Nr. 574/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 6. október 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 574/2023
í stjórnsýslumáli nr. KNU23080035
Endurtekin umsókn í máli [...]
I. Málsatvik
Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 162/2023, dags. 23. mars 2023, staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. janúar 2023, um að taka umsókn [...], fd. [...], ríkisborgari Palestínu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 24. mars 2023.
Hinn 28. mars 2023 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar og synjaði kærunefnd beiðni kæranda 12. apríl 2023 með úrskurði nr. 210/2023. Hinn 10. ágúst 2023 barst kærunefnd endurtekin umsókn kæranda ásamt greinargerð. Upplýsingar um málsmeðferð í máli kæranda bárust kærunefnd frá Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun 10. ágúst 2023. Þá bárust upplýsingar frá stoðdeild Ríkislögreglustjóra 14. ágúst, 25. september og 3. október 2023.
Af greinargerð kæranda má ráða að umsókn hans byggi á 35. gr. a laga um útlendinga nr. 80/2016.
II. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi vísar til þess að 35. gr. a laga um útlendinga skyldi stjórnvöld útlendingamála til að taka umsókn til meðferðar að nýju uppfylli umsækjandi um alþjóðlega vernd þrjú skilyrði. Að hann sé staddur á Íslandi, það komi fram nýjar upplýsingar og að þær upplýsingar auki sýnilega líkur á því að fallist verði á fyrri umsókn viðkomandi. Kærandi byggir á því að hann uppfylli þessi þrjú skilyrði. Kærandi vísar til þess að mikilvægt sé að ekki séu settar sérreglur í lög sem geri vægari kröfur til málsmeðferðar en leiði af ákvæðum stjórnsýslulaga nema veigamikil rök séu fyrir því. Í lögum nr. 14/2023 um breytingu á lögum um útlendinga nr. 80/2016 sé hvergi vikið að nauðsyn þess að víkja þurfi frá ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi telji ljóst að beiðni hans hefði verið samþykkt samkvæmt 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga og því beri einnig að samþykkja hana samkvæmt 1. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga.
Kærandi vísar til þess að óumdeilt sé að hann sé enn staddur á Íslandi. Þá liggi fyrir nýjar upplýsingar í máli hans þar sem hann hafi dvalið á Íslandi í tólf mánuði frá því hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi. Auk þess sé ljóst að samkvæmt venjubundinni framkvæmd við mat á 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. þágildandi laga um útlendinga séu sýnilega auknar líkur á því að fallist verði á fyrri kröfu kæranda um að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd verði tekin til efnismeðferðar á Íslandi.
Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 14/2023 um breytingu á lögum um útlendinga skuli taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar ef meira en 12 mánuðir hafi liðið frá því hún barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar séu ekki á ábyrgð hans sjálfs. Samkvæmt úrskurðum kærunefndar útlendingamála hafi frestur verið talinn byrja að líða við framlagningu umsóknar um alþjóðlega vernd þar til flutningur fer fram við framkvæmd ákvörðunar. Kærandi hafi réttmætar væntingar um að sú túlkun eigi einnig við um umsókn hans. Kærandi hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 10. ágúst 2023 og því séu nú liðnir 12 mánuðir frá því hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi. Kærandi hafi ekki á nokkurn máta stuðlað sjálfur af þeirri töf sem hafi orðið á meðferð máls hans. Kærandi hafi ávallt tilkynnt Útlendingastofnun um dvalarstað sinn, einnig þegar hann flutti á milli staða. Þá hafi hann ávallt verið með símanúmer á Íslandi. Auk þess hafi kærandi svarað lögreglu í gegnum textaskilaboð í þau skipti sem haft hafi verið samband við hann. Hinn 9. ágúst hafi lögregla ruðst inn á dvalarstað kæranda og yfirheyrt hann og skoðað skilríki hans. Lögreglan hafi ekki haft frekari afskipti af honum umrætt kvöld en hafi tekið litla bróður hans og endursent hann til Svíþjóðar. Kærandi vísar til þess að íslensk stjórnvöld geti ekki haldið því fram að hann hafi tafið brottflutning sinn og hann geti ekki borið ábyrgð á ómarkvissum aðgerðum lögreglu.
Kærandi fer jafnframt fram á það að kærunefnd útlendingamála fresti réttaráhrifum fyrri úrskurðar síns. Íslenskum stjórnvöldum beri skylda til að taka umsókn hans til efnismeðferðar hér á landi og því sé brýn nauðsyn til að fresta framkvæmd skv. 2. málsl. 3. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga. Það sé andstætt góðum stjórnsýsluháttum og réttinum til réttlátrar málsmeðferðar ef kærandi yrði fluttur frá Íslandi til þess eins að íslensk stjórnvöld geti komist undan því að viðurkenna rétt hans til að fá umsókn um alþjóðlega vernd tekna til efnismeðferðar á Íslandi.
III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Endurtekin umsókn samkvæmt 1. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga skal endurtekinni umsókn vísað frá. Þó skal taka endurtekna umsókn til meðferðar að nýju ef umsækjandi er staddur hér á landi og nýjar upplýsingar liggja fyrir í máli hans sem leiða til þess að sýnilega auknar líkur séu á því að fallist verði á fyrri umsókn hans samkvæmt 24. gr. laganna. Með vísan til 35. gr. a laga um útlendinga óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá stoðdeild Ríkislögreglustjóra,. 10. ágúst 2023, um skráningu kæranda í kerfi lögreglu, þ.e. hvort kærandi væri staddur hér á landi. Í svari stoðdeildar 14. ágúst og 25. september 2023 kom fram að kærandi væri skráður „finnst ekki“ og eftirlýstur í kerfum lögreglu. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 25. september 2023, var kærandi upplýstur um framangreint og að í ljósi þess liti kærunefnd svo á að kærandi hefði ekki sýnt fram á að hann væri staddur á landinu. Þá var kæranda veittur frestur til að gefa sig fram við lögreglu og fá skráningu sinni breytt, ellegar yrði endurtekinni umsókn kæranda vísað frá. Hinn 29. september 2023 bárust andmæli frá kæranda þess efnis að hann væri tilbúinn að sýna fram á að hann væri sannanlega staddur hér á landi og muni koma til með að gera það á næstu dögum. Þá barst annað tölvubréf frá kæranda 2. október 2023 þess efnis að kærandi hafi gefið sig fram við lögreglu og fengið skráningunni breytt. Með tölvubréfi, dags. 2. október 2023, óskaði kærunefnd að nýju eftir upplýsingum frá stoðdeild Ríkislögreglustjóra um hvort kærandi hefði gefið sig fram við lögreglu og breytt skráningu sinni. Í svari stoðdeildar, dags. 3. október 2023, kom fram að kærandi væri enn skráður „finnst ekki“ og eftirlýstur í kerfum lögreglu. Í ljósi andmæla kærandi var fyrirspurn kærunefndar ítrekuð 5. október 2023. Í svari stoðdeildar sama dag kom fram að kærandi hefði ekki gefið sig fram við lögreglu.Kærunefnd vísar til þess að á meðan kærandi er skráður ,,finnst ekki“ í kerfum lögreglu, sem annast framkvæmd ákvarðana nefndarinnar með flutningi úr landi, lítur nefndin svo á að kærandi hafi ekki sýnt fram á að vera staddur hér á landi. Í þessu sambandi lítur nefndin svo á að kærandi þurfi að gefa sig fram við lögreglu með óyggjandi hætti. Með vísan til þess er skilyrði ákvæðis 35. gr. a laga um útlendinga, um að kærandi skuli vera staddur hér á landi, ekki uppfyllt í máli kæranda. Að framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurtekna umsókn vísað frá.
Krafa um frestun réttaráhrifa samkvæmt 3. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga
Samkvæmt 3. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga skal endurtekinni umsókn beint að því stjórnvaldi sem tók þá ákvörðun sem leitað er endurskoðunar á og frestar hún ekki réttaráhrifum þeirrar ákvörðunar. Því stjórnvaldi sem hefur endurtekna umsókn til skoðunar er þó heimilt að fresta réttaráhrifum fyrri ákvörðunar, enda hafi umsækjandi óskað eftir því þegar hin endurtekna umsókn var lögð fram og sýnt fram á brýna nauðsyn þess að fresta framkvæmd.
Þar sem endurtekinni umsókn kæranda er vísað frá kærunefnd telur nefndin ekki ástæðu til að fresta réttaráhrifum á meðan umsóknin er til meðferðar.
Að framangreindu virtu er kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar hafnað.
Úrskurðarorð:
Endurtekinni umsókn kæranda er vísað frá.
Kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa er hafnað.
The appellant‘s subsequent application is dismissed.
The appellant‘s request to suspend the implementation of the decision is denied.
F.h. kærunefndar útlendingamála,
Valgerður María Sigurðardóttir, varaformaður.