Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 41/2014

Fimmtudaginn 25. september 2014

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 10. apríl 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 18. mars 2014 þar sem umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar var synjað.

Með bréfi 28. apríl 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 16. maí 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 20. maí 2014 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust kærunefndinni.

 I. Málsatvik

Kærandi lagði inn umsókn um greiðsluaðlögun 11. júní 2013. Kærandi er fædd 1980 og býr ásamt syni sínum í Svíþjóð.

Kærandi lauk námi á Íslandi árið 2013 og flutti til Svíþjóðar í júní sama ár. Kærandi starfar við eigin rekstur. Fram kemur í ákvörðun umboðsmanns skuldara að mánaðarlegar tekjur kæranda séu 125.374 krónur eftir frádrátt skatts. Auk þess fái hún greiddar barnabætur, meðlagsgreiðslu og húsaleigubætur sem nema samtals 130.493 krónum á mánuði.

Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til ársins 2006 þegar hún festi kaup á lóð í C í sveitarfélaginu C. Kærandi fjármagnaði kaupin að hluta til með söluandvirði eignarhluta hennar í íbúð og að hluta til með lántökum. Skömmu síðar hóf kærandi sambúð og keypti ásamt sambýlismanni sínum fasteign sem þau fjármögnuðu með 100% lántöku. Sambúðarslit urðu árið 2007 en kærandi ákvað samt sem áður að halda áfram með bygginu einingahúss á lóðinni við B. Efnahagshrunið haustið 2008 ásamt fleiri þáttum urðu til þess að ekki tókst að ljúka byggingu hússins og fór svo að eignin var seld á nauðungarsölu 2. júní 2010. Eftirstæðar kröfur eftir söluna eru samtals 13.964.316 krónur.

Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru heildarskuldir kæranda 27.290.981 króna og þar af falla 11.889.063 krónur utan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Þær skuldir sem falla utan samnings um greiðsluaðlögun eru vegna námslána.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 17. mars 2014 var umsókn kæranda um greiðsluaðlögun synjað með vísan til þess að hún uppfyllti ekki skilyrði til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Málatilbúnað kæranda verður að skilja svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja um heimild til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Að sögn kæranda sé það ekki rétt að hún sé með tekjur í Svíþjóð. Kærandi hafi einungis fengið húsaleigubætur, barnabætur og umönnunarbætur en engar aðrar tekjur. Kærandi kveðst ekki hafa getað staðið í skilum með skuldbindingar sínar eftir hún missti fasteign sína á Íslandi. Hún hafi flutt til Svíþjóðar til að afla tekna þar sem hún var tekjulaus á Íslandi. Þá hafi hún fengið stuðning í Svíþjóð sem ekki hafi verið til staðar á Íslandi.

Kærandi kveðst ætla flytja aftur til Íslands árið 2016 en hún geti ekki sýnt fram á að svo verði þar sem hún sé ekki með atvinnusamning en sé í sjálfstæðum rekstri. Hún sjái ekki fram á að geta greitt af skuldbindingum sínum fái hún ekki aðstoð frá umboðsmanni skuldara. Það sé miður að einstaklingar sem leiti leiða til að ganga frá sínum málum og vilji vera heiðarlegir sé synjað um heimild til greiðsluaðlögunar vegna tímabundna aðstæðna.

Kærandi tekur fram að búseta hennar erlendis hafi einungis verðið síðan sumarið 2013. Þá hafi hún óskað eftir sérstaklega stuttum leigusamning fyrir eigin rekstur vegna þess að tímabundin búseta hafi alltaf staðið til. Undir venjulegum kringumstæðum séu leigusamningar í Svíþjóð til þriggja ára.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. sé sett það skilyrði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar að umsækjandi sé búsettur og eigi lögheimili hér á landi. Frá þessu skilyrði megi þó víkja ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar er tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hefur átt lögheimili eða verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfleytt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafi hér á landi við lánardrottna sem eigi hér heimili.

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands fluttist kærandi búferlum til Svíþjóðar með breytingu á lögheimili 11. júní 2013. Að sögn kæranda sé hún að byggja upp eigin rekstur og samkvæmt fyrirliggjandi leigusamningi hafi hún tekið á leigu atvinnuhúsnæði til eins árs frá 24. september 2013. Samningurinn sé uppsegjanlegur með sex mánaða fyrirvara. Kærandi hafi fengið styrk til að greiða leiguna í sex mánuði. Reksturinn sé ekki farinn að skila arði, en kærandi hafi sótt um styrki og unnið aukastörf meðfram því að byggja upp reksturinn. Að sögn kæranda ætlar hún að flytja aftur til Íslands þegar aðstæður á vinnumarkaði batna í því fagi sem hún hefur lært og starfað við.

Umboðsmaður skuldara greinir frá því að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi úrskurðað í máli þar sem uppi hafi verið ágreiningur um hvort líta ætti á búsetu kæranda erlendis sem tímabundna þannig að undantekningarheimild 4. mgr. 2. gr. lge. ætti við. Í úrskurði nefndarinnar frá 24. nóvember 2011 segi: „Til að afmarka þau tilvik þar sem um tímabundna búsetu erlendis er að ræða verður að líta til þess að heimildin er undantekning frá meginreglu, sem ekki er ætlað að ná til allra sem flytja erlendis um ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Það ræður ekki úrslitum í málum af þessu tagi hvort viðkomandi hafi flutt lögheimili sitt erlendis. Hins vegar verður við það að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði geri það líklegt að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða.“

Með tölvupósti 20. febrúar 2014 hafi umboðsmaður skuldara óskað eftir gögnum og/eða upplýsingum frá kæranda sem sýndu fram á að í upphafi hafi verið markaður ákveðinn tími til búsetu erlendis og hvenær kærandi geri ráð fyrir að flytja til Íslands. Einnig hafi verið óskað eftir upplýsingum um mánaðarlegar tekjur hennar, svo sem laun, barnabætur, meðlag, húsaleigubætur og upplýsingar um útgjöld vegna húsnæðis. Svar kæranda hafi borist með tölvupósti 6. mars 2014. Í svari kæranda hafi verið upplýsingar og gögn um tekjur og rekstrarkostnað húsnæðis. Enn fremur hafi borist greinargerð frá kæranda vegna búsetu hennar erlendis. Þar hafi kærandi greint frá því að hún væri með eins árs leigusamning á atvinnuhúsnæði. Einnig hafi hún greint frá því að hún væri að vinna að því að koma á stofn eigin rekstri og hafi sótt um styrki í þeim tilgangi. Þá hafi kærandi greint frá því að hún hafi verið í sambandi við aðra fagaðila á sínu sviði á Íslandi sem telji að aðstæður líti ekki vel út sem stendur. Kærandi ætli sér að flytja aftur til Íslands þegar aðstæður batni en hún hyggi á heimkomu sumarið 2016 og vonist þá til að geta fært reksturinn til Íslands. Hún verði þá búin að afla sér reynslu í Svíþjóð.

Umboðsmaður skuldara telur í ljósi lögheimilisskráningar kæranda að hún uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt 4. gr. lge. Enn fremur sé ekki hægt að líta svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða þar sem búsetu kæranda hafi ekki verið markaður ákveðinn tími í upphafi og ekki sé fullnægjandi að kærandi hyggist flytja aftur til Íslands einhvern tímann í framtíðinni, til dæmis við breyttar aðstæður sem óvíst sé og þá hvenær verði. Umboðsmaður bendir á að kæranda sé frjálst að sækja um greiðsluaðlögun þegar búsetuskilyrði verði uppfyllt að nýju.  

Í viðbótargreinargerð umboðsmanns skuldara 16. maí 2014 kemur fram að varðandi athugasemdir kæranda um tekjur hennar vilji embættið taka fram að um bráðabirgðaútreikninga hafi verið að ræða þar sem byggt hafi verið á sænskum gögnum sem kærandi hafi sent embættinu 6. mars 2014. Útreikningar embættisins hafi ekki verið bornir sérstaklega undir kæranda þar sem mál hennar snerist helst um það hvort búseta hennar erlendis gæti talist tímabundin í skilningi lge.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins er það mat umboðsmanns að kærandi uppfylli ekki skilyrði til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. segir að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eigi lögheimili og eru búsettir hér á landi. Frá þessu má þó víkja, meðal annars á þeim grundvelli að sá sem leitar greiðsluaðlögunar sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfellt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafi hér á landi við lánardrottna sem eigi hér heimili.

Framangreind ákvörðun umboðsmanns byggist á því að kærandi sé búsett erlendis. Ekki sé unnt að líta svo á að búseta hennar sé tímabundin vegna náms, starfa eða veikinda í skilningi undantekningarákvæðis 4. mgr. 2. gr. lge. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge. var því umsókn kæranda um greiðsluaðlögun synjað.

Í málinu er ágreiningur um hvort líta eigi á búsetu kæranda erlendis sem tímabundna þannig að áðurnefnd undantekningarheimild í 4. mgr. 2. gr. lge. eigi við.

Til skýringar á hugtakinu „tímabundin búseta erlendis“ í skilningi lge. verður að líta til þess að heimildin í 4. mgr. 2. gr. lge. er undantekning frá meginreglu og ber að skýra þröngt. Af orðalagi ákvæðisins má ráða að því er ekki ætlað að ná til þeirra sem flytja til annarra landa í ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Við það verður að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði valdi því að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Að mati kærunefndarinnar verður ekki litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða ef sú staðhæfing er ekki studd gögnum. Nefndin telur ekki fullnægjandi í þessu sambandi að kærandi lýsi því yfir að hún hyggist flytja aftur til Íslands þegar fram líða stundir, til dæmis við breyttar aðstæður, sem óvíst er hvort og þá hvenær verði. Samkvæmt því telur nefndin ekki nægilegt í þessu sambandi að kærandi lýsi því yfir að hún hyggist flytja aftur til Íslands þegar aðstæður á vinnumarkaði batni. Þá hefur kærandi ekki sýnt fram á með viðhlítandi gögnum að búseta hennar sé tímabundin.

Í tilviki kæranda liggur fyrir að hún er búsett í Svíþjóð. Kærandi hefur verið með skráð lögheimili í Svíþjóð frá 11. júní 2013. Að mati kærunefndarinnar hefur kærandi ekki sýnt fram á að víkja skuli frá skilyrði 4. mgr. 2. gr. lge. vegna búsetu hennar erlendis.

Með vísan til þessa er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta