Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 174/2012

Miðvikudaginn 14. nóvember 2012

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

Með bréfi, dags. 2. júlí 2012, kærir B, f.h. A synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um heimilisuppbót.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með umsókn til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. apríl 2012, sótti kærandi um heimilisuppbót. Umsókninni var synjað með bréfi, dags. 7. maí 2012, á þeirri forsendu að samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá væri hjúskaparstaða hans „hjón ekki í samvistum“.

 Í kæru segir meðal annars:

 „Samkvæmt þjóðskrá er A skráður með stöðuna "hjón ekki í samvistum" sem segir að þau njóta ekki hagræðis af sameiginlegu heimilishaldi. En heimilisuppbót er uppbót til að mæta dýrara heimilishaldi til handa þeim sem búa einir skv. 4. grein reglugerðar 595/1997. Meint eiginkona A hefur ekki stigið fæti á íslenska grund og er búsett í D. Af trúarlegum ástæðum hafa þau ekki gengið frá lögskilnaði en þau hafa ekki sést í 12 ár.

A nýtur uppbótar á skertar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins, í formi fjárhagsaðstoðar frá Reykjavíkurborg og þar hefur staða hans alltaf verið metin sem einhleypings.“

 Úrskurðarnefndin óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi dags. 5. júní 2012. Greinargerðin er dags. 23. júlí 2012. Þar segir m.a.:

 „1. Kæruefni

Fyrir hönd kæranda er kærð synjun Tryggingastofnunar á heimilisuppbót, dags. 17. maí 2012 en synjunin var byggð á hjúskaparstöðu hans. Um það snýst kæran. Beiðni um greinargerð Tryggingastofnunar barst þann 5. júlí sl.

2. Lög og reglur

Samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, er heimilt að greiða einhleypingi, sem nýtur óskertrar tekjutryggingar skv. lögum um almannatryggingar og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, að auki heimilisuppbót, 23.164 kr. á mánuði. Eigi viðkomandi rétt á skertri tekjutryggingu skv. lögum um almannatryggingar skal lækka heimilisuppbótina eftir sömu reglum.

Nánar er fjallað um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri í reglugerð nr. 1052/2009 ásamt reglugerðarbreytingum nr. 569/2011, 1231/2011 og 498/2012.

3. Málavextir

Kærandi sótti um heimilisuppbót í umsókn sinni um örorkulífeyri og tengdar greiðslur þann 17. apríl 2012. Þar kemur fram að kærandi búi einn í leiguhúsnæði. Með bréfi, dags. 7. maí 2012, var kæranda synjað um greiðslur heimilisuppbóta á grundvelli hjúskaparstöðu hans samkvæmt Þjóðskrá. Hjúskaparstaða hans er skráð sem „hjón ekki í samvistum.“

4. Málsástæður og lagarök

Samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð og 7. gr. reglugerðar nr. 1052/2009 koma fram þrjú skilyrði sem einstaklingur þarf að uppfylla til þess að fá greidda heimilisuppbót:

a)      Einstaklingur er einhleypingur, þ.e. ógiftur

b)      Einstaklingur nýtur óskertrar tekjutryggingar skv. lögum um almannatryggingar

c)      Einstaklingur er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Þrátt fyrir að kærandi kynni að uppfylla skilyrði b og c hér að ofan, verður hann ekki talinn einhleypingur heldur giftur maður. Samkvæmt íslenskri orðabók merkir orðið „einhleypingur“ ókvæntan mann eða ógifta konu. Tryggingastofnun er, skv. orðalagi laganna sem og reglugerðarinnar, óheimilt að greiða giftu fólki heimilisuppbót. Undanþáguákvæði 9. gr. reglugerðarinnar kemur ekki til álita hér þar sem það er einskorðað við maka vistmanna, þ.e. maki umsækjanda um heimilisuppbót er vistaður á stofnun til frambúðar. Aðskilnaður hjóna vegna dvalar annars þeirra í erlendu landi verður ekki jafnað við þær sérstöku aðstæður þegar fólk vistast til frambúðar á elliheimili eða hjúkrunarheimili. Gildir það einu þótt aðskilnaður standi hugsanlega í langan tíma.

5. Niðurstaða

Tryggingastofnun telur ljóst að synjun stofnunarinnar á heimilisuppbót til kæranda vegna hjúskaparstöðu hans, hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög, reglugerðir og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga. Tryggingastofnun telur því ekki ástæðu til þess að breyta þeirri ákvörðun sinni.“

 Greinargerðin var send umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. 25. júlí 2012, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Athugasemdir bárust ekki.

 Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um heimilisuppbót.

Í kæru segir að samkvæmt þjóðskrá sé kærandi skráður með stöðuna „hjón ekki í samvistum“ sem segi að þau njóti ekki hagræðis af sameiginlegu heimilishaldi. Heimilisuppbót sé uppbót til að mæta dýrara heimilishaldi til handa þeim sem búi einir. Meint eiginkona A hafi ekki stigið fæti á íslenska grund og sé búsett í D. Af trúarlegum ástæðum hafi þau ekki gengið frá lögskilnaði en þau hafi ekki sést í 12 ár.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að samkvæmt íslenskri orðabók merki orðið „einhleypingur“ ókvæntan mann eða ógifta konu. Tryggingastofnun sé, skv. orðalagi almannatryggingalaga og reglugerð nr. 1052/2009, óheimilt að greiða giftu fólki heimilisuppbót.

Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er kveðið á um heimilisuppbót þar sem eftirfarandi kemur fram:

,,Heimilt er að greiða einhleypingi, sem nýtur óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, að auki heimilisuppbót, kr. 23.164 kr. á mánuði.“

Til þess að öðlast rétt samkvæmt ákvæðinu er gerð krafa um að öll tilgreind skilyrði séu uppfyllt. Í máli þessu kemur aðeins til álita hvort kærandi uppfylli skilyrði um að vera einhleypingur.

Í gildandi reglugerð nr. 1052/2009, með síðari breytingum, er að finna nánari útfærslu á lagaákvæðinu. Í 8. gr. reglugerðarinnar kemur eftirfarandi fram:

,,Heimilisuppbót verður ekki greidd til aðila sem svo er ástatt um sem hér segir:

1.      Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra aðila.

2.      Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að hafa sameiginlega aðstöðu varðandi fæði eða húsnæði, t.d. sambýli á vegum félagasamtaka eða ríkis og bæja.

3.      Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að leigja herbergi eða húsnæði með sameiginlegri eldunaraðstöðu með öðrum.“

Samkvæmt tilvitnuðum laga- og reglugerðarákvæðum er það skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar að um einhleyping sé að ræða sem sé einn um heimilisrekstur og njóti ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Skiptir þar engu máli hvort um er að ræða systkini, vini eða aðra sem búa saman. Meta verður sjálfstætt í hverju tilviki að teknu tilliti til allra aðstæðna hvort viðkomandi njóti fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra í skilningi reglna um heimilisuppbót.

Skilgreining á einhleypingi samkvæmt íslenskri orðabók í ritstjórn Marðar Árnasonar, 4. útg. 2007, er á þann veg að um sé að ræða ókvæntan mann eða ógifta konu. Samkvæmt gögnum málsins er hjúskaparstaða kæranda í þjóðskrá skráð sem hjónaband án samvistar. Kærandi er því ekki einhleypingur þrátt fyrir að hann hafi ekki hitt konu sína í 12 ár. Það að hjónin hafi ekki sameiginlegt lögheimili breytir engu um þá staðreynd að þau séu skráð í hjónaband. Sú staðreynd kemur í veg fyrir að kærandi uppfylli skilyrði 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og getur hann af þeirri ástæðu ekki öðlast rétt samkvæmt ákvæðinu.

 Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar almannatrygginga að kærandi geti ekki talist einhleypingur í skilningi 8. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 þar sem hann sé skráður í hjónaband. Þegar af þeirri ástæðu er ekki hægt að fallast á að kærandi uppfylli skilyrði heimilisuppbótar.

 

 Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um greiðslu heimilisuppbótar er staðfest.

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta