Nr. 582/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 18. október 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 582/2023
í stjórnsýslumáli nr. KNU23070074
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 13. júlí 2023 kærði […], kt. […], ríkisborgari Pakistan ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. maí 2023, um að synja umsókn hans um dvalarleyfi fyrir maka á grundvelli 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Ráða má af kæru að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi fyrir maka samkvæmt 70. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi útgefið dvalarleyfi hér á landi fyrir maka, skv. 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga, 30. september 2021 með gildistíma til 15. júlí 2022. Hinn 9. júní 2022 lagði kærandi fram umsókn um endurnýjun dvalarleyfis. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. maí 2023, var umsókn kæranda synjað með vísan til þess að umsókn maka kæranda um dvalarleyfi vegna náms, sem kærandi hugðist leiða rétt sinn af, var felld niður þar sem ljóst var að hún myndi ekki stunda nám á því tímabili sem umsókn hennar náði til. Ákvörðun Útlendingastofnunar barst kæranda með ábyrgðarbréfi 5. júlí 2023. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar 13. júlí 2023.
III. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi lagði ekki fram rökstuðning til stuðnings kæru sinni.
IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í 69. gr. laga um útlendinga er fjallað um skilyrði fyrir dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis samkvæmt 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis samkvæmt 58. gr. geti með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla laganna. Í 2. málsl. sama ákvæðis segir að til nánustu aðstandenda teljist maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára og eldri. Sama gildi um maka, sambúðarmaka og börn þeirra sem stundi framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám og rannsóknir hér á landi á grundvelli 65. gr. laganna. Í 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka.
Samkvæmt gögnum málsins fékk maki kæranda útgefið dvalarleyfi á grundvelli 65. gr. laga um útlendinga 23. september 2021 vegna meistaranáms hér á landi. Kærandi fékk í kjölfarið útgefið dvalarleyfi fyrir maka samkvæmt 70. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 69. gr. laganna, 30. september 2021. Hinn 11. júlí 2022 lagði maki kæranda fram umsókn um endurnýjun á dvalarleyfi. Við skoðun á umsókn hennar kom í ljós að hún hafi ekki staðist kröfu um lágmarksnámsárangur á skólaárinu 2021-2022. Þá hafi hún jafnframt ætlað að taka sér leyfi frá námi skólaárið 2022-2023 vegna veikinda dóttur sinnar. Var umsókn maka kæranda um endurnýjun dvalarleyfis vegna náms því lögð niður hjá Útlendingastofnun 17. febrúar 2023.
Með vísan til framangreinds og þess að kærandi hugðist leiða rétt sinn af dvalarleyfi maka síns er ljóst að skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis fyrir maka til handa kæranda samkvæmt 1. mgr. 70. gr., sbr. 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga, eru ekki uppfyllt. Er ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.
Hinn 15. desember 2022 voru samþykkt lög um landamæri nr. 136/2022 á Alþingi þar sem m.a. voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga. Var a-liður 1. mgr. 98. gr. felldur brott og orðalagi 2. mgr. ákvæðisins breytt á þann veg að svo framarlega sem 102. gr. laga um útlendinga eigi ekki við skuli vísa útlendingi úr landi sem dveljist ólöglega í landinu eða þegar tekin hafi verið ákvörðun sem bindi enda á heimild útlendings til dvalar í landinu. Í frumvarpi því er síðar varð að lögum um landamæri kemur fram að lagt sé til í 2. tölul. e-liðar 25. gr. laga um landamæri að 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga verði breytt þannig að lögin verði í samræmi við brottvísunartilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2008/115/EB og kveði skýrt á um að stjórnvöld skuli vísa brott útlendingum sem dveljist hér á landi án heimildar. Þannig skuli útlendingum sem dveljast hér á landi án heimildar vísað brott og í kjölfarið veittur frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugir. Þannig verði breyting á ákvörðunum er lúta að ákvörðun um umsóknir um dvalarleyfi og alþjóðlega vernd hér á landi.
Þar sem að með ákvörðun Útlendingastofnunar var dvöl kæranda hér á landi orðin ólögmæt hefði Útlendingastofnun með réttu átt að vísa honum brott frá landinu, sbr. 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og ákveða honum endurkomubann til landsins. Útlendingastofnun tók þó enga afstöðu til framangreindra lagabreytinga og sjónarmiða í ákvörðun sinni í máli kæranda heldur var honum aðeins leiðbeint um að heimild hans til dvalar hér á landi og veittur frestur til að yfirgefa landið. Þar sem Útlendingastofnun fjallaði ekki um brottvísun kæranda í ákvörðun sinni verður ekki úrskurðað um brottvísun hans samkvæmt ákvæðinu að svo stöddu. Kærunefnd vísar til leiðbeininga Útlendingastofnunar um að kæranda beri að yfirgefa landið innan 15 daga frá móttöku úrskurðar þessa annars skal Útlendingastofnun taka ákvörðun um brottvísun hans frá landinu og ákveða endurkomubann til Íslands og Schengen-svæðisins.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Þorsteinn Gunnarsson
Gunnar Páll Baldvinsson Sandra Hlíf Ocares