Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 113/2002

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú r s k u r ð u r.

Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

Með bréfi dags. 24. júní 2002 kærir A til Úrskskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins um bótaskyldu vegna slyss. Ennfremur eru kærð vinnubrögð starfsmanns Tryggingastofnunar í málinu.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir skv. málsgögnum að með tilkynningu um slys dags. 4. janúar 2002 tilkynnti kærandi um slys sem hann varð fyrir 16. desember 2001. Slysi er lýst svo í tilkynningu:

„ Var að laga hillu og þurfti til þess að saga til litla fjöl sem ég gerði með hjólsög. Við þær aðfarir setti ég 3 fingur vinstri handar í blaðið með þeim afleiðingum sem um getur í vottorði.”

Í áverkavottorði læknis dags. 22. apríl 2002 segir:

„ Var að sinna viðhaldi heima. Lenti með vi. hendi í vélsög. Hlaut opin brot á þremur fingrum auk naglbeðsáverka á sömu fingur.

……

Í aðgerð gert að brotum og sárum. DIP-liður dig III ónýtur og þarf trúlega að gera artrotesu síðar þar. Verulegur stirðleiki og hann fer í meðferð til sjúkra­þjálfara.”

Tryggingastofnun synjaði um bótaskyldu með bréfi dags. 2. maí 2002.

Í rökstuðningi fyrir kæru segir:

„ Hilla hafði gefið sig og þarfnaðist lagfæringar svo hún mætti vera nothæf aftur. Hillan sjálf er minni háttar hlutur og bilunin á henni kallaði á minni háttar viðgerð sem ég taldi að best yrði staðið að með því að saga til litla fjöl. Það þarf virkilega sterkan ásetning til rangfærslu að kalla þetta verkefni annað en minni háttar viðgerð. Fjarstæða er að kalla það „meiri háttar viðhaldsframkvæmdir” og líkja því við múrbrot, uppsetningu innréttinga eða lagningu gólfefna. Í fyrsta lagi var viðfangsefnið tilfallandi vegna lítils háttar bilunar og getur ómögulega jafnast á við framkvæmd á borð við að brjóta niður vegg eða leggja gólf. Slíka framkvæmd ber að með allt öðrum hætti en tilfallandi bilun á hillu. Bilun á hillu býður því heim að hún sé sett í sama horf og áður með viðgerð. Það ætlaði ég mér einmitt að gera. Uppsetning innréttingar felur í sér ósambærilega miklu meiri endurnýjun og breytingar en ég var að framkvæma með fyrirhugaðri viðgerð minni á hillunni. Í öðru lagi var verkefnið einfaldlega svo lítið með tilliti til tíma, efnis, verkfæra og alls umstangs að engin leið er að kalla það „meiri háttar” að neinu leyti sé minnstu réttsýni gætt.

........

Ástæða þess að múrbrot, lagning gólfefna eða uppsetning innréttinga eru utan tryggingar er augljóslega ekki sú að slík verk séu „hættuleg” heldur sú að þau teljast ekki til heimilisstarfa. Ástæða þess að þau teljast ekki til heimilisstarfa er sú að þau lúta fremur að standsetningu heimilisins, eins og húsbyggingin sjálf gerir, en heimilishaldinu sjálfu. Hvergi er í reglunum að finna stoð fyrir því að slysahætta verks sé skilgreinandi um flokkun þess í meiri háttar viðhaldsverkefni eða minniháttar viðgerðir. B finnur það því upp hjá sjálfri sér að flokka viðgerð mína á hillu undir „meiri háttar viðhaldsverkefni” vegna þess að ég hafi notað „hættulegt tæki” til verksins. Ég greip til handverkfærisins rafknúin hjólsög, sem verið hefur í búslóð minni, eins og þúsunda annarra Íslendinga, lítið skemur en hrærivélin og saumavélin, til þess að sneiða af lítilli fjöl við uppáfallandi viðgerð á hillu sem hafði bilað. Þetta val á heimilistæki til verksins telur B að gefi henni átyllu til að flokka verkið undir „meiriháttar viðhaldsframkvæmdir”.”

Úrskurðarnefndin óskaði greinargerðar Tryggingastofnunar með bréfi dags. 26. júní 2002. Barst greinagerð dags. 6. ágúst 2002. Þar segir:

„ Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 geta þeir sem heimilisstörf stunda tryggt sér rétt til slysabóta með því að skrá í skattframtal í byrjun hvers árs ósk þar að lútandi. Um slysatryggingar við heimilisstörf gilda reglur nr. 527/1995. Samkvæmt 3. gr. reglnanna teljast til heimilisstarfa eftirtalin störf, séu þau ekki liður í atvinnustarfsemi hins tryggða: 1) hefðbundin heimilisstörf, svo sem matseld og þrif, 2) umönnun sjúkra, aldraðra og barna, 3) almenn viðhaldsverkefni, svo sem málning og minni háttar viðgerðir, 4) garðyrkjustörf.

Slysatrygging við heimilisstörf tekur ekki til allra slysa sem verða á heimili hins tryggða, heldur aðeins til slysa sem verða við þau heimilisstörf sem talin eru upp í reglum nr. 527/1995. Í 1. tl. 4. gr. reglnanna kemur fram að undanskilin slysatryggingu við heimilisstörf séu slys sem hinn tryggði verður fyrir við meiri háttar viðhaldsframkvæmdir, svo sem múrbrot, uppsetningu innréttinga og lagningu gólfefna.

Samkvæmt tilkynningu um slys slasaðist A við að saga fjöl með hjólsög. Viðhaldsframkvæmdir hafa aðeins verið taldar falla undir slysatryggingu við heimilisstörf ef um er að ræða einfalt viðhald með einföldum verkfærum, sbr. 3. tl. 3. gr. reglnanna. Að mati slysatrygginga verður því verki að saga fjöl með hjólsög, sem er kraftmikið og hættulegt tæki, jafnað við uppsetningu innréttinga og lagningu gólfefna og því undanskilið slysatryggingu við heimilisstörf. Umsókn A um slysabætur var því synjað.”

Greinargerðin var send kæranda með bréfi dags. 8. ágúst 2002 og honum gefinn kostur á að koma að frekari gögnum og/eða athugasemdum. Slíkt hefur ekki borist.

Álit úrskurðarnefndar:

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993 geta þeir sem heimilis­störf stunda tryggt sér rétt til slysabóta við þau störf með því að skrá í skattframtal í byrjun hvers árs ósk þar að lútandi. Óumdeilt er að kærandi var slysatryggður við heimilisstörf.

Um slysatryggingar við heimilisstörf gilda reglur nr. 527/1995. Þar segir í 3. gr.:

„ Til heimilisstarfa í reglugerð þessari teljast eftirtalin störf, séu þau ekki liður í atvinnustarfsemi hins tryggða:

1. Hefðbundin heimilisstörf, svo sem matseld og þrif.

2. Umönnun sjúkra, aldraðra og barna.

3. Almenn viðhaldsverkefni, svo sem málning og minni háttar viðgerðir.

4. Garðyrkjustörf.”

Í 1. tl. 4. gr. segir að undanskilin slysatryggingu við heimilisstörf séu m.a.:

„ Slys sem hinn tryggði verður fyrir við meiri háttar viðhaldsframkvæmdir, svo sem múrbrot, uppsetningu innréttinga og lagningu gólfefna.”

Kærandi varð fyrir slysi á heimili sínu. Hann var að lagfæra hillu, sníða til litla fjöl með vélknúinni hjólsög. Sagarblaðið fór í fingur vinstri handar og varð kærandi fyrir töluverðum áverka sbr. læknisvottorð.

Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort umrædd athöfn/framkvæmd falli undir

skilgreiningu 3. tl. 3. gr. reglna nr. 527/1995 á heimilisstörfum: „Almenn viðhaldsverkefni, svo sem málning og minni háttar viðgerðir” eða undir skilgreiningu l. tl. 4. gr. þar sem meiriháttar viðhaldsframkvæmdir eru undanskildar tryggingavernd skv. lögunum.

Kærandi var að sníða til fjöl með rafmagnshjólsög þegar slysið varð. Um er að ræða handverkfæri sem jafna má til handborvéla og þess háttar tækja. Algengt er að slík handverkfæri séu til á heimilum til að auðvelda ýmis konar heimilisstörf svo sem viðhald og smíðar.

Samkvæmt 3. tl. 3. gr. teljast almenn viðhaldsverkefni svo sem málning og minniháttar viðgerðir til heimilisstarfa er njóta tryggingaverndar skv. lögunum. Ekki er skilgreint frekar hvað telst minni háttar í þessu sambandi. Þá er ekki áskilið hvers konar áhöld eru notuð til viðhaldsvinnunnar.

Við mat á þessu lítur úrskurðarnefndin til þess hvað ætla má að venjulegur „bonus pater familias” geti gert á heimilinu. Hvað má ætlast til að hann geri sjálfur. Hvað á hinn bóginn er þess eðlis að kalla þurfi að jafnaði til sérhæfða iðnaðarmenn.

Kærandi var að laga hillu og að sníða til fjöl í því sambandi. Nefndin telur slíkt verk almennt á færi laghents heimilismanns. Telur nefndin að um minniháttar viðhaldsverkefni hafi verið að ræða í skilningi 3. t1. 3. gr. reglna nr. 527/1995. Bótaskylda er því viðurkennd.

Að gefnu tilefni tekur úrskurðarnefndin fram, að starfsmenn Tryggingastofnunar hafa fjallað um málið með málefnalegum hætti og teflt fram rökstuddum mótmælum gegn bótaskyldu. Ekki er því tilefni til að gera athugasemdir við málsmeðferð stofnunarinnar á málinu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Bótaskylda vegna slyss A þann 16. desember 2001 er viðurkennd.

F.h. Úrskurðarnefndar almannatrygginga

________________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta