Hoppa yfir valmynd

Nr. 318/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 5. nóvember 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 318/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20080018

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 25. ágúst 2020 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Pakistan (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. júlí 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Loks krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 8. október 2018. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun þann 24. júní 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 6. nóvember 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 26. nóvember 2019. Með úrskurði kærunefndar, dags. 9. mars 2020, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi vegna annmarka á málsmeðferð í máli kæranda, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og 23. gr. laga um útlendinga. Lagt var fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun að nýju þann 30. apríl 2020 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 15. júlí 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun birt fyrir kæranda og talsmanni hans þann 11. ágúst sl. og kærð til kærunefndar útlendingamála þann 25. ágúst 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 8. september 2020. Þá kom kærandi til viðtals hjá kærunefnd þann 8. október 2020.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi vísar í fyrri greinargerðir sínar til Útlendingastofnunar, dags. 19. júlí 2019, og kærunefndar útlendingamála, dags. 10. desember 2019, hvað varðar málsástæður og lagarök til stuðnings krafna sinna. Í greinargerð kæranda, dags. 10. desember 2019, kemur fram að kærandi hafi, aðspurður um ástæður flótta frá heimaríki, greint frá því að hann hafi orðið ástfanginn af konu sem hann hafi kynnst í snyrtivöruverslun sem hann hafi átt. Þau hafi viljað gifta sig en þar sem þau hafi tilheyrt mismunandi trú, hann væri súnníta múslimi og hún sjíta múslimi, hafi þeim verið það óheimilt. Þá hafi fjölskylda hennar ekki samþykkt að kærandi yrði hluti af fjölskyldu þeirra en faðir hennar sé valdamikill maður og frændi hennar háttsettur innan lögreglunnar. Þrátt fyrir það hafi þau ákveðið að láta gefa sig saman í dómsal þar sem ekki yrði spurt um trú þeirra. Á leið þeirra í dómsal hafi bróðir konunnar skotið kæranda þrívegis [...] og hafi því ekkert orðið af ætluðu brúðkaupi. Kærandi hafi farið á spítala í fylgd föður síns og lagt á flótta daginn eftir skotárásina, fyrst innanlands, n.tt. til Faisalabad og Karachi, og svo frá landinu.

Á meðan kærandi hafi verið í Karachi hafi faðir hans leitað til yfirvalda og lögreglu en honum hafi ekki verið veitt nein aðstoð. Hafi það verið vegna afskipta framangreinds háttsetts frænda konunnar sem geti, stöðu sinnar vegna, komist að því hvar kærandi sé staddur. Í kjölfarið hafi faðir kæranda reynt að koma honum til Dubai en kæranda hafi verið meinað um vegabréfsáritun vegna þess að hann væri með lifrarbólgu B. Kærandi kveðst ekki hafa fengið fullnægjandi læknisþjónustu vegna veikinda sinna í Pakistan. Þá hafi foreldrar kæranda reynt að miðla málum en án árangurs. Fjölskylda konunnar hafi tjáð þeim að ef kærandi stígi fæti aftur í Pakistan yrði hann eða fjölskyldumeðlimir hans drepnir. Þetta hafi tekið mikið á móður kæranda og hafi hún látist fyrir nokkrum mánuðum síðan vegna álags og hás blóðþrýstings.

Í ofangreindri greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður og stöðu mannréttinda í heimaríki hans sem og öryggisástand landsins. Kveður kærandi að almennt öryggisástand þar í landi sé afar ótryggt, m.a. vegna árása og ofbeldis af hálfu hryðjuverkahópa. Heimildir beri með sér að yfirvöld, m.a. lögregluyfirvöld, beiti pyndingum gegn borgurum landsins í skjóli refsileysis. Kærandi vísar til skýrslna sem hann telur styðja mál sitt. Þá er einnig ítarleg umfjöllun um heiðursglæpi í Pakistan. Í því sambandi vísar kærandi til fjölda skýrslna og gagna, þ. á m. skýrslu bandarísku utanríkisþjónustunnar fyrir árið 2018.

Í greinargerð er þess aðallega krafist að kæranda verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi heldur því fram að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann eigi á hættu ofsóknir í heimaríki vegna aðildar sinnar að sérstökum þjóðfélagshópi, sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. laganna. Kærandi sé þolandi heiðursglæps í heimaríki. Tengdafjölskylda hans hafi þrívegis skotið á hann og hótað honum og fjölskyldu hans lífláti. Hafi það verið vegna þess að kærandi og unnusta hans hafi, með sambandi sínu og tilraun til hjónabands, farið gegn trú þeirra beggja og þannig varpað rýrð á heiður tengdafjölskyldu kæranda. Kærandi tilheyri því hópi einstaklinga sem hafi, eða séu taldir hafa, tekið þátt í athæfi sem sé fordæmt af samfélaginu og verði ekki tekið til baka. Hafi þessi hópur einstaklinga ástæðu til að óttast heiðursmorð eða aðra heiðursglæpi vegna umrædds athæfis. Þá vísar kærandi til ákvæða a- og c-liðar 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga um að ekki sé raunhæft að leita ásjár yfirvalda, enda séu það m.a. yfirvöld sjálf sem taki óbeint þátt í ofsóknum á hendur þeim þjóðfélagshópi sem kærandi tilheyrir. Verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis telji hann að það brjóti gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Til vara er gerð sú krafa að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi telji að hann eigi á hættu að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum í Pakistan. Almennt öryggisástand í Pakistan sé mjög ótryggt og gríðarlegt mannfall sé ár hvert vegna árása af hálfu öryggissveita ríkisins og hryðjuverkasamtaka. Þá beiti yfirvöld borgara sína pyndingum og brjóti þannig á mannréttindum þeirra. Þá telur kærandi, í ljósi þess hve mikil sambönd þáverandi tengdafjölskylda hans hafi, að hann geti ekki leitað aðstoðar pakistanskra yfirvalda.

Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Krafan byggist í fyrsta lagi á því að hann geti ekki, með hliðsjón af því sem hefur verið rakið að framan, treyst á vernd yfirvalda vegna þeirrar hættu sem hann sé í vegna sambands hans við unnustu sína. Í öðru lagi byggist krafan á því að kæranda bíði erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki þar sem hann standi frammi fyrir félagslegri útskúfun vegna ágreinings síns og heiðursdeilu. Við það mat telur kærandi að taka þurfi sérstakt tillit til þess að faðir unnustu hans og frændi hennar hafi, sem háttsettir menn í Pakistan, getu til þess að nýta sér sambönd sín meðal yfirvalda og annarra aðila eftir þörfum. Í þriðja lagi byggist krafan á því að kærandi hafi ríka þörf fyrir vernd af heilbrigðisástæðum. Líkt og komi fram í framlögðum heilsufarsgögnum glími kærandi við virka lifrabólgu B. Þar sem hann hafi ekki fengið fullnægjandi læknisaðstoð í heimaríki vegna framangreinds þurfi hann á viðeigandi heilbrigðisaðstoð að halda. Í ljósi framangreinds telur kærandi að skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt og beri því að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Þá er í greinargerð sem lögð var fram í þessu máli, dags. 8. september 2020, gerð sú krafa til þrautaþrautavara að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga þar sem liðnir séu meira en 18 mánuðir síðan hann hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd. Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga sé heimilt að veita þeim útlendingi sem sótt hafi um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, uppfylli hann ekki skilyrði 37. og 39. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt fyrrgreindu ákvæði verði dvalarleyfi ekki veitt nema að tilteknum skilyrðum uppfylltum sem tilgreind séu í a- til d-lið ákvæðisins. Kærandi telji að skilyrðin séu uppfyllt í tilviki hans, þ. á m. b-liður, þrátt fyrir að hann hafi ekki getað lagt fram frumrit auðkennisskilríkja frá heimaríki. Í því sambandi vísar kærandi m.a. til athugasemda með frumvarpi til laga um útlendinga, en af þeim megi ráða að það hafi verið vilji löggjafans að tekið sé tillit til þess við meðferð máls skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga ef umsækjanda um alþjóðlega vernd er ómögulegt að afla sér gagna frá heimaríki um auðkenni hans. Kærandi hafi framvísað afriti af pakistönsku persónuskilríki og ómögulegt sé fyrir hann að afla vegabréfs eða nýrra kennivottorða. Með vísan til framangreinds telur kærandi að b-liður skuli ekki standa því í vegi að hann fá útgefið dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laganna.

Þá kemur í greinargerð kæranda fram að hann telji að líta verði til þess hvaða áhrif Covid-19 veiran og það ástand sem hún hafi skapað hafi á stöðu hans í heimaríki sem einstaklingur með lifrarbólgu B. Í því sambandi vísi kærandi til þess að þeir sem minna megi sín, s.s. fólk á flótta og einstaklingar sem þarfnist heilbrigðisþjónustu, séu ætíð líklegri til að verða fyrir neikvæðum áhrifum en aðrir þegar slíkt neyðarástand skapist. Með vísan til framangreinds telji kærandi ljóst að hann kunni að vera í hópi þeirra sem verði fyrir hvað verstum áhrifum vegna Covid-19 í Pakistan.

Þá er í greinargerð vísað til fyrri athugasemda kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. nóvember 2019, sem fram komi í greinargerð til kærunefndar, dags. 10. desember 2019. Kærandi telji að umræddar athugasemdir eigi enn við í máli kæranda, s.s. að Útlendingastofnun hafi án rökstuðnings komist að þeirri niðurstöðu að frásögn hans hafi verið óskýr og ónákvæm.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi lagt fram afrit af pakistönskum skilríkum. Það var mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi ekki sannað hver hann er með fullnægjandi hætti. Leysti stofnunin því úr auðkenni kæranda á grundvelli trúverðugleikamats. Það var mat Útlendingastofnunar að engin ástæða væri til að draga í efa að kærandi sé pakistanskur ríkisborgari. Kærunefnd hefur ekki forsendur til að hnekkja framangreindu mati Útlendingastofnunar og verður því lagt til grundvallar að kærandi sé pakistanskur ríkisborgari. Að öðru leyti er auðkenni kæranda óljóst.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Pakistan, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2019 Country Reports on Human Rights Practices: Pakistan (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
  • Country Information and Guidance Pakistan: Women fearing gender-based violence (UK Home Office, febrúar 2020);
  • Country Information Note. Pakistan: Documentation (UK Home Office, mars 2020);
  • Country Policy and Information Note. Pakistan: Background information, including actors of protection, and internal relocation (UK Home Office, júní 2020);
  • DFAT Country Information Report. Pakistan. (Australian Government. Department of Foreign Affairs and Trade, 20. febrúar 2019);
  • Freedom in the World 2020 – Pakistan (Freedom House, 11. mars 2020);
  • Pakistan: Country Report (Asylum Research Consultancy, 18. júní 2018);
  • Pakistan. Ekteskap og skilsmisse (Landinfo, 24. júlí 2020);
  • Pakistan: Honour killings targeting men and women (Immigration and Refugee Board of Canada, 15. janúar 2013);
  • Pakistan: First Information Reports (FIRs) (2010-December 2013) (Immigration and Refugee Board of Canada, 10. janúar 2014);
  • Pakistan - Mänskliga rättigheter, demokrati och rättstatens principer: situationen per den 31 december 2018 (Utrikesdepartimentet, 18. júní 2019);
  • Pakistan Security Situation. Country of Information Report (European Asylum Support Office, október 2019);
  • Pakistan tackles high rates of hepatitis from many angles (World Health Organization, 11. júlí 2017);
  • 15 million people affected with hepatitis B and C in Pakistan: Government announces ambitious plan to eliminate hepatitis (World Health Organization, 28. júlí 2019);
  • State of Human Rights in 2018 (Human Rights Commission of Pakistan, 16. apríl 2019);
  • State of Human Rights in 2019 (Human Rights Commission of Pakistan, 30. apríl 2020);
  • Vefsíða Human Rights Commission of Pakistan (http://hrcp-web.org/hrcpweb/);
  • Vefsíða lögreglu í Punjab (https://www.punjabpolice.gov.pk/igp_complaint_center_8787);
  • Vefsíða Human Rights Commission of Pakistan (http://hrcp-web.org/hrcpweb/);
  • Vefsíða: Office of the Ombudsman Punjab (http://www.ombudsmanpunjab.gov.pk/mandate);
  • Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhu.edu/map.html, sótt 30. október 2020);
  • The World Factbook: Pakistan (Central Intelligence Agency, 27. október 2020);
  • World Report 2020 – Pakistan (Human Rights Watch, 15. janúar 2020) og
  • Stjórnarskrá Pakistan (http://na.gov.pk/uploads/documents/1333523681_951.pdf).

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Pakistan sambandslýðveldi með um 233 milljónir íbúa. Þann 30. september 1947 gerðist Pakistan aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi árið 2010 og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 2008. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1966 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2010. Þá fullgilti ríkið jafnframt samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1996, en ríkið hefur hins vegar ekki undirritað valfrjálsa viðbótarbókun við samninginn. Pakistan fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1990.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2020 kemur fram að þrátt fyrir að pakistönsk löggjöf banni handahófskenndar handtökur og varðhald, jafnframt sem lögin kveði á um rétt til að vefengja lögmæti handtöku fyrir dómi, þá sé spilling innan lögreglunnar vandamál í Pakistan. Spilling á lægri stigum lögreglunnar sé algeng og séu dæmi um að lögreglan þiggi mútur. Einstaklingar tilkynni um meinta glæpi eða brot til lögreglunnar með svokallaðri FIR skýrslu (e. first instance report). FIR skýrslan sé fyrsta skrefið við rannsókn sakamáls og sé hún oftast lögð fram af þriðja aðila þó svo að lögreglan hafi heimild til að gera slíka skýrslu sjálf. FIR skýrslan veiti lögreglunni heimild til að halda meintum brotamanni í gæsluvarðhaldi í 24 klukkustundir á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hægt sé að leggja fram slíka skýrslu hjá lögreglumanni, á lögreglustöð og á vefsíðum ákveðinna lögregluembætta í Pakistan.

Í framangreindri skýrslu kemur fram að þrátt fyrir að pakistönsk lög kveði á um sjálfstætt dómskerfi og réttláta málsmeðferð beri gögnin með sér að dómskerfið hafi verið gagnrýnt fyrir spillingu. Spilling sé innan héraðsdómstóla en þeir séu afkastalitlir og undir þrýstingi frá auðugum og áhrifamiklum einstaklingum, einkum á sviði trúar- og stjórnmála. Þá kemur fram að þrátt fyrir að veikleikar séu í réttarkerfinu í Pakistan þá sé spilling refsiverð samkvæmt lögum, en ábyrgðarskrifstofa ríkisins (e. National Accountability Bureau (NAB)) hafi það hlutverk að útrýma spillingu í stjórnkerfum landsins með vitundarvakningu, forvörnum, rannsókn spillingarmála jafnframt sem skrifstofan ákæri í slíkum málum. Þá kemur fram að einkamála-, sakamála- og fjölskyldudómstólakerfi landsins veiti óhlutdræga og réttláta málsmeðferð, að aðilar séu álitnir saklausir uns annað komið í ljós, gagnyfirheyrsla fyrir dómi sé möguleg sem og möguleikinn til áfrýjunar. Þá verndi stjórnarskrá Pakistan réttinn til að fella ekki á sig sök en kviðdómsfyrirkomulag er ekki við lýði í landinu.

Í skýrslu European Asylum Support Office frá árinu 2019 kemur fram að öryggisástand í Pakistan sé breytilegt eftir landshlutum, en af skýrslunni verður ráðið að heimahérað kæranda, Punjab, sé eitt af öruggustu héruðum landsins. Á vefsíðu starfandi umboðsmanns í Punjab (e. Ombudsman Punjab) kemur fram að hann hafi m.a. það hlutverk að vernda rétt borgaranna gegn brotum opinberra starfsmanna og koma í veg fyrir spillingu. Umboðsmaðurinn geti tekið til skoðunar öll ætluð brot opinberra starfsmanna sem varði borgara landsins að undanskildum ætluðum brotum æðsta dómstólsins (e. High Court) og dómstóla sem vinni undir yfirstjórn hans.

Í skýrslu Landinfo frá árinu 2020 kemur fram að það tíðkist almennt í Pakistan að súnníta og sjíta múslimar gangi í hjónaband. Almennt ríki sátt um slíkan hjúskap en á því kunni þó að finnast undantekningar, t.d. í íhaldssömum fjölskyldum og samfélögum. Mikill meirihluti hjónabanda í Pakistan komist á með samkomulagi á milli fjölskyldna, en karlmenn hafi aukið svigrúm við val á hjónaefni. Í framangreindri skýrslu og skýrslu innflytjenda- og flóttamannanefndar Kanada frá árinu 2013 kemur fram að þrátt fyrir að heiðurstengt ofbeldi sé refsivert samkvæmt landslögum þá sé það nokkuð útbreitt í pakistanskri menningu. Heiðursmorð sé morð á ættingja sem framið sé í því skyni að endurheimta heiður fjölskyldunnar þar sem þolandinn hafi á einhvern hátt vanvirt fjölskylduna. Í flestum tilfellum sé um að ræða konur sem hafi átt í sambandi við karlmann fyrir hjónaband eða utan þess, en um 30 % þolenda séu karlmenn. Karlmenn geti þó yfirleitt komist undan eða samið um að bæta fjölskyldu konunnar skaðann. Þar sem tölfræði um skráð heiðursmorð í Pakistan er ekki byggð á opinberum upplýsingum liggur ekki fyrir hver árleg tíðni þeirra er.

Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2020 og framangreindri skýrslu bandaríska utanríkis-ráðuneytisins kemur fram að pakistönsk stjórnvöld hafa á síðustu árum unnið að því að bæta lagaumhverfi varðandi heiðursglæpi. Breytingunum hafi einkum verið ætlað að bæta réttarstöðu kvenna, m.a. með því að auka aðgengi þeirra að dómstólum og koma á fót skilvirku kerfi sem verndi þær og aðstoði verði þær fyrir ofbeldi. Þá var lögum breytt árið 2016 til að koma í veg fyrir að gerendur gætu komist undan refsingu með því að fá fyrirgefningu frá fjölskyldumeðlimum þolenda heiðursglæpa. Refsingar vegna heiðursglæpa voru jafnframt þyngdar á árinu 2016. Í frétt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frá 2019 kemur fram að um 15 milljónir einstaklinga í Pakistan séu smitaðir af lifrarbólgu B og C. Til að stemma stigu við frekari útbreiðslu hafi forsætisráðherra Pakistan kynnt aðgerðaráætlun sem njóti stuðnings Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og miði að því að auka forvarnir, prófanir og meðferðarþjónustur gegn lifrarbólgu. Þá kemur fram í frétt stofnunarinnar frá 2017 að endurgjaldslaus sjúkdómsgreining, meðferð og umönnun fyrir einstaklinga með lifrarbólgu sé í boði í öllum héruðum landsins.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann eigi á hættu að verða þolandi heiðursmorðs í heimaríki af hendi fjölskyldu konu sem hann hafi ætlað að giftast.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, viðtali hjá kærunefnd þann 8. október 2020, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Í endurriti viðtals við kæranda sem tekið var hjá Útlendingastofnun þann 24. apríl 2019 og fyrri greinargerðar kæranda til kærunefndar, dags. 10. desember 2019, kemur fram að kærandi hafi greint frá því að bróðir konunnar hafi þrívegis skotið hann á leið þeirra í dómsal þar sem hafi átt að gefa þau saman. Faðir kæranda hafi leitað aðstoðar lögreglu vegna skotárásarinnar en frændi konunnar hafi, sem lögreglustjóri (e. police commissioner), nýtt sér völd sín og komið í veg fyrir að aðhafst yrði í málinu. Í viðtali hjá Útlendingastofnun, þann 30. apríl 2020, kvað kærandi hins vegar að þau hafi orðið fyrir skotárás af hendi tveggja bræðra [...], [...] og frænda hennar, [...], sem hafi verið háttsettur lögreglumaður í Pakistan (e. Station House Officer, SHO). Í kjölfar skotárásarinnar, sem hafi átt sér stað þann 7. eða 8. ágúst 2014, hafi kærandi leitað til spítala í Faisalabad þar sem hann hafi fengið aðhlynningu í tvo eða þrjá daga. Kærandi kvaðst ekki vita um afdrif [...] en hann hafi fengið fregnir af því að hún hafi orðið fyrir skoti sem hafi hæft hana í höfuðið. Þá kvaðst kærandi hafa yfirgefið heimaríki í lok árs 2014.

Kærunefnd boðaði kæranda í viðtal hjá nefndinni, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga, sem fór fram þann 8. október 2020. Frásögn kæranda í viðtalinu hjá kærunefnd var óskýr, á reiki og í ósamræmi við frásögn hans í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Til að mynda kvað kærandi í viðtali hjá kærunefnd að hann hafi kynnst [...] í versluninni sem hann hafi rekið og að hún hafi komið þangað reglulega í tvö til þrjú ár áður en þau hafi ákveðið að gifta sig. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst hann aðeins hafa þekkt hana í um eitt ár áður en þau hafi ákveðið að gifta sig. Þá kvað kærandi að ofangreind skotárás hafi átt sér stað á heimili prests (u. Molvi) að nafni [...] í desember 2014 og að hann hafi yfirgefið heimaríki í ágúst 2015. Þá kvað kærandi, aðspurður um hverjir hafi staðið að baki skotárásinni, að frændi [...] hafi verið sá eini sem hafi haft skotvopn og skotið á kæranda. Jafnframt kvað kærandi að hann hafi einungis verið í 5-6 klukkutíma á spítala í kjölfar skotárásarinnar. Skýringar sem kærandi veitti í viðtalinu vörpuðu að mati kærunefndar ekki ljósi á framangreint misræmi í frásögn kæranda á milli viðtala. Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að frásögn kæranda af atburðum og ástæðum flótta hafi tekið breytingum milli viðtala hjá Útlendingastofnun og kærunefnd. Kærunefnd telur þetta misræmi, sem varðar kjarna frásagnar hans, draga verulega úr trúverðugleika frásagnar hans og þýðingu hennar sem sönnunargagns í málinu.

Kærandi hefur hvorki lagt fram gögn sem styðja við frásögn hans af ofangreindri atburðarás, t.a.m. gögn frá ofangreindum spítala í Faisalabad, eða um tilvist [...], sem hann kveður hafa verið unnustu sína, föður hennar, bræður eða frænda hennar að nafni [...]. Af framburði kæranda verður ekki annað ráðið en að hann hafi haft nægan tíma til að afla slíkra gagna, enda hafi hann ekki yfirgefið heimaríki í skyndi. Að því virtu og í ljósi frásagnar kæranda sjálfs um að ætlaðar ofsóknir hafi átt sér stað fyrir um sex árum síðan er að mati kærunefndar ekki ósanngjarnt að gera kröfu um að kærandi leggi fram einhver gögn er leggi grunn að málsástæðum hans.

Af ofangreindu er ljóst að frásögn kæranda hefur tekið breytingum eftir því sem liðið hefur á meðferð máls hans fyrir íslenskum stjórnvöldum. Verulegt misræmi hefur verið í frásögn kæranda um atriði sem hann ætti að geta verið staðfastur um. Þá hefur kærandi engin gögn fært fram sem þykja til þess fallin að styðja við frásögn hans af þeim atvikum sem hann hefur lagt til grundvallar umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd. Það er því mat kærunefndar að framangreint misræmi í frásögn kæranda og skortur á gögnum til stuðnings frásögn hans leiði til þess, heildstætt metið, að frásögn hans af atburðum og ástæðum flótta sé ótrúverðug og verði ekki lögð til grundvallar í málinu. Samkvæmt framansögðu verður því ekki unnt að leggja til grundvallar í málinu að kærandi eigi á hættu heiðurstengt ofbeldi eða heiðursmorð í heimaríki. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi ástæðu til að óttast ofsóknir í heimaríki hans af öðrum ástæðum.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið, niðurstöðu kærunefndar um trúverðugleika kæranda og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Í komunótum frá Göngudeild sóttvarna, dags. 8. nóvember 2018 til 5. mars 2019, kemur m.a. fram að kærandi hafi verið greindur með lifrarbólgu B. Af gögnunum verður ekki ráðið að kæranda hafi verið ávísað lyfjum vegna sjúkdómsins eða sé í meðferð sem óforsvaranlegt sé að rjúfa. Að mati kærunefndar er ekki um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm að ræða. Þá kemur í gögnum um heimaríki kæranda fram, líkt og að ofan er rakið, að einstaklingum með lifrarbólgu standi til boða endurgjaldslaus heilbrigðisþjónusta í öllum héruðum Pakistan.

Þegar framangreindar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt er að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu, að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði skv. 37. og 39. gr. laganna. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laganna en þau eru að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd þann 8. október 2018. Kærandi hefur ekki enn fengið niðurstöðu í máli sínu hjá kærunefnd útlendingamála. Frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, dags. 5. nóvember 2020, eru liðnir rúmir 25 mánuðir. Kærandi telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun lagði kærandi fram afrit af pakistönskum persónuskilríkjum. Líkt og að ofan er rakið var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi ekki lagt fram gögn sem væru til þess fallin að sanna á honum deili og væri auðkenni hans því óljóst. Í greinargerð kæranda til kærunefndar kemur fram að ómögulegt sé fyrir hann að afla gagna frá heimaríki um auðkenni hans að svo stöddu. Að því virtu, og í ljósi þess að hann hafi verið samvinnuþýður við vinnslu málsins og veitt allar nauðsynlegar upplýsingar eftir bestu getu, telji kærandi að b-liður 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga skuli ekki standa því í vegi að hann fái útgefið dvalarleyfi í samræmi við ákvæðið.

Kærandi vísar í greinargerð til úrskurðar kærunefndar nr. 133/2020 frá 8. apríl sl. Í tilvísuðum úrskurði kemur m.a. fram að texti laga um útlendinga sé skýr um að engin heimild sé til að veita undanþágu frá skilyrðum 2. mgr. 74. gr. laganna.

Í viðtali hjá kærunefnd þann 8. október 2020 var kærandi spurður hvort hann gæti framvísað auðkennisskilríkjum. Þá var kæranda gerð grein fyrir mikilvægi þess að hann framvísi slíkum skilríkjum til nefndarinnar. Kærandi kvaðst ekki vera með nein auðkennisskilríki. Þá kvaðst hann ekki geta fengið þau send frá heimaríki þar sem DHL sendi slík skilríki ekki. Með tölvupósti, degi síðar, áréttaði kærunefnd beiðni sína og veitti kæranda frest til 15. október til þess að framvísa auðkennisskilríkjum. Þann 15. október barst kærunefnd skjáskot af persónuskilríki og fæðingarvottorði í tölvupósti. Kom fram að kærandi væri að leitast við að koma frumriti gagnanna til kærunefndar og að talsmaður myndi láta vita hvenær von væri á þeim. Þrátt fyrir framangreint hafa engin auðkennisskilríki eða frekari upplýsingar um það hvenær von sé á þeim borist kærunefnd.

Engin skilríki eða önnur gögn liggja því fyrir hjá kærunefnd sem eru til þess fallin að varpa ljósi á hver kærandi sé og verður ekki fallist á það með kæranda að sanngirnissjónarmið eigi að leiða til þess að litið verði fram hjá þeirri staðreynd. Við mat á því hefur kærunefnd m.a. litið til þess að útskýringar kæranda á því af hverju hann geti ekki aflað sér gildra skilríkja frá heimaríki í viðtali hans hjá kærunefnd eru ekki í samræmi við þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér um heimaríki kæranda. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sannað á sér deili, sbr. 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 19. gr. laga um útlendinga og 37. gr. reglugerðar um útlendinga.

Í ljósi framangreinds er það því mat kærunefndar að skilyrði b-liðar 2. mgr. 74. gr. séu því ekki fyrir hendi í máli kæranda, en kærunefnd telji vafa leika á því hver hann sé. Það er því niðurstaða kærunefndar að kæranda verði ekki veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd þann 8. október 2018. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Líkt og að ofan greinir er kærandi með lifrarbólgu B. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að kærandi sé annars við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Í ljósi Covid-19 faraldursins er athygli kæranda einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                                   Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta