Hoppa yfir valmynd

Nr. 130/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 2. apríl 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 130/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU19100085

 

Kæra [...] og barns hennar

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 30. október 2019 kærði [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. október 2019, um að synja kæranda og barni hennar, [...], ríkisborgara [...] (hér eftir A), um fjölskyldusameiningu á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsóknum kæranda og A um fjölskyldusameiningu verði felld úr gildi og að máli þeirra verði vísað til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun. Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Umsókn kæranda um fjölskyldusameiningu er byggð á því að eiginmaður hennar njóti alþjóðlegrar verndar hér á landi og að þau eigi saman barnið A. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. október 2019, var umsókn kæranda og A synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 30. október sama ár. Þann 25. febrúar 2020 barst kærunefnd greinargerð frá kæranda ásamt fylgiskjölum. Þá bárust viðbótargögn og athugasemdir þann 26. mars sl.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að manni, sem kveðst heita [...] (hér eftir M), hafi verið veitt alþjóðleg vernd hér á landi. Þann 26. febrúar 2019 hafi kærandi og A sótt um fjölskyldusameiningu við M á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga og m.a. lagt fram hjúskaparvottorð og fæðingarvottorð umsókninni til stuðnings. Í ákvörðuninni segir að verulegt misræmi sé á nöfnum og aldri kæranda og A samkvæmt vegabréfum og þeim upplýsingum sem M hafi veitt Útlendingastofnun við meðferð umsóknar hans um alþjóðlega vernd. Þá komi fram í hjúskaparvottorði að kærandi og M hafi gengið í hjúskap í heimaríki árið 2012. Hins vegar hafi M, við meðferð umsóknar hans um alþjóðlega vernd, haldið því fram að hann hafi yfirgefið heimaríki sitt síðla árs 2011, haldið til Grikklands og ekki farið aftur til heimaríkis síðan þá. Í ákvörðuninni segir að Útlendingastofnun hafi óskað eftir upplýsingum frá grískum stjórnvöldum vegna dvalar M þar í landi, en í svari þeirra hafi m.a. komið fram að M hafi brotið gegn útlendingalögum þar í landi í desember 2010. Fram kemur að M hafi verið boðaður í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 5. júní 2019 vegna umsóknar kæranda um fjölskyldusameiningu. Í viðtalinu hafi M gefið þær skýringar á framangreindu misræmi að dagsetningar á gögnum sem lögð hafi verið fram séu rangar, enda hafi hann og kærandi gengið í hjúskap áður en hann hafi yfirgefið heimaríki. Þá hafi stofnunin leiðbeint kæranda um að skila inn nýjum gögnum, en frekari gögn hafi ekki verið lögð fram. Að framangreindu virtu var það mat Útlendingastofnunar að kærandi og barn hennar hafi ekki sýnt fram á að þau séu tengd M með þeim hætti sem 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga tekur til. Var umsókn þeirra um fjölskyldusameiningu því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kemur fram að með ákvörðun Útlendingastofnunar í febrúar 2018 hafi M verið veitt alþjóðleg vernd hér á landi. Kveður kærandi að í viðtali hjá stofnuninni þann 28. nóvember 2016, þegar M hafi verið spurður um fjölskylduhafi, hafi hann gefið upp nafn kæranda og gælunafn A en ekki formlegt nafn hans. Við meðferð umsóknar M um alþjóðlega vernd hafi hann upplýst stjórnvöld um að hann hafi farið til Grikklands um áramótin 2012, verið fangelsaður fram til ársins 2013 og í framhaldinu lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd. Í greinargerð er byggt á því að misræmi um hversu lengi M hafi verið fangelsaður megi rekja til ónákvæmrar túlkunar. Upplýsingar frá grískum stjórnvöldum og úr Eurodac-kerfinu beri jafnframt með sér að hann hafi sótt um alþjóðlega vernd í Grikklandi árið 2013. Byggir kærandi á því að upplýsingar frá grískum yfirvöldum, þess efnis að M hafi brotið gegn útlendingalögum þar í landi árið 2010, geti ekki staðist þar sem hann hafi ekki komið þangað fyrr en árið 2012. Telur kærandi að mistökin séu að rekja til þess ágalla sem hafi verið á gríska hæliskerfinu á þessum árum.

Af hálfu kæranda er byggt á því að frásögn M um hvenær hann hafi komið til Grikklands og atriði sem snerta kæranda og A hafi ekki tekið breytingum fyrr en í viðtali við M hjá Útlendingastofnun þann 5. júní 2019. Byggir kærandi á því að M hafi verið spurður leiðandi spurninga í viðtalinu, auk þess sem hann hafi verið undir áhrifum sterkra lyfja vegna veikinda. Í viðtalinu hafi M, aðspurður hvort hann hafi heimaríki árið 2010, svarað með þeim hætti að hann hafi yfirgefið landið í lok árs 2010 í stað lok árs 2012 eins og hann hafi ítrekað sagt í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Þá byggir kærandi á því að endurrit af viðtalinu gefi til kynna að fulltrúi Útlendingastofnunar hafi haft fyrirfram mótaða skoðun á trúverðugleika M. Byggir kærandi einnig á því að túlkur í viðtalinu virðist ekki hafa haft nægilegt vald á íslensku og [...] og hafi því ekki getað túlkað svör M með fullnægjandi hætti. Telur kærandi að með vísan til framangreinda atriða hefði verið rétt að boða M í nýtt viðtal hjá Útlendingastofnun.

Í greinargerð byggir kærandi m.a. á því að brotið hafi verið gegn andmælarétti við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun. Í gögnum málsins sé hvergi að finna afrit af fyrrnefndu viðtali við M þar sem hann hafi fengið kost á því að lesa viðtalið yfir og staðfesta svör hans. Fram kemur að M mótmæli verulegum hluta viðtalsins þar sem ekki hafi verið rétt haft eftir honum. Kærandi telur að þar sem M hafi ekki verið gefinn kostur á að staðfesta efni viðtalsins hafi verið brotið gegn 13. gr. stjórnsýslulaga um andmælarétt. Vegna framangreindra annmarka hafi Útlendingastofnun því ekki mátt leggja viðtalið til grundvallar við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Þá vísar kærandi til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, en verði umsókn hennar ekki samþykkt muni hvorki hún né A sjá M framar.

Kærandi byggir á því að ekki hafi mátt synja umsókn hennar á grundvelli upplýsinga um meinta viðveru M í Grikklandi árið 2010 í ljósi þeirra alvarlegu kerfisbundinna ágalla sem hafi verið á gríska hæliskerfinu á þessum tíma. Telur kærandi að ekki sé útilokað að rangar upplýsingar hafi verið skráðar um M í þessu sambandi. Frásögn M um komu til Grikklands hafi ekki tekið breytingum fyrr en í viðtali hjá Útlendingastofnun í júní 2019, en það viðtal hafi eins og áður greinir verið haldið verulegum annmörkum. Telur kærandi einnig ljóst að tungumálaörðugleikar hafi verið til staðar í fyrrnefndu viðtali við M hjá Útlendingastofnunar vegna málsins og að af þeim sökum hafi svör M ekki komist rétt til skila.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér á landi, hafi samkvæmt umsókn rétt til að fá hér alþjóðlega vernd. Mælt er fyrir um réttaráhrif alþjóðlegrar verndar í 45. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. á maki eða sambúðarmaki einstaklings sem nýtur alþjóðlegrar verndar og börn hans yngri en 18 ára án maka eða sambúðarmaka einnig rétt á alþjóðlegri vernd nema sérstakar ástæður mæli því í mót.

Kærandi byggir umsókn um fjölskyldusameiningu á því að hún sé eiginkona M og að þau eigi saman soninn [...] (A), sem mun samkvæmt framlögðu vegabréfi og vottorði frá þjóðskrá í [...] vera fæddur [...]. Til stuðnings umsókn sinni hefur kærandi lagt fram vottorð frá heimaríki, dags. 5. júlí 2018, um að hún hafi gengið í hjúskap með M í þar í landi árið 2012. Þá lagði kærandi fram gagn sem hún kveður vera vottorð um að hjónavígsla hennar og M hafi átt sér stað þann 26. mars 2012 í heimaríki þeirra. Kveður kærandi að í vottorðinu sé að finna undirskriftir vitna að hjónavígslunni sem staðfesti að kærandi og A hafi bæði verið viðstödd þegar hjónavígslan hafi átt sér stað.

Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. febrúar 2018, var M veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um meðferð máls M lagði hann fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þann 9. október 2016. Mætti M í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 28. nóvember 2016 þar sem hann var m.a. beðinn um að gera grein fyrir hjúskaparstöðu og hvort hann ætti börn. Gaf M þau svör að hann ætti maka, „[...]“, sem væri „ca [...] ára“, og að hann ætti soninn „[...]“, sem væri „ca [...] ára“. Greindi M frá því að maki hans og sonur væru búsett hjá tengdafjölskyldu hans. Í viðtalinu rakti M jafnframt ferðalag hans frá heimaríki hingað til lands. Kvaðst kærandi hafa yfirgefið heimaríki í lok árs 2011, komið til Grikklands um áramótin sama ár og dvalið þar í landi í fjögur og hálft ár. Í viðtali við M hjá Útlendingastofnun þann 6. apríl 2017 kvaðst hann hafa dvalið í Grikklandi í fjögur ár, þar af tvö ár í fangelsi. Aðspurður um hvaða ár það hafi verið kvað M að hann hafi verið í fangelsi árin 2012 til 2014. Meðal gagna málsins eru upplýsingar frá grískum yfirvöldum, dags. 20. maí 2019, þar kemur fram að M hafi gerst sekur um brot gegn löggjöf um útlendinga þar í landi þann 20. desember 2010. Eins og áður greinir byggir kærandi á því að umræddar upplýsingar frá grískum yfirvöldum varðandi M séu rangar.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að M hafi verið boðaður í viðtal hjá stofnuninni þann 5. júní 2019 vegna umsóknar kæranda um fjölskyldusameiningu. Í viðtalinu, sem er meðal gagna málsins hjá kærunefnd, kvaðst M hafa yfirgefið heimaríki í lok árs 2010 og ekki snúið aftur. Þá hafi kærandi og A dvalið í heimaríki þeirra alla ævi. Er M hafi verið bent á misræmi á milli frásagnar hans um hvenær hann hafi yfirgefið heimaríki og hvenær hann hafi gengið í hjúskap með kæranda hafi M gefið þá skýringu að dagsetningar á gögnum væru rangar, en þau hafi gengið í hjúskap árið 2010. Þá hafi A fæðst árið [...]. Af framburði M er ljóst að frásögn hans um að hafa yfirgefið heimaríki í lok árs 2010 er í samræmi við fyrirliggjandi upplýsingar frá grískum stjórnvöldum um að hann hafi verið staddur þar í landi í desember 2010. Telur kærunefnd ekkert hafa komið fram í málinu sem geti gefið tilefni til að ætla að upplýsingar frá grískum stjórnvöldum séu rangar.Til að kærandi geti átt rétt á vernd samkvæmt 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga verður að vera sýnt fram á að hún sé maki M. Framangreint vottorð um hjúskap kæranda og M er eins og áður segir gefið út árið 2018. Í vottorðinu staðfesta þrír tilgreindir aðilar að kærandi hafi gengið í hjúskap með M árið 2012. Er því ekki um að ræða eiginlegt vottorð um hjónavígslu heldur staðfestingu umræddra manna á því að kærandi og M hafi gengið í hjúskap nokkrum árum áður. Kærandi hefur einnig lagt fram yfirlýsingu nokkurra íbúa í bænum [...] í heimaríki þeirra þar sem þeir staðfesta að kærandi og A hafi gengið í hjúskap þann 26. mars 2012. Að mati kærunefndar hefur kærandi ekki lagt fram gögn sem sýna fram á með ótvíræðum hætti fram á að hún og M hafi gengið í hjúskap.

Af gögnum málsins má ráða að það sé hugsanlega á reiki hvenær kærandi yfirgaf [...] og hvenær hann kom til Grikklands en að mati kærunefndar er hafið yfir vafa að hann hafi komið til Grikklands ekki síðar en um eða rétt eftir áramótin 2011/2012, en að öllum líkindum hafi það verið árið 2010, samkvæmt framburði kæranda sjálfs og gögnum frá grískum yfirvöldum. Þá er ljóst að verulegt misræmi sé milli framlagðra gagna og framburðar M í viðtali hjá Útlendingastofnun um hvenær stofnað hafi verið til hjúskaparins. Í greinargerð kæranda staðfestir talsmaður hennar að sonur hennar sé fæddur í [...] en engar skýringar hafi komið fram sem benda til þess hvernig M, sem bjó í Grikklandi frá a.m.k. janúar 2012, geti verið faðir drengsins.

Samkvæmt framangreindu verður ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á að hún sé maki M og að hún eigi þar með rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Er jafnframt ljóst að kærandi getur ekki átt rétt á vernd samkvæmt ákvæðinu sem sambúðarmaki. Loks er það mat kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að A sé barn M og að hann eigi þar með rétt á alþjóðlegri vernd á grundvelli síðastnefnds ákvæðis. Í því sambandi horfir kærunefnd til þess að M kveðst hafa verið í Grikklandi á þeim tíma sem getnaður hafi átt sér stað, auk misræmis í framburði hans um aldur og nafn A.

Í ljósi athugasemda kæranda við framkvæmd og túlkun viðtals við M frá 5. júní 2018 hlustaði kærunefnd á hljóðupptökur frá viðtalinu. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að gera athugasemdir við viðtalið eða túlkun þess.

Samkvæmt öllu framangreindu verður staðfest sú ákvörðun Útlendingastofnunar að synja kæranda og A um alþjóðlega vernd á grundvelli fjölskyldusameiningar, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga.  

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                         Bjarnveig Eiríksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta