Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 53/2015

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

                                                 

Miðvikudaginn 4. nóvember 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 53/2015:

 

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A hefur með kæru, dags. 28. september 2015, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 16. september 2015, á umsókn hennar um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 7. ágúst 2015 til 15. september 2015.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 7. ágúst 2015, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg fyrir tímabilið 7. ágúst 2015 til 15. september 2015. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 2. september 2015, á þeirri forsendu að hún samræmdist ekki reglum Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 16. september 2015 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um fjárhagsaðstoð tímabilið 7. ágúst 2015 til 30. september 2015 skv. 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð.

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 16. september 2015. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi velferðarráðs og barst hann með bréfi, dags. 12. október 2015. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 28. september 2015. Með bréfi, dags. 29. september 2015, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 12. október 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 14. október 2015, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi þegið atvinnuleysisbætur frá 4. maí 2015. Við starfslok 30. apríl 2015 hafi hún átt inni 28 daga í orlof sem hún hafi þurft að taka út á tímabilinu 7. ágúst 2015 til 15. september 2015, án bóta. Hún hafi því verið tekjulaus á því tímabili. Þann 4. ágúst 2015 hafi kærandi fengið 222.150 krónur í atvinnuleysisbætur sem dugi engan veginn fyrir húsaleigu og framfærslu í tvo til þrjá mánuði. Án tímabundinnar aðstoðar félagsþjónustunnar komi kærandi til með að lenda í gríðarlegum vandamálum og jafnvel húsnæðismissi en hún búi ein og sjái því ein um öll útgjöld og framfærslu.

Kærandi bendir á að hún sé á vanskilaskrá og eigi því ekki möguleika á fyrirgreiðslum frá lánastofnunum. Fjölskylda hennar geti heldur ekki aðstoðað hana á þessum erfiðu tímum. Kærandi tekur fram að Reykjavíkurborg hafi ekki tekið tillit til þess að hún hafi til fjölda ára verið á fyrirframgreiddum launum. Orlofið sem hún hafi fengið greitt við starfslok hafi því verið eins og ein mánaðarlaun og því hafi hún ekki haft neitt aukalega til að leggja fyrir. Ef hún hefði ekki verið á fyrirframgreiddum launum hefði hún að sjálfsögðu geymt orlofspeninginn en Vinnumálastofnun hafi ekki greint henni frá því að hún yrði sett í bótalaust orlof. Kærandi tekur fram að þær fjárhæðir sem hún hafi fengið greiddar 1. september og 1. október 2015 séu langt undir fátæktarmörkum. Hana sárvanti aðstoð en hún skuldi núna húsaleigu sem muni sennilega kosta hana húsnæðismissi.

 

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá því að kærandi hafi misst vinnu sína í apríl 2015 og hafi í kjölfarið þegið atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Við starfslok hafi kærandi fengið greiddar 963.297 krónur, þar með talið orlof fyrir 28 daga sem kærandi hafi átt inni hjá vinnuveitanda sínum. Kærandi hafi verið skráð í orlof hjá Vinnumálastofnun frá 7. ágúst 2015 til 15. september 2015 en atvinnuleysisbætur séu ekki greiddar samhliða orlofi.

Reykjavíkurborg tekur fram að litið sé svo á að fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi sé neyðaraðstoð sem ekki beri að veita nema engar aðrar bjargir séu fyrir hendi. Í 1. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð komi fram að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geti séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. og III. kafla reglnanna. Um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg gildi sú meginregla að umsækjandi fái einungis greidda fjárhagsaðstoð ef hann geti ekki framfleytt sér. Umrædd meginregla eigi sér stoð í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð, sbr. og 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga sem kveði meðal annars á um skyldu hvers og eins að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára.

Í 4. mgr. 1. gr. reglnanna komi fram að jafnan skuli kanna til þrautar rétt umsækjenda til annarra greiðslna, þar með talið frá almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum, lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga. Samkvæmt upplýsingum Reykjavíkurborgar njóti kærandi 100% bótaréttar hjá Vinnumálastofnun. Hún hafi óskað eftir að vera skráð í orlof frá 7. ágúst 2015 til 15. september 2015 en atvinnuleysisbætur séu ekki greiddar samhliða orlofi. Við uppgjör vegna starfsloka hafi kærandi fengið orlofsdaga greidda út og hafi því borið að nýta þá fjárhæð til framfærslu á því tímabili sem hún hafi verið skráð í orlof hjá Vinnumálastofnun. Verði því að líta svo á að kærandi hafi fengið greidd laun/orlof fyrir umrætt tímabil og eigi því ekki rétt á fjárhagsaðstoð á því tímabili.

Með hliðsjón af öllu framansögðu hafi velferðarráð talið að synja bæri kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 7. ágúst 2015 til 30. september 2015 á grundvelli 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg og staðfest synjun starfsmanna. Það verði að telja ljóst að ákvörðun Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð né ákvæðum laga nr. 40/1991.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg frá 1. janúar 2011, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 7. ágúst 2015 til 15. september 2015.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð var synjað á þeirri forsendu að skilyrði 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg hafi ekki verið uppfyllt. Í 4. mgr. 1. gr. reglnanna kemur fram að jafnan skuli kanna til þrautar rétt umsækjanda til annarra greiðslna, þar með talið frá almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum, lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga, þá skal og kanna rétt til aðstoðar samkvæmt lögum um námsstyrki. Samkvæmt gögnum málsins naut kærandi atvinnuleysisbóta frá 30. apríl 2015 en var skráð í orlof frá 7. ágúst 2015 til 15. september 2015 þar sem hún átti inni orlof frá fyrri vinnuveitanda. Við starfslok fékk kærandi greiddar 963.297 krónur, þar með talið 28 orlofsdaga sem hún átti inni.

Samkvæmt 4. mgr. 51. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar telst hver sá sem hefur fengið greitt út ótekið orlof við starfslok eða fær greiðslur vegna starfsloka ekki tryggður samkvæmt lögunum á því tímabili sem þær greiðslur eiga við um. Við umsókn um atvinnuleysisbætur skal hinn tryggði taka fram hvenær hann ætli að taka út orlof sitt fyrir lok næsta orlofstímabils. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun óskaði kærandi eftir að vera skráð í orlof frá 7. ágúst 2015 til 15. september 2015 og fékk því ekki greiddar atvinnuleysisbætur á því tímabili. Reykjavíkurborg hefur vísað til þess að kæranda hafi borið að nýta þá fjárhæð sem hún fékk við starfslok hjá vinnuveitanda sínum til framfærslu á því tímabili sem hún væri skráð í orlof hjá Vinnumálastofnun. Því verði að líta svo á að kærandi hafi fengið greidd laun/orlof fyrir umdeilt tímabil og eigi því ekki rétt á fjárhagsaðstoð á sama tíma.

Úrskurðarnefndin tekur undir sjónarmið Reykjavíkurborgar og bendir á að samkvæmt 19. gr. laga nr. 40/1991 er hverjum manni skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Reykjavíkurborg veitir fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Ákvæði 4. mgr. 1. gr. reglnanna byggist á þeim grundvelli að eigi umsækjandi um fjárhagsaðstoð rétt til annarra greiðslna eigi viðkomandi ekki rétt á fjárhagsaðstoð. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að ekki verði hjá því litið að kærandi fékk greiðslu fyrir tímabilið 7. ágúst 2015 til 15. september 2015 eða þann tíma sem hún var skráð í orlof hjá Vinnumálastofnun. Henni bar því að nýta þá greiðslu sér til framfærslu á því tímabili sem hún myndi skrá sig í orlof hjá Vinnumálastofnun. Úrskurðarnefndin telur því að Reykjavíkurborg hafi verið rétt að synja umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð á grundvelli 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Reykjavíkurborgar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 16. september 2015, um synjun á umsókn A um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 7. ágúst 2015 til 15. september 2015 er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta