Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 67/2014

Fimmtudaginn 18. september 2014

A

gegn

skipuðum umsjónarmanni B

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 23. júní 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B lögfræðings, sem tilkynnt var með bréfi 10. júní 2014, þar sem umsjónarmaður mælir gegn því að nauðasamningur og greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á með vísan til 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

I. Málsatvik

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 18. janúar 2012 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Þann 1. febrúar 2012 var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum í máli kæranda.

Umsjónarmaður sendi frumvarp til kröfuhafa 20. júlí 2012. Andmæli bárust frá kröfuhöfum vegna bifreiðarinnar O sem veðsett var til tryggingar skuld á 1. veðrétti til Trygginga­miðstöðvarinnar. Bifreiðin var að sögn kæranda ekki lengur í hans vörslum en kærandi taldi að henni hefði verið stolið. Þá bárust einnig andmæli frá Íslandsbanka þar sem kærandi hefði ekki lagt til hliðar nægilegt fé. Umsjónarmaður vísaði málinu til umboðsmanns skuldara á grundvelli 15. gr. lge. vegna framkominna mótmæla kröfuhafa.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 18. október 2013 var kæranda veitt heimild til áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitana eftir að hann gaf skýringar á því sem á skorti varðandi fé sem skyldi lagt til hliðar.

Umsjónarmaður var í annað sinn skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda 19. nóvember 2013. Ekki tókst að ná samningi við kröfuhafa og lýsti kærandi því yfir 30. maí 2014 að hann vildi leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar og tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna.

Umsjónarmaður tilkynnti kæranda með bréfi 5. júní 2014 ákvörðun sína um að mæla gegn nauðasamningi til greiðsluaðlögunar og greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á grundvelli 18. gr. lge.

II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Í hinni kærðu ákvörðun lýsir umsjónarmaður málavöxtum með þeim hætti að við skoðun hans á málinu hafi komið í ljós að í greinargerð 15. nóvember 2011 hafi kærandi greint frá því að bifreiðin O hafi verið notuð í varahluti. Á fundi með umsjónarmanni 2. mars 2012, áður en kröfulýsing barst frá veðhafa bifreiðarinnar, hafi kærandi greint frá því að bifreiðin væri tjónabifreið sem væri umtalsvert minna virði en áhvílandi skuldir og að skráningarnúmerum bifreiðarinnar hafi þar að auki verið stolið. Kröfulýsing barst frá fulltrúa veðhafa bifreiðarinnar 8. mars 2012 þar sem farið var fram á að bifreiðinni yrði skilað til kröfuhafa til að selja hana á uppboði. Kærandi hafi þá upplýst umsjónarmann um að bifreiðin væri ekki lengur í hans vörslum. Í kjölfarið barst umsjónarmanni afrit af tilkynningu til lögreglu um nytjastuld 22. maí 2012.

Í tölvupósti til umsjónarmanns 7. janúar 2014 kvað kærandi bifreiðina hafa verið keypta til að nota í varahluti en til þess hafi aldrei komið. Hann hafi því geymt bifreiðina á geymslusvæði þaðan sem hún hafi síðan horfið. Hann hafi talið að hann hafi verið sviptur vörslum bifreiðarinnar en þegar í ljós hafi komið sú væri ekki raunin hafi kærandi tilkynnt um þjófnað bifreiðarinnar til lögreglu. Í tölvupósti frá fulltrúa veðhafa bifreiðarinnar 3. janúar 2014 hafi komið fram að kærandi hafi ekki fengist til að upplýsa hvar bifreiðin væri niðurkomin, en innheimtuaðgerðir hafi staðið yfir frá febrúar 2009. Þá hafi númer bifreiðarinnar verið lögð inn í febrúar 2008.

Umsjónarmaður kveðst hafa sent tilkynningu til umboðsmanns skuldara 7. janúar 2014 á grundvelli d-liðar 1. mgr. 6. gr. þar sem misræmi hafi verið í framburði kæranda varðandi afdrif bifreiðarinnar O. Umboðsmaður tók við máli kæranda að nýju þar sem embættinu þótti ekki grundvöllur til frekari rannsóknar á afdrifum bifreiðarinnar. Formleg ákvörðun hafi ekki verið tekin um áframhald greiðsluaðlögunarumleitana heldur hafi málið verið endursent umsjónarmanni.

Umsjónarmaður hafi sent frumvarp til kröfuhafa 5. maí 2014. Athugasemdir hafi borist sama dag frá Tryggingamiðstöðinni hf. þar sem tillögu frumvarpsins var mótmælt með vísan til þess að bifreiðin O hafi horfið án þess að kærandi hafi getað gert grein fyrir því. Athugasemdir hafi einnig borist frá Gjaldheimtunni hf. þar sem farið var fram á greiðslu krafna við Bílastæðasjóð á grundvelli f-liðar 1. mgr. 3. gr. lge. Athugasemdir hafi einnig borist frá Íslandsbanka vegna hlutfalls á framlagi maka auk athugasemda varðandi ráðstöfun fjár sem lagt hafði verið til hliðar. Að auki hafi verið gerður fyrirvari um eftirgjöf sem bankinn hafi talið of háa. Þá hafi borist athugasemdir frá Arion banka hf. þar sem ekkert fé hafi verið lagt til hliðar og var frumvarpinu hafnað af þeim sökum. Íbúðalánasjóður hafi einnig gert athugasemdir við frumvarpið er lutu að framfærslukostnaði, sparnaði og verðmati umsjónarmanns á fasteign kæranda.

Andmæli Tryggingamiðstöðvarinnar hf. lúti að því að hvarf bifreiðarinnar hafi borið að með saknæmum og ólögmætum hætti af hendi kæranda sjálfs. Þrátt fyrir að kærandi hafi tilkynnt til lögreglu að bifreiðinni hafi verið stolið þá vísi kröfuhafi til þess að bifreiðin hafi ekki verið á skrá lögreglu yfir eftirlýst, horfin eða stolin ökutæki. Þá færi það í bága við tilgang lge. að veita heimild til greiðsluaðlögunar þegar atvik séu með framangreindum hætti.

Það sé mat umsjónarmanns að þrátt fyrir að kærandi hafi upplýst um að hann hefði ekki haft vitneskju um að bifreiðin væri horfin af geymslusvæði verði ekki hjá andmælum kröfuhafa litið. Tryggingamiðstöðin hf. hafi ítrekað lýst því yfir við umsjónarmenn í málinu að frumvarpi kæranda sé alfarið hafnað þar sem líkur standi til þess að kærandi hafi veðandlagið undir höndum eða hafi fargað því með einhverjum hætti og komið því undan.

Þótt óljóst sé hvað varð um veðandlagið telur umsjónarmaður misræmi vera á skýringum kæranda auk þess sem þær þyki ótrúverðugar. Byggi umsjónarmaður mat sitt á því að í skriflegri greinargerð kæranda 15. nóvember 2011 komi fram að bifreiðin O hafi verið keypt 22. febrúar 2008 á 850.000 krónur og hafi hún verið notuð í varahluti. Ekki komi fram í greinargerðinni í hvaða ástandi bifreiðin var á þeim tíma. Í tölvupósti til umsjónarmanns 7. janúar 2014 komi hins vegar fram að aldrei hafi komið til þess að bifreiðin hafi verið notuð í varahluti. Verði því að telja óljóst hvað varð um bifreiðina þar sem framburður kæranda þar um hafi verið verulega misvísandi. Þá hafi kærandi ekki upplýst kröfuhafa um það hvar bifreiðin væri niðurkomin, þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir þeirra, en sem fyrr segi hafi innheimtuaðgerðir vegna kröfunnar hafist í febrúar 2009. Svo virtist því sem kærandi hafi ekki viljað gefa upp hvar bifreiðin væri niðurkomin.

Á fundi með fyrri umsjónarmanni 2. mars 2012 hafi kærandi greint frá því að bifreiðin væri tjónabifreið og væri umtalsvert minna virði en áhvílandi skuldir. Þegar kröfulýsing barst frá fulltrúa veðhafa bifreiðarinnar, þar sem þess var krafist að bifreiðinni væri skilað, hafi kærandi greint frá því að bifreiðin væri ekki lengur í hans vörslum. Í kjölfarið hafi umsjónarmanni borist afrit af skýrslu til lögreglu um nytjastuld sem dagsett var 22. maí 2012. Renni þetta enn frekar stoðum undir það misræmi sem hafi verið á framburði kæranda að því er afdrif bifreiðarinnar varðar.

Með vísan til alls framangreinds, andmæla kröfuhafa og einkum viðhorfs Tryggingamiðstöðvarinnar hf. til frumvarpsins og þess að verulegt misræmi sé í framburði kæranda að því er afdrif bifreiðarinnar varðar þá sé umsjónarmanni ekki annað fært en að mæla gegn því að nauðasamningur komist á, sbr. 2. mgr. 18. gr. lge.

 III. Sjónarmið kæranda

Engar kröfur eru settar fram í málinu af hálfu kæranda en skilja verður málatilbúnað hans á þann veg að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun umsjónarmanns verði felld úr gildi.

Fram kemur í kæru að í fyrra frumvarpi umsjónarmanns hafi kæranda verið uppálagt að leggja til hliðar 83.639 krónur á mánuði og það hafi kærandi gert. Í frumvarpi umsjónarmanns sem skipaður var kæranda í annað sinn hafi komið fram að kærandi ætti að leggja fyrir 121.537 krónur á mánuði. Kærandi kveðst ekki skilja hvers vegna umsjónarmaður hafi lækkað framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara um 45.000 krónur á mánuði. Hvað varði kröfu SP fjármögnunar þá hafni kærandi alfarið þeirri kröfu enda hafi hann verið sýknaður af henni með dómi Hæstaréttar í máli nr. X. Kröfu Íslandsbanka eigi eftir að endurreikna. Kærandi kveðst hafa haft samband við bankann og hafi honum verið tjáð að búið væri að afskrifa kröfur bankans. Hvorki hafi verið mögulegt að fá bankann til að senda kæranda staðfestingu þess efnis né hafi kærandi fengið að vita hvað hann skuldaði bankanum.

Varðandi kröfu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. hafni kærandi því alfarið að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað með bifreiðina. Hún hafi verið flutt á geymslusvæði fljótlega eftir að kærandi eignaðist hana. Tryggingamiðstöðin hf. eða einhver á þeirra vegum hafi ítrekað haft samband við kæranda og hafi hann alltaf upplýst um hvar bifreiðin væri. Kærandi hafi talið að kröfuhafi hefði tekið bifreiðina en þegar ljóst hafi verið að sú var ekki raunin hafi kærandi kært þjófnað hennar til lögreglu.

Kærandi kveðst óvart hafa skrifað í greinargerð 15. nóvember 2011 að bifreiðin hefði verið notuð í varahluti. Hann hafi sagt umsjónarmanni að til þess hefði þó aldrei komið. Umrædd greinargerð hafi verið unnin í flýti til að sýna fram á skuldir og eignir. Hún hafi verið unnin stuttu eftir andlát frænku kæranda á meðan verið var að ganga frá dánarbúi hennar.

Kærandi tekur fram að hann hafi frá upphafi mótmælt kröfum SP fjármögnunar og Íslandsbanka en hvorugur umsjónarmanna hans með greiðsluaðlögunarumleitunum hafi tekið tillit til þess. Hvað varði sparnað kæranda þá kveðst hann hafa verið illa upplýstur um hvað ætti að leggja fyrir á mánuði. Varðandi endurskoðun á frumvarpi þá hafi hvorugur umsjónarmanna upplýst hann um mánaðarlegan sparnað, annar hafi sagt sig frá málinu og hinn bent á nauðasamninga.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggist á 18. gr. lge. Í 1. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla laganna ekki tekist þá geti skuldari lýst yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með að samningur komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. laganna og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka.

Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að mæla verði gegn því að nauðasamningur komist á þar sem verulegt misræmi hafi verið á framburði kæranda um afdrif bifreiðarinnar O. Byggist rökstuðningur umsjónarmanns aðallega á þessu mati en einnig vísar umsjónarmaður til grundvallar ákvörðun sinni til viðhorfs þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 18. gr. lge.

Í gögnum málsins er tölvupóstur frá 16. nóvember 2011 þar sem kærandi upplýsir um laun, eignir o.s.frv. Þar kemur fram að bifreiðin O hafi verið notuð í varahluti. Þær upplýsingar lágu til grundvallar ákvörðun umboðsmanns skuldara um að heimila kæranda greiðsluaðlögun. Einnig liggur fyrir tilkynning kæranda 22. maí 2012 til lögreglu um nytjastuld bifreiðarinnar af Geymslusvæðinu Kaplahrauni. Fram kemur í tilkynningunni að bifreiðinni hafi verið stolið einhvern tímann á tímabilinu júlí 2009 til 2012. Kærandi hefur útskýrt framangreint misræmi á hvarfi bifreiðarinnar þannig að hann hafi óvart skrifað í greinargerð til umboðsmanns skuldara að bifreiðin hafi verið notuð í varahluti en það hafi aldrei komið til þess. Kærandi kveður þá greinargerð hafa verið unna í miklum flýti stuttu eftir andlát ættingja hans og mikils fjölskylduvinar og hafi greinargerðin því verið gerð á meðan verið var að ganga frá dánarbúi.

Í gögnum málsins liggur fyrir tilkynning umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara frá 6. janúar 2014 þar sem tilkynnt var á grundvelli 15. gr. lge. að framburður kæranda um bifreiðina hjá umsjónarmanni hefði hvorki verið í samræmi við það sem fram kæmi í greinargerð kæranda 16. nóvember 2011 né lögregluskýrslu um nytjastuld bifreiðarinnar. Lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda væru felldar niður með vísan til d-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Umboðsmaður skuldara tók ekki formlega ákvörðun um áframhald greiðsluaðlögunarumleitana heldur var málið sent að nýju til umsjónarmanns. Verður að mati kærunefndarinnar að líta svo á að umboðsmaður skuldara hafi því ekki fallist á rökstuðning umsjónarmanns fyrir því að fella bæri greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda úr gildi. Í ljósi þess að samningar tókust ekki lýsti kæranda því yfir við umsjónarmann að hann vildi leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar samkvæmt 18. gr. lge.

Í 18. gr. lge. kemur fram að umsjónarmaður skuli meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar. Framangreint misræmi um hvarf bifreiðarinnar kom í ljós eftir að umboðsmaður skuldara veitti kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með ákvörðun 18. janúar 2012. Kærunefndin telur skýringar í kæru á misræmi í greinargerð og lögregluskýrslu ótrúverðugar og að mótmæli veðhafa bifreiðarinnar við samningi hafi að minnsta kosti af þeim sökum verið réttmætar. Verður við úrlausn málsins ekki fram hjá því litið að kærandi hefur veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu. Aðstæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð eru samkvæmt d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. þær að skuldari hafi af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu. Hér verður að telja að umsjónarmanni hafi verið rétt að líta svo á að þessi háttsemi kæranda stæði í vegi fyrir greiðsluaðlögun og að þar með hafi honum verið rétt að mæla gegn því að nauðarsamningur kæmist á samkvæmt 18. gr. lge. 

Með vísan alls framangreinds er hin kærða ákvörðun umsjónarmanns staðfest.

 ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B, um að mæla gegn því að nauðasamningur og greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna A komist á er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta