Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 166/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 166/2021

Miðvikudaginn 13. október 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 18. mars 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. mars 2021 um stöðvun og endurkröfu barnalífeyris og umönnunargreiðslna með dóttur kæranda.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur fengið barnalífeyri og umönnunargreiðslur með dóttur sinni frá Tryggingastofnun ríkisins. Með tveimur bréfum Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. mars 2021, var kæranda annars vegar tilkynnt um stöðvun og endurkröfu barnalífeyris og hins vegar umönnunargreiðslna með dóttur hennar frá 1. júlí 2020 til 31. mars 2021 á þeim forsendum að hún væri ekki lengur með lögheimili hjá kæranda samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá. Með bréfi, dags. 16. mars 2021, var kæranda tilkynnt um að lögheimilisflutningur hefði verið leiðréttur í Þjóðskrá þannig að lögheimili dóttur hennar hefði alltaf verið hjá henni. Þá segir að Tryggingastofnun hafi aftur á móti borist þær upplýsingar frá barnavernd að dóttir hennar hefði verið í umsjá föður síns frá 15. júní 2020 og muni vera áfram. Því standi ákvörðun um stöðvun greiðslnanna og endurkrafa þeirra. 

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. mars 2021. Með bréfi, dags. 31. mars 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með tölvubréfi 12. apríl 2021 bárust gögn frá kæranda og voru þau send Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. apríl 2021. Með bréfi, dags. 28. apríl 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. maí 2021. Með bréfi, dags. 6. maí 2021, bárust athugasemdir frá kæranda sem voru sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. maí 2021. Frekari athugsemdir og gögn bárust frá kæranda 23. maí, 26. maí og 1. júní 2021 og voru þau send Tryggingastofnun til kynningar með bréfum, dags. 1. og 2. júní 2021. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að Tryggingstofnun ríkisins hafi krafið kæranda um bætur aftur í tímann þar sem gerður hafi verið samningur hjá barnavernd um vistun dóttur hennar. Þrátt fyrir samninginn hafi barnsfaðir kæranda alltaf verið fjarverandi og hafi börnin því oft verið hjá henni. Kærandi hafi oft beðið barnavernd um að breyta samningnum og hafi starfsmaður sem hafi séð um hennar mál vitað að samningurinn hafi aldrei tekið gildi vegna þess að börnin hafi alltaf verið hjá henni og að þau hafi ekki verið meira en tvær til þrjár nætur hjá föður. Á síðasti fundi hjá barnavernd hafi kæranda verið sagt að barnsfaðir hennar hafi viðurkennt að börnin hafi verið miklu meira hjá henni en honum og að barnavernd sé að fara að fella niður vistunarsamninginn vegna þess að hann hafi ekki verið í verið í gildi. Barnsfaðir kæranda hafi breytt heimilisfangi dóttur þeirra ólöglega en búið sé að leiðrétta það. Hann hafi þannig reynt að nýta sér þetta til að fá greiðslur þó að hann hafi ekki verið með barnið sjálfur. Greiðslur sem Tryggingastofnun hafi greitt kæranda hafi alltaf verið notaðar fyrir börnin.

Starfsmaður barnaverndar sé með marga tölvupósta frá kæranda þess efnis að samningurinn hafi ekki verið gildur og börnin hafi alltaf verið meira hjá henni, stúlkan geti einnig staðfest að faðir hennar eigi ekki rétt á greiðslum frá Tryggingastofnun. Þegar börnin hafi gist hjá föður hafi kærandi þurft að fara með mat handa þeim eða millifæra á þau vegna þessa að enginn matur hafi verið til fyrir þau hjá föður. Kærandi sé með skilaðboð frá börnunum þar sem þau segjast vera svöng og að ekki sé til matur hjá föður þeirra.

Barnavernd viti að barnsfaðir kæranda hafi verið fjarverandi og að börnin hafi oft verið hjá henni. Kærandi hafi oft beðið barnavernd um að breyta vistunarsamningnum en nefndin hafi ekki gert neitt í málinu. Starfsmaður nefndarinnar hafi núna sagt kæranda og hennar lögfræðingi að það eigi að fara að breyta þessu, börnin geti staðfest að stúlkan hafi verið meira hjá kæranda og að faðir noti sálfræðilega „pressun“ á börnin og tali illa um hana við þau.

Barnsfaðir kæranda hafi verið meira og minna [...] nema núna vegna kórónuveirunnar og nú sé hann blankur. Hann beiti [...] dóttur sína andlegu ofbeldi. Kærandi hafi alltaf verið góð með börnin, nú þegar barnsfaðir hennar sé blankur noti hann kæranda sem „grýlu“, sem sé henni mjög erfitt og hafi hún oft kvartað til barnaverndar. Barnsfaðir kæranda hafi áttað sig á að hann geti krafið hana um meðlag sem sé ekki sanngjarnt. Þrátt fyrir vistunarsamninginn hafi dóttir kæranda verið meira hjá henni, hún hafi einungis verið í um tvo til þrjá daga í mánuði hjá föður sínum. Kærandi hafi þurft að sækja hana í skóla vegna þess að henni hafi liðið illa og þá hafi barnsfaðir hennar verið meira og minna [...] nema núna. Kærandi sé með mörg myndbönd og skilaboð sem staðfesti að hann tali illa um hana, þetta ofbeldi fari mjög illa með dóttur þeirra en barnavernd hafi ekkert gert til að stöðva það.

Í athugasemdum frá 12. apríl 2021 komi fram að kærandi geti sýnt fram á framfæslu barnanna og að það sé alfarið rangt að hún hafi ekki verið til staðar fyrir þau. Vísað sé til yfirlits frá júní 2020 þar sem komi fram kostnaður vegna kaupa á mat, fötum og bensíni, annar aukakostnaður og beinar millifærslur til barnanna.

Dóttir kæranda hafi verið mikið hjá henni, þrátt fyrir vistunarsamninginn. Sonur kæranda hafi verið meira hjá föður sínum en samt hafi kærandi oftast þurft að koma með mat til hans vegna vanrækslu föður sem hún hafi oftast tilkynnt barnavernd. Þrátt fyrir vistunarsamninginn hafi dóttir kæranda bara verið í fjóra til átta daga á mánuði hjá föður sínum sem hafi sjálfur viðurkennt það fyrir barnavernd.

Í athugasemdum, dags. 6. maí 2021, kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar um endurgreiðslu umönnunarbóta vegna dóttur kæranda frá 20. júní 2020.

Dóttir kæranda sé með lögheimil hjá henni en hafi verið vistuð tímabundið hjá föður, eða til 17. júní 2021. Þrátt fyrir það hafi stúlkan verið miklu meira hjá kæranda en föður þannig að kærandi hafi að mestu séð um uppihald hennar, auk þess sem hún hafi greitt mikið fyrir bæði börnin, sbr. tölvupóst hennar og kreditkortayfirlit sem hafi verið sent nefndinni. Kærandi hafi því uppfyllt framfærsluskyldu sína. Hún hafi margoft tilkynnt þetta til barnaverndar sem sé meðvituð um stöðuna. Barnsfaðir kæranda sé lítið heima og drengurinn leiti einnig mikið til kæranda sem greiði oft fyrir mat og fleira fyrir hann.

Kærandi hafi ekki fjárhagslega burði til að greiða umrædda kröfu.

Samkvæmt bréfi frá B, dags. 5. nóvember 2020, hafi þáverandi fulltrúi kæranda þar strikað yfir framfærsluskyldu hennar á meðan vistun standi og hafi skilningur kæranda verið sá að engar greiðslubreytingar yrðu gerðar á meðlags- og umönnunargreiðslum.

Bent sé á að á umræddu tímabili hafi faðir barnanna fengið 50.000 til 60.000 kr. á mánuði í framfærslueyri frá B með börnunum frá júní 2020 til febrúar/mars 2020.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærð sé endurkrafa á barnalífeyri og umönnunargreiðslum með dóttur kæranda frá 1. júlí 2020 til 31. mars 2021.

Málavextir séu þeir að með bréfum Tryggingastofnunar, dags. 8. mars 2021, hafi kæranda verið tilkynnt um stöðvun og endurkröfu barnalífeyris og umönnunargreiðslna með dóttur hennar frá 1. júlí 2020 þar sem hún væri ekki lengur með lögheimili hjá kæranda samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá.

Sú skráning í Þjóðskrá hafi verið leiðrétt stuttu síðar en Tryggingastofnun hafi þá borist upplýsingar frá barnavernd um að dóttir kæranda hafi verið í umsjá föður frá 15. júní 2020 og muni vera þar áfram. Af þeim sökum hafi kæranda verið sent bréf, dags. 16. mars 2021, þar sem tilkynnt hafi verið að stöðvun greiðslna og endurkrafa þeirra frá 1. júlí 2020 stæði enn þar sem Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að greiða kæranda barnalífeyri og umönnunargreiðslur frá þeim tíma þar sem hún teldist ekki á framfæri kæranda frá þeim tíma sem sé skilyrði greiðslna.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra sé látið eða sé örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn hafi verið lögð fram. Þá segi í 5. mgr. 20. gr. laganna að barnalífeyrir greiðist foreldrum barnanna, enda séu þau á framfæri þeirra eða öðrum þeim er annist framfærslu þeirra að fullu.

Kveðið sé á um heimild til fjárhagslegrar aðstoðar við framfærendur fatlaðra og langveikra barna í 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þar segi að Tryggingastofnun sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna og taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hafi í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Nánar sé fjallað um heimildir og skilyrði greiðslna í reglugerð nr. 504/1997, með síðari tíma breytingum.

Í 55. gr. laga um almannatryggingar segi að hafi Tryggingastofnun ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögunum skuli stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi kunni síðar að öðlast rétt til. Einnig eigi Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega samkvæmt almennum reglum.

Á Tryggingastofnun hvíli rannsóknarskylda samkvæmt 38. gr. laga um almannatryggingar og eftirlitsskylda samkvæmt 45. gr. sömu laga, en þar segi að stofnunin skuli reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi sé byggð á og að stofnuninni sé heimilt í þágu eftirlits að óska eftir upplýsingum og gögnum frá þeim aðilum sem taldir séu upp í 43. gr. laganna og nauðsynleg séu til að sannreyna réttmæti ákvarðana og greiðslna.

Kærandi hafi fengið greiddar umönnunargreiðslur með dóttur sinni frá 1. ágúst 2013 ásamt barnalífeyri frá 1. desember 2019. Tryggingastofnun hafi borist upplýsingar frá barnaverndarnefnd í mars 2021 um að dóttir kæranda byggi ekki lengur hjá henni heldur væri í umsjá föður og hafi verið frá 15. júní 2020. Lagðir hafi verið fram nokkrir samningar á milli föður stúlkunnar og barnaverndar um að hann hefði umsjá hennar frá 15. júní 2020.

Barnalífeyrir skuli greiða foreldrum barnanna, enda séu þau á framfæri þeirra eða öðrum þeim sem annast framfærslu þeirra að fullu. Þá greiðast umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna sem dveljast í heimahúsi eða á sjúkrahúsi.

Þar sem dóttir kæranda hafi ekki verið lengur búsett hjá henni heldur í umsjá föður hafi Tryggingastofnun litið svo á að hún væri ekki lengur á framfæri kæranda og hefði ekki verið frá 15. júní 2020. Því hafi greiðslur barnalífeyris og umönnunargreiðslna til kæranda verið stöðvaðar frá 1. júlí 2020 og hún endurkrafin um greiðslur frá þeim tíma.

Í kæru segi að dóttir kæranda hafi verið mikið hjá henni, þrátt fyrir vistunarsamning og að hún hafi bara verið fjóra til átta daga í mánuði hjá föður sínum sem hafi viðurkennt það fyrir barnavernd. Hún hafi sinnt framfærslu sinni með dóttur sinni og hafi kærandi lagt fram yfirlit yfir greiðslur til dóttur sinnar og einnig samantekt á kostnaði vegna matar, fata, bensíns og annars aukakostnaðar.

Fullyrðingar kæranda um að dóttir hennar hafi verið mikið og jafnvel meira hjá sér séu ekki studdar neinum gögnum, þrátt fyrir yfirlýsingar kæranda um að barnavernd geti staðfest það.

Þá telji Tryggingastofnun að ekki sé hægt að líta á að með greiðslum kæranda til dóttur sinnar hafi kærandi verið að framfæra barn sitt þar sem um sé að ræða greiðslur til barns undir 18 ára aldri og framfærsla þess sé í höndum barnsföður kæranda. Greiðslur vegna barnsins ættu með réttu að berast honum en engin gögn liggi fyrir um að slíkar greiðslur hafi farið fram. Þá sé ekki skýrt hvað af þessum kostnaði sem kærandi telji fram sé vegna dóttur hennar og hvað sé vegna framfærslu hennar.

Umönnunargreiðslur séu hugsaðar til þess að koma til móts við foreldra vegna umönnunar og kostnaðar sem hljótist af meðferð og þjálfun barns umfram það sem eðlilegt geti talist. Umönnunargreiðslum sé ekki ætlað að koma til móts við tekjutap foreldra heldur sé þeim ætlað að styðja við foreldra vegna aukinnar umönnunar og kostnaðar vegna þjálfunar og meðferðar sem hljótist af vanda barnsins. Undir kostnað vegna meðferðar og þjálfunar barns falli ekki almennur rekstur heimilis, matur, bensín eða föt. Þær greiðslur sem kærandi fullyrði að hafa greitt vegna dóttur sinnar séu þess eðlis að þær teljist til eðlilegs kostnaðar vegna reksturs heimilis og uppeldis á barni.

Ljóst sé að dóttir kæranda sé ekki búsett hjá henni í dag heldur í umsjá föður síns samkvæmt samningum við barnavernd sem teljist framfærandi barnsins í skilningi 20. gr. laga um almannatryggingar og 4. gr. laga um félagslega aðstoð. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að greiða kæranda barnalífeyri og umönnunargreiðslur vegna dóttur hennar á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. mars 2021, annars vegar um stöðvun og endurkröfa greiðslu barnalífeyris með dóttur kæranda og hins vegar stöðvun og endurkrafa á umönnunargreiðslum með dóttur hennar frá 1. júlí 2020 til 31. mars 2021.

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi þegið bæði umönnunargreiðslur og barnalífeyri frá Tryggingastofnun vegna dóttur sinnar. Stofnunin byggir stöðvun og endurkröfu greiðslnanna á því að samkvæmt upplýsingum frá barnavernd hafi dóttir kæranda verið í umsjá föður síns frá 15. júní 2020 og muni vera það áfram. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að greiða kæranda barnalífeyri og umönnunargreiðslur frá 1. júlí 2020 þar sem dóttir hennar hafi ekki verið á framfæri kæranda frá þeim tíma.

A. Umönnunargreiðslur

Ákvæði um umönnunargreiðslur er að finna í 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. nefndrar 4. gr. segir að Tryggingastofnun sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna, sem dveljast í heimahúsi eða á sjúkrahúsi og/eða taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hafi í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Þá sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda barna með alvarleg þroskafrávik, sem jafna megi við fötlun, og barna með alvarleg hegðunarvandamál sem jafna megi við geðræna sjúkdóma.

Í 4. mgr. 4. gr. laganna segir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar. Nánar er fjallað um umönnunargreiðslur í reglugerð nr. 504/1997 um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna.

Í 14. gr. laga um félagslega aðstoð segir að ákvæði laga um almannatryggingar gildi um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við eigi. Þá segir í 2. mgr. 13. gr. laganna að beita skuli V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laga um félagslega aðstoð. Í 55. gr. laga um almannatryggingar, sem er í VI. kafla laganna, er fjallað um innheimtu ofgreiddra bóta. Svohljóðandi er 1. mgr. ákvæðisins:

„Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“

Óumdeilt er að dóttir kæranda var með skráð lögheimili hjá henni hjá Þjóðskrá á umdeildu tímabili. Aftur á móti liggja einnig fyrir samningar frá C þess efnis að barnsfaðir kærandi skuli hafa umsjá með dóttur þeirra frá 15. júní 2020. Jafnframt liggur fyrir áætlun um meðferð frá C þar sem fram kemur að hlutverk forsjáraðila sé að tryggja að dóttir kæranda dvelji alfarið hjá föður á tímabili umsjársamnings. Kærandi byggir á því að þrátt fyrir framangreind gögn hafi hún að miklu leyti staðið undir framfærslu stúlkunnar.

Við mat á því hvernig túlka beri hugtakið framfærandi í skilningi 1. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð telur úrskurðarnefndin rétt að líta til tilgangs umönnunargreiðslna. Úrskurðarnefndin telur að ráðið verði af 4. gr. laganna að tilgangurinn með umönnunargreiðslum sé að mæta kostnaði vegna umönnunar og aukinnar umönnunarþyngdar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að með heimahúsi og heimili í 4. gr. laganna sé átt við lögheimili í skilningi laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur, sbr. 5. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð. Í ljósi þess sem að framan greinir telur úrskurðarnefnd velferðarmála að einungis sá, sem stendur straum af meginútgjöldum vegna umönnunar barns, teljist framfærandi þess í skilningi 1. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð. Ef barn býr ekki hjá báðum foreldrum sínum má jafnan ganga út frá því að það foreldri, sem viðkomandi barn er með lögheimili hjá, sé framfærandi þess. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af framangreindum gögnum frá C að dóttir kæranda hafi í raun verið með fasta búsetu, þ.e. lögheimili í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga um lögheimili og aðsetur, hjá föður frá 15. júní 2020.

Að þessu virtu telur úrskurðarnefnd að framangreind skilyrði umönnunargreiðslna til kæranda hafi ekki verið uppfyllt frá 15. júní 2020. Samkvæmt 2. máls. 1. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur kæranda samkvæmt almennum reglum hafi hún fengið ofgreiddar bætur. Að mati úrskurðarnefndar hefur Tryggingastofnun því heimild til þess að endurkrefja kæranda um ofgreiddar umönnunargreiðslur vegna tímabilsins 1. júlí 2020 til 31. mars 2021.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva umönnunargreiðslur til kæranda og endurkrefja hana um ofgreiddar bætur staðfest.

B. Barnalífeyrir

Tryggingastofnun ríkisins greiðir barnalífeyri á grundvelli 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 1. málsl. 1. mgr. ákvæðisins segir að barnalífeyrir sé greiddur með börnum yngri en 18 ára sé annað hvort foreldra látið eða sé örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram. Í 5. mgr. sömu greinar segir að barnalífeyrir greiðist foreldrum barnanna, enda séu þau á framfæri þeirra, eða þeim öðrum er annist framfærslu þeirra að fullu, sbr. þó 4. mgr. 64. gr.

Í 4. mgr. 64. gr. laganna segir svo:

„Þegar svo háttar til að Tryggingastofnun hefur milligöngu um meðlagsgreiðslur með barni skv. 1. mgr. 63. gr. og hið meðlagsskylda foreldri öðlast rétt til barnalífeyris skv. 20. gr. vegna barnsins er stofnuninni þó heimilt að láta greiðslu barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslu meðlags vegna sama tímabils. Verður þá ekki um kröfu á hendur meðlagsskyldum aðila að ræða fyrir það tímabil.“

Úrskurðarnefndin telur að ráða megi af orðalagi 5. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar, forsögu ákvæðis 20. gr. og tilgangi barnalífeyrisgreiðslna að í þeim tilvikum sem barnalífeyrir er greiddur vegna örorku foreldris beri almennt að greiða barnalífeyri til þess foreldris, enda séu börnin á framfæri þess. Kærandi byggir á því að að dóttir hennar hafi oft verið hjá henni á umdeildu tímabili og að hún hafi að miklu leyti staðið undir framfærslu stúlkunnar. Í fyrrgreindri áætlun frá C kemur fram að dóttir kæranda verði í umgengni við hana aðra hvora helgi. Þá liggur fyrir leyfisbréf til lögskilnaðar frá Sýslumanninum í B, dags. 27. desember 2011, þar sem fram kemur að kærandi og barnsfaðir hennar fari með sameiginlega forsjá og kveðið á um að barnsfaðir kæranda skuli greiða henni meðlag með dóttur sinni. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráða megi af gögnum málsins að barnsfaðir kæranda hafi staðið undir meginútgjöldum vegna stúlkunnar á umdeildu tímabili, enda hafi hann haft umsjá hennar samkvæmt samningum við C. Úrskurðarnefndin telur aftur á móti að ekki liggi fyrir gögn sem staðfesti að dóttir kæranda hafi ekki einnig verið á framfæri kæranda í skilningi 5. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar.

Í ljósi framangreinds er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur barnalífeyris til kæranda og endurkrefja um ofgreiddar bætur felld úr gildi.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva umönnargreiðslur til A, og endurkrefja um ofgreiddar bætur er staðfest. Ákvörðun stofnunarinnar um að stöðva greiðslur barnalífeyris til kæranda og endurkrefja um ofgreiddar bætur er felld úr gildi.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta