Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 66/2012

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 16. apríl 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 66/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 12. janúar 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 11. janúar 2012 tekið ákvörðun um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans. Ástæðan var sú að í ljós kom að kærandi var skráður í nám samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta, án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Jafnframt taldi Vinnumálastofnun að kærandi hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 1. september til 24. nóvember 2011 að fjárhæð 469.660 kr. sem honum bæri að endurgreiða með 15% álagi skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 4. apríl 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun 20. apríl 2011.

Kærandi fékk upplýsingar um námsstyrk 21. júlí 2011 og tók þá fram að hann ætti eina önn eftir í Háskólanum Y. Var honum tilkynnt að hann gæti tekið 10 ECTS-einingar og ætlaði hann að kanna hvernig best væri að skipta náminu og hafa svo samband við stofnunina. Kærandi kom aftur 10. ágúst 2011 og ræddi hugsanlegan námssamning. Var honum tjáð að hann gæti mögulega fengið námssamning 3 (Nám er vinnandi vegur), en slíkur samningur felur í sér að aðili fær greiddar atvinnuleysisbætur í eina önn meðan viðkomandi stundar fullt nám en að því loknu er hann afskráður og ætlast er til að hann nýti sér þau lán sem eru í boði vegna námsins. Kærandi kom síðan 18. ágúst 2011 að ræða um námssamning 3. Kom þá í ljós að kærandi uppfyllti ekki skilyrði námssamnings 3 þar sem hann hafði ekki skráð sig hjá Vinnumálastofnun fyrir 1. mars 2011. Hafði ráðgjafa stofnunarinnar yfirsést það að kærandi uppfyllti ekki skilyrði úrræðisins Nám er vinnandi vegur þegar kærandi kom 10. ágúst 2011. Var honum bent á að hann gæti fengið námssamning upp á 10 eða 20 ECTS-einingar. Kærandi ætlaði að skoða málið og hafa samband við stofnunina en það gerði hann ekki.

Kæranda var sent bréf 15. desember 2011 þess efnis að við samkeyrslu á gagnagrunnum Vinnumálastofnunar við nemendaskrár menntastofnana og skóla á háskólastigi hafi komið í ljós að kærandi var skráður í nám við Háskólann Y, samhliða því að fá greiddar atvinnuleysistryggingar, en án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Tekið var fram í bréfinu að kærandi uppfylli ekki skilyrði laganna til greiðslu atvinnuleysisbóta og það kynni að leiða til þess að hann myndi missa rétt sinn til þeirra.

Í kæru sinni bendir kærandi á að um miðjan ágúst 2011 hafi honum verið tjáð af ráðgjafa Vinnumálastofnunar að hann gæti fengið námssamning í eina önn fyrir fullt nám. Hann hafi því skráð sig í 30 eininga nám, greitt skólagjöldin og mætt með vottorð frá Háskólanum í Y til Vinnumálastofnunar 18. ágúst 2011. Annar starfsmaður hafi tekið á móti honum og hafi sá tjáð honum að hann gæti ekki fengið þennan samning þar sem hann hefði aðeins verið atvinnulaus í fimm mánuði en ekki sex eins og ákveðið hefði verið að þyrfti til. Kærandi kveðst hafa andmælt þessu og sagt að ráðgjafi hefði sagt sér að að teknu tilliti til orlofs og þess mismunar á dagsetningu á upphafi náms hinna ýmsu skóla uppfyllti hann skilyrði þess að fá þennan námssamning. Kærandi hafi ekki fengið að ræða við fyrri ráðgjafann en hann hafi sent afsökunarbeiðni vegna mistakanna. Hafi kæranda verið boðið að fá samning upp á 10 einingar eða minna. Kærandi kveðst hafa talið að hann hefði einhvern umþóttunartíma til þess að ákveða hvað hann gerði og hafi talið að Vinnumálastofnun myndi stöðva greiðslur til hans. Þegar Vinnumálastofnun hafi stöðvað greiðslur 15. desember 2011 hafi ekki lengur verið hægt að sækja um námslán á haustönn, enda hefði hann hvort eð er ekki fengið neitt lán sökum tekjutengingar fyrir árið 2010. Kærandi kveðst hafa verið í stöðugri atvinnuleit síðan hann lét af störfum. Honum finnist afskaplega ósanngjarnt að krefjast umræddrar endurgreiðslu og stefna með því fjárhagslegri afkomu hans í mikla óvissu.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 12. júní 2012, er vísað til c-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar varðandi skilgreiningu á hugtakinu „námi“. Fram kemur að mál þetta lúti að 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í athugasemdum við 52. gr. með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar sé ítrekuð sú meginregla að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða námi nema annað leiði af samningi um vinnumarkaðsaðgerð. Ekki skipti máli hvort sem um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Auk þessa sé það eitt af almennum skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna að atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur 20. apríl 2011 og uppfylli því ekki það skilyrði bráðabirgðaákvæðis reglugerðar nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, um námssamning vegna úrræðisins Nám er vinnandi vegur að hafa skráð sig fyrir 1. mars 2011.

Fyrir liggi að kærandi hafi haft samband við Vinnumálastofnun í júlí 2011 og hafi hann þá fengið þær upplýsingar að honum hafi verið heimilt að stunda allt að 10 ECTS-eininga nám ef gerður yrði sérstakur námssamningur við stofnunina þar um. Kærandi hafi síðan komið í ágúst og rætt möguleikann á því að fá námssamning vegna fulls náms eins og Nám er vinnandi vegur úrræðið hafi boðið upp á. Hafi honum verið tjáð, 10. ágúst 2011, að hann gæti átt möguleika á því og var honum bent á að koma með staðfestingu frá skólanum. Þegar kærandi kom til að ræða úrræðið frekar, 18. ágúst 2011, hafi komið í ljós að hann uppfyllti ekki skilyrðið þar sem hann hafði ekki verið skráður hjá Vinnumálastofnun fyrir 1. mars 2011. Frá þeirri stundu hefði kæranda átt að vera ljóst að honum væri óheimilt að stunda umrætt nám samhliða töku atvinnuleysistrygginga. Hefði kærandi þá átt, líkt og hann taki fram í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar að hann ætlaði að gera, að endurskoða þann fjölda eininga sem hann hafi verið skráður í og gera viðeigandi námssamning við stofnunina eða nýta sér önnur úrræði sem í boði væru til handa námsmönnum.

Það sé mat Vinnumálastofnunar að meginreglan sem fram komi í 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi við um tilvik kæranda. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laganna teljist kærandi ekki tryggður samkvæmt lögunum á sama tíma og hann er skráður í nám.

Þá beri kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar fyrir það tímabil sem hann uppfyllir ekki skilyrði laganna. Þar sem það sé ljóst af samskiptum kæranda við Vinnumálastofnun að stofnunin hafi vitað um fyrirhugað nám kæranda hafi stofnunin fellt niður 15% álagið og beri kæranda því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. september til 24. nóvember 2011 að fjárhæð 408.400 kr.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. júní 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 2. júlí 2012. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, en hún er svohljóðandi:

Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Þá segir í c-lið 3. gr. laga sömu laga:

Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

Í athugasemdum við 52. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám.

Ljóst er að meginregla 1. mgr. 52. gr. á við um kæranda, þ.e. hann var skráður í 30 ECTS-eininga nám á Háskólanum Y á haustönn 2011. Undanþáguheimildir 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna koma til skoðunar þegar nám er ekki lánshæft samkvæmt reglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þar sem nám kæranda var 30 ECTS einingar taldist það lánshæft samkvæmt reglum Lánasjóðsins. Undanþáguheimildirnar eiga því ekki við í máli kæranda.

Af framansögðu er ljóst að þar sem nám kæranda var lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna átti hann ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta. Kærandi fékk rangar upplýsingar hjá Vinnumálastofnun 10. ágúst 2011 þess efnis að hann gæti átt möguleika á úrræðinu Nám er vinnandi vegur. Það breytir þó ekki niðurstöðu þessa máls þar sem hann kom aftur til Vinnumálastofnunar 18. ágúst 2011 til þess að ræða úrræðið frekar og var honum þá gerður misskilningurinn ljós. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða tekur undir það sjónarmið Vinnumálastofnunar að frá þeim tíma mátti kæranda vera ljóst að honum væri óheimilt að stunda nám sitt samhliða töku atvinnuleysisbóta og hefði hann í kjölfarið getað endurskoðað þann fjölda ECTS-eininga sem hann tæki í náminu.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og forsendna Vinnumálastofnunar er hin kærða ákvörðun staðfest.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfyllir ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Þar sem Vinnumálastofnun vissi um fyrirhugað nám kæranda ákvað stofnunin að fella niður 15% álag á ofgreiddar atvinnuleysisbætur til kæranda. Staðfest er sú ákvörðun að kærandi endurgreiði ofgreiddar atvinnuleysisbætur, án 15% álags, að fjárhæð 408.400 kr.

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 11. janúar 2012 í máli A um stöðvun á greiðslum atvinnuleysistrygginga er staðfest. Kærandi skal endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 408.400 kr.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta