því skuli það setja sig í samband við starfsfólk Fæðingarorlofssjóðs sem leiðbeini um framhaldið. Tilvikin sem voru/séu nefnd í dæmaskyni séu þegar foreldri hefur verið í meira en 10 ECTS eininga námi, starfandi erlendis eða í minna en 25% starfi. Við þessar aðstæður kunni  að vera heimilt að undanskilja mánuði við útreikning á meðaltali heildarlauna foreldris. Fyrir liggi að kærandi var í meira en 10 ECTS eininga námi en jafnframt í meira en 25% starfi þá mánuði sem um ræði í þessu máli og því hafi ekki verið unnt að undanskilja mánuðina við útreikning á meðaltali heildarlauna hennar. Við afgreiðslu málsins hafi verið gengið út frá þeim upplýsingum sem fram hafi komið á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs þegar kærandi skilaði umsókn sinni. Breytt framsetning á heimasíðunni eftir þann tíma hefði ekki leitt til annarrar niðurstöðu.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 27. desember 2022, um að mánaðarleg greiðsla til kæranda yrði 415.877 kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að undanskilja þá mánuði sem kærandi var í námi og vinnu á viðmiðunartímabili greiðslna samkvæmt 23. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.)

Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Óumdeilt er að kærandi starfaði á innlendum vinnumarkaði í samfellt sex mánuði fyrir fæðingardag barns og uppfyllir því skilyrði laganna um að eiga rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Í 1. mgr. 23. gr. ffl. segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna. Miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann dag sem barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Auk þess segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 22. gr., án tillits til þess hvort laun samkvæmt því ákvæði eða reiknað endurgjald samkvæmt 2. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda var þann X. febrúar 2023. Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum skal því mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar tímabilið ágúst 2021 til og með júlí 2022.

Í 5. mgr. 23. gr. laganna er kveðið á um að útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun afli um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldskrá skattyfirvalda.

Í 4. mgr. 23. gr. ffl. segir að til launa á innlendum vinnumarkaði teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Jafnframt skuli telja til launa þau tilvik sem teljast til þátttöku á innlendum vinnumarkaði samkvæmt a- til f-liðum 2. mgr. 22. gr. og greiðslur samkvæmt a- og b-liðum 5. gr. laga nr. 88/2003 um Ábyrgðasjóð launa.

Óumdeilt er að kærandi var starfsmaður í 50-60% starfshlutfalli, sbr. 2. tölul. 4. gr. ffl., á tímabilinu ágúst 2021 til og með janúar 2022. Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. ffl. bar Fæðingarorlofssjóði við útreikning mánaðarlegra greiðslna til kæranda úr sjóðnum réttilega að reikna 80% af heildarmeðaltali launa kæranda á tímabilinu ágúst 2021 til og með júlí 2022. Í því sambandi breytir engu þótt kærandi hafi stundað nám samhliða vinnu sinni. Þá þykir sýnt að tilvitnað ákvæði 1. mgr. 25. gr. ffl. á ekki við í málinu.

Að mati úrskurðarnefndar er því ljóst að útreikningur Fæðingarorlofssjóðs í hinni kærðu ákvörðun, dags. 27. desember 2022, er í samræmi við ákvæði laga nr. 144/2020. Að því virtu og með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 27. desember 2022, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta