Hoppa yfir valmynd

Nr. 226/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 17. maí 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 226/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21050036

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.               Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í stjórnsýslumáli nr. KNU20110006, dags. 26. nóvember 2020, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar frá 19. október 2020 um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Afganistan (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu.

Niðurstaða kærunefndar var birt fyrir kæranda þann 20. nóvember 2020. Þann 17. apríl 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku og frestun á framkvæmd ásamt fylgigögnum.

Af beiðni kæranda má ráða að krafa um endurupptöku byggir á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.                  Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð sinni gerir kærandi grein fyrir því að hann hafi verið í sambúð með íslenskri konu í 8 mánuði og að hann hafi tengst henni og fjölskyldu hennar sterkum böndum. Þá sé hann kominn með loforð um atvinnu hér á landi en þar sem hann sé án atvinnuleyfis þá hafi hann ekki getað hafið störf. Kærandi gerir í greinargerð sinni nánari grein fyrir sérstökum tengslum hans hér á landi og þeim erfiðleikum sem endursending til Austurríkis geti haft í för með sér fyrir hann. Þrátt fyrir að kærunefnd byggi almennt á því að samband sem stofnað sé til eftir komu umsækjanda hingað til lands uppfylli ekki skilyrði um sérstök tengsl í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 sé ljóst að ávallt þurfi að fara fram heildstætt, einstaklingsbundið mat á aðstæðum í hverju máli fyrir sig.

Í ljósi framangreinds sé farið fram á endurupptöku málsins með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá sé aðalkrafa kæranda í kærumálinu ítrekuð, um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi.

Með beiðni um endurupptöku fylgdi beiðni um frestun framkvæmdar samkvæmt 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga.

III.                Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Af gögnum málsins er ljóst að kærandi kom hingað til lands þann 16. júní 2020 og sótti um alþjóðlega vernd þann sama dag. Til stuðnings beiðni um endurupptöku lagði kæranda fram stuðningsbréf frá tengdum aðilum þar sem m.a. kemur fram að kærandi hafi kynnst íslenskri konu þann 8. ágúst 2020. Kærunefnd hefur áður komist að því í úrskurðum sínum, s.s. úrskurði kærunefndar í máli nr. KNU19100080 frá 12. mars 2020, að tengsl sem umsækjandi hafi myndað eftir að hann kom til landsins hafi afar takmarkað vægi við mat á því hvort umsækjandi teljist hafa  sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. og dóm Hæstaréttar í máli nr. 164/2015 frá 8. október 2015.

Með hliðsjón af framangreindu og skýrum fordæmum kærunefndar útlendingamála í sambærilegum málum er það mat kærunefndar að málsástæða kæranda um sérstök tengsl séu hvorki þess eðlis að úrskurður kærunefndar nr. KNU20110006 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, né að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að umræddur úrskurður var birtur, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.

Kærunefnd tók afstöðu til beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á grundvelli 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga með úrskurði kærunefndar í máli nr. KNU20120014 þann 22. desember 2020. Í ljósi niðurstöðu kærunefndar um að hafna kröfu um endurupptöku telur nefndin ekki ástæðu til að taka afstöðu til beiðni kæranda um frestun á framkvæmd.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

 

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson varaformaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta