Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 57/2011

Mánudaginn 30. september 2013

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Kristrún Heimisdóttir.

Þann 23. september 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 8. september 2011 þar sem umsókn hans um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 16. desember 2011 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 2. janúar 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 6. janúar 2012 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi 25. janúar 2012.

I. Málsatvik

Kærandi er ógiftur og býr ásamt dóttur sinni í eigin fasteign að B götu nr. 9 í sveitarfélaginu C. Kærandi er 75% öryrki eftir bílslys sem hann lenti í árið 1996. Hann fær greiddar örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins sem nema 161.823 krónum á mánuði eftir frádrátt skatta. Auk þess fær hann greiddan barnalífeyri og meðlag, barnabætur, vaxtabætur og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu. Samkvæmt þessu eru mánaðarlegar tekjur hans 316.829 krónur eftir frádrátt skatta. Kærandi hefur starfað við flísalagnir eins og heilsa leyfir en félag hans, Y ehf., selur út þjónustu hans sem múrara.

Að sögn kæranda má annars vegar rekja fjárhagserfiðleika hans til húsnæðiskaupa árið 2006, en þá festi hann kaup á B götu nr. 9 í sveitarfélaginu C og hins vegar til framkvæmda á eigninni í lok árs 2006 og byrjun árs 2007. Á þeim tíma hafi kærandi staðið í forræðisdeilu vegna dóttur sinnar og taldi hann nauðsynlegt að búa henni öruggt heimili. Eins vildi hann geta hýst fósturbörn sín tvö. Utan um þáverandi rekstur sinn hafi hann stofnað félagið X ehf. Í kjölfar efnahagshrunsins 2008 brustu allar forsendur fyrir rekstri félagsins vegna verkefnaskorts og var félagið því tekið til gjaldþrotaskipta. Húsnæðislán kæranda voru að verulegum hluta bundin við gengi erlendra gjaldmiðla og hækkuðu þau upp úr öllu valdi á sama tíma og enga vinnu var að fá við flísalagnir.

Heildarskuldir kæranda eru 119.846.631 króna samkvæmt skuldayfirliti frá umboðsmanni skuldara. Allar skuldir falla innan samninga, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.), að undanskilinni kröfu Innheimtumiðstöðvar sekta og sakarkostnaði að fjárhæð 91.000 krónur.

Helstu skuldir kæranda skiptast þannig:

Ár Kröfuhafi Upphafleg Fjárhæð Tilgangur
    fjárhæð kr. 2011 kr. lántöku
2006 Arion banki 7.568.471 6.445.867 Fasteignakaup
2006/7 Arion banki* 42.557.340 100.174.829 Fasteignakaup
2007 Íslandsbanki 2.500.000 4.346.101 Uppgjör skulda
2008 Arion banki yfirdr. 3.699.833 5.885.564 Innrétting fasteignar
  Aðrar skuldir   2.994.270  
  Samtals kr. 56.325.644 119.846.631  
* Gengistryggð lán.

Að auki hvíla á kæranda eftirtaldar ábyrgðarskuldbindingar að fjárhæð 9.902.525 krónur vegna X ehf.:

Ár Kröfuhafi Upphafleg
    fjárhæð kr.
2006 Lýsing 3.205.142
2007 Avant 2.170.984
2008 Íslandsbanki 3.500.000
2008 Arion banki 1.026.399
  Samtals kr. 9.902.525

Samkvæmt gögnum málsins hafa mánaðarlegar meðaltekjur kæranda eftir greiðslu skatta, eignir og skuldir verið eftirfarandi:

Ár Tekjur kr. Eignir kr. Skuldir kr.
2006 252.726   35.140.000   50.700.115  
2007 224.553   39.090.000   30.852.988  
2008 227.734   39.090.000   68.380.380  
2009 301.785   39.176.018   88.653.663  

Þann 1. september 2011 lá umsókn kæranda fyrir fullbúin, sbr. 1. mgr. 7. gr. lge. Var umsókn hans synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 8. september 2011, með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að fallist verði á umsókn hans um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010.

Kærandi bendir á að á árunum 2006‒2007 ríktu allt aðrar aðstæður á Íslandi en síðar urðu, það er eftir efnahagshrunið 2008. Þetta eigi sérstaklega við fjármagn; framboð, aðgengi og lánskjör. Í boði voru bæði verðtryggð og gengistryggð lán. Ef lántaka kæranda teljist hafa verið áhættusöm þá eigi það sama við um nánast alla aðra lántaka.

Þegar til þeirra skuldbindinga var stofnað sem um ræðir rak kærandi félagið X ehf. Var mikill uppgangur í byggingariðnaðinum og næg verkefni framundan fyrir félagið. Árið 2006 réðst kærandi í kaup á fasteigninni að B götu nr. 9 í sveitarfélaginu C og  lántökur samhliða kaupunum. Kærandi hafi ekki séð fram á annað en að geta staðið við skuldbindingar sínar, enda horfur hér á landi mjög góðar. Kærandi bendi einnig á að á þessum tíma hafi verið talið að fullbúin væri umrædd fasteign metin á 65‒70.000.000 króna. Það hafi því verið mat kæranda, að höfðu samráði við fjármálaráðgjafa bankanna, að fjárfesting hans væri trygg. Kærandi hafi sjálfur innt af hendi mikla vinnu við að koma fasteigninni í íbúðarhæft ástand til að tryggja eins litla skuldsetningu og mögulegt var.

Tiltaki kærandi að fasteignin hafi verið keypt með það í huga að hann gæti hýst fósturbörn sín tvö sem séu hálfsystkin dóttur hans. Hafi hann á þeim tíma staðið í forræðisdeilu og meðal annars farið í hæfnismat sem fósturforeldri. Var honum gert ljóst að mikilvægt væri að börnin ættu öruggt heimili. Hafi fjárhagslegar ákvarðanir kæranda á þessum tíma tekið mið af þessu. Allt útlit hafi verið fyrir það að um vænlega fjárfestingu væri að ræða sem væri jafnframt ódýrari kostur en að leigja fimm herbergja íbúð eða raðhús á almennum markaði.

Kærandi telur að umboðsmaður skuldara hafi ekki tekið tillit til þess efnahagshruns sem varð haustið 2008 og hvaða áhrif það hafði á kæranda. Afleiðingar hrunsins voru þær að kærandi missti tekjur sínar þegar einkahlutafélag hans varð gjaldþrota og skuldir hans margfölduðust. Þetta hafi á engan hátt verið sök kæranda. Frekar eigi að líta til þeirra sem lánuðu honum féð.

Kærandi kveðst ekki hafa gert umræddar ráðstafanir eins síns liðs. Lánveitendur hans töldu hann hæglega geta staðið við skuldbindingar sínar. Umboðsmaður líti ekki til þess að þegar kærandi stofnaði til fjárskuldbindinganna gerðu fjármálafyrirtæki greiðslumat og töldu að kærandi gæti staðið undir þeim skuldbindingum sem hann stofnaði til gagnvart þeim. Vísar kærandi í samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1998. Telji kærandi að mat umboðsmanns sé huglægt mat sem gangi þvert á faglegt mat fjármálafyrirtækjanna og mat kæranda á sínum tíma.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun sem synjað var með ákvörðun umboðsmanns sem tilkynnt var með bréfi 8. september 2011 með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður bendir á að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimild sé til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á því skuli meðal annars taka sérstakt tillit til þess hvort stofnað hafi verið til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, sbr. b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Jafnframt skuli við matið taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Í gögnum umboðsmanns skuldara kemur fram að samkvæmt skattframtölum kæranda fyrir árin 2006‒2008 hafi mánaðarlegar meðaltekjur kæranda, eignir og skuldir verið eftirfarandi:

Ár Tekjur kr. Eignir kr. Skuldir kr.
2006 252.726   35.140.000   50.700.115  
2007 224.553   39.090.000   30.852.988  
2008 227.734   39.090.000   68.380.380  
2009 301.785   39.176.018   88.653.663  

Telur umboðsmaður að þegar litið sé til fjárhagslegrar stöðu kæranda á þeim tíma sem til þessara skuldbindinga var stofnað, hafi kæranda hlotið að vera ljóst að hann væri að stofna til þeirra án þess að hafa nægilegar tekjur til þess að standa undir þeim og taka áhættu sem væri langt umfram það sem tekjur hans og eignir gætu staðið undir. Þegar kærandi gerði lánasamning við Sparisjóð Mýrasýslu þann 20. desember 2006 vegna húsnæðiskaupa hafi hann tekið á sig verulegar skuldbindingar á sama tíma og skuldir hans umfram eignir hafi verið 11.460.115 krónur. Einnig hafi hann á sama tíma tekist á hendur ábyrgðarskuldbindingar fyrir X ehf. að fjárhæð 3.205.142 krónur.

Hvað varðar þá afstöðu kæranda að mikill uppgangur hafi verið í byggingariðnaði og tilefni hafi verið til bjartsýni, verði ekki framhjá því litið að kærandi var örorkulífeyrisþegi á þessum tíma og tekjur hans að öðru leyti gáfu ekki tilefni til að gera mætti ráð fyrir að hann gæti staðið undir þeim skuldbindingum sem hann stofnaði til.

Umboðsmaður telur ljóst að kærandi hafi með þeim miklu lántökum sem hann réðst í árin 2006 og 2007 hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt. Hann hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað. Honum hlyti einnig að hafa verið ljóst að með því að stofna til þessara skuldbindinga án þess að hafa nægilegar tekjur yrði hann á sama tíma ófær um að greiða af þeim.

Þá nefnir umboðsmaður að í greinargerð sem varð að lögum nr. 101/2010 komi fram að þær ástæður sem taldar eru upp í 2. mgr. 6. gr. eigi það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Telur umboðsmaður að vísun í samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1998 eigi ekki við í þessu máli, enda ekki um neinar slíkar ábyrgðir að ræða. Eins tekur umboðsmaður fram að vilji fjármálafyrirtækja til að veita kæranda lán hafi ekki leyst hann undan þeirri skyldu að meta sjálfur áhættuna af þeim skuldbindingum sem hann tók á sig. Kærandi beri sjálfur ábyrgð á þeirri skuldasöfnun.

Loks tekur umboðsmaður fram að við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi farið fram heildstætt mat á aðstæðum kæranda og hafi ekkert komið fram á síðari stigum málsins sem breytt geti þeim forsendum sem synjun umboðsmanns byggði á.

Að öllu þessu virtu fer umboðsmaður fram á að hin kærða ákvörðun sem tekin var á grundvelli b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010 verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri vísan til b- og c-liða. Í b-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi verið stofnað til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Í c-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Framangreind ákvörðun umboðsmanns byggist fyrst og fremst á því að kæranda hljóti að hafa verið ljóst að með því að stofna til umræddra skuldbindinga án þess að hafa nægilegar tekjur yrði hann á sama tíma ófær um að greiða af þeim. Með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. var því umsókn kæranda um greiðsluaðlögun synjað.

Samkvæmt gögnum málsins má rekja fjárhagsvanda kæranda til húsnæðiskaupa árið 2006, en kaupverð eignarinnar var 38.854.000 krónur. Húsnæðið var ekki fullklárað. Til að fjármagna kaupin og klára húsnæðið fékk kærandi lán árin 2006 og 2007 samtals að fjárhæð 53.825.644 krónur. Tvö þessara lána, samtals upphaflega að fjárhæð 25.672.109 krónur, voru svokölluð kúlulán til níu ára. Með öðrum orðum var eini gjalddagi lánanna eftir níu ár. Af báðum þessum lánum skyldi greiða reglulega vaxtagjalddaga hluta lánstímans, í öðru tilvikinu skyldu vaxtagreiðslur hefjast eftir um eitt og hálft ár en í hinu tilvikinu eftir um tvö ár. Vaxtagjalddagar skyldu vera mánaðarlega eftir það fram að lokagjalddaga. Það er mat kærunefndarinnar að með þessu móti hafi kærandi flutt greiðslubyrði sína og fjárhagslega áhættu fram í tímann með tilheyrandi óvissu um gjaldmiðla- og vaxtaþróun.

Af öðrum skuldabréfalánum kæranda var upphafleg greiðslubyrði höfuðstóls alls 132.844 krónur á mánuði auk verðbóta og vaxta. Af fyrirliggjandi gögnum má ráða að vaxta- og verðbótagreiðslur hafi að lágmarki numið 70.000 krónum á mánuði. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum stóðu þá eftir til framfærslu um 50.000 krónur miðað við ráðstöfunartekjur kæranda árið 2006 og rúmar 20.000 krónur miðað við ráðstöfunartekjur kæranda árið 2007. Þegar framangreint er virt er það mat kærunefndarinnar að kærandi hafi stofnað til þess hluta skulda sinna, sem hafði í för með sér mánaðarlega greiðslubyrði, á þeim tíma sem hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, en útilokað verður að telja að ráðstöfunartekjur hans hafi dugað bæði til framfærslu og greiðslu afborgana af þeim lánum.

Kærunefndin telur að kærandi hafi með töku svonefndra kúlulána tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað. Er hér annars vegar horft til þess að afborgunarlán kæranda voru til 18 og 20 ára og því ljóst að miðað við greiðslubyrði hans af þeim lánum hafði hann ekki möguleika á að leggja til hliðar til að mæta greiðslum kúlulánanna. Hins vegar er litið til þess að við nefndar lántökur voru ekki líkur á að tekjur kæranda myndu hækka það verulega að hann gæti staðið undir greiðslu kúlulánanna þegar þar að kæmi, enda kemur það fram hjá kæranda sjálfum að hann hafi unnið eins og starfsorka og þrek leyfi og telji að ekki verði breytingar á hans högum næstu misseri og ár.

Þá er það mat kærunefndarinnar að með því að gangast í sjálfskuldarábyrgðir fyrir félag sitt X ehf. fyrir tæpar 10.000.000 króna hafi kærandi tekið enn frekari fjárhagslega áhættu þar sem félagið stundaði samkvæmt gögnum málsins ekki aðra starfsemi en að selja út vinnu kæranda og var því fjárhagur félagsins nátengdur fjárhag kæranda.

Með vísan til alls þess sem greinir hér að framan er það mat kærunefndar greiðsluaðlögunarmála að kærandi hafi með háttsemi sinni hagað fjármálum sínum í andstöðu við b- og c-liði 2. mgr. 6. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda að leita heimildar til greiðsluaðlögunar er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Kristrún Heimisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta