Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 143/2022-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 143/2022

Miðvikudaginn 29. júní 2022

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Björn Jóhannesson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 7. mars 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Barnaverndarnefndar B á beiðni hennar um aðgang að gögnum, beiðni um skriflegan rökstuðning fyrir könnun máls og beiðni um afléttingu nafnleyndar vegna tilkynningar í barnaverndarmáli er varðar son hennar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með tölvupósti til starfsmanns Barnaverndarnefndar B, dags 24. nóvember 2021, óskaði kærandi eftir að fá afrit af tilkynningu frá skóla varðandi son hennar. Með tölvupósti, dags. 22. desember 2021, ítrekaði kærandi fyrrgreinda beiðni og óskaði jafnframt eftir skriflegri ákvörðun Barnaverndarnefndar B um að nafnleynd vegna nýrrar tilkynningar yrði aflétt. Loks sendi kærandi bréf til Barnaverndarnefndar B, dags. 20. janúar 2022, þar sem hún í fyrsta lagi óskaði eftir tilteknum gögnum í barnaverndarmáli er varðar son hennar, í öðru lagi óskaði hún eftir skriflegum rökstuðningi fyrir ákvörðun um könnun máls og í þriðja lagi óskaði hún eftir að nafnleynd tiltekinnar tilkynningar yrði aflétt. Þegar kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 7. mars 2022 hafði þessum erindum ekki enn verið svarað.

Með bréfi Barnaverndarnefndar B, dags. 30. mars 2022, var erindum kæranda svarað. Kærandi fékk aðgang að umbeðnum gögnum og skriflegan rökstuðning fyrir ákvörðun um könnun máls. Beiðni kæranda um að nafnleynd tilkynningar yrði aflétt var aftur á móti hafnað. Í ákvörðun Barnaverndarnefndar B kemur eftirfarandi fram, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Skv. 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 getur tilkynnandi óskað nafnleyndar gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd og skal það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Gildir það um alla nema þá sem sinna börnum vegna starfa sinna og taldir eru upp í 17. og 18. gr. laganna. Þá segir í 13. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd að ef barnaverndarnefnd fær rökstuddan grun um að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu geti nefndin tekið ákvörðun um að aflétta nafnleyndinni. Barnaverndarnefnd tók ákvörðun um að hefja könnun málsins og niðurstaða nefndarinnar að könnun lokinni var sú að ekki væri ástæða til aðgerðar nefndarinnar og var málinu lokað. Þó málalyktir hafi orðið þessar býr nefndin ekki yfir neinum upplýsingum eða gögnum sem styðja það að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu til nefndarinnar. Þar sem engar sérstakar ástæður aðrar mæla með því er það ákvörðun Barnaverndarnefndar B, með vísan til 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og 13. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd, að aflétta ekki nafnleynd í þessu tilviki.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 7. mars 2022. Með bréfi, dags. 9. mars 2022, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B vegna kærunnar. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst 26. apríl 2022 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. apríl 2022, var hún send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að formleg erindi hafi verið sent Barnaverndarnefnd B þann 24. nóvember 2021, 22. desember 2021 og 20. janúar 2022. Rétt foreldra til þess að fá rökstuðning, nafnleynd aflétt og aðgang að gögnum máls hafi ekki verið hirt um og beri að líta á tómlæti nefndarinnar til jafns við synjun. Meðfylgjandi sé beiðni um rökstuðning, aðgang að gögnum máls og afléttingu nafnleyndar sem hafi ekki verið virt viðlitis af hálfu nefndarinnar.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að kærandi sé móðir drengsins Þórðar Hugos Björnssonar. Mál hans hafi verið til meðferðar hjá Barnaverndarnefnd B frá miðju ári 2021 fram í janúar 2022. Málið hafi fyrst komið til kasta barnaverndarnefndar í apríl 2021 þegar tilkynningar hafi borist frá lögreglu. Þá hafi ekki verið ákveðið að aðhafast af hálfu barnaverndar. Tilkynning hafi borist frá skóla drengsins í maí 2021 þar sem lýst hafi verið yfir miklum áhyggjum af óæskilegri hegðun drengsins og erfiðum samskiptum á milli heimilis og skóla. Málið hafi verið tekið til könnunar og rætt við foreldra og barn. Fleiri tilkynningar hafi borist vegna drengsins um haustið 2021, bæði frá lögreglu og skóla. Jafnframt hafi ein tilkynning borist undir nafnleynd. Efni allra tilkynninga hafi verið á sama veg, þ.e. áhyggjur af áhættuhegðun drengsins sem lýst sé í gögnum málsins.

Með tölvupóstum, dags. 24. nóvember og 22. desember 2021, hafi kærandi óskað eftir að fá afhenta tilkynningu frá skóla og að nafnleynd tilkynningar frá því í nóvember 2021 yrði aflétt. Þann 20. janúar 2022 hafi barnaverndarnefnd borist þríþætt erindi frá kæranda. Í fyrsta lagi hafi verið óskað eftir aðgangi að gögnum máls, í öðru lagi krafist rökstuðnings fyrir könnun máls og í þriðja lagi krafist afléttingar á nafnleynd. Tveggja þessara krafna hafi verið settar fram áður og sé ljóst að þeim erindum, sem kærandi hafi sett fram í tölvupóstum, dags. 24. nóvember og 22. desember 2021, hafi ekki verið svarað innan hæfilegs frests. Úr því hafi nú verið bætt og erindi kæranda frá 20. janúar 2022 verið svarað með bréfi, dags. 30. mars 2022. Tilkynning frá skóla frá nóvember 2021 sem kærandi hafi óskað eftir, hafi verið afhent en afléttingu á nafnleynd hafi verið synjað.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar þá ákvörðun Barnaverndarnefndar B að hafna kröfu kæranda um að nafnleynd verði aflétt vegna tilkynningar sem barst Barnaverndarnefnd B 26. nóvember 2021.

Reglur um nafnleynd koma fram í 19. gr. bvl. og tengjast reglum um tilkynningarskyldu sem fram koma í 16. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 16. gr. laganna er kveðið á um tilkynningarskyldu almennings. Þar segir að hverjum þeim sem hafi ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu sé skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd.

Í 2. mgr. 19. gr. bvl. kemur fram sú meginregla að óski tilkynnandi samkvæmt 16. gr. laganna eftir nafnleynd gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd skuli það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Þessi regla kemur einnig fram í 13. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd. Þar segir að fái barnaverndarnefnd rökstuddan grun um að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu geti nefndin tekið ákvörðun um að aflétta nafnleyndinni. Samkvæmt þessu er meginreglan sú að nafnleynd verður ekki aflétt, nema í þeim undantekningartilvikum að sérstakar ástæður séu fyrir því.

Þegar tilkynning berst barnaverndaryfirvöldum um ætlaðar óviðunandi aðstæður barns hvílir sú skylda á barnaverndaryfirvöldum að hefja ekki könnun máls, nema rökstuddur grunur sé um að tilefni sé til þess, sbr. 5. mgr. 21. gr. bvl.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er til þess að líta að samkvæmt 2. mgr. 19. gr. bvl. er meginreglan sú að nafnleyndar skuli gætt varðandi tilkynningar samkvæmt 16. gr. laganna og þurfa sérstakar ástæður að vera fyrir hendi til að nafnleynd sé ekki virt. Ekki verður talið að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í því máli sem hér um ræðir að þær réttlæti að nafnleynd sé aflétt. Samkvæmt þessu og með vísan til 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Í 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram sú grundvallarregla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er. Þá kemur fram í 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga að svara skuli beiðni um rökstuðning innan 14 daga. Dragist að veita umbeðinn rökstuðning ber að skýra aðila máls frá því og upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Ljóst er að Barnaverndarnefnd B svaraði ekki erindum kæranda fyrr en eftir að kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála. Sá dráttur sem varð á því að Barnaverndarnefnd B svaraði erindum kæranda var ekki í samræmi við framangreind ákvæði stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin beinir því þeim tilmælum til Barnaverndarnefndar B að hún hagi málsmeðferð sinni framvegis í samræmi við framangreind ákvæði stjórnsýslulaga.

Í málinu liggur fyrir að kærandi hefur fengið aðgang að gögnum máls og skriflegan rökstuðning fyrir könnun máls eftir að kæra barst úrskurðarnefndinni. Kæru hvað varðar þau atriði er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndarnefndar B frá 30. mars 2022 um að synja kröfu A, um að aflétta nafnleynd af tilkynningu vegna sonar hennar, er staðfest.

Þeim hluta kærunnar er varðar aðgang að gögnum máls og beiðni um rökstuðning fyrir könnun máls er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta