Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 69/2014

Fimmtudaginn 25. september 2014

A

gegn

skipuðum umsjónarmanni B.

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 14. júlí 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B lögfræðings, sem tilkynnt var með bréfi 1. júlí 2014, þar sem umsjónarmaður mælti gegn því að nauðasamningur komist á með vísan til 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

I. Málsatvik

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 10. janúar 2014 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Þann 19. mars 2014 var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar­umleitunum í máli kæranda.

Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að á fundi kæranda og umsjónarmanns 25. mars 2014 hafi kærandi upplýst að 20. desember 2007 hafi hún gert bílasamning við Landsbankann vegna bifhjólsins O árgerð 2007. Kærandi hafi verið skráð umráðamaður yfir bifhjólinu en sonur hennar hefði það til afnota. Að sögn kæranda hafi bifhjólið eyðilagst og hafi því verið hent ásamt númeraplötum þess. Á fundi umsjónarmanns hafi verið lagt fyrir kæranda að hún útvegaði Landsbankanum staðfestingu um að bifhjólið væri ekki lengur til. Að öðrum kosti myndi Landsbankinn ekki samþykkja frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Veitti umsjónarmaður kæranda frest til að útvega Landsbankanum umrædda staðfestingu.

Þann 12. maí 2014 upplýsti kærandi umsjónarmann um að hún hefði farið með staðfestingu frá Samgöngustofu um að bifhjólið væri ónýtt til Landsbankans. Umsjónarmaður sendi frumvarp til kröfuhafa 13. maí 2014.

Andmæli bárust frá Landsbankanum 22. maí 2014 þar sem frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun var hafnað. Landbankinn fór þess meðal annars á leit að bifhjóli með skráningarnúmerið O yrði skilað til bankans, eða að öðrum kosti að bifhjólinu yrði haldið utan greiðsluaðlögunar og að greiddar yrðu fullar greiðslur af bílaláninu. Umsjónarmaður óskaði í kjölfarið upplýsinga um það hvort bankanum hefðu borist fullnægjandi gögn frá kæranda vegna bifhjólsins. Í svari Landsbankans kom fram að þau gögn sem kærandi hefði skilað hefðu verið ófullnægjandi. Til að Landsbankinn myndi samþykkja frumvarpið yrði kærandi að fara með númeraplötur til bifreiðaskoðunar eða með bifhjólið í förgun. Ekkert í gögnum málsins benti til þess að hjólið væri ónýtt enda væri það ekki gamalt eða frá 2007.

Umsjónarmaður upplýsti kæranda um framkomin andmæli og veitti henni frest til að útvega gögn og afhenda bankanum. Að sögn kæranda hafi hún fengið endursenda beiðnina frá Samgöngustofu sem hún fór með til Landsbankans þar sem staðfestingu eiganda bifhjólsins, Landsbankans, vantaði á beiðnina. Kærandi hafi þá aftur ætlað að útvega staðfestinguna. Ólíkt því sem fram hafi komið á fundi með kæranda hafi hún talið að erfiðlega myndi ganga að nálgast leifar af bifhjólinu. Ástæða þess væri sú að bifhjólið væri í geymslu hjá kunningja sonar hennar sem væri á sjúkrahúsi erlendis. Til þess að fá bifhjólið dæmt ónýtt yrði hún að framvísa því til þess aðila sem gefi út staðfestinguna. Þegar umsjónarmaður hafi spurt kæranda hvort ekki væri mögulegt að fá lásasmið til að opna geymsluna þar sem bifhjólið væri geymt hafi kærandi sagt að það væri ekki hægt. Þá hafi umsjónarmaður spurt kæranda hvort sonur hennar gæti yfirtekið skuldina vegna bifhjólsins til að samningar næðust. Að sögn kæranda hafi það heldur ekki verið mögulegt.

Fram kemur í hinni kærðu ákvörðun að kærandi hafi sagst hafa rætt við lánafulltrúa hjá Avant (nú Landsbankanum) árið 2008 og tilkynnt að vél bifhjólsins væri ónýt. Avant hafi þó ekki samþykkt að taka við bifhjólinu. Umsjónarmaður hafi haft samband við Landbankann og óskað eftir öllum skráðum samskiptum vegna málsins. Í svari Landsbankans hafi komið fram að hvergi væri skráð að kærandi hafi viljað skila bifhjólinu. Hins vegar hafi kærandi haft samband árið 2008 og upplýst að hún ætlaði að selja bifhjólið. Árið 2009 hafi Landbankinn reynt að láta svipta kæranda vörslum bifhjólsins en greiðslur hafi borist og hafi því verið hætt við vörslusviptinguna. Árið 2010 hafi bankinn aftur reynt að láta vörslusvipta bifhjólinu. Kærandi hafi aldrei viljað skila bifhjólinu.

Vegna ofangreinds upplýsti umsjónarmaður kæranda um að samningar myndu ekki takast í samræmi við ákvæði IV. kafla lge. þar sem ljóst væri að Landsbankinn myndi ekki falla frá mótmælum sínum. Vegna þessarar stöðu veitti umsjónarmaður kæranda frest til að ákveða hvort hún vildi leita nauðasamnings í samræmi við 18. gr. lge. Kærandi lýsti því yfir 17. júní 2014 að hún vildi leita nauðasamnings.

Umsjónarmaður tilkynnti kæranda með bréfi 27. júní 2014 ákvörðun sína um að mæla gegn því að nauðasamningur komist á á grundvelli 18. gr. lge.

II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að í ljósi framkominna upplýsinga og athugasemda Landsbankans sé það mat hennar að athafnaleysi kæranda falli undir ákvæði f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem kærandi hafi vanrækt skyldu sína samkvæmt samningi við Landsbankann og skaðað þannig hagsmuni bankans, þegar hún lét undir höfuð leggjast að tilkynna bankanum um það þegar bifhjólið O varð ónýtt og að skila því til bankans.

Þá sé það mat umsjónarmanns að ekki sé mögulegt að gera samning um greiðsluaðlögun þannig að krafa Landsbankans vegna bifhjólsins að fjárhæð 1.282.182 krónur greiðist að fullu þar sem ljóst sé að markmið greiðsluaðlögunar munu ekki nást með þeim hætti, sbr. 1. gr. lge. Greiðslugeta kæranda eftir að tekið hafi verið tillit til afborgana af fasteignaveðkröfum sé engin miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara. Engar breytingar séu fyrirsjáanlegar í atvinnumálum kæranda. Umsjónarmaður telji því að kærandi geti ekki greitt afborganir af kröfu Landsbankans í fyrirsjáanlegri framtíð. Einnig sé það ósanngjarnt gagnvart öðrum kröfuhöfum þar sem slíkt myndi brjóta gegn meginreglu skuldaskilaréttar um jafnræði kröfuhafa.

Með vísan til framangreinds sé umsjónarmanni ekki annað fært en að mæla gegn því að nauðasamningar komist á, sbr. 2. mgr. 18. gr. lge.

III. Sjónarmið kæranda

Engar kröfur eru settar fram í málinu en skilja verður málatilbúnað kæranda á þann veg að þess sé krafist að ákvörðun umsjónarmanns verði felld úr gildi.

Árið 2006 hafi kærandi fengið starf hjá X en ekki þegið fastráðningu þar sem hún taldi sig eiga möguleika á betra starfi. Árið 2008 hafi kærandi orðið veik og þurft að leggjast inn á sjúkrahús. Á tímabilinu september til nóvember 2008 hafi greiðslugeta kæranda engin verið þar sem hún hafi ekki átt rétt á veikindaleyfi. Í framhaldi af þessu hafi hún lítið unnið vegna niðurskurðar hjá atvinnuveitanda. Erfiðleikar kæranda megi rekja til veikinda og atvinnuleysis. Kærandi kveðst hafa starfað sem móttökuritari frá árinu 2011 en hún sé ekki fastráðin.

Að mati kæranda sé það einungis krafa Landsbankans, sem hafi upprunalega verið krafa Avant, sem komi í veg fyrir samning um greiðsluaðlögun. Skuldin sé vegna bifhjóls með skráningarnúmerið O. Fljótlega eftir að bifhjólið var keypt hafi komið í ljós að vélin var ekki í lagi. Kærandi hafi haft samband við fulltrúa Avant sem ekki hafi viljað taka við bifhjólinu þar sem galli í því væri ekki á ábyrgð félagsins. Kærandi kvaðst ekki sammála þessu þar sem hún hafi verið leigutaki. Kærandi kveðst hafa lent í vanskilum með lánið og þá hafi henni farið að berast bréf um að skila bifhjólinu ella yrði hún svipt vörslum þess. Kærandi kveðst hafa beðið eftir að kröfuhafi vörslusvipti hana bifhjólinu en hann hafi aldrei vitjað þess.

Kærandi kveðst hafa fengið leiðbeiningar frá umsjónarmanni um að útvega Landsbankanum staðfestingu þess efnis að bifhjólið væri ónýtt og að það skyldi afskráð. Þetta hafi verið mikilvægt að gera sem fyrst því annars væru líkur á því að Landsbankinn myndi ekki fallast á niðurfellingu á kröfunni. Kærandi hafi útvegað þessi gögn og komið þeim til Landsbankans. Skráningarbeiðnin hjá Samgöngustofu hafi hins vegar ekki verið tekin gild þar sem undirskrift frá Landsbankanum vantaði. Kærandi kveðst ekki sátt við að hafa verið send til þess að útvega þessi gögn þar sem starfsmenn Landsbankans hafi sjálfir átt að vita að afskráningin gæti aldrei farið fram án undirskriftar bankans. Þann 25. maí 2014, sama dag og kærandi fékk afskráningarbeiðnina til baka frá Samgöngustofu, hafi hún farið í Landsbankann til að afla undirskriftar frá bankanum. Hafi henni þá verið tjáð að bankinn vildi fá bifhjólið afhent. Í framhaldi af þessu hafi kærandi ætlað að sækja stell bifhjólsins til Partageirans ehf. sem tók við því til förgunar og gaf út afskráningarbeiðnina en þar hafi henni verið tjáð að nú væri bifhjólið ekki í hennar eigu og því fengi hún stellið ekki afhent.

Það sem eftir sé af bifhjólinu sé í geymslu hjá einstaklingi sem sé erlendis í læknismeðferð. Kærandi kveðst ekki komast í þessa geymslu en það hafi verið hennar mistök að koma einungis með stellið af bifhjólinu á þann stað sem afskráningin fór fram. Vél bifhjólsins hafi verið tekin úr því á meðan verið var að reyna laga hana á sínum tíma. Kærandi kveðst hafa gert þau mistök að halda að það væri nóg að koma bara með stell bifhjólsins þar sem á því sé framleiðslunúmerið. Þar sem kærandi þekki ekki aðstandendur mannsins sem sé með vél og aðra hluta bifhjólsins í geymslu hafi hún ekki tök á því að nálgast þá hluti fyrr en umræddur einstaklingur komi aftur til landsins. Það sé hins vegar óvíst hvenær það verði.

Kærandi telur fullyrðingu um að hún hafi skaðað hagsmuni Landsbankans ósanngjarna. Þáverandi kröfuhafi hafi sent henni bréf þar sem tilkynnt var að til stæði að vörslusvipta hana bifhjólinu. Þá hafi hún haft samband við kröfuhafann en það eigi ekki að bitna á henni að starfsmaður hans hafi ekki skráð hjá sér upplýsingar um símtalið.

 IV. Niðurstaða

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggist á 18. gr. lge. Í 1. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um það að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla laganna ekki tekist þá geti skuldari lýst yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með að samningur komist á skuli umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. laganna og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka.

Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að mæla verði gegn því að nauðasamningur kæranda komist á vegna athafnaleysis hennar sem falli undir ákvæði f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Telur umsjónarmaður að kærandi hafi vanrækt skyldu sína samkvæmt bílasamningi við Landsbankann og skaðað þannig hagsmuni bankans þegar hún lét undir höfuð leggjast að tilkynna bankanum um það þegar bifhjólið varð ónýtt og skila því. Einnig kemur fram í hinni kærðu ákvörðun að umsjónarmaður telur ekki tækt að gera samning um greiðsluaðlögun þess efnis að engin niðurfelling verði á kröfu Landsbankans vegna bifhjólsins að fjárhæð 1.282.182 krónur þar sem ljóst sé að markmiðum greiðsluaðlögunar samkvæmt 1. gr. lge. verði ekki náð með þeim hætti.

Í gögnum málsins er fundargerð umsjónarmanns frá 25. mars 2014 þar sem kærandi upplýsir um laun, eignir o.s.frv. Þar kemur fram að vél bifhjólsins sé ónýt og að sonur hennar hafi hent hjólinu og líklega númeraplötunum með. Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins eru hins vegar mótor og aðrir hlutir bifhjólsins fyrir utan stell í geymslu sem kærandi kveðst ekki hafa aðgang að.

Skýringar kæranda á framangreindu misræmi um afdrif bifhjólsins er hvorki að finna í gögnum málsins né í kæru. Einungis kemur fram að það hafi verið vanhugsað af hennar hálfu að fara með stellið í eyðingu en ekki aðra hluti bifhjólsins. Þá hafi hún ekki aðgang að þeim hlutum sem teknir voru af stelli bifhjólsins þar sem eigandi geymslunnar sé erlendis.

Í 18. gr. lge. kemur fram að umsjónarmaður skuli líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar. Að mati kærunefndarinnar er hér átt við að nýjar upplýsingar komi fram sem ekki lágu fyrir þegar umboðsmaður skuldara tók ákvörðun um að heimila greiðsluaðlögun. Framangreint misræmi um afdrif bifhjólsins kom í ljós eftir að umboðsmaður skuldara veitti kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með ákvörðun 10. janúar 2014. Verður við úrlausn málsins ekki fram hjá því litið að kærandi hefur veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu. Aðstæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð eru samkvæmt d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. þær að skuldari hafi af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu. Hér verður að telja að umsjónarmanni hafi verið rétt að líta svo á að þessi háttsemi kæranda stæði í vegi fyrir greiðsluaðlögun og að þar með hafi honum verið rétt að mæla gegn því að nauðarsamningur kæmist á samkvæmt 18. gr. lge. Þá er til þess að líta að umsjónarmaður tók einnig tillit til þess að ekki væri raunhæft að kærandi myndi geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun í ljósi þess að engin niðurfelling fengist á kröfu Landsbankans vegna bifhjólsins.

Með vísan alls framangreinds er ákvörðun umsjónarmanns staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B, um að mæla gegn nauðasamningi til greiðsluaðlögunar A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta