Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 242/2012

Mánudaginn 14. apríl 2014

 A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 28. desember 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála B og A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 18. desember 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 30. janúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 18. febrúar 2013. Greinargerð umboðsmanns var send kærendum með bréfi 21. febrúar 2013 þar sem þeim var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við greinargerðina. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1949 og 1951. Þau búa ásamt tveimur uppkomnum börnum sínum að C götu nr. 17 í sveitarfélaginu D.

Kærandi A er menntaður húsasmiður og byggingafræðingur og hefur auk þess kennsluréttindi. Hann starfar hjá teiknistofunni X ehf. sem er í hans eigu. Kærandi B er snyrtifræðingur að mennt. Hún er í hlutastarfi hjá Y ehf. Kærandi A þiggur mánaðarleg laun frá fyrirtæki sínu, X ehf., og eru útborguð laun hans að meðaltali 120.000 krónur á mánuði. Mánaðarleg útborguð laun kæranda B eru 130.247 krónur að meðaltali. Heildarráðstöfunartekjur kærenda eru um 292.893 krónur að meðaltali á mánuði. Tvö uppkomin börn kærenda sem búa hjá þeim eru við nám í Háskóla Íslands. Að sögn kærenda þiggur hvorugt þeirra námslán en bæði hafi hlutastarf.

Að mati kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til efnahagshrunsins sem átti sér stað í byrjun október 2008. Þá hafi nær öll verkefni teiknistofunnar X ehf. stöðvast, sum verkefni sem í gangi voru hafi verið afturkölluð og fyrir önnur hafi ekki fengist greitt. Samhliða þessum þrengingum hjá teiknistofunni hafi kærandi B misst starf sitt hjá Y. Hafi fjárhagur kærenda því beðið mikla hnekki haustið 2008.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt gögnum málsins eru 29.477.730 krónur en þar af falla 28.459.242 krónur innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Stærsta skuld kærenda er húsnæðislán frá Íbúðalánasjóði. Að auki hvíla á kærendum ábyrgðarskuldbindingar að fjárhæð 7.938.586 krónur vegna X ehf. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2008.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 9. janúar 2012 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 18. desember 2012 var umsókn þeirra hafnað með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr. lge., sbr. 2. gr. sömu laga.

II. Sjónarmið kæranda

Engar kröfur eru settar fram í málinu en skilja verður málatilbúnað kæranda á þann veg að þess sé krafist að synjun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur kveða fjölskylduna hafa í rúm 30 ár haft lifibrauð af rekstri teiknistofunnar X ehf. Kærandi A hafi unnið þar í fullu starfi og kærandi B í hlutastarfi með öðrum hlutastörfum eftir atvikum. Í ársbyrjun 2008 hafi kærandi B starfað við kynningar á framleiðsluvörum hjá Y ehf. Að sögn kærenda var 6. október 2008 vendipunktur í lífi þeirra. Á þeim tímapunkti hefðu mörg verkefni verið í gangi víða um land en tilmæli hafi komið um að stöðva hönnunarvinnu. Hætt hafi verið við flest verkefnin, sum hafi farið hægt af stað aftur og sum hafi ekki fengist greidd. Á sama tíma hafi verið dregið úr kynningarstarfi hjá Y sem leiddi til þess að kæranda B var sagt upp störfum. Hafi kærandi A þá leitað á náðir Vinnumálastofnunar en einungis fengið þar litla aðstoð þar sem hann væri sjálfstæður atvinnurekandi. Árið 2010 hafi kærandi A numið kennslufræði við Háskóla Íslands og þegið námslán.

Í umsókn kærenda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar kemur fram að kærandi B sé í 50% starfi hjá Y en kærandi A hafi tekjur sínar frá teiknistofunni X ehf. og Vinnumálastofnun, en þær tekjur séu ekki miklar. Þá hafi allir sjóðir verið tæmdir, svo sem það sem lagt hafi verið í séreignarlífeyrissjóð, og það hafi fleytt þeim áfram í nokkra mánuði. Kærendur hafi náð að lifa mjög spart og skorið niður á flestum sviðum. Ítrekað hafi þó sú staða komið upp að kærendur hafi ekki getað greitt alla reikninga um mánaðamót og það hafi jafnvel dregist um mánuð eða tvo.

Í kæru sinni til nefndarinnar kveðast kærendur vilja hnykkja á þeirri staðreynd að byggingariðnaðurinn hafi frosið skömmu fyrir hrun og hafi ekki náð sér að fullu ennþá, þó greina megi batamerki undanfarið. Sjálfstætt starfandi aðilar í byggingariðnaðinum hafi því átt á brattann að sækja síðustu ár. Kveður kærandi A það hafa verið von þeirra hjóna að umboðsmaður skuldara væri lykillinn að því að þau gætu komist yfir kreppuárin og litið björtum augum til framtíðar án þess að missa æruna.

Segja kærendur ljóst að síðasta verðmat húseignarinnar að C götu nr. 17 standist ekki og að vonir þeirra hjóna standi til að verð eignarinnar hækki upp í matið á ný á meðan eignin sé í þeirra eigu. Það ástand sem kærendur hafi upplifað síðustu ár hafi andleg og líkamleg áhrif á þá sem sviptir hafi verið lífsviðurværi. Í byrjun desember 2012 hafi kærandi A gengist undir opna hjartaaðgerð en að hann sé þó óðum að ná þreki eftir hana. Þá hafi tekjur þeirra hjóna aukist síðustu mánuði ársins 2012.

Aðspurð að því hvers vegna þau hefðu ekki einfaldlega selt eign sína að C götu nr. 17, þar eð eignastaða þeirra sé í raun jákvæð, segja kærendur eignina þarfnast viðhalds. Húsið sé byggt í kringum 1950 með steyptri loftaplötu og stóluðu þaki þar sem sé geymsluloft, þakrennur þess tíma séu steinsteyptar og að þær þurfi að endurnýja ásamt þakklæðningu. Þá þarfnist gluggar og gler endurnýjunar á nokkrum stöðum. Þá segja kærendur það einnig vera tilfinningamál, húsið hafi verið griðastaður fjölskyldunnar og þau hafi lagt mikla vinnu í að endurnýja það allt og laga að eigin þörfum. Þá hafi lóðin öll verið tekin í gegn með gróðri og eigin smíðaverki kærenda. Loks segja kærendur markað með húseignir á borð við þessa ekki verið upp á marga fiska síðustu árin og að eignir sem þó seljist fari á undirverði miðað við verðmat. Það sé því hvorki mögulegur né góður kostur að selja húsið.

Kærandi A kveðst hafa sótt um fjölda starfa fljótlega eftir hrun og að umsóknir hans skipti hundruðum. Í byrjun janúar 2013 hafi hann hins vegar farið að merkja fjölgun verkefna inn á teiknistofuna og möguleika hjá fyrirtækinu að blómstra. Kærendur segjast vera bjartsýn að eðlisfari, þau hafi bæði sótt um fjölda starfa síðustu misseri og að þau séu sannfærð um að bjartari tímar séu framundan.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.

Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýni ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í greinargerð með lögunum sé tekið fram að forsenda þess að umboðsmaður skuldara samþykki umsókn skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar sé sú að skuldari sé einstaklingur ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar eða verði það um fyrirsjáanlega framtíð.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum séu áhvílandi veðkröfur á fasteign umsækjenda að C götu í sveitarfélaginu D samtals að fjárhæð 43.375.891 króna. Í greinargerð umsækjenda með umsókn þeirra um greiðsluaðlögun 5. febrúar 2012 hafi umsækjendur tekið fram að fasteignasali hafi verðmetið fasteign þeirra á 49.000.000 króna. Á grundvelli þessara upplýsinga var eignastaða kæranda metin jákvæð.

Þrátt fyrir mat embættisins um að umsækjendur ættu augljóslega í greiðsluerfiðleikum þótti ekki hægt að líta framhjá því að eignastaða þeirra væri jákvæð þar sem fasteign þeirra hafi verið metin á 49.000.000 króna en áhvílandi veðskuldir hafi einungis numið 43.375.891 krónu. Umsækjendur hafi svarað því til að önnur fasteignasala hafi verið fengin til að verðmeta eignina og hafi hún metið hana á 44.500.000 krónur.

Í niðurstöðu sinni segir umboðsmaður að þrátt fyrir að ljóst sé að umsækjendur glími við greiðsluvanda verði ekki annað séð en að eignastaða þeirra sé jákvæð og að með sölu á eigninni gætu þau losað sig við allar skuldir. Gildi þá einu hvort miðað sé við það verðmat á fasteigninni sem fram kom í greinargerð þeirra í febrúar 2012, þ.e. 49.000.000 króna, eða í svari þeirra við andmælabréfi umboðsmanns skuldara í júlí 2012, þ.e. 44.500.000 krónur. Sé það því niðurstaða embættisins að kærendur uppfylli ekki grundvallarskilyrði laganna um að vera ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Var kærendum því synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr. lge., sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. lge. Nánar tiltekið er talið að eignastaða kærenda sé jákvæð og því séu þau ekki ógjaldfær í skilningi lge. Í 1. mgr. 2. gr. segir að einstaklingur sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar geti leitað greiðsluaðlögunar í samræmi við lögin. Í 2. mgr. 2. gr. segir að einstaklingur teljist ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar þegar ætla má að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. segir að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að forsenda þess að umboðsmaður skuldara samþykki umsókn skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar sé sú að skuldari sé einstaklingur og ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar eða verði það um fyrirsjáanlega framtíð. Greiðsluerfiðleikar verða að hafa staðið eða vera líklegir til að standa um nokkurn tíma og lausn þeirra ekki í sjónmáli. Þegar afstaða sé tekin til þess hvort veita skuli heimild til að leita greiðsluaðlögunar þurfi að meta greiðslugetu skuldarans og möguleika hans á að standa í skilum. Hafna beri umsókn ef greiðslugeta er til staðar enda þótt eiginfjárstaða viðkomandi sé neikvæð.

Í bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 6. janúar 2012 segir að það sé mat ráðgjafa á vegum embættisins að kærendur eigi í verulegum greiðsluerfiðleikum og að núverandi greiðslubyrði sé langt umfram greiðslugetu. Samkvæmt greiðsluerfiðleikamati séu mánaðarlegar tekjur kærenda áætlaðar samtals 248.368 krónur. Miðað við þær upplýsingar liggi fyrir að kærendur vanti 271.123 krónur á mánuði til að geta staðið í skilum með umsamdar greiðslur. Inni í þeirri tölu séu dráttarvextir af vanskilum samtals að fjárhæð 41.648 krónur en að öðru leyti væri ekki tekið tillit til greiðslu vanskila sem þá voru samtals 4.253.358 krónur. Heildarskuldir kærenda voru þá taldar 40.083.852 krónur.

Í andmælabréfi til kærenda 21. júní 2012 fór umboðsmaður yfir greiðslugetu kærenda og komst að þeirri niðurstöðu að hún væri neikvæð um að minnsta kosti 22.425 krónur á mánuði. Meðaltekjur kærenda árið 2008 voru samkvæmt skattframtali 268.515 krónur. Samkvæmt framfærsluviðmiðum embættis umboðsmanns skuldara nam framfærslukostnaður kærenda 180.658 krónum á mánuði án tillits til afborgunar lána og annarra skulda. Samkvæmt því hefðu þau 87.857 krónur aflögu á mánuði til greiðslu skulda. Samkvæmt upplýsingum frá Íbúðalánasjóði kvað umboðsmaður greiðslubyrðina af íbúðarláni þeirra, eina og sér, 110.823 krónur á mánuði. Þannig vantaði mánaðarlega 22.425 krónur upp á að kærendur gætu greitt af láni Íbúðalánasjóðs og væru þá ótaldar skuldbindingar kærenda upp á samtals 17.618.910 krónur í lok árs 2008.

Í ákvörðun sinni um að synja kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar ítrekar umboðsmaður þá afstöðu sína að kærendur eigi í greiðsluvanda.

Samkvæmt 1. gr. lge. er það markmið laganna að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Í máli þessu liggur fyrir að skuldbindingar kærenda eru þegar fallnar í vanskil og umboðsmaður skuldara hefur fallist á að þau eigi í greiðsluvanda.

Í 9. gr. lge. segir að hafi umboðsmaður skuldara samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun skuli hann þegar í stað skipa umsjónarmann með greiðsluaðlöguninni. Samkvæmt 13. gr. laganna getur umsjónarmaður með greiðsluaðlögun ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem hann telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þannig er gert ráð fyrir að mat á því hvort ætlast megi til þess að skuldari selji eignir sínar til þess að geta staðið í skilum sé almennt í höndum umsjónarmanns með greiðsluaðlögun og að slíkt mat fari fram eftir að greiðsluaðlögunarumleitanir eru hafnar samkvæmt III. kafla laganna. Eins og hér stendur á verður að telja að það sé fremur á hendi umsjónarmanns með greiðsluaðlögun en umboðsmanns skuldara að gera kröfu um að skuldari sem sannanlega á í greiðsluvandræðum og getur þar af leiðandi ekki staðið við fjárskuldbindingar sínar selji eignir sínar til þess að geta staðið í skilum.

Þegar allt framaritað er virt telur kærunefndin ekki unnt að líta svo á að kærendur teljist gjaldfær og að þau fullnægi því ekki skilyrði a-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. lge., til að leita greiðsluaðlögunar, á þeim forsendum einum að eignastaða þeirra sé jákvæð. Telur kærunefndin því að A og B hafi ranglega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta