Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 128/2002

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú r s k u r ð u r.

Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

Með bréfi til Úrskurðarnefndar almannatrygginga dags. 13. júlí 2002 kærir B, hdl. f.h. A synjun Trygginga­stofnunar ríkisins á slysabótum.

Þess er óskað að viðurkennt verði að kærandi hafi verið á leið heim til sín úr vinnu er hún varð fyrir slysi og að hún eigi því rétt til slysabóta.

Málavextir eru þeir að kærandi, sem vann hjá C varð fyrir slysi þann 20. desember 1999 á Hlemmi, þegar hún var að eigin sögn á leið heim úr vinnu. Slysið varð skv. kæru með þeim hætti að kærandi festist utan í strætisvagni, dróst undir hann og festist undir bretti við afturhjól hans. Örorkunefnd hefur metið læknisfræðilega örorku kæranda vegna slyssins 10%. Sótt var um slysabætur til Tryggingastofnunar með bréfi lögmanns dags. 9. nóvember 2001, sbr. og tilkynningu um slys til TR dags. 8. nóvember 2001. Umsókn var synjað með bréfi til vinnuveitanda dags. 3. desember 2001. Með bréfi lögmanns til TR dags. 28. maí 2002 var á ný óskað slysabóta. Tryggingastofnun synjaði aftur með bréfi dags. 11. júlí 2002.

Í rökstuðningi fyrir kæru segir:

„ Er þessi niðurstaða hér með kærð þar sem umbj. minn var sannanlega á leið heim úr vinnu er slysið varð. Umbj. minn vinnur á Laugaveginum og er stutt fyrir hana að ganga að strætisvagnabiðstöðinni að Hlemmi og taka þaðan strætisvagn enda gerir hún það oft. Þennan dag hafði hún lokið vinnu sinni og hugðist halda heim á leið. Varð þá umbj. minn fyrir slysi eins og lýst er hér að framan. Telja verður ljóst að ekki á að skipta máli hvort fólk þarf að nota strætisvagna til og frá vinnu eða ferðast með eigin bifreið en mismunandi er, að sögn umbj. míns, hvaða strætisvagn verður fyrir valinu hjá henni hverju sinni eftir tímasetningum. Liggur fyrir staðfesting vinnuveitanda um það að umbj. minn hafði nýlokið vinnu er slysið varð. Þrátt fyrir að umbj. minn þurfi að taka á sig lítinn krók til að taka strætisvagn er ljóst að slys hennar varð á leið heim úr vinnu.”

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 17. júlí 2002 eftir greinargerð Trygginga­stofnunar. Greinargerðin er dags. 6. ágúst 2002. Þar segir m.a.:

„ Slysatrygging skv. 22. gr. nær þannig til nauðsynlegra ferða á milli vinnustaðar og heimilis. Heimili hefur verið túlkað svo að átt sé við lögheimili eða dvalarstað. Er slys varð var A með heimili að D í Reykjavík og vinnustaður var hjá C. Í gögnum málsins kemur fram að A hafi verið á leið að Hótel Esju þaðan sem hún fengi far heim. Hún hafi því farið á Hlemm til að taka strætisvagn þangað. Ljóst er að vinnustaður A, C, er nokkurn veginn miðja vegu á milli Hlemms og Hótels Esju og hefði því verið eðlilegra að A færi beint að Hótel Esju en ekki á Hlemm sem er í hina áttina. Auk þess sem á umræddri leið eru nokkur strætisvagnabiðskýli þar sem eðlilegt hefði verið að A tæki strætisvagninn. Ekki verður því séð að nauðsynlegt hafi verið fyrir A að fara á Hlemm til þess að komast heim. Ekki er því fallist á að um beina leið sé að ræða sem falli undir skilgreiningu almannatryggingalaga. Kjósi A að fara lengri leið heim en nauðsynlegt er eins og hér er ber að túlka þá ferð A til einkaerinda.”

Greinargerðin var send lögmanni kæranda með bréfi dags. 8. ágúst 2002 og honum gefið tækifæri til að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt hefur ekki borist.

Álit úrskurðarnefndar:

Samkvæmt málsgögnum er starfstöð kæranda hjá C, en hún býr að D. Kærandi varð fyrir slysi á Hlemmi þann 20. desember 1999. Tilkynning um slys til Tryggingastofnunar er dags. 8. nóvember 2001, en stofnunin hafnaði bótaskyldu.

Í rökstuðningi fyrir kæru er byggt á því að kærandi hafi verið á leið úr vinnu þegar slysið átti sér stað og njóti tryggingaverndar skv. 22. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993. Vísað er til þess að ekki eigi að skipta máli hvort fólk noti strætisvagna til og frá vinnu eða einkabíla. Ljóst sé að kærandi hafi verið á leið heim úr vinnu þegar slysið varð þó svo að hún hafi tekið á sig lítinn krók til að taka strætisvagn en mismunandi sé hvaða strætisvagn kærandi taki, það sé háð tímasetningum. Umræddan dag hafi kæranda verið lofað far með vinkonu sinni frá Hótel Esju og hafi hún ætlað að taka strætisvagn nr. 5 þangað.

Í rökstuðningi Tryggingastofnunar er bent á að starfstöð C. er nokkurn veginn miðja vegu milli Hótels Esju og Hlemms og að eðlilegra hefði verið að kærandi færi beint að Hótel Esju en ekki í hina áttina. Auk þess séu nokkrir viðkomustaðir strætisvagna á umræddri leið, þar á meðal leið fimm á leið að Hótel Esju. Ekki er fram komin eðlileg skýring á því hvers vegna kærandi tók ekki strætisvagn á næstu stoppi- stöð í stað þess að fara niður á Hlemm.

Í 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar segir:

„ Maður telst vera við vinnu:

a. þegar hann er á vinnustað á þeim tíma sem honum er ætlað að vera að störfum, svo og í matar- og kaffitímum.

b. í sendiferðum í þágu atvinnurekstrar eða í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem farnar eru samdægurs milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar. Sama gildir um lengri ferðir af þessu tagi ef starfsmaður er á launum hjá vinnuveitanda í ferðinni.”

Í 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 kemur fram að launþegi er tryggður í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, og er þá litið svo á að ferð til og frá vinnustað sé nauðsynlegur þáttur í rækslu starfans. Úrskurðarnefndin telur að ætlan löggjafans hafi verið sú að tryggingavernd næði til þeirrar slysahættu sem fylgir þeim ferðum sem starfsmaður verður að takast á hendur til að sinna vinnunni. Hefur í framkvæmd verið litið svo á að launþegi sé tryggður á beinni og eðlilegri leið milli heimilis og vinnustaðar.

Úrskurðarnefndin telur að megin tilgangur slysatryggingar sé að tryggja starfsmenn fyrir þeim hættum sem bundnar eru við framkvæmd vinnu og að við beitingu lagaákvæðis verði að áskilja a.m.k. nokkur tengsl ferða við vinnu og framkvæmd hennar. Þetta megininntak slysatryggingar mæli almennt gegn því að beitt sé lögskýringarkostum sem leiða til rýmkunar gildissviðs tryggingarinnar fram yfir atvik er eiga sér stað í vinnutíma eða standa að öðru leyti í nánum tengslum við framkvæmd vinnu. Því telur nefndin að ákvæðið eigi ekki við þegar starfsmaður kýs að halda ekki beina leið frá vinnu heldur rýfur för til heimilis með því að dvelja eða sinna erindum annarsstaðar sem ekki teljist eðlilegar leiðir frá vinnustað.

Kærandi starfaði hjá C sem er u.þ.b. miðja vegu milli Hótels Esju þangað sem hún ætlaði til að fá bílfar heim og Hlemms þangað sem hún fór og varð fyrir slysinu. Hlemmur er því í gagnstæðri átt við áfangastað og gekk kærandi fram hjá viðkomustöðum strætisvagna á leiðinni. Þessa ferð niður á Hlemm telur nefndin vera utan þeirrar nauðsynlegu leiðar sem leitt getur til bótaskyldu samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993.

Bótaskyldu er synjað þar sem ekki verður séð skv. fyrirliggjandi gögnum að kærandi hafi verið á nauðsynlegri leið á milli heimilis og vinnustaðar er slys varð og eru skilyrði 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 því ekki uppfyllt.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Bótaskyldu vegna slyss er A varð fyrir þann 20. desember 1999 er hafnað.

F.h. Úrskurðarnefndar almannatrygginga

_______________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta