Hoppa yfir valmynd

Nr. 309/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 10. apríl 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 309/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU23120064

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 14. desember 2023 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Filippseyja ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. nóvember 2023, um að afturkalla dvalarleyfi kæranda á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara, sbr. 59. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, og gera kæranda að sæta brottvísun og endurkomubanni til tveggja ára, sbr. 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara 19. apríl 2023 með gildistíma til 17. apríl 2024. Hinn 24. nóvember 2023 var skráð í þjóðskrá að kærandi og maki kæranda væru skilin að lögum. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. nóvember 2023, var dvalarleyfi kæranda afturkallað á grundvelli 59. gr. laga um útlendinga. Samhliða því var kæranda gert að sæta brottvísun og endurkomubanni í samræmi við 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar var móttekin af kæranda 7. desember 2023. Hinn 14. desember 2023 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Með tölvubréfum, dags. 3. janúar og 19. mars 2024 lagði kærandi fram frekari greinargerð og frekari fylgigögn vegna málsins. Hinn 4. desember 2023 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt 1. mgr. 103. gr. laga um útlendinga frestaði kæra réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda, dags. 3. janúar 2024, er vísað til atvika málsins og hjúskapar kæranda við fyrrverandi maka. Í fyrstu hafi hjúskapurinn gengið vel en þegar á leið hafi maki kæranda byrjað að öskra á kæranda, og niðurlægja kæranda fyrir framan vinnufélaga. Maki kæranda hafi þrýst stöðugt á kæranda til lánatöku til þess að greiða upp skuldir makans. Þá hafi maki kæranda verið í sambandi við aðrar konur og sýnt kæranda óvirðingu, einkum vegna þess að kærandi sé transkona. Ofbeldi í garð hennar hafi farið stigvaxandi og lagði maki hennar á hana hendur í nokkur skipti og tekið hana kyrkingartaki í tvígang. Þá hafi maki kæranda stöðugt hótað kæranda skilnaði svo henni yrði vísað úr landi. Bróðir kæranda hafi hvatt hana til þess að skilja við maka sinn en lögskilnaður þeirra var skráður í þjóðskrá 24. nóvember 2023. Fyrir liggur í gögnum málsins að kærandi kærði maka sinn til lögreglu 31. október 2023. Kærandi vísar til nýrrar umsóknar sinnar um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki en kveður umsóknina hafa verið rangt skráða hjá Útlendingastofnun því ætlun kæranda sé að sækja um dvalarleyfi á grundvelli b-liðar 9. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Þá telur kærandi einnig að 75. gr. laga um útlendinga geti átt við um réttarstöðu sína. Kæra kæranda snúi alfarið að brottvísun og endurkomubanni en eðli málsins samkvæmt er afturköllun dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar óhjákvæmileg. Ætlun kæranda var að vera í hjúskapnum til æviloka en fyrrverandi maki kæranda var ekki sá maður sem kærandi taldi hann vera. Vegna aðstæðna kæranda í aðdraganda og kjölfar skilnaðar telji kærandi réttast aðstæðna sinna vegna að Útlendingastofnun hætti við ákvörðun um brottvísun, a.m.k. þar til niðurstaða umsóknar kæranda um dvalarleyfi liggi fyrir. Í því samhengi vísar kærandi einkum til 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga og telur aðstæður og málsatvik leiða til þess að ósanngjarnt sé að brottvísa kæranda.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Afturköllun dvalarleyfis

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess er að makinn hafi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laga um útlendinga og að hann sé annað hvort í hjúskap eða sambúð, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 70. gr. laganna. Í 7. mgr. 70. gr. kemur fram að makar og sambúðarmakar skuli hafa fasta búsetu á sama stað í samræmi við ákvæði laga um lögheimili og aðsetur. Heimilt er að víkja frá þessu ákvæði ef sérstakar tímabundnar ástæður eru fyrir hendi.

Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga um útlendinga er Útlendingastofnun m.a. heimilt að afturkalla dvalarleyfi útlendings ef ekki eru lengur uppfyllt skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis.

Kærandi var með útgefið dvalarleyfi frá 19. apríl 2023 til 17. apríl 2024 en 24. nóvember 2023 var skráð í þjóðskrá að kærandi og maki hennar væru lögskilin og lögheimili þeirra ekki lengur sameiginlegt. Dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga, er bundið við tiltekinn hjúskap. Samkvæmt framangreindu uppfyllir kærandi ekki lengur skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar og var því heimilt að afturkalla leyfið, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga um útlendinga. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar um afturköllun dvalarleyfis kæranda staðfest.

Brottvísun og endurkomubann

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að heimild kæranda til dvalar ljúki með afturköllun dvalarleyfis hennar og var kæranda því gert að sæta brottvísun, sbr. 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, eins og ákvæðinu var breytt með lögum um landamæri nr. 136/2022. Samhliða því var kæranda gert að sæta tveggja ára endurkomubanni, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Kæranda var þó veittur 30 daga frestur frá birtingu ákvörðunar til þess að yfirgefa landið sjálfviljug, en innan þess tímafrests yrði endurkomubann hennar fellt niður, sbr. 1. málsl. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Samhliða ákvörðun um brottvísun var kæranda veittur sjö daga frestur til þess að leggja fram andmæli gegn ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann, með hliðsjón af 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga.

Ákvarðanir stjórnvalda um brottvísun og endurkomubann eru stjórnvaldsákvarðanir sem mæla fyrir um íþyngjandi skyldur fyrir aðila máls og bundnar íþyngjandi stjórnsýsluviðurlögum. Gera verður ríkar kröfur til málsmeðferðar í slíkum málum, einkum varðandi tilkynningu um meðferð máls og andmælarétt, sbr. 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga, auk annarra málsmeðferðarreglna stjórnsýsluréttarins og laga um útlendinga. Sú tilhögun Útlendingastofnunar að taka ákvörðun um brottvísun og endurkomubann kæranda, án þess að tilkynna henni um að stofnunin hefði slíkt til skoðunar og veita henni ekki tækifæri á að koma á framfæri andmælum sínum áður en ákvörðun var tekin, felur í sér alvarlegan annmarka á meðferð málsins. Þar að auki fær kærunefnd ekki séð að málið hafi verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun var tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, s.s. með því að fá svör við spurningum sem hafa það að markmiði að upplýsa hvort takmarkanir geta verið á ákvörðun um brottvísun, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd telur slíka annmarka á meðferð málsins að ekki sé unnt að bæta úr þeim á kærustigi. Verður því að fella úr gildi þann hluta ákvörðunar Útlendingastofnunar er varðar brottvísun og endurkomubann kæranda.

Samkvæmt gögnum málsins lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki 4. desember 2023. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi fyrst útgefið dvalarleyfi 19. apríl 2023, en leyfið er fellt niður með uppkvaðningu þessa úrskurðar sbr. til hliðsjónar 1. mgr. 103. gr. laga um útlendinga. Að framangreindu virtu er ljóst að kærandi sótti um nýtt dvalarleyfi áður en hið fyrra leyfi féll úr gildi og hefur verið í löglegri dvöl a.m.k. síðustu níu mánuði og gilda því ákvæði 5. mgr. 57. gr. laga um útlendinga um heimild hennar til dvalar á meðan umsókn, dags. 4. desember 2023, er til meðferðar. Að öðru leyti sætir umsóknin sjálfstæðri málsmeðferð hjá Útlendingastofnun á grundvelli þeirra lagaákvæða sem um umsóknina gilda.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar um afturköllun dvalarleyfis er staðfest, en felld úr gildi varðandi brottvísun og endurkomubann.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed regarding the revocation of the appellant‘s residence permit, but vacated regarding her expulsion and entry ban.

Valgerður María Sigurðardóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta