Hoppa yfir valmynd

Nr. 486/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 7. október 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 486/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21080045

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.          Málsatvik

Þann 12. maí 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. febrúar 2021, um að taka umsókn [...], fd. [...], ríkisborgara Palestínu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Grikklands. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 17. maí 2021. Þann 26. ágúst 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku, ásamt fylgigögnum.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að þann 12. maí 2021 hafi kærunefnd útlendingamála staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja honum um efnismeðferð hér á landi og að hann skyldi endursendur til Grikklands. Kærandi byggir á því að þar sem hann sé enn staddur hér á landi og eiginkona hans og dóttir hafi nú sótt um alþjóðlega vernd hér á landi þann 9. ágúst 2021 hafi atvik breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi telur að réttarstaða hans sem eiginmanns konu og föður barns sem stödd séu hér á landi og hafi sótt um alþjóðlega vernd vera allt aðra en þegar niðurstöður Útlendingastofnunar og kærunefndar féllu í máli hans, enda hafi verið byggt á því að hann væri einstaklingur sem sótt hafi um alþjóðlega vernd hér á landi. Þá telur kærandi að einstaklingsbundnar aðstæður fjölskyldunnar vera þess eðlis að fyrir hendi séu sérstakar ástæður í máli þeirra sem mæli með því að mál þeirra verði tekin til efnismeðferðar á Íslandi, skv. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga auk 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 22. gr. samnings sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013 og 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 276/2018. Þá vísar kærandi til þess að verði ekki fallist á endurupptöku máls hans og honum vísað frá landi muni slík ráðstöfun ganga gegn meginreglunni um einingu fjölskyldunnar. Sömu sjónarmið standi að baki 2. og 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga en það liggi í augum uppi að kærandi muni eiga rétt á alþjóðlegri vernd á grundvelli 2. og 3. mgr. 45. gr. verði eiginkonu hans og barni veitt alþjóðleg vernd hér á landi. Kærandi telur að eðlilegast sé að afstaða sé tekin í  málum hans og fjölskyldu hans samtímis, líkt og í almennt í málum barnafjölskyldna sem sæki um alþjóðlega vernd hér á landi. Þá vísar kærandi til þess að ljóst sé að hagsmunir dóttur hans séu þeir að mál föður hennar verði endurupptekið. Kærandi vísar til 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga í þessu samhengi. Jafnframt vísar kærandi til þess að stjórnvöld séu bundin af meginreglu barnaréttar um að það sem barni sé fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar ákvarðanir séu teknar um málefni þess, sbr. 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003. Ákvörðun um að vísa kæranda úr landi meðan dóttir hans dvelji hér á landi sé ákvörðun sem varði málefni barnsins með beinum hætti og barninu sé best borgið með föður sínum. Slík ákvörðun myndi einnig ganga gegn sjónarmiðum um einingu fjölskyldunnar.

Kærandi telur að sérstakar ástæður mæli með því að umsókn hans verði tekin til efnismeðferðar sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi til röksemda í fyrri greinargerðum hans til Útlendingastofnunar og kærunefndar. Þá fjallar kærandi um reglugerð nr. 276/2018 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, en þar sé lögð áhersla á að hagsmunir barnsins séu hafðir að leiðarljósi við mat á því hvort Útlendingastofnun sé skylt að taka mál barnsins til efnislegrar meðferðar hér á landi á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til þess að flóttafólk mæti miklum aðgangshindrunum í Grikklandi og þar séu barnafjölskyldur ekki undanskildar. Kærandi vísar til úrskurðar kærunefndar í málum nr. KNU19110022 og KNU19110023 frá 25. mars 2020, máli sínu til stuðnings og telur að aðstæður í Grikklandi hafi ekki breyst til batnaðar frá því að úrskurðurinn féll. Þá hafi Covid-19 faraldurinn haft gríðarleg áhrif á heilbrigðiskerfi landsins og takmarkað aðgengi jaðarsettra hópa að heilbrigðisþjónustu. Kærandi vísar þá til úrskurðar kærunefndar í málum nr. KNU21040026 og KNU21040027 frá 1. júlí 2021 og telur aðstæður kærenda í þeim málum vera sambærilegar aðstæðum fjölskyldu sinnar. Kærandi hafi verið metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga vegna slæmrar andlegrar heilsu sinnar hjá Útlendingastofnun. Jafnframt hafi kærandi misst barn í heimaríki, hann sé þolandi nauðgunar, hafi orðið fyrir ofbeldi af hálfu grísku lögreglunnar auk þess sem hann hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni og stunguárás í flóttamannabúðum í Grikklandi. Þá hafi kærandi glímt við mikla höfuðverki og skerðingu á sjón sinni. Kærandi telur að endursending viðkvæmra foreldra með ungt barn til Grikklands þar sem móttökukerfi útlendingayfirvalda sé undir verulegu álagi, fjölskyldunni standi ekki félagsleg aðstoð til boða og takmarkanir séu á aðgengi að heilbrigðisþjónustu og menntun sé þeim ekki fyrir bestu. Kærandi telur í ljósi framangreindra samverkandi þátta verði ekki komist hjá því að taka mál fjölskyldunnar til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi gerir þá kröfu aðallega að mál hans verði endurupptekið hjá kærunefnd og að kærunefnd feli Útlendingastofnun að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd, til efnislegrar meðferðar hér á landi á grundvelli sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Til vara er gerð krafa um að málið verði endurupptekið hjá kærunefnd og að málinu verði vísað til nýrrar málsmeðferðar hjá Útlendingastofnun í ljósi verulega breyttra forsendna.

Þá er gerð krafa um að réttaráhrifum þeirrar ákvörðunar sem nú liggi fyrir í málinu verði frestað á meðan málið er til meðferðar á ný hjá kærunefnd með vísan til 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 12. maí 2021. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. og 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið eða að aðstæður hans væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku m.a. á því að niðurstaða í máli hans hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun í máli hans hafi verið tekin. Vísar kærandi einkum til þess að eiginkona hans og barn hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi og meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar, sbr. jafnframt 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, auk þess sem kærandi hafi lagt fram tiltekin gögn til stuðnings tengslum þeirra. Vegna endurupptökubeiðni kæranda sendi kærunefnd tölvubréf til Útlendingastofnunar þann 13. september 2021 þar sem spurt var út í stöðu umsókna eiginkonu kæranda og barns hans hér á landi. Í svari Útlendingastofnunar sem barst kærunefnd þann sama dag, kom fram að eiginkona kæranda og dóttir hans hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi þann 9. ágúst 2021 og fyrirhugað væri að hún mætti til viðtals hjá Útlendingastofnun þann 22. september 2021, en samkvæmt gögnum málsins sé hún með alþjóðlega vernd í Grikklandi.

Kærunefnd telur að þrátt fyrir að Útlendingastofnun hafi ekki tekið afstöðu til umsóknar eiginkonu kæranda og barns hans hér á landi hafi umsóknir þeirra ekki áhrif á stöðu kæranda hér á landi. Vegna tilvísunar kæranda til 2. og 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga áréttar kærunefnd að þar er fjallað um tengsl maka, barns eða foreldra við einstakling sem hlotið hefur alþjóðlega vernd hér á landi. Í ljósi þess að hvorki kærandi né eiginkona hans eða barn hafi hlotið alþjóðlega vernd hér á landi telur kærunefnd að umrædd lagaákvæði hafi ekki þýðingu fyrir mál kæranda.

Vegna tilvísunar í greinargerð kæranda til úrskurðar kærunefndar í málum nr. KNU19110022 og KNU19110023, tekur kærunefnd fram að þó að um hafi verið um að ræða fjölskyldu með börn með vernd í sama viðtökuríki og kærandi, hafi nefndin talið að í ljósi aðgangshindrana að grunnþjónustu og lagalegum réttindum og þeirrar stöðu sem ríkti vegna átaka við landamærin og þeirra fordæmalausu stöðu vegna Covid-19 faraldursins sem uppi var á þeim tíma að ástæða væri til að ætla að foreldrar með börn á framfæri sínu væru í verri stöðu en áður til að tryggja grunnþarfir barna sinna. Þá vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar í málum nr. KNU21040026 og KNU21040027 frá 1. júlí 2021 í greinargerð sinni. Kærunefnd tekur fram að í því máli lá fyrir að annar kæranda var lögblindur á báðum augum vegna augnsjúkdóms og báru gögn málsins með sér að hann væri í talsverðri þörf fyrir hjálpartæki tengt því. Taldi kærunefnd að í ljósi þeirra aðgangshindrana að grunnþjónustu og lagalegum réttindum í Grikklandi og þá sérstaklega þegar litið væri til stöðu kæranda í málinu að ástæða væri til að ætla að kærendur væru í verri aðstöðu en aðrir til þess að sækja sér réttindi sín, framfleyta fjölskyldunni og verða sér úti um húsnæði og þar með tryggja grunnþarfir barna sinna. Í úrskurði kærunefndar í máli kæranda nr. KNU21030013 frá 12. maí 2021 kom m.a. fram að kærandi væri í þörf fyrir sjónmælingu og gleraugu. Þá hafi niðurstöður úr tölvusneiðmynd frá Röntgen Domus, dags. 25. mars 2021, leitt í ljós að engar sjúklegar breytingar væru í augnknöttum eða í augntóftum. Taldi kærunefnd að gögn málsins bæru ekki með sér að heilsufar kæranda væri með þeim hætti að hann teldist glíma við mikil og alvarleg veikindi, eins og segir í 2. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Af þeim sökum telur kærunefnd að þrátt fyrir að um sama viðtökuríki sé að ræða sé ekki unnt að jafna stöðu kæranda í þessu máli við stöðu kærenda í framangreindum úrskurði enda séu aðstæður hans ólíkar að öðru leyti.

Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 12. maí 2021, hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður var kveðinn upp, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.

Með hliðsjón af framangreindu er ekki talin ástæða til þess að fjalla frekar um beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga.

Athygli kæranda er vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæm ákvörðun að svo stöddu.

 

 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda er hafnað.

The appellant‘s request is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                    Sandra Hlíf Ocares

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta