Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 276/2001

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú r s k u r ð u r.

Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Ludvig Guðmundsson, læknir, og Hjördís Stefánsdóttir, lögfræðingur.

Með bréfi til Úrskurðarnefndar almannatrygginga dags. 30. september 2001, mótteknu 19. nóvember 2001 kærir A synjun Trygginga­stofnunar ríkisins á greiðslu barnalífeyris vegna B.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir að þann 13. júlí 2001 barst Tryggingastofnun ríkisins umsókn kæranda um meðlag/barnalífeyri vegna B. Gögn lágu fyrir um að drengurinn yrði ekki feðraður. Umsókn var synjað með bréfi Tryggingastofnunar dags. 24. ágúst 2001 á þeirri forsendu að skilyrði um búsetutíma á Íslandi væri ekki uppfyllt.

Enginn rökstuðningur fylgdi kæru, en í kæru segir:

„Þar sem syni mínum og mér hefur verið neitað um barnalífeyri ætla ég að æskja þess að þið rökstyðjið þennan úrskurð ykkar og útskýrið þá mismunun að fólk, sem kemur frá vissum öðrum löndum fær barnalífeyri. Ég bað um barnalífeyri fyrir son minn 5/00 og var neitað, og aftur núna 7/01 og var neitað.”

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 19. nóvember 2001 eftir greinargerð Tryggingastofnunar. Greinargerðin er dags. 10. desember 2001. Þar segir:

„Með bréfi dags. 24. ágúst synjaði lífeyristryggingasvið að svo stöddu umsókn A um barnalífeyri með ófeðruðu barni með syni hennar á þeim grundvelli að hún væri ekki búin að vera búsett á Íslandi í 3 ár.

Um greiðslu barnalífeyris er fjallað í 14. gr. laga um almannatrygginar nr. 117/1993. Þar segir m.a. í 1. og 4. mgr.:

„Barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára, ... hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. Lífeyrisdeild Tryggingastofnunar skal greiða barnalífeyri þegar skilríki liggja fyrir um að barn verði ekki feðrað.”

A og sonur hennar fluttu hingað til lands frá Bandaríkjunum 2. mars síðastliðinn og munu því ekki uppfylla það skilyrði að að hafa verið búsett hér á landi í þrjú ár fyrr en 2. mars 2004.”

Greinargerðin var send kæranda með bréfi dags. 12. desember 2001 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Athugasemdir kæranda bárust 18. desember s.l. Þar segir:

„Stjórnarskrá Íslands segir að bannað sé að mismuna fólki.

Ég mótmæli úrskurði Tryggingastofnunar um að neita syni mínum, B og mér, um meðlag/barnalífeyri á þeim forsendum að þetta sé mismunum á fólki, eins og maður sé þá að koma úr óæðri heimsálfu, þar sem þeir er koma úr öðrum Evrópulöndum fá meðlag/lífeyri vandalaust, hvort sem þeir eru íslenskir ríkisborgarar eða ekki.

Það liggur vottorð frá sýslumanni hjá Tryggingastofnun um það að sonur minn verði ekki feðraður.

Ég sótti fyrst um meðlag/lífeyri í maí ´00, en ég kom með son minn til landsins 30. apríl ´00. Bæði ég og sonur minn erum íslenskir ríkisborgarar.”

Álit úrskurðarnefndar:

Kærandi sem er íslenskur ríkisborgari og flutti frá Bandaríkjunum til Íslands ásamt syni sínum fæddum 1995 unir ekki synjun Tryggingastofnunar á umsókn hennar um barnalífeyri.

Kærandi segir í athugasemdum sínum við greinargerð Tryggingastofnunar að samkvæmt stjórnarskránni sé bannað að mismuna fólki. Þá mótmælir hún þeim mismun að þeir sem komi til Íslands frá hinum ýmsu Evrópulöndum fái lífeyri vandalaust en ekki þeir sem komi frá Bandaríkjunum.

Samkvæmt 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins nr. 33/1944, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Í athugasemdum við 3. gr. segir:

„Markmið jafnræðisreglunnar er framar öllu að koma í veg fyrir manngreinarálit á grundvelli atriðanna sem eru talin í henni. Það er hins vegar ekki markmið hennar að útiloka að lögákveðin skilyrði fyrir réttindum eða skyldum geti tekið mið af þessum atriðum ef þau byggjast á málefnalegum forsendum.”

Hinn almenni löggjafi hefur svigrúm til að setja skilyrði fyrir réttindum og skyldum að teknu tilliti til ákvæða stjórnarskrárinnar. Almannatryggingalöggjöfin tryggir almennan rétt og tekur tillit til jafnræðissjónarmiða þeirra sem eins eru settir. Megintilgangur almannatryggingalaga er að veita almenningi fjárhagslegan stuðning í þeim tilvikum þegar löggjafinn hefur talið atbeina ríkisins nauðsynlegan. Í lögunum eru ákvæði sem takmarka stuðninginn bæði að því er varðar hverjir eigi rétt og að hvaða marki. Ákvæði almannatryggingalaganna geyma upptalningu á þeim tilvikum sem liggja til grundvallar bótagreiðslum í almannatryggingakerfinu að nánari skilyrðum uppfylltum. Að því er varðar greiðslu barnalífeyris eru skilyrði upptalin í 14. gr. laga nr. 117/1993. Meðal skilyrða er búseta á Íslandi þ.e. að annað hvort foreldra barns eða barnið sjálft hafi búið hér á landi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. Að mati nefndarinnar er þetta skilyrði byggt á málefnalegum forsendum, enda eðlilegt að binda aðstoð við búsetu hér á landi. Þá telur nefndin að ákvæðið brjóti ekki gegn jafnræðisreglunni.

Í 1. og 4. mgr. 14. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar segir um barnalífeyri:

„Barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft [búið hér á landi] a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. Séu báðir foreldrar látnir eða örorkulífeyrisþegar skal greiddur tvöfaldur barnalífeyrir. Hvorki skerðingarákvæði 2. mgr. 11. gr. né [5. mgr. 12. gr.] takmarka rétt til barnalífeyris.

……

Lífeyrisdeild Tryggingastofnunar skal greiða barnalífeyri þegar skilríki liggja fyrir um að barn verði ekki feðrað.”

Samkvæmt 1. mgr. er það forsenda fyrir greiðslu barnalífeyris að foreldri eða barn hafi verið búsett á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. Lagaákvæðið verður að túlka heildstætt þannig að þriggja ára búsetuskilyrði í 1. mgr. eigi einnig við um 4. mgr. 14. gr. Það fæli í sér ójafnræði og væri ómálefnalegt að gera strangari skilyrði fyrir greiðslum barnalífeyris skv. 1. mgr. vegna t.d. barns sem hefur misst föður heldur en fyrir greiðslum barnalífeyris skv. 4. mgr. þ.e. þegar barn verður ekki feðrað.

Kærandi fluttist til Íslands frá Bandaríkjunum ásamt syni sínum 2. mars 2001 samkvæmt þjóðskrá Hagstofu Íslands. Hún sótti um barnalífeyri með umsókn til Tryggingastofnunar móttekinni 13. júlí 2001. Þriggja ára búsetuskilyrði var þá ekki uppfyllt og réttur til barnalífeyris samkvæmt 4. mgr. 14. gr. laga nr. 117/1993 þar af leiðandi ekki fyrir hendi.

Í 64. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar segir:

„Heimilt er ríkisstjórninni að semja við erlend ríki og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir um gagnkvæman rétt til þeirra hlunninda sem almannatryggingar veita. [Í slíkum samningum má m.a. kveða svo á að búsetu­tímabil, atvinnutímabil eða tryggingatímabil í öðru samningsríki skuli talin jafngilda búsetutíma á Íslandi, hvort sem um er að ræða íslenska þegna eða þegna annarra samningsríkja.] Enn fremur er heimilt að kveða þar á um rétt til bótagreiðslna samkvæmt almannatryggingalögum við búsetu í öðru samningsríki, sbr. 11. gr., 54. gr. og 1. tölul. ákvæðis til bráðabirgða.”

Enginn samningur er á milli Bandaríkjanna og Íslands um almannatryggingar. Hins vegar hefur EES- samningurinn lagagildi hérlendis sbr. lög nr. 2/1993 og gilda reglugerðir Evrópusambandsins um almannatryggingar hér á landi að svo miklu leyti sem ákvæði þeirra eiga stoð í almannatryggingalögum. Þeir borgarar sem undir þær reglur falla kunna að njóta betri réttar samkvæmt almannatryggingalögum en þeir sem koma frá Bandaríkjunum eða öðrum löndum þar sem milliríkjasamningar um almannatryggingar eru ekki í gildi. Slík mismunandi réttar­staða þegnanna sem á rót að rekja til milliríkjasamninga um aukinn rétt telst ekki brot á jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Synjun á umsókn A um barnalífeyri er staðfest.

F.h. Úrskurðarnefndar almannatrygginga

_______________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaðurA




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta