Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 132/2012

Fimmtudaginn 25. september 2014

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 14. júlí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 4. júlí 2012 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 25. júlí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 13. september 2012. Greinargerð umboðsmanns var send kærendum með bréfi 14. september 2012 þar sem þeim var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við greinargerðina.

Greinargerð kærenda barst 6. nóvember 2012. Hún var send umboðsmanni skuldara til kynningar með bréfi 7. nóvember 2012 og óskað eftir afstöðu embættisins. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 21. desember 2012. Var hún send kærendum til kynningar með bréfi 27. desember 2012 og þeim boðið að gera athugasemdir. Engar frekari athugasemdir bárust.

 I. Málsatvik

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara var kærendum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og þeim skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunar­umleitunum.

Hinn 7. febrúar 2012 tilkynnti umsjónarmaður umboðsmanni skuldara að kærendur hefðu ekki lagt til hliðar fjármuni á því tímabili sem frestun greiðslna stóð yfir, sbr. a-lið 12. gr. lge. Þá taldi umsjónarmaður að fyrirliggjandi gögn frá kærendum gæfu ekki nægilega glögga mynd af fjárhag þeirra eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge., enda hefði reynst tímafrekt að fá upplýsingar frá kærendum. Kvað umsjónarmaður samningaviðræður við kröfuhafa hafa reynst árangurslausar í ljósi þess að kærendur hefðu ekki lagt til hliðar fé til að greiða hluta vanskila eða eftirstöðvar lána.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 7. mars 2012 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en tekin yrði endanleg ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr. lge.

Andmæli og skýringar kærenda bárust umboðsmanni með bréfi 16. mars 2012. Véfengdu kærendur meðal annars framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara og útreikninga umsjónarmanns á framfærslu þeirra sem þau töldu of lága að teknu tilliti til búsetu og fjölskyldustærðar. Umboðsmaður skuldara svaraði andmælum kærenda 20. mars 2012 og var farið fram á að þau legðu fram gögn sem rennt gætu stoðum undir yfirlýsingar þeirra um aukin útgjöld heimilisins meðan á frestun greiðslna stóð. Engin gögn bárust frá kærendum þrátt fyrir ítrekun á beiðni þessari.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera þá kröfu að fá að halda áfram greiðsluaðlögunarumleitunum og/eða fá aðstoð við að komast hjá gjaldþroti.

Kærendur kveðjast hafa lagt mikið á sig og fórnað miklu. Eftir að hafa bæði orðið atvinnulaus með fjögur börn hafi kærendur leitað leiða til að láta fjárhaginn ganga upp. Hafi þau flutt út á land til þess að auka atvinnumöguleika sína og hafi kærandi A þá fengið atvinnu en kærandi B ekki. Þau hafi skilið elsta son sinn eftir og það hafi tekið mikið á þau þar sem hann hafi búið hjá kærendum nánast alla sína ævi eða í 14 ár. Kærendur hafi sömuleiðis flutt burt frá vinum, ættingjum og foreldrum, flutt í ódýrara húsnæði og leigt út íbúð sína í sveitarfélaginu C. Síðan þá hafi kærendur selt fasteign sína í sveitarfélaginu C og þar með losnað við mikið af skuldum á meðan þau voru í greiðsluskjóli. Atvinnuhorfur hafi batnað hjá kærendum. Þau fari þess á leit við kærunefndina að hún sýni máli þeirra skilning og aðstoði þau við að komast á braut sem geri þeim kleift að rétta úr kútnum á næstu árum.

Þá fara kærendur fram á að þau fái aðstoð við að finna út hver raunveruleg skuldastaða þeirra sé eftir sölu fasteignar þeirrar í júlí 2012 þar sem þau hafi fengið skuldir umfram söluverð íbúðarinnar felldar niður. Kærendur séu einnig með lánsveð hjá ömmu kæranda B en þau hafi vonast eftir því að flytja mætti lánið yfir á kæranda B sjálfa til þess að losa ömmu hennar undan þeirri byrði.

Í framhaldsgreinargerð til kærunefndarinnar segjast kærendur sökuð, af hálfu umboðsmanns skuldara og umsjónarmanns, um vanrækslu og ófullnægjandi skýringar á atriðum tengdum skilyrðum fyrir greiðsluaðlögun. Umsjónarmaður hafi sagt að samskipti við kærendur gengi erfiðlega. Kærendur kveðast hafa sömu sögu að segja enda hafi þrír starfsmenn komið að máli þeirra á lögmannsstofu umsjónarmanns og hafi það haft töluverð áhrif á hraða mála þar eð kærendur hafi þar með þurft að byggja upp traust og útskýra mál sitt í þrígang.

Telja kærendur að umsjónarmaður hafi ekki tekið tillit til þess að kærendur búi úti á landi og gert ráð fyrir að kærendur gætu mætt til funda við þau með of stuttum fyrirvara. Kærendur hafi staðið í þeirri trú að umsjónarmaður ætti að vinna með kærendum og fyrir þau, en ekki að leiða þau í gildrur. Í svari umsjónarmanns sé talað um að Lýsing hafi hagað hlutum á ákveðinn hátt vegna þess að vanskil væru orðin veruleg. Þetta sé með ólíkindum því eftir að Lýsing hafi byrjað að krefjast afborgana af bílaláni vegna fjölskyldubifreiðarinnar hafi kærendur haft samband við umboðsmann skuldara og við umsjónarmann og svar beggja hefði verið á þá leið að ef kærendur greiddu af skuldum á meðan þau væru í greiðsluskjóli gætu þau átt á hættu að rjúfa skilyrði greiðsluaðlögunar. Skilaboðin hafi því verið skýr um að greiða ekki af láninu og því hafi vitanlega hlaðist upp skuldir sem umboðsmaður gefi nú í skyn að kærendur hefðu átt að greiða.

Umsjónarmaður tali um að hvorki reikningar né nægjanlegar skýringar hafi komið fram fyrir kostnaði. Með bréfi 19. desember 2011 hafi kærendur verið innt eftir skýringum á þeim kostnaði sem valdið hafi því að þeim tókst ekki að leggja fyrir sem skyldi. Kærendur hafi svarað bréfinu 5. janúar 2012 með afritum af reikningum samtals að fjárhæð tæpar 300.000 krónur sem hvergi hafi verið stuðst við í málinu.

Kærendur hafi einnig greint frá því að sonur kæranda B sem búi hjá föður sínum komi ekki eins oft til kærenda og þau myndu vilja en þau reyni að fá hann til sín að minnsta kosti einu sinni í mánuði. Hver flugferð frá X til Y og til baka kosti um 30.000 krónur. Á þeim tveimur árum sem kærendur hafi búið í sveitarfélaginu D og verið í viðræðum við umboðsmann skuldara hafi sonur kæranda B komið um 20 sinnum til þeirra. Kærendur geti ekki sannað það frekar, en kærunefndin geti fengið farþegalista hjá flugfélaginu Erni fyrir síðustu tvö ár. Kostnaður við þessar ferðir sé um 600.000 krónur.

Kærendur geti ekki lagt fram reikninga vegna óvæntra ferða til X en það séu um 1.000 km fram og til baka og skiptin séu orðin þó nokkur. Kærendur hafi ekki getað gert grein fyrir kostnaði við að standsetja íbúð sína við E götu nr. 7 sem hafi verið um 300.000 krónur í heildina. Umboðsmaður hafi sagt að kærendur hefðu haft 175.000 krónur í leigutekjur en hann hafi gleymt að draga frá kostnað vegna hita og hússjóðs sem kærendur hafi borgað af leigugjaldinu. Sá kostnaður hafi verið 20.000 krónur.

Þá segja kærendur að umboðsmaður tali líkt og hann viti ekki hjá hverjum kærandi A starfi. Hann segi atvinnurekanda ónefndan, en kærandi A viti ekki betur en að hann hafi sent embættinu launaseðla og skattframtöl þar sem þetta komi allt fram. Með framhaldsgreinargerðinni fylgi yfirlýsing frá launafulltrúa Z ehf. sem skýri þær 300.000 krónur sem kærandi A hafi misst yfir í Sparisjóð Norðlendinga, SPNOR.

Einnig megi geta þess að þar sem kærandi A hafi verið í viðskiptum við SpKef sem breyttist svo í Landsbankann hafi honum enn ekki tekist í öllum tilvikum að fá skýringar og yfirlit yfir gamla reikninga og kvittanir í heimabanka sem hafi átt að flytjast yfir.

Þessu til viðbótar vilji kærendur að litið verði til þess í viðmiðunargögnum að það muni tugum þúsunda króna á því hvort fólk kaupi allan mat í Bónus eða á lítilli bensínstöð í sveitarfélaginu D. Kærendum þyki með ólíkindum að hægt sé að bera saman matarkostnað á Z og D. Á sunnanverðum Vestfjörðum sé engin lágvöruverslun.

Kærendur hafi látið ferma son sinn og haldið veislu. Það sé unnt að fá staðfest hjá Fríkirkjunni í Reykjavík. Einnig séu til myndir og annað sem sanni að veisla hafi verið haldin. Fyrir þetta hafi þurft að borga.

Húsaleiga kærenda nemi 115.000 krónum auk 55.000 króna fyrir hita og rafmagn á hverjum mánuði, sem ekki sé tekið tillit til í greiðsluáætlun. Einnig hafi kærendur nefnt við umsjónarmann að í flutningum hafi eitthvað af gögnum og nótum týnst. Flutningar kærenda hafi verið mun dýrari og erfiðari en viðmiðunargögn umboðsmanns skuldara segi til um.

 III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara segir að einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki staðið við eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skulda, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna sinna að öðru leyti, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. lge. Komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Ljóst sé að umsækjendur hafi átt í virkum samskiptum við umsjónarmann sinn og embætti umboðsmanns skuldara hvað varðar umsókn þeirra um greiðsluaðlögun og gerð frumvarps að samningi um greiðsluaðlögun. Þrátt fyrir að umsjónarmaður telji samskipti sín við umsækjendur hafa verið tímafrek sé ekki tilefni til að heimfæra háttsemi umsækjenda undir skort á samstarfsvilja við umsjónarmann, sbr. 1. mgr. 16. gr. lge.

Í 1. mgr. 12. gr. lge. séu tilgreindar tilteknar skyldur skuldara við greiðsluaðlögun á meðan frestun greiðslna stendur yfir. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. segi að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun sem nutu frestunar greiðslna hjá embættinu hafi verið sent bréf 8. apríl 2011 þar sem brýndar hafi verið skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. Umræddar upplýsingar hafi enn fremur mátt finna á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Skyldur skuldara í greiðsluskjóli séu að auki ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjanda. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. fylgt ákvörðun um samþykki umsóknar þeirra um greiðsluaðlögun 18. maí 2011. Hafi umsækjendum því vel mátt vera ljóst að þeim bæri skylda til að halda til haga þeim fjármunum sem þau áttu aflögu í lok hvers mánaðar, til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum hafi umsækjendur haft alls 5.562.817 krónur í launatekjur að frádregnum skatti árið 2011. Að auki hafi þau haft 511.452 krónur í launatekjur í desembermánuði árið 2010. Frá ársbyrjun 2012 hafi umsækjendur haft því sem nemi 2.926.705 krónum í launatekjur að frádregnum skatti sé miðað við lok maímánaðar 2012. Þá hafi umsækjendur haft tekjur af útleigu fasteignar sinnar að E götu nr. 7 í sveitarfélaginu C að fjárhæð 175.000 krónur á mánuði. Verði lagt til grundvallar að umsækjendur hafi alls haft 11.984.580 krónur í tekjur hið minnsta frá því frestun greiðslna hófst í lok ársins 2010, að meðtöldum barnabótum, eða um 665.810 krónur á mánuði að meðaltali.

Í ákvörðuninni segi að samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggi á hlutlausum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og stýrist af vísitölu. Við mat á því hvort umsækjendur hafi sinnt skyldum sínum á meðan frestun greiðslna stendur sé umsækjendum að auki jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Því skuli miða við að áætluð heildarútgjöld umsækjenda hafi verið um 578.996 krónur á mánuði á meðan frestun greiðslna hafi staðið yfir, að teknu tilliti til óvæntra útgjalda. Tekið sé mið af heildarfjárhæð útgjalda samkvæmt framfærsluviðmiðum júnímánaðar 2012 fyrir tvo fullorðna einstaklinga með þrjú börn.

Samkvæmt framansögðu skuli gengið út frá því að umsækjendur hefðu að öllu óbreyttu átt að geta lagt fyrir um 1.562.652 krónur frá því frestun greiðslna hófst í desember 2010, sé miðað við greiðslugetu að fjárhæð 86.814 krónur á mánuði í átján mánuði. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum um innstæður á bankareikningum umsækjenda hafi þau hinn 4. júlí 2012 lagt fyrir um 270.526 krónur eða um 17,3% af þeirri fjárhæð sem að framan greinir. Þó hafi umsækjendur í bréfi sínu til embættisins 16. mars 2012 lýst því yfir að fjárhagsstaða þeirra væri neikvæð um 258.768 krónur. Verði það þó ekki lagt til grundvallar við töku ákvörðunarinnar þar sem fyrirliggjandi bankayfirlit bendi til annars. Ekki liggi fyrir yfirlit yfir mögulegar innstæður í öðrum bönkum enda hafi umsækjendur ekki lagt fram gögn þess efnis.

Umsækjendur hafi í bréfi sínu 16. mars 2012 tilgreint ýmis óvænt útgjöld sem valdið hafi því að þau hafi ekki getað lagt fyrir það fé sem skyldi. Hafi þau að eigin sögn þurft að standa að umfangsmiklum lagfæringum á íbúð sinni í Hafnarfirði vegna skemmda á gluggum, svalahurð og gólfefni. Alls hafi kostnaður vegna viðgerða numið um 170.000 krónum. Elsti sonur þeirra hafi fermst á liðnu ári og hafi þau greitt um 120.000 krónur vegna veisluhalda auk þess sem þau hafi keypt kæli- og frystiskáp fyrir ótiltekna fjárhæð. Þá telji þau son sinn hafa ferðast frá C til D fyrir um 400.000 krónur frá því frestun greiðslna hófst. Enn fremur hafi umsækjendur að eigin sögn oftsinnis þurft að ferðast til X vegna læknisþjónustu, jarðarfara og annarra nauðsynja. Aukinheldur telji þau sig hafa varið um 150.000 krónum til bifreiðaviðgerða. Umsækjendur hafi ekki lagt fram gögn af neinu tagi vegna framangreindra fjárútláta, þrátt fyrir beiðnir þess efnis.

Loks hafi umsækjendur að eigin sögn þurft að endurgreiða ónafngreindum launagreiðanda um 300.000 krónur á liðnum mánuðum, þar sem greiðsla af hans hálfu hafi farið inn á launareikning með yfirdráttarheimild hjá Sparisjóði Norðfirðinga í aðdraganda umsóknar um greiðsluaðlögun í nóvember 2011. Hafi sú launagreiðsla falið í sér uppgreiðslu að hluta eða öllu leyti á umræddri yfirdráttarheimild og ómögulegt hafi verið að fá fjárhæðina endurgreidda frá Sparisjóðnum. Vinnuveitandi hafi því greitt umsækjendum sömu fjárhæð í laun að nýju sem þau hafi endurgreitt á liðnum mánuðum. Umsækjendur hafi ekki veitt nánari upplýsingar um umrædda lánveitingu og endurgreiðslu vegna hennar, þrátt fyrir beiðnir þess efnis.

Umsækjendur hafi enn fremur borið því við að heimiliskostnaður þeirra hafi almennt verið hærri en einstakir liðir framfærsluviðmiðs umboðsmanns skuldara segi til um, en slíkar fullyrðingar hafi umsækjendur ekki stutt með fullnægjandi gögnum. Þá skuli umsjónarmaður ávallt notast við það framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji, sbr. 4. mgr. 16. gr. lge. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miðað við aðra og hærri framfærslu en þá sem reiknuð hafi verið fyrir umsækjendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna.

Að teknu tilliti til fullyrðinga umsækjenda um ýmis óvænt útgjöld verði ekki litið framhjá því að töluverður munur sé á þeirri fjárhæð sem umsækjendum hefði að öllu óbreyttu átt að vera unnt að leggja til hliðar, þ.e. 1.562.652 krónur, og því fé sem umsækjendur eigi á bankareikningi að fjárhæð 258.768 krónur (sic).

Við mótun frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun sé alla jafna unnt að taka tillit til ýmissa óvæntra útgjalda sem fallið geti til meðan á frestun greiðslna stendur. Þó verði að leggja þær skyldur á herðar umsækjenda sjálfra að útvega þau gögn sem fært geti sönnur á umrædd útgjöld og umfang þeirra. Liggi þau gögn ekki fyrir sé með öllu ómögulegt að meta með vissu hvort útgjöldin teljist til almennra heimilisþarfa sem séu nauðsynlegar umsækjendum eða heimili þeirra til lífsviðurværis eða eðlilegs heimilishalds. Umsækjendum hafi ítrekað verið veitt tækifæri til að útvega slík gögn líkt og tölvupóstsamskipti umsækjenda við umsjónarmann og starfsmenn umboðsmanns skuldara beri með sér, án þess að þau hafi sinnt því. Verði því talið að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Þá þyki ljóst að umsækjendur hafi ekki lagt fyrir nægilegt fé af tekjum sínum meðan á frestun greiðslna hefur staðið. Að framangreindu virtu, að undangengnu heildstæðu mati á aðstæðum og með hliðsjón af gögnum málsins verði ekki komist hjá því að fella niður heimild umsækjenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr. lge., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. laganna auk b-liðar 1. mgr. 6. gr. þeirra.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara fyrir kærunefndinni eru forsendur hinnar kærðu ákvörðunar raktar og tekið fram að athugasemdir í kæru þyki ekki til þess fallnar að hafa áhrif á niðurstöðu málsins.

Í framhaldsgreinargerð embættisins til kærunefndarinnar kemur fram að í hinni kærðu ákvörðun sé notast við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara frá í október 2012. Fjárhæðin hafi ekki verið endurreiknuð miðað við vísitölu og sé það til hagsbóta fyrir kærendur.

Varðandi viðbótargögn sem kærendur hafi lagt fram við meðferð málsins fyrir kærunefndinni segir að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Áður en ákvörðunin var tekin hafi kærendum verið gefinn kostur á að leggja fram gögn máli sínu til stuðnings. Þau gögn sem kærendur hafi lagt fram við meðferð málsins fyrir kærunefndinni gefi ekki tilefni til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar þar sem þau hafi ekki legið fyrir við töku hennar. Með hliðsjón af málshraðareglu stjórnsýslulaga verði ekki séð að ástæða hafi verið til að draga það að taka ákvörðun í málinu.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fyrr greinir tilkynnti umsjónarmaður umboðsmanni skuldara með bréfi 7. febrúar 2012 að kærendur hefðu ekki lagt til hliðar fjármuni í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þess vegna hafi samningaviðræður við kröfuhafa reynst árangurslausar.

Samkvæmt gögnum málsins eiga kærendur 270.526 krónur inni á bankareikningi sínum. Ekki liggja fyrir upplýsingar um frekari sparnað og hafa kærendur ekki haldið því fram í málinu að um hann sé að ræða. Að mati umboðsmanns skuldara hefðu kærendur átt að geta lagt til hliðar 1.562.652 krónur í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á þeim tíma sem um ræðir. Í gögnum framlögðum af kærendum sjálfum kemur fram að þau hafi haft greiðslugetu umfram framfærslu að fjárhæð 78.202 krónur í hverjum mánuði. Samkvæmt framangreindum forsendum bar kærendum að leggja til hliðar samtals að minnsta kosti um 1.251.232 krónur (78.202 krónur x 16 mánuðir) frá upphafi greiðsluskjóls 10. desember 2010 til 16. mars 2012 þegar umboðsmaður lauk gagnaöflun í málinu.

Kærendur hafa tilgreint kostnað vegna viðgerða á fasteign þeirra að fjárhæð um 300.000 til 420.000 krónur, vegna fermingarveislu um 120.000 krónur, um 400.000 til 600.000 krónur vegna ferða sonar þeirra til þeirra og um 120.000 krónur vegna ferða vegna veikinda og jarðarfara, vegna endurgreiðslu fyrirframgreiddra launa að fjárhæð 300.000 krónur og vegna bifreiðaviðgerða að fjárhæð um 150.000 krónur. Umboðsmaður skuldara segir engin gögn hafa verið lögð fram í málinu til sönnunar á tilgreindum kostnaði. Í gögnum málsins má finna tölvupóst kærenda til umsjónarmanns með greiðsluaðlögunarumleitunum frá 5. janúar 2012. Með tölvupóstinum fylgdu afrit reikninga vegna bílaviðgerða og annars, samtals að fjárhæð 310.771 króna. Þá lögðu kærendur fyrir kærunefndina yfirlýsingu frá vinnuveitanda kæranda A            varðandi fyrirframgreidd laun að fjárhæð 300.000 krónur sem honum bar að endurgreiða á 15 mánuðum. Önnur gögn til stuðnings fullyrðingum sínum um óvænt útgjöld hafa kærendur hins vegar ekki lagt fram þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir þess efnis.

Jafnvel þótt tekið yrði tillit til kostnaðar sem kærendur hafa lagt sönnur á, þ.e. vegna viðgerða á bifreið og vegna fyrirframgreiddra launa, vantar þó enn upp á þá fjárhæð sem ætlast mátti til þess að kærendur leggðu fyrir í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Samkvæmt gögnum málsins og eins og rakið er í hinni kærðu ákvörðun voru kærendur ítarlega upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Samkvæmt þessu og miðað við gögn málsins telur kærunefndin ekki hjá því komist að miða við að kærendur hefðu átt að geta lagt til hliðar að minnsta kosti 640.461 krónu (1.251.232 krónur að frádregnum 310.771 krónu og 300.000 krónum) í greiðsluskjóli. Í júlí 2012 lá fyrir að kærendur áttu 270.526 krónur inni á bankareikningi sem leiðir til þess að upp á sparnað kærenda vantar að minnsta kosti 369.935 krónur.

Kærunefndin telur að líta verði á mál kærenda heildstætt, bæði hvað varðar fjárhæðir og félagslegar aðstæður þeirra. Það er mat kærunefndarinnar að þar sem kærendur hafa lagt fyrir fjármuni á tímabili greiðsluaðlögunar hafi þau leitast við að uppfylla skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þrátt fyrir að upp á sparnað þeirra vanti samkvæmt framansögðu fellst kærunefndin ekki á það mat umboðsmanns skuldara að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt ákvæðinu þegar litið er til þess hversu lítið vantaði upp á sparnaðinn og til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna þeirra.

Með vísan til alls framangreinds er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunar­umleitanir kærenda samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. því felld úr gildi.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er felld úr gildi.

 Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta