Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 52/2012

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík


Miðvikudaginn 10. apríl 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 52/2012: 

 

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar


og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 20. apríl 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 21. mars 2012, á beiðni hans um fjárhagsaðstoð.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi hefur að mestu verið atvinnulaus frá því að hann lauk grunnskóla. Kærandi hóf nám í framhaldsskóla en hætti námi á fyrstu önn. Hann fékk greidda fjárhagsaðstoð í apríl og maí 2011 og aftur frá september til desember 2011. Á meðan kærandi naut fjárhagsaðstoðar árið 2011 bjó hann hjá foreldrum en hefur nú flutt að heiman. Með umsókn, dags. 12. nóvember 2011, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir 1. desember 2011 til 29. febrúar 2012. Í gögnum málsins liggur ekki fyrir samþykki á umsókn kæranda fyrir 1.–31. desember 2011 en samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg var umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð í desember samþykkt en kærandi fékk greidda hálfa fjárhagsaðstoð þann 1. desember 2011 og var síðari helmingur fjárhagsaðstoðar fyrir desembermánuð greiddur eftir heimsókn kæranda í Fjölsmiðjuna þann 9. desember 2011. Með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 16. febrúar 2012, var umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir 1.–31. janúar 2012 synjað á grundvelli 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg þar sem kærandi hafði ekki skilað minnisblaði atvinnuleitanda vegna atvinnuleitar í desember 2011 fyrir 1. janúar 2012. Með bréfinu var enn fremur samþykkt að veita kæranda fjárhagsaðstoð fyrir 1.–12. febrúar 2012 og synjað fyrir 13.–29. febrúar 2013 á grundvelli 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð þar sem hann hafi verið kominn í vinnu þá og taldist því ekki lengur atvinnuleitandi. Kærandi áfrýjaði ákvörðun þjónustumiðstöðvar til velferðarráðs með bréfi, dags. 26. febrúar 2012. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 20. mars 2012 og samþykkti svohljóðandi bókun:

„Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um fjárhagsaðstoð tímabilið 1. janúar 2012 til 31. janúar og 14. febrúar 2012 til 29. febrúar 2012 skv. 3. og 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð.“

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 21. mars 2012. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 20. apríl 2012. Með bréfi, dags. 26. apríl 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun um fulla fjárhagsaðstoð. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 24. maí 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 29. maí 2012, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 5. desember 2012, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst.

 

II. Málsástæður kæranda

Kærandi óskar eftir rökstuðningi á synjun Reykjavíkurborgar á beiðni hans um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilin 1.–31. janúar og 14.–29. febrúar 2012. Þá óskar hann einnig eftir skýringum á því hvað hálfur framfærslustyrkur sé og hvort um geðþóttaákvörðun sveitarfélagsins hafi verið að ræða.

 

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í athugasemdum Reykjavíkurborgar vegna kærunnar kemur fram að núgildandi reglur um fjárhagsaðstoð hafi tekið gildi þann 1. janúar 2011 og samþykktar í velferðarráði þann 17. nóvember 2010 og í borgarráði þann 25. nóvember 2010. Í 3. gr. reglnanna komi fram að hafi umsækjandi hafnað atvinnu eða sagt starfi sínu lausu án viðhlítandi skýringa eða hafnað starfsleitaráætlun, skuli greiða hálfa grunnupphæð til framfærslu eins og tilgreind sé í III. kafla reglnanna þann mánuð sem hann hafni vinnu svo og mánuðinn þar á eftir. Í 2. mgr. 3. gr. segi að sama eigi við atvinnulausan umsækjanda sem ekki framvísi minnisblaði atvinnuleitanda, sbr. 8. gr. reglnanna, án viðhlítandi skýringa og umsækjanda sem hætt hafi þátttöku í átaksverkefni, nema veigamiklar ástæður sem fram komi við mat á aðstæðum umsækjenda mæli gegn því. Í 6. mgr. 8. gr. reglnanna komi fram að þegar umsækjandi sé atvinnulaus skuli hann framvísa minnisblaði atvinnuleitanda er staðfesti atvinnuleysi hans. Um sé að ræða minnisblað sem gefið sé út af Vinnumálastofnun og lagt til grundvallar í viðtölum ráðgjafa stofnunarinnar við atvinnuleitendur. Kærandi í máli þessu hafi sótt um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. desember 2011–29. febrúar 2012. Í 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð sé kveðið á um að þeir umsækjendur sem séu atvinnulausir skuli framvísa minnisblaði atvinnuleitanda er staðfesti atvinnuleysi hans. Fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sé greidd fyrirfram og hafi kæranda borið að framvísa minnisblaði atvinnuleitanda um atvinnuleit hans í desember fyrir 1. janúar 2012 til þess að eiga rétt á fjárhagsaðstoð í janúarmánuði 2012. Kærandi hafi ekki framvísað minnisblaði atvinnuleitanda um atvinnuleit hans í desembermánuði fyrr en þann 23. janúar 2012 og hafi kærandi gefið þær skýringar að hann hefði ekki getað skilað blaðinu fyrr þar sem hann hefði verið úti á landi í heimsókn hjá vini sínum. Reykjavíkurborg tekur fram að kærandi naut fjárhagsaðstoðar í apríl og maí 2011 og frá september til desember 2011. Á því tímabili hafi hann verið lítt viljugur til virkni og því hafi ráðgjafi hans á þjónustumiðstöð ítrekað beðið hann um að hafa samband beint við sig fyrir hver mánaðamót til að fá upplýsingar um stöðu kæranda og virkni almennt.

Reykjavíkurborg bendir á að í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð, sbr. einnig 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, komi fram að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Umsækjendur um fjárhagsaðstoð sem ekki stundi launaða vinnu eða framvísi læknisvottorði skuli vera í atvinnuleit til þess að njóta réttar til fjárhagsaðstoðar hjá þjónustumiðstöðvum. Aðstoð frá þjónustumiðstöð komi ekki til álita nema umsækjandi reyni allt sem í hans valdi standi til að afla sér tekna annars staðar frá. Verði að telja að sú krafa að umsækjendur sinni atvinnuleit samhliða því að sækja um fjárhagsaðstoð sé í samræmi við 1. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga en þar komi fram að við framkvæmd félagsþjónustunnar skuli þess gætt að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Þar sem kærandi hafi ekki sinnt því að skila inn minnisblaði atvinnuleitanda fyrr en allt of seint og án viðhlítandi skýringa auk þess sem hann hafði heldur ekki sinnt þeim tilmælum ráðgjafa síns um að hafa samband beint við ráðgjafann fyrir hver mánaðamót til að veita upplýsingar um stöðu sína og virkni hafi ekki verið unnt að telja að kærandi hefði verið í atvinnuleit. Þá hafi kærandi ekki svarað símtölum frá þjónustumiðstöð og hafi ekki látið ná í sig þrátt fyrir skilaboð þar að lútandi.

Varðandi synjun á fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 13.–29. febrúar 2012 bendir Reykjavíkurborg á að kærandi hafi hafið störf hjá B. þann 13. febrúar 2012 og því ekki unnt að líta svo á að kærandi væri í atvinnuleit, sbr. 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Með hliðsjón af framansögðu hafi það verið mat velferðarráðs að synja bæri kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilin 1.–31. janúar 2012 og 13.–29. febrúar 2012. Það sé ljóst að ákvörðun Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð, sbr. 21. gr. laga nr. 40/1991, né öðrum ákvæðum laganna.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg samþykktar í borgarráði 25. nóvember 2010, með síðari breytingum. Úrskurðarnefndin vekur athygli á því að kærufrestur 63. gr. framangreindra laga eru þrír mánuðir frá því aðila máls barst vitneskja um ákvörðun. Í 36. gr. reglna Reykjavíkurborgar er hins vegar kveðið á um fjögurra vikna kærufrest vegna málskots til úrskurðarnefndarinnar og er ákvæði 36. gr. reglnanna því ekki í samræmi við lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Kæranda var þó leiðbeint um þriggja mánaða kærufrest.

Í máli þessu er ágreiningur um hvort kærandi hafi átt rétt á fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. desember 2011–29. febrúar 2012. Umsókn kæranda, dags. 12. nóvember 2011, var fyrst svarað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 16. febrúar 2012, þar sem honum var synjað um fjárhagsaðstoð fyrir 1.–31. janúar og 13.–29. febrúar 2012. Á fundi velferðarráðs þann 20. mars 2012 var staðfest synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1.–31. janúar og 14.–29. febrúar 2012. Úrskurðarnefndin gerir athugasemd við misræmi á dagsetningum í ákvörðunum sveitarfélagsins. Í ljósi þess að velferðarráð tók hina endanlegu ákvörðun í málinu á sveitarstjórnarstigi verður þó miðað við að synjunin lúti að tímabilinu 1.–31. janúar 2012 og 14.–29. febrúar s.á. Kærandi gerir athugasemd við hálfan framfærslustyrk og óskar eftir rökstuðningi fyrir því. Úrskurðarnefndin tekur fram að mál þetta varðar einungis umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir 1. desember 2011–29. febrúar 2012. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg fékk kærandi greiddan hálfan framfærslustyrk 1. desember 2011 og síðari helming styrksins þann 9. desember 2011. Ekki liggur fyrir að öðru leyti að kærandi hafi fengið greiddan hálfan framfærslustyrk. Endurskoðun úrskurðarnefndar í máli þessu lýtur því eingöngu að ákvörðun Reykjavíkurborgar um að greiða kæranda ekki fjárhagsaðstoð fyrir 1.–31. janúar 2012 og 14.–29. febrúar 2012 líkt og að framan greinir.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 12. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, kemur fram sú meginregla að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð, og tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Skal aðstoð og þjónusta jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Reykjavíkurborg hefur sett sér sérstakar reglur um fjárhagsaðstoð. Í 8. gr. reglnanna er meðal annars rakið hvaða gögn og upplýsingar umsækjandi skal leggja fram með umsókn. Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. skal umsækjandi sem er atvinnulaus framvísa minnisblaði atvinnuleitanda er staðfestir atvinnuleysi hans. Samkvæmt ákvæðinu er um að ræða minnisblað sem gefið er út af Vinnumálastofnun og lagt er til grundvallar í viðtölum ráðgjafa stofnunarinnar við atvinnuleitendur. Ákvæði 9. gr. heimilar þjónustumiðstöð að afla frekari upplýsinga um umsækjanda ef þörf krefur og skal það gert í samráði við hann. Í 1. mgr. 6. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg kemur fram sú meginregla að fjárhagsaðstoð skuli að öðru jöfnu vera greidd einn mánuð í senn og ákvarðanir um aðstoð að jafnaði ekki ná yfir lengra tímabil en þrjá mánuði. Þá eru í 3. gr. reglnanna raktar aðstæður sem valda lækkun grunnfjárhæðar. Í 1. mgr. segir að hafi umsækjandi hafnað atvinnu eða sagt starfi sínu lausu án viðhlítandi skýringa eða hafnað starfsleitaráætlun, skuli greiða hálfa grunnupphæð til framfærslu eins og er tilgreind í III. kafla reglnanna þann mánuð sem hann hafnar vinnu, svo og mánuðinn þar á eftir. Þá segir í 2. mgr. 3. gr. að sama eigi við um atvinnulausan umsækjanda sem ekki framvísar minnisblaði atvinnuleitanda, sbr. ákvæði 8. gr. reglnanna, án viðhlítandi skýringa og umsækjanda sem hætt hefur þátttöku í átaksverkefni, nema veigamiklar ástæður sem fram koma við mat á aðstæðum umsækjanda mæli gegn því.

Úrskurðarnefndin telur í upphafi rétt að gera athugasemdir við framkvæmd Reykjavíkurborgar við afgreiðslu umsóknar kæranda. Samkvæmt óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar á hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald almennt rétt á að fá skriflegt svar nema svars sé ekki vænst. Það er enda í samræmi við 32. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Líkt og áður er rakið sótti kærandi skriflega um fjárhagsaðstoð fyrir þrjá mánuði, þ.e. desember, janúar og febrúar. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi samkvæmt fyrrgreindum reglum átt rétt á skriflegu svari um samþykki eða synjun á umsókn hans fyrir allt tímabilið á grundvelli þeirra gagna sem lögð voru fram. Af gögnum málsins má hins vegar sjá að umsókn kæranda var afgreidd í tvennu lagi. Samþykkt var að veita kæranda fjárhagsaðstoð fyrir desembermánuð og var sú afgreiðsla ekki tilkynnt með öðrum hætti en með greiðslu fjárhagsaðstoðarinnar. Þá var kæranda tilkynnt með bréfi, dags. 16. febrúar 2012, að hann ætti ekki rétt á fjárhagsaðstoð fyrir 1.–31. janúar og 14.–29. febrúar 2012. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að greiðsla sveitarfélagsins á fjárhagsaðstoð til kæranda í desember hafi falið í sér samþykki á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir desember, janúar og febrúar, enda hefði kærandi átt rétt á skriflegu rökstuddu svari hefði umsókn hans verið hafnað í heild eða að hluta, sbr. 32. gr. reglnanna. Úrskurðarnefndin lítur svo á að synjun Reykjavíkurborgar varðandi tímabilið 1.–31. janúar og 14.–29. febrúar 2012 hafi falið í sér afturköllun á ákvörðun um aðstoð fyrir tímabilið. Tekið skal fram að samþykki á umsókn um fjárhagsaðstoð telst vera stjórnvaldsákvörðun og lækkun grunnfjárhæðar á grundvelli 3. gr. reglnanna eða niðurfelling bóta vegna breyttra forsendna feli í sér afturköllun ákvörðunarinnar, eftir atvikum í heild eða að hluta. Afturköllun ákvörðunar um veitingu fjárhagsaðstoðar er ný stjórnvaldsákvörðun og um hana gilda ákvæði stjórnsýslulaga, meðal annars um andmælarétt aðila máls. Af gögnum málsins verður ekki séð að kæranda hafi verið veittur andmælaréttur áður en réttur hans til fjárhagsaðstoðar var niður felldur. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að verulegur annmarki hafi verið á málsmeðferð Reykjavíkurborgar sem leiði til þess að hin kærða ákvörðun verði ógildanleg. Úrskurðarnefndin telur þó rétt að víkja nánar að afgreiðslu Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda.

Samkvæmt gögnum málsins byggðist ákvörðun Reykjavíkurborgar um að greiða kæranda ekki fjárhagsaðstoð fyrir 1.–31. janúar 2012 á því að kærandi hafi skilað minnisblaði atvinnuleitanda vegna atvinnuleitar of seint. Kærandi skilaði minnisblaðinu þann 23. janúar 2012 en Reykjavíkurborg bendir á að það hafi þurft að berast fyrir 1. janúar s.á. Reykjavíkurborg byggir á því að umsækjendur um fjárhagsaðstoð sem ekki stunda launaða vinnu eða framvísa læknisvottorði, skuli vera í atvinnuleit til að njóta réttar til fjárhagsaðstoðar. Aðstoð komi ekki til álita nema umsækjandi reyni allt sem í hans valdi stendur til að afla tekna annars staðar frá. Reykjavíkurborg telur að sú krafa að umsækjendur sinni atvinnuleit samhliða því að sækja um fjárhagsaðstoð sé í samræmi við 1. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Í 8. gr. reglna Reykjavíkurborgar er kveðið á um hvernig umsókn um fjárhagsaðstoð skuli úr garði gerð og hvaða gögn og upplýsingar skuli fylgja með henni. Samkvæmt 1. málsl. 6. mgr. 8. gr. skal umsækjandi sem er atvinnulaus framvísa minnisblaði atvinnuleitanda er staðfestir atvinnuleysi hans. Úrskurðarnefndin tekur fram að umsókn um fjárhagsaðstoð getur verið fyrir fleiri en einn mánuð og sótti kærandi í máli þessu um fjárhagsaðstoð fyrir þrjá mánuði. Kærandi var atvinnulaus þegar hann sótti um fjárhagsaðstoð og bar því að leggja fram minnisblað atvinnuleitanda með umsókn sinni. Í málinu liggur ekkert fyrir um að hann hafi ekki gert það enda fékk kærandi greidda fjárhagsaðstoð fyrir desembermánuð og líkt og áður greinir verður að telja að umsókn hans hafi með því verið samþykkt. Tekið skal fram að umsækjendur verða að geta ráðið af reglum sveitarfélagsins hvaða gögn skuli lögð fram með umsókn og hverju það varði ef slík gögn eru ekki lögð fram. Í reglum Reykjavíkurborgar er ekki að finna ákvæði er leggur þá skyldu á umsækjanda að leggja fram ný gögn, til að mynda minnisblað atvinnuleitanda, eftir að umsókn hefur verið samþykkt. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki mátt ráða af reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg að honum hafi borið að leggja fram gögn fyrir tiltekinn tíma umfram þau sem honum bar að leggja fram með umsókn, sbr. 8. gr. Hafi Reykjavíkurborg talið þörf á að kærandi sýndi fram á atvinnuleit sína umfram það sem 6. mgr. 8. gr. reglnanna kveður á um hefði annars vegar komið til greina að óska eftir slíkum gögnum á grundvelli 1. mgr. 9. gr. reglnanna sem heimilar þjónustumiðstöð að afla frekari upplýsinga ef þörf krefur um umsækjanda í samráði við hann sjálfan. Hefði þá verið rétt að tilkynna kæranda um afleiðingar þess að hann skilaði ekki umbeðnum gögnum, til að mynda um lækkun grunnfjárhæðar, sbr. 2. mgr. 3. gr. reglnanna. Hins vegar hefði komið til greina að ákvörðun um aðstoð næði einungis til eins mánaðar, sbr. 1. mgr. 6. gr. reglnanna. Í málinu liggja ekki fyrir gögn er sýna fram á að sveitarfélagið hafi óskað eftir frekari gögnum frá kæranda né tilkynnt honum um afleiðingar þess að þeim yrði ekki skilað fyrir tiltekinn tíma. Þá verður ekki séð að ákvörðun Reykjavíkurborgar um aðstoð hafi einungis náð til desembermánaðar enda var kæranda ekki tilkynnt um slíka afgreiðslu. Að framangreindu virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að ákvörðun Reykjavíkurborgar um að veita kæranda ekki fjárhagsaðstoð fyrir 1.–31. janúar 2012 hafi ekki verið í samræmi við reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg og verður felld úr gildi.

Synjun Reykjavíkurborgar vegna tímabilsins 14.–29. febrúar 2012 byggðist á því að kærandi hafi hafið störf þann 13. febrúar 2012 og því ekki unnt að líta svo á að hann væri í atvinnuleit, sbr. 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Samkvæmt 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, er hverjum manni skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 1. gr. reglna Reykjavíkurborgar er skylt að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og III. kafla reglnanna. Samkvæmt 10. gr. reglnanna er við ákvörðun á fjárhagsaðstoð lögð til grundvallar grunnfjárþörf til framfærslu, sbr. 11. gr., og frá henni dregnar heildartekjur, sbr. 12. gr. Ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja kæranda um greiðslu fjárhagsaðstoðar fyrir tímabilið 14.–29. febrúar 2012 er byggð á því að hann sé ekki í atvinnuleit. Áður hefur komið fram það sjónarmið Reykjavíkurborgar að umsækjendur um fjárhagsaðstoð sem ekki stunda launaða vinnu eða framvísa læknisvottorði, skuli vera í atvinnuleit til að njóta réttar til fjárhagsaðstoðar. Úrskurðarnefndin bendir á ósamræmi í því sem fram hefur komið af hálfu Reykjavíkurborgar. Ekki er ágreiningur um að kærandi fékk starf þann 13. febrúar 2012 og verður því að telja að frá þeim tíma hafi hann stundað launaða vinnu. Réttur kæranda til fjárhagsaðstoðar á tímabilinu 14.–29. febrúar 2012 gat því ekki verið bundinn því skilyrði að hann væri í atvinnuleit enda var hann ekki atvinnulaus á þeim tíma. Hafi Reykjavíkurborg talið forsendur ákvörðunar um fjárhagsaðstoð vera breyttar þegar kærandi hóf störf þann 13. febrúar 2012 sem varðað gætu niðurfellingu aðstoðar hefði verið rétt að leggja mat á þörf hans á fjárhagsaðstoð skv. 10. gr. reglnanna út frá hinum breyttu aðstæðum. Ekki verður séð að slíkt mat hafi farið fram og er það því mat úrskurðarnefndarinnar að ákvörðun Reykjavíkurborgar um að veita kæranda ekki fjárhagsaðstoð fyrir 14.–29. febrúar 2012 hafi ekki verið í samræmi við reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg og verður hún því felld úr gildi.

Úrskurðarnefndin leggur fyrir Reykjavíkurborg að taka umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilin 1.–31. janúar 2012 og 14.–29. febrúar 2012 til löglegrar meðferðar.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 21. mars 2012, um synjun á umsókn A, um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilin 1.–31. janúar 2012 og 14.–29. febrúar 2012 er felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka umsókn kæranda vegna framangreindra tímabila til nýrrar meðferðar.

 

 Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir

Gunnar Eydal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta