Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 106/2012

Fimmtudaginn 18. september 2014

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 8. júní 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 23. maí 2012 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 13. júní 2012 óskaði kærunefndin eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 25. júní 2012.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kærendum til kynningar með bréfi 19. júlí 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 23. október 2013. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1971 og 1977. Þau eru í hjúskap og búa ásamt fjórum börnum sínum í eigin fasteign sem þau keyptu í lok árs 2007. Kærandi A er með meistaragráðu í stjórnun og tækniþróun og starfar í 60% starfi sem framkvæmdastjóri X. Hann hefur einnig tekjur af fasteignaumsjón sem verktaki. Kærandi B er lífeindafræðingur en hún er heimavinnandi sem stendur. Kærendur stunduðu nám í Danmörku um árabil en fluttu til Íslands 2007.

Ráðstöfunartekjur kærenda eftir skatta að meðtöldum bótum eru samtals 422.956 krónur á mánuði að meðaltali.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 57.559.671 króna en skuldir að fjárhæð 11.723.482 krónur falla utan samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Að sögn kærenda má rekja greiðsluerfiðleika þeirra til hækkunar neysluverðs í þjóðfélaginu og mikillar hækkunar íbúðarlána sem séu að hluta til í erlendri mynt.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. febrúar 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Umsjónarmaður var skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra.

Umsjónarmaður lagði drög að frumvarpi til greiðsluaðlögunar fyrir kröfuhafa 29. desember 2011. Í frumvarpinu mælti umsjónarmaður með því að kærendur fengju algera niðurfellingu samningskrafna. Var það rökstutt með því að stærstur hluti samningskrafna væri tryggður með lánsveði í fasteign móður kæranda B og kæmi því ekki til eiginlegrar eftirgjafar. Umsjónarmanni bárust mótmæli frá Landsbankanum 17. janúar 2012 en bankinn féllst ekki á tillögu umsjónarmanns. Þess í stað lagði bankinn til að kærendum yrði veittur greiðslufrestur í eitt ár og í lok þess tímabils myndu kærendur leita samninga við bankann um framhald greiðslna.

Umsjónarmaður fór þess á leit við Landsbankann að afstaða bankans yrði endurskoðuð, sbr. 3. mgr. 17. gr. lge., og lagði til að kærendur fengju 50% eftirgjöf samningskrafna auk greiðslufrests í eitt ár. Bankinn féllst ekki á þessa tillögu umsjónarmanns en lýsti sig þó reiðubúinn til að veita kærendum 50% eftirgjöf annarra samningskrafna en þeirrar kröfu sem tryggð væri með veði í fasteign móður kæranda B. Bankinn lýsti því jafnframt yfir að ekki yrði fallist á frekari eftirgjöf á skuldum kærenda.

Kærendur voru ekki fús til að lýsa yfir vilja til að leita nauðasamninga samkvæmt 18. gr. lge. og umsjónarmaður taldi ekki líkur á að frekari greiðsluaðlögunarumleitanir skiluðu árangri. Með bréfi umsjónarmanns 22. febrúar 2012 var umboðsmanni skuldara tilkynnt að greiðsluaðlögunarumleitanir hefðu ekki borið árangur og því væri störfum hans lokið.

Með bréfi umboðsmanns skuldara 29. mars 2012 voru kærendur upplýst um afstöðu umsjónarmanns. Var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge., áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunar­umleitanir. Umboðsmanni barst ekki svar við bréfinu.

Með ákvörðun 23. maí 2012 felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda með vísan til 15. gr. lge.

 II. Sjónarmið kærenda

Kærendur beina því til kærunefndarinnar að mál þeirra verði tekið fyrir að nýju. Það verður að skilja svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir verði felld úr gildi. Kærendur beina því jafnframt til kærunefndar að kannað verði til hlítar hvort ekki sé hægt að fá leiðréttingu á íbúðarlánum þeirra í samræmi við verðmat íbúðar. Einnig óska þau þess að nefnt lánsveð sé innan þeirrar leiðréttingar enda sé það lán sem tekið hafi verið til kaupa á íbúð þeirra.

Kærendur greina frá því að allt síðan í janúar 2010 hafi þau leitað allra mögulegra leiða til að fá veðflutning á lánsveði sem tekið hafi verið við íbúðarkaup þeirra í desember 2007. Veðsali sé móðir kæranda B. Þegar íbúðin hafi verið keypt hafi þau notið kjara sem Landsbankinn hafi boðið fólki sem var að koma úr námi og var að kaupa húsnæði. Lánið hafi verið veitt gegn lánsveði til að fjármagna kaupverð umfram 70%. Landsbankinn hafi lánað kærendum 12.700.000 krónur með tveimur lánum. Annars vegar 8.750.000 krónur sem setja átti á 3. veðrétt hinnar keyptu eignar og lánsveð í eigu móður kæranda B. Hins vegar 3.950.000 krónur sem sett hafi verið á 2. veðrétt hinnar keyptu eignar. Fór það svo að fyrrnefnda lánið fór aðeins á lánsveðið. Þá hafi verið ákveðið að færa lánsveðið á fasteign kærenda að ári liðnu, en við hrunið 2008 hafi lánin hækkað og samningaumleitanir stöðvast. Við fyrirspurnir til Landsbankans hafi málið verið sett í umsóknarferli um sértæka skuldaaðlögun og því hafi síðan verið neitað.

Í febrúar 2010 hafi kærendum verið tjáð að þrátt fyrir forsögu málsins væri ekki mögulegt að færa lánsveðið yfir á fasteign kærenda. Þeim hafi verið bent á að fara í greiðsluerfiðleikamat sem þau hafi gert. Hafi það ferli tekið marga mánuði en eftir það hafi þau sótt um svokallaða 110% leið sem engu hafi skilað. Í október 2010 hafi kærendur sótt um sértæka greiðsluaðlögun að beiðni Landsbankans.

Í ársbyrjun 2011 hafi komist skriður á mál kærenda hjá umboðsmanni skuldara og þeim hafi verið skipaður umsjónarmaður. Enn á ný hafi kærendur safnað saman gögnum og nú fyrir umsjónarmanninn sem hafi haft samband við lánastofnanir og leitað úrræða til skuldalækkunar. Ekki hafi náðst samningar við Landsbankann um flutning eða niðurfellingu á því lánsveði sem málið hafi snúist um frá upphafi og nú eigi að vísa þeim úr greiðsluskjóli.

Nú séu kærendur beðin um að lýsa því yfir við umboðsmann skuldara að þau séu ekki tilbúin að fara í nauðasamninga enda hafi komið fram í samskiptum við umsjónarmann að slíkt myndi að öllum líkindum ekki leiða til hagfelldari niðurstöðu fyrir þau. Kærendur neiti að gefa yfirlýsingu um að þau vilji ekki fara í nauðasamninga. Þeim finnist þau ekki hafa fengið úrlausn sinna mála og séu ekki tilbúin til að fara aftur á byrjunarreit að eigin beiðni.

 III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Í 1. mgr. 15. gr. lge. segir að ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Þegar svo hátti til að samningur hafi ekki tekist um greiðsluaðlögun mæli lge. fyrir um framhald máls, sbr. 18. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. lge. beri umsjónarmanni að taka afstöðu til þess hvort hann mæli með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar berist ósk um slíkt frá skuldara. Í máli þessu hafi ekki borist ósk þar að lútandi frá kærendum og þau hafi heldur ekki viljað draga umsókn sína til baka. Engu að síður verði ekki annað séð af gögnum málsins en að greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda sé í raun lokið.

Í lge. sé ekki beinlínis gert ráð fyrir að þessi staða komi upp. Þar af leiðandi verði ekki ályktað að óheimilt sé að fella greiðsluaðlögunarumleitanir niður í slíkum tilvikum þar sem fyrirsjáanlegt sé að engin niðurstaða muni fást með áframhaldandi umleitunum. Hafa verði í huga að kærendur njóti frestunar greiðslna, svonefnds greiðsluskjóls, samkvæmt 12. gr. lge. Greiðsluskjól skuldara sé íþyngjandi fyrir kröfuhafa en skerði jafnframt athafnafrelsi skuldara og á meðan þessi staða sé uppi sé þess ekki að vænta að nein varanleg lausn muni fást vegna fjárhagserfiðleika kærenda.

Hið svokallaða greiðsluskjól sé ekki sjálfstætt úrræði og því verði greiðsluaðlögunarumleitunum ekki haldið áfram í þeim tilgangi að kærendur njóti þess áfram, líkt og þau virðist fara fram á. Greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda hafi ekki skilað árangri og þar sem kærendur hafi ekki sett málið í þann farveg sem lge. geri ráð fyrir verði að telja að fella beri niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunarumleitana. Væri umboðsmanni skuldara ekki heimilt að grípa til þess ráðs myndi það leiða til þess að glufa væri komin í greiðsluaðlögun sem úrræði þar sem skuldarar gætu verið í greiðsluskjóli endalaust án þess að varanleg lausn fengist vegna fjárhagserfiðleika þeirra. Þetta stangist á við tilgang lge.

Í 3. málsl. 1. mgr. 18. gr. lge. segi að við mat á því hvort mælt sé með að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á skuli umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir skuldara til sín taka.

Umsjónarmaður hafi ekki beinlínis mælt gegn því að leita nauðasamnings fyrir kærendur samkvæmt 2. mgr. 18. gr. lge. heldur aðeins bent á að kærendur hafi ekki sérstaklega farið fram á að leitað yrði nauðasamnings samkvæmt 1. mgr. 18. gr. lge. Að mati umboðsmanns skuldara verði að skilja bréf umsjónarmanns svo að hann fari fram á að málið verði látið niður falla á grundvelli 15. gr. lge. Sé það álit umsjónarmanns að ekki séu líkur á að frekari greiðsluaðlögunarumleitanir skili árangri en hann hefur tilkynnt umboðsmanni með bréfi 23. nóvember 2011 að hann telji rétt að málið verði látið niður falla, sbr. 15. gr., sbr. einnig 18. gr. lge.

Samkvæmt 15. gr. lge. skal fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil. Í VI. kafla lge. sé því síðan lýst hvernig samningur um greiðsluaðlögun komist á og í V. kafla sé meðal annars lýst úrræðum skuldara komist slíkur samningur ekki á. Þegar svo hátti til að greiðsluaðlögunarumleitanir hafi ekki skilað árangri og skuldari hafi lýst því yfir að hann muni ekki nýta sér þau úrræði sem honum bjóðist samkvæmt lge., þ.e. að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar, verði að telja að leitað hafi verið allra leiða til að koma á greiðsluaðlögun hjá skuldaranum. Að svo komnu máli séu engar leiðir fyrir hendi til að koma á greiðsluaðlögun fyrir skuldarann. Með öðrum orðum sé greiðsluaðlögun ekki heimil. Þannig verði að telja að upp sé komin sú staða sem lýst sé í 15. gr. lge.

Einnig verði að líta til þess að umboðsmanni hafi hvorki borist gögn né skýringar frá kærendum sem varpað gætu nánara ljósi á málsatvik en kærendur hafi ekki svarað bréfi umboðsmanns 29. mars 2012. Þá hafi kærendur ekki orðið við ábendingum um að afturkalla umsókn sína um greiðsluaðlögun samkvæmt 5. mgr. 7. gr. lge.

Gögn málsins beri með sér að umsjónarmaður hafi leitað samnings um greiðsluaðlögun við Landsbankann með þau sjónarmið í huga sem kærendur haldi uppi í málinu. Telja verði því að fullreynt sé að koma á samningum innan skilyrða lge. Kærendur geti ekki vænst þess að þeim yrði heimilt að vera innan vébanda greiðsluaðlögunar og þar með í greiðsluskjóli einungis í þeim tilgangi að þvinga viðsemjendur til að sættast á niðurstöðu sem væri kærendum hagfelldari. Þá geti umboðsmaður skuldara ekki í einstökum málum þvingað kröfuhafa til samninga sem þeir séu ekki tilbúnir til að fallast á. Hafi samningur um greiðsluaðlögun ekki tekist og skuldari lýsi ekki yfir vilja til að leita nauðasamnings þjóni það engum lögmætum tilgangi að kærendur séu áfram innan greiðsluaðlögunar.

Af framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins sé ekki hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. en þar segir að ef fram koma upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Kærendur keyptu íbúð 2007. Þau fjármögnuðu kaupin annars vegar með láni frá Íbúðalánasjóði og hins vegar með tveimur erlendum lánum frá Landsbankanum. Annað lána Landsbankans var svonefnt lánsveð, tryggt með veði í íbúð móður kæranda B og snýst málatilbúnaður kærenda að mestu leyti um að fá það lán fellt niður að því leyti sem það rúmast ekki innan verðmætis fasteignar þeirra.

Eins og 1. mgr. 17. gr. lge. gerir ráð fyrir gerði umsjónarmaður kærenda með greiðsluaðlögunarumleitunum frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun og sendi það kröfuhöfum í lok desember 2011. Umsjónarmaður mælti með því að kærendur fengju algera niðurfellingu samningskrafna en stærstur hluti samningskrafna var nefnd skuld við Landsbankann. Hefði það haft þau áhrif að krafan yrði felld niður gagnvart kærendum en veðkrafa gagnvart móður kæranda B stæði. Þessu hafnaði Landsbankinn og gerði á móti tillögu um að kærendur fengju eins árs greiðslufrest og gengju til samninga við bankann að honum loknum. Umsjónarmaður gerði tilraun til að fá Landsbankann til að endurskoða afstöðu sína til frumvarpsins í samræmi við 3. mgr. 17. gr. lge. Bauð bankinn þá 50% niðurfellingu á öðrum samningskröfum en kröfu þeirri sem tryggð var með fyrrnefndu lánsveði. Á þetta féllust kærendur ekki og þar af leiðandi náðist ekki samningur um greiðsluaðlögun.

Við slíkar aðstæður er greiðsluaðlögunarumleitunum lokið. Skuldarar eiga þess kost í framhaldinu að lýsa því yfir við umsjónarmann að þeir óski eftir að leita nauðasamnings á grundvelli 18. gr. lge. og fer þá um málið eftir V. kafla lge. Það gerðu kærendur ekki og kom því ekki til þess að málið færi í farveg nauðasamnings. Umsjónarmaður tilkynnti umboðsmanni skuldara að greiðsluaðlögunarheimildir hefðu ekki borið árangur. Við því brást umboðsmaður skuldara með því að senda kærendum bréf þar sem fram kom að embættið teldi framkomnar upplýsingar sem hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil. Væri það því mat embættisins að fella bæri niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á grundvelli 15. gr. lge. sem áður er rakin.

Í athugasemdum með 15. gr. lge. segir að ákvæðið eigi fyrst og fremst við þau tilvik þar sem nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiða til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt I. og II. kafla lge. Í I. kafla lge. er fjallað um markmið greiðsluaðlögunar, hverjir geti leitað greiðsluaðlögunar og til hvaða krafna greiðsluaðlögun taki. Í II. kafla lge. kemur fram hvernig umsókn um greiðsluaðlögun eigi að vera úr garði gerð, hvernig rannsóknarskyldu umboðsmanns skuldara sé háttað og hvaða aðstæður geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð. Eru þær aðstæður einkum þegar skuldari útvegar ekki nauðsynleg gögn, þegar hann hagar sér óheiðarlega, þegar hann stofnar til skulda umfram greiðslugetu og hagar fjármálum sínum á ámælisverðan hátt. Loks er í II. kafla að finna ákvæði er varða afgreiðslu umboðsmanns á umsókn um greiðsluaðlögun og tímabil greiðsluaðlögunarumleitana.

Í máli þessu hagar svo til að kærendur hafa tekið þátt í ferli greiðsluaðlögunarumleitana allt til enda. Samningur um greiðsluaðlögun tókst ekki þar sem einn kröfuhafa samþykkti ekki framlagt frumvarp. Tilraunir umsjónarmanns til að fá þann kröfuhafa til að endurskoða afstöðu sína báru ekki þann árangur að samningar tækjust. Af þeim sökum lauk greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda án þess að samningur um greiðsluaðlögun kæmist á. Við þær aðstæður bar umboðsmanni skuldara að tilkynna sýslumanni um niðurfellingu tímabundinnar frestunar greiðslna, óska skráningar á henni í þinglýsingabók og birta tilkynningu um niðurfellingu í Lögbirtingarblaði eins segir í niðurlagsákvæði 6. mgr. bráðabirgðaákvæðis II lge., sbr. 1. gr. laga nr. 128/2010.

Er það mat því kærunefndarinnar að ekki hafi verið lagaheimild til þess að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar á þann hátt sem umboðsmaður skuldara gerði með vísan til 15. gr., sbr. I. og II. kafla lge.

Með vísan framangreinds er ákvörðun umboðsmanns skuldara felld úr gildi.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er felld úr gildi.

 Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta