Hoppa yfir valmynd

A-243/2007 Úrskurður frá 8. febrúar 2007

A-243/2007 Úrskurður frá 8. febrúar 2007


ÚRSKURÐUR

Hinn 8. febrúar 2007 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-243/2007.

 

Kæruefni

Með skriflegri kæru, dags. 23. desember sl., kærði [...] synjun Vestmannaeyjabæjar, dags. 20. desember 2006, á beiðni hans um tilteknar upplýsingar um bæjarstjórnarfundi og setu fulltrúa á þeim.

 

Málsatvik

Samkvæmt framlögðum gögnum kæranda eru málavextir í stuttu máli þeir að kærandi óskaði eftir því með bréfi, dags. 15. desember 2006, að honum yrðu veittar upplýsingar um fjölda funda í bæjarstjórn Vestmannaeyja á yfirstandandi kjörtímabili og enn fremur hversu marga fundi einstakir fulltrúar í bæjarstjórn hefðu setið. Tók kærandi fram að beiðni hans ætti sér stoð í 21. gr. samþykkta bæjarins um stjórn og fundarsköp bæjarstjórnar og 27. gr. sveitarstjórnarlaga.
Með bréfi bæjarstjóra Vestmannaeyjarbæjar, dags. 20. desember 2006, var kæranda tilkynnt að kæra hans samræmdist ekki ákvæðum upplýsingalaga, þar sem þær upplýsingar sem hann óskaði eftir hefðu ekki verið teknar saman og því ekki unnt að verða við beiðni hans.

 

Niðurstaða

Kæra þessi er tekin til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna, sbr. 18. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Kæruheimildin er bundin því skilyrði að ágreiningur sé uppi um annað tveggja: skyldu stjórnvalds til að veita aðgang að gögnum eða skyldu þess til að veita aðgang í formi ljósrits af skjölum eða afrits af öðrum gögnum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur skýrt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga svo að réttur til upplýsinga taki einvörðungu til gagna sem fyrir liggja, þegar um þau er beðið, en leggi ekki á stjórnvöld skyldu til að útbúa ný gögn sem ekki séu fyrirliggjandi þegar eftir þeim sé leitað, sbr. t.d. úrskurð nefndarinnar í málum nr. A-181/2004 og A-239/2007. Fram kemur í þeim bréfaskiptum sem kærandi hefur átt við Vestmannaeyjabæ að þær upplýsingar sem kærandi óski eftir liggi ekki fyrir í því formi sem hann hafi leitað eftir.

Samkvæmt framansögðu liggur ekki fyrir synjun stjórnvalds um að veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt upplýsingalögum. Þegar af þeirri ástæðu verður að vísa kæru þessari frá nefndinni.

 


Úrskurðarorð:

Kæru [...] á hendur Vestmannaeyjabæ er vísað frá.


Páll Hreinsson
formaður


                                             Friðgeir Björnsson                                   Sigurveig Jónsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta