Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 179/2012

Fimmtudaginn 11. september 2014

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 21. september 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 11. september 2012 þar sem felld var niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar.

Með bréfi 26. september 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 6. nóvember 2012.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kærendum til kynningar með bréfi 7. nóvember 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 3. janúar 2013.

Þann 9. janúar 2013 voru umboðsmanni skuldara sendar athugasemdir kærenda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá umboðsmanni skuldara.

I. Málsatvik

Kærendum var veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar með samningum við kröfuhafa með ákvörðun umboðsmanns skuldara 24. júní 2011 og þeim skipaður umsjónarmaður.

Kærendur eru fædd 1969 og 1966 og eru í sambúð. Þau búa ásamt þremur börnum sínum í eigin húsnæði að C götu nr. 123 í sveitarfélaginu D. Kærandi A starfar sem knattspyrnuþjálfari en kærandi B er leikskólakennari. Áætlaðar heildarráðstöfunartekjur þeirra eru 606.136 krónur. Heildarskuldir kærenda eru samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara 72.388.878 krónur og ábyrgðarskuldbindingar vegna atvinnureksturs 22.917.501 króna. Skuldir sem falla innan samnings eru samtals 72.108.916 krónur.

Kærendur segja að greiðsluerfiðleika megi rekja til vankunnáttu í fjármálum, hækkunar lána og tekjulækkunar. Kærendur kveða stóran hluta skuldbindinga eiga rót sína að rekja til eigin reksturs. Árið 1997 keyptu þau myndbandaleigu, undir nafni einkahlutafélags kæranda A. Reksturinn hafi ekki gengið vel en flest árin hafi myndbandaleigan verið rekin með tapi. Árið 2006 seldu þau reksturinn, en vegna vanefnda kaupenda gengu kaupin til baka og kærendur sátu eftir með ábyrgðarskuldir vegna félagsins.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 16. maí 2012 var lagt til að heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar yrði felld niður þar sem kærendur höfðu ekki lagt til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum á tímabili greiðsluaðlögunar og einnig vegna ógreiddrar staðgreiðslu og ógreiddra launatengdra gjalda af verktakalaunum, allt með vísan til d-liðar 1. mgr. 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.), sbr. 15. gr. sömu laga.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 11. september 2012 var heimild kærenda til greiðsluaðlögunar felld niður samkvæmt 15. gr. lge., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Byggði sú ákvörðun á því að ákveðnir óvissuþættir væru fyrir hendi og ekki væri mögulegt að fá heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu kærenda. Þá gæfu fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda A eða væntanlegri þróun á fjárhag hans á tímabili greiðsluaðlögunar samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur óska eftir því að málið verði tekið aftur upp og að þeim verði veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Málatilbúnað kærenda verður að skilja svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Kærendur vísa til ákvörðunar umboðsmanns skuldara og segja rangt að kærandi A hafi ekki skilað til umboðsmanns skuldara skattframtali sínu vegna tekjuársins 2011 innan þess frests sem veittur hafi verið, þ.e. til 16. júlí 2012. Framtalinu hafi verið skilað innan frestsins og hafi það verið staðfest í símtölum við starfsmann umboðsmanns skuldara. Þar sem starfsmenn embættisins hafi heimild til að nálgast skattframtalið hafi kærendur ekki talið þörf á að senda embættinu afrit af því. Þá ítreka kærendur í athugasemdum sínum það sem áður segi um umdeilt skattframtal en jafnframt hafi þeim ekki verið ljóst að skila þyrfti skattframtalinu á pappírsformi til umboðsmanns skuldara þar sem kærendur hefðu veitt skriflega heimild fyrir gagnaöflun embættisins. Ekki hafi verið um neinar ítrekanir að ræða eins og fullyrt sé af umboðsmanni skuldara. Telja kærendur því að upplýsingaskylda varðandi skil á skattframtali sé uppfyllt og umboðsmaður hafi haft glögga mynd af fjárhag þeirra og væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Kærendur óska eftir því að málið verði tekið aftur upp og þau fái heimild til greiðsluaðlögunar.

Kærendur kveðast í einu og öllu hafa gert eins og fyrir þau hafi verið lagt eða lagt fram haldbærar skýringar og viðeigandi kvittanir. Í skýringum þeirra hafi enn fremur komið fram að þau hafi ekki stofnað til annarra skulda og uppfylli því skilyrði greiðsluaðlögunar.

Í bréfi kærenda til umboðsmanns skuldara 16. júlí 2012 hafi komið fram að kærendur hafi orðið fyrir tjóni á bifreið sinni og að fyrri eigandi bifreiðarinnar hafi greitt fyrir viðgerðina. Hafi viðgerðarkostnaður verið 350.000 krónur eða svipaður og núverandi verðmæti bifreiðarinnar. Í kæru óska kærendur formlega eftir heimild kærunefndarinnar til þess að láta kaupin ganga til baka og fyrri eigandi taki aftur við bifreiðinni.

Kærendur telja að í útreikningum umboðsmanns hafi ekki verið gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum í hverjum mánuði en þó svo væri, geti óvænt útgjöld fallið til í einum mánuði en ekki öðrum og því sé erfitt að deila slíkum útgjöldum jafnt út á mánuði. Eðli óvæntra útgjalda sé að þau falli óreglulega til en ekki jafnt á mánuði yfir lengri tíma. Telja kærendur að þau hafi gefið haldgóðar og greinargóðar skýringar á óvæntum útgjöldum sínum og sé því að mati þeirra ekki um brot á gefnum forsendum að ræða.

Ítreka kærendur því framkomin mótmæli sín.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara krefst þess að ákvörðun hans um að fella niður heimild kærenda til að leita eftir greiðsluaðlögun frá 11. september 2012 verði staðfest.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild til greiðsluaðlögunar segir að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki staðið við eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skulda, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna sinna að öðru leyti, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. lge. Ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laga skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í 1. mgr. 12. gr. lge. séu tilteknar skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þegar frestun greiðslna stendur yfir. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. segi að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farboða.

Öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun sem hafi notið frestunar greiðslna hjá umboðsmanni skuldara hafi verið sent bréf 8. apríl 2011 þar sem brýndar voru skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. Umræddar upplýsingar hafi einnig verið að finna á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun. Hafi kærendum því mátt vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum, þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Við útreikning á greiðslugetu umsækjenda beri umsjónarmanni ávallt að notast við það framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji, sbr. 4. mgr. 16. gr. lge. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við aðra og hærri framfærslu en þá sem reiknuð hafi verið fyrir umsækjendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara séu byggð á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og breytist í samræmi við vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að umsækjendum sé jafnan veitt nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í hverjum mánuði. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella má undir almennan heimilisrekstur, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærendur hafi borið því við að heimiliskostnaður þeirra hafi almennt verið hærri en neysluviðmið umboðsmanns skuldara segi til um. Slíkar fullyrðingar hafi kærendur ekki stutt með fullnægjandi gögnum, enda feli yfirlit yfir útgjöld kærenda hvorki í sér tæmandi úttekt á útgjöldum þeirra né hafi þau veitt haldbærar skýringar á því að mánaðarleg útgjöld þeirra hafi verið hærri en þau framfærsluviðmið sem umsækjendum um greiðsluaðlögun beri að taka mið af.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé eitt helsta markmið greiðsluaðlögunarsamninga að einstaklingum í verulegum fjárhagserfiðleikum sé gert kleift að koma jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu svo raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar í náinni framtíð. Þó verði að leggja þær skyldur á kærendur að þau leggi fram þau gögn sem óskað sé eftir og skipti máli við greiðsluaðlögunarumleitanir. Megi þar nefna gögn sem umsjónarmaður geti ekki aflað sjálfur, svo sem yfirlit yfir bankareikninga og tekjur vegna verktakavinnu. Þá liggi fyrir að álagning kæranda A vegna tekjuársins 2011 byggist á áætlun ríkisskattstjóra, enda hafi kærandi A ekki skilað skattframtali sínu.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhag hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Telja verði að ákveðnir óvissuþættir séu fyrir hendi í máli kærenda sem séu þess eðlis að ekki sé mögulegt að fá heildarmynd af fjárhag kæranda A eða væntanlegri þróun á fjárhag hans á tímabili greiðsluaðlögunar samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge., sbr. einnig 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. sömu laga um skyldu skuldara til að veita upplýsingar um tekjur sínar á meðan greiðsluaðlögunarumleitanir standi yfir. Í ljósi þeirrar óvissu sem liggi fyrir um tekjur kærenda, sér í lagi tekjur kæranda A, þyki ótímabært að gera heildstætt mat á því hvort kærendur hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt ákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. og lagt til hliðar fé af tekjum sínum og öðrum launum á meðan frestun greiðslna hafi staðið yfir. Að sama skapi sé ótímabært að leggja mat á hvort kærandi A hafi brotið skyldur sínar samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og stofnað til nýrra skulda á meðan frestun greiðslna hafi staðið með því að greiða ekki opinber gjöld líkt og fylgigögn beri með sér.

Í 1. mgr. 15. gr. lge. segi að ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í 2. mgr. 12. gr. komi fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafa brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. laganna.

Gera verði ráð fyrir því að upplýsingar þær sem komi fram í áðurnefndu skattframtali myndu liggja til grundvallar mati samkvæmt 1. mgr. 12. gr. lge. Þrátt fyrir heimildir umboðsmanns skuldara til að afla gagna beri umsækjendum jafnan sjálfum að útvega nauðsynleg gögn og koma þeim til umboðsmanns skuldara, sbr. 4. mgr. 4. gr. lge. Um skyldu skuldara til að skila nauðsynlegum gögnum og beitingu 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge., megi vísa til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála frá 26. júlí 2012 í máli nr. 30/2011.

Óraunhæft verði að teljast að samningur um greiðsluaðlögun komist á nema upplýsingar um tekjur skuldara liggi fyrir. Þá séu upplýsingar um tekjur nauðsynlegar til að meta það hvort kærendur hafi lagt fyrir fé í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Með bréfi 22. maí 2012 og tölvubréfum 17. júlí og 20. ágúst 2012 hafi kærendum verið boðið að senda gögn um tekjur sínar. Í umræddum tölvubréfum sé sérstaklega óskað eftir að skattframtali sé skilað. Ekki verði séð að um ósanngjarnar kröfur til gagnaöflunar hafi verið að ræða.

Að þessu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki þótt hjá því komist að fella niður heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr. lge., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Fer umboðsmaður skuldara því fram á það með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

Ákvæði 15. gr. lge. nær samkvæmt orðanna hljóðan yfir skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum og takmarkast heimild til niðurfellingar greiðsluaðlögunarumleitana ekki við þau tilvik þegar skuldari bregst skyldum sínum samkvæmt 12. gr. laganna. Í skýringum við frumvarp til laga nr. 101/2010 segir um ákvæði 15. gr. að þar sé fyrst og fremst átt við þau tilvik þar sem nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiði til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skal umsókn um greiðsluaðlögun hafnað ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Er hér um að ræða skyldu umboðsmanns skuldara til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar undir þessum kringumstæðum enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans. Hér er því einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Er hér áréttað eins og víða annars staðar í lögunum að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á stöðu sína og félagslegar aðstæður.

Í málinu liggur fyrir að skattframtali kæranda A fyrir árið 2012 var skilað eftir að framtalsfrestur var liðinn og byggist því álagning hans vegna tekjuársins 2011 á áætlun ríkisskattstjóra. Í tölvubréfi frá starfsmanni umboðsmanns skuldara kemur fram að þegar skattframtali er skilað eftir lok framtalsfrests og hefur ekki hlotið álagningarskoðun berist gögnin ekki sjálfkrafa til embættisins eins og endranær. Þetta var kæranda A gert ljóst, en hann varð þó ekki við beiðni umboðsmanns skuldara um að embættinu yrði sent afrit af skattframtalinu sem um ræðir. Því liggja ekki fyrir gögn um raunverulegar tekjur kæranda A á árinu 2011.

Fyrir liggur að umboðsmaður skuldara óskaði eftir umræddu skattframtali og stóð ekkert í vegi fyrir kæranda A að verða við þeirri beiðni. Stoðar hann ekki að bera fyrir sig að hann hafi talið að embættið hefði heimild til að nálgast umrædd gögn. Um upplýsingar og gögn um tekjur kærenda er að ræða en slíkar upplýsingar verða að teljast nauðsynlegar til þess að unnt sé að meta hvort kærendur hafi staðið við skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í málinu skortir einnig gögn er varða útgjöld kærenda. Hafa kærendur ekki lagt fram fullnægjandi kvittanir eða skýringar um hærri heimiliskostnað en neysluviðmið umboðsmanns skuldara segja til um. Í gögnum málsins er aðeins að finna kvittanir fyrir litlum hluta þeirra útgjalda sem um ræðir. Er það því mat kærunefndarinnar að kærendur hafi ekki lagt fram fullnægjandi gögn er þetta varðar.

Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjendur um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu.

Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndarinnar að fyrirliggjandi gögn og upplýsingar gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kærenda og væntanlegri þróun fjárhags þeirra á tímabili greiðsluaðlögunar í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Kærendur uppfylla því ekki skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum. Verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir því staðfest.

Það er ekki á valdi kærunefndar greiðsluaðlögunarmála að hlutast til um að bifreiðarkaup kærenda gangi til baka, þar sem til þess skortir lagaheimildir.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta