Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 516/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 516/2021

Fimmtudaginn 20. janúar 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 2. október 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. júlí 2021, um að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 12. júlí 2019 og var umsóknin samþykkt 2. október 2019. Þann 24. mars 2021 var kærandi boðaður á námskeið á vegum Vinnumálastofnunar sem átti að fara fram dagana 7. til 16. apríl 2021 í gegnum fjarfundabúnað. Tekið var fram að um skyldumætingu væri að ræða og að ótilkynnt forföll gætu valdið stöðvun greiðslna. Með tölvupósti, dags. 13. apríl 2021, tilkynnti kærandi Vinnumálastofnun að hann hefði ekki aðgang að tölvu og gæti því ekki nýtt sér námskeiðið. Þann 27. apríl 2021 var kærandi boðaður á námskeiðið að nýju sem átti að fara fram dagana 3. til 12. maí 2021. Tekið var fram að um skyldumætingu væri að ræða og að tilkynna þyrfti um forföll samdægurs. Með tölvupósti, dags. 12. maí 2021, tilkynnti kærandi Vinnumálastofnun að hann gæti ekki tekið þátt í námskeiðinu. Þann 20. maí 2021 bárust Vinnumálastofnuin upplýsingar frá námskeiðshaldara um að kærandi hefði aldrei mætt á námskeiðið og með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 16. júní 2021, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna þessa. Skýringar bárust frá kæranda 17. júní 2021. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. júlí 2021, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006.  Þann 2. júlí 2021 óskaði kærandi eftir endurskoðun ákvörðunar stofnunarinnar. Með ákvörðun, dags. 9. júlí 2021, staðfesti Vinnumálastofnun fyrri ákvörðun sína frá 1. júlí 2021. Kærandi fór á ný fram á endurupptöku málsins og með ákvörðun, dags. 16. ágúst 2021, var þeirri beiðni hafnað. 

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 2. október 2021. Með bréfi, dags. 6. október 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð þann 26. október og 3. nóvember 2021. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 17. nóvember 2021 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. nóvember 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda þann 27. nóvember 2021 og voru þær sendar Vinnumálastofnun til kynningar þann 3. desember 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hafa fengið tölvupóst frá starfsmanni Vinnumálastofnunar í lok apríl 2021 þess efnis að ferilskrá hans vantaði inn á „Mínar síður“. Kærandi hafi ekki getað skilið tölvupóstinn betur en að um tvo valmöguleika væri um að ræða, þ.e. að koma á námskeið hjá HH ráðgjöf eða skila inn ferilskrá á „Mínar síður“. Á þessum tíma hafi sóttvarnareglur vegna Covid-19 verið í lágmarki og flest starfsemi í gangi. Kæranda hafi fundist það kjörið tækifæri að mæta til HH ráðgjafar og fá faglega aðstoð við gerð ferilskrár þar sem kærandi hafi ekki átt tölvu og hafi þetta því komið sér vel. Starfsmaður Vinnumálastofnunar hafi því skráð kæranda á námskeiðið þann 3. maí 2021 sem kærandi hafi ætlað sér að sækja. Þegar hafi komið að því að sækja námskeiðið hjá HH ráðgjöf hafi kærandi ekki haft tölvu til umráða og farsími hans hafi ekki boðið upp á þau gæði að hann gæti tekið virkan þátt í námskeiðinu. Á þeim tíma hafi aftur verið hert á sóttvarnareglum og allar skrifstofur lokaðar, meðal annars hjá HH ráðgjöf. Námskeiðið hafi þess í stað farið fram á forritinu Zoom. Kærandi hafi byrjað fyrsta tímann en hafi þurft frá að víkja. Í kjölfarið hafi kærandi haft samband við starfsmann Vinnumálastofnunar og tjáð honum aðstæður sínar, auk þess að segjast munu leita sér aðstoðar hjá vini sínum þar sem hann vissi að hann gæti fengið aðgang að tölvu og aðstoð við gerð ferilskrár.

Mjög fljótlega eftir samskipti við starfsmann Vinnumálastofnunar hafi kæranda tekist að setja saman ferilskrá og sett hana inn á „Mínar síður“. Kærandi hafi verið í virkum samskiptum við starfsmann Vinnumálastofnunar um öll þessi mál og ferlið og hafi aldrei fengið neinar athugasemdir um að hann hefði þurft að mæta sama hvað hafi kostað á námskeiðið. Kærandi geri sér grein fyrir að í tölvupósti sem hann hafi fengið til staðfestingar á þátttöku námskeiðsins hafi honum verið tjáð að skyldumæting væri á námskeiðið. Í fyrsta tölvupósti hafi það þó ekki verið eins skýrt og þar sem kærandi hafi verið í stöðugum samskiptum við starfsmann Vinnumálastofnunar um ástæður fjarveru sinnar og að hann hafi getað sett saman ferilskrá, sem kærandi hafi talið vera helstu ástæðu fyrir boðun á námskeiðið, hafi hann talið öruggt að ekki yrði aðhafst meira í málinu.

Kærandi hafi uppfyllt þau skilyrði sem honum hafi verið sett og haldið áfram mjög virkri atvinnuleit sem hann geti sýnt fram á, meðal annars hjá Reykjavíkurborg og ferðaþjónustufyrirtækjum þar sem hann sé atvinnulaus leiðsögumaður. Kæranda hafi ekki tekist að uppfylla skilyrði þessara vinnustaða þar sem hann hafi misst ökuréttindi sín fyrir tæpu ári og Reykjavíkurborg, ferðaþjónustufyrirtæki og veitingastaðir á landsbyggðinni hafi gert mikla kröfu um ökuréttindi. Kæranda hafi því verið synjað um atvinnu á þessum stöðum. Kærandi geri sér miklar væntingar um að geta snúið aftur til fyrra starfs sem leiðsögumaður strax og hann öðlist aftur ökuréttindi sín.

Kærandi biðli til úrskurðarnefndar velferðarmála um að endurskoða mál hans þar sem hann hafi verið skilinn eftir tekjulaus í tvo mánuði. Honum hafi tekist með herkjum að fá hálfa fjárhagsaðstoð frá félagsmálastofnun síðastliðin mánaðamót. Eins og gefi að skilja hafi þetta haft gríðarleg áhrif á fjárhag hans og lífsgæði og þessi upphæð sem hann hafi farið á mis við hafi ekki gert honum kleift að standa við mikilvægar skuldbindingar og almenna framfærslu, eins og mat.

Kærandi leggi drengskap sinn við þau orð að hann hafi engan veginn gert sér grein fyrir algjörri skyldumætingu á námskeiðið og hefði ekkert verið því til fyrirstöðu að mæta á námskeiðið. Kærandi sé mjög virkur í atvinnuleit og sem einstaklingur. Að mæta á námskeiðið hafi verið honum hjartans mál áður en aðstæður hans hafi sýnt fram á að hann gæti ekki tekið virkan þátt.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að hann hafi verið að þiggja atvinnuleysisbætur í þónokkurn tíma. Ástæða þess sé sú að 100% atvinnuleysi hafi verið í starfsgrein hans síðan heimsfaraldurinn hafi byrjað. Alveg þangað til fyrir stuttu að honum hafi verið boðin vinna hjá tveimur fyrirtækjum sem ökuleiðsögumaður þar sem hann muni vonandi hefja störf í nóvembermánuði þar sem hann sé kominn aftur með ökuréttindi sín eftir að hafa misst þau. Kærandi hafi misst réttindi sín í ár sem teljist mjög væg refsing miðað við atvik. Eins sé kærandi að klára endurmenntun meiraprófsbílstjóra sem geri honum kleift að sækja rútupróf sitt aftur. Vonandi séu dagar hans á atvinnuleysisbótum því taldir.

Kæranda langi til að vera alveg heiðarlegur og sjá hvort það skili sér einhverju. Sem ólöglærður leikmaður viðurkenni kærandi að hann óttist heiðarleikann innan þess kerfis sem hann búi við. Þegar starfsmaður Vinnumálastofnunar hafi haft samband við hann og tilkynnt að atvinnuleitendum bæri að hafa ferilskrá inni á „Mínum síðum“ hafi ekkert verið því til fyrirstöðu að taka því fagnandi. Kærandi hafi nefnilega verið staddur í áfengis- og vímuefnameðferð hjá Samhjálp. Drengur sem hafi verið með honum í meðferð og á atvinnuleysisbótum hafi sagt honum að það mætti vera bæði í meðferð og á atvinnuleysisbótum. Kærandi hafi samt sem áður óttast að tilkynna Vinnumálastofnun um að hann væri í meðferð sökum lagalegra gata sem hann hafi áður dottið ofan í og því hafi hann ekki tilkynnt um meðferð sína. Þess í stað hafi kærandi haldið áfram atvinnuleit í meðferð og sótt um vinnu sem kærandi geti fært sönnur á með tölvupósti. Þegar kærandi hafi fengið póst um ferilskrá frá starfsmanni Vinnumálastofnunar hafi hann hugsað sér gott til glóðarinnar og séð fram á að geta gert sér glaðan dag frá meðferðinni þar sem honum hafi leiðst vistin. Covidbylgjan hafi legið niðri en engir gestir hafi mátt koma í heimsókn til hans og margir hefðu ekki séð ástvini sína í margar vikur. Kærandi hafi séð það í hyllingum að geta hitt eiginmann sinn sama dag og hann færi á námskeið í ferilskrárgerð. Það hafi verið mistök af hálfu kæranda að hafa haldið að hann gæti stundað námskeiðið í meðferðinni þar sem hann hafi talið að þar sem meðferðaraðilar hafi leyft kæranda að nota tölvupóst hlyti að vera í lagi að nota tölvu fyrir námskeið. Annað hafi þó komið á daginn og skýringarnar hafi verið þær að allir skjólstæðingar myndu því vilja gera hið sama.

Kærandi hafi endað meðferð sína rétt fyrir páska 2021, stuttu fyrir námskeiðið. Kærandi hafi náð í Zoom forritið og hafi þá runnið upp fyrir honum að það væri ekki möguleiki að nota símann sinn sem hafi ekki verið nýr. Hann hafi því tekið þá ákvörðun eftir að hafa skráð sig inn á námskeiðið að gæðin hafi verið þannig að hann gæti ekki fengið neitt gagnlegt út úr námskeiðinu. Kærandi hafi því haft samband við vin sinn sem hann vissi að gæti veitt sér aðgang að tölvunni sinni og myndi gera ferilskrá, sem hann hafi og gert. Kærandi hafi strax tilkynnt þetta til starfsmanns Vinnumálastofnunar sem hafi boðið honum að gera aðra tilraun til að koma á námskeiðið, kærandi hafi þegið það og fengið boðun. Þegar hann hafi loks fengið boð á annað námskeið hafi líf hans þróast á erfiðan veg. Hann hafi skilið og farið aftur í fíkniefnaneyslu. Kærandi hafi því verið kominn á götuna og ekki haft aðgang að tölvu.  Kærandi hafi átt mjög erfitt á tímum Covid vegna fíknisjúkdóms og atvinnuleysis. Það hafi þó alltaf verið einlægur ásetningur hans að mæta á námskeiðið.

Kæranda hafi tekist að halda sér frá hörðustu neyslunni vorið 2021 og fengið vist á áfangaheimili. Hann hafi á því tímabili sótt um nokkur störf. Ekki hafi kæranda grunað að kerfið myndi segja að hann hafi ekki samþykkt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræði þar sem hann hafi verið í miklum samskiptum við starfsmann Vinnumálastofnunar allan tímann. Kærandi vilji taka það fram að hann sé ekki að setja út á neinn persónulega og hann geri sér fulla grein fyrir því að í tölvupóstum með boðun á námskeiðið hafi verið vísað í lagagrein sem kveði á um skyldu atvinnuleitenda til að mæta á námskeið. Í huga kæranda, sem sé leikmaður og einstaklingur sem hafi verið að gera sitt besta sökum andlegs og líkamslegs ástands, hafi hann ekki gert sér grein fyrir alvarleika málsins. Kærandi hafi aldrei verið varaður við af Vinnumálastofnun að um brot væri að ræða og að hann yrði sviptur lífsviðurværi sínu ef hann ekki mætti. Kærandi hafi talið að hann hafi uppfyllt skilyrði námskeiðsins og sett ferilskrá sína inn á „Mínar síður“ og talið að það hafi verið nóg. Ef kærandi gæti farið til baka í tíma og gert sér grein fyrir því myndi hann gera það.

Kærandi biðji eingöngu um að hægt verði að sýna því skilning að fyrir einstakling sem telji sig vera búinn að uppfylla allt sitt, langi til að vinna og hafi verið í virkri atvinnuleit allan tímann að hann fái þessa fjárhæð greidda sem hann hafi orðið af og gert mikinn óskunda í lífsgæðum hans og þá hafi skuldir og annað hrannast upp.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi síðast sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 12. júlí 2019. Með erindi, dags. 2. október 2019, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans um greiðslu atvinnuleysisbóta hefði verið samþykkt með 100% bótarétti.

Þann 16. mars 2021 hafi kæranda verið sendur tölvupóstur og smáskilaboð í farsíma sinn þar sem kæranda hafi verið bent á að hann væri ekki með vistaða ferilskrá á „Mínum síðum“.  Væri því litið svo á að hann gæti þurft á aðstoð að halda við gerð ferilskrár og yrði hann boðaður á námskeið í ferilskrárgerð. Þann 22. mars 2021 hafi kærandi óskað eftir því að koma á námskeið í ferilskrárgerð.

Með erindi, dags. 24. mars 2021, hafi kærandi verið boðaður á námskeiðið „Atvinnuleitin frá A til Ö“ dagana 7. apríl til 16. apríl 2021. Námskeiðið hafi verið kennt í gegnum fjarfundabúnað Zoom og hafi þátttakendur fengið tæknilega aðstoð frá námskeiðshaldara hjá HH ráðgjöf ef þörf hafi verið á. Í erindi til kæranda hafi verið vakin athygli á 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og að skyldumæting væri á námskeiðið. Kæranda hafi jafnframt verið tjáð að tilkynna bæri öll forföll ekki seinna en samdægurs til stofnunarinnar, annars kynni það að valda missi bótaréttar.

Þann 13. apríl 2021 hafi Vinnumálastofnun borist tölvupóstur frá kæranda þar sem hann hafi sagst ekki hafa aðgang að tölvu og gæti því ekki nýtt sér námskeiðið. Hefði hann vitað að nauðsynlegt væri að hafa aðgang að tölvu hefði hann ekki skráð sig. Í svari stofnunarinnar við erindi kæranda þann sama dag hafi verið vísað til þess að allar upplýsingar um námskeiðið hefðu komið fram í erindum stofnunarinnar 24. og 30. mars 2021. Kæranda hafi einnig verið leiðbeint um mikilvægi þess að hafa ferilskrá skráða á „Mínum síðum“. Kærandi hafi þá upplýst að hann ætlaði sjálfur að útbúa ferilskrá.

Vinnumálastofnun hafi ítrekað mikilvægi ferilskrár í atvinnuleit þann 19. apríl 2021. Kærandi hafi tilkynnt með tölvupósti til stofnunarinnar þann 20. apríl 2021 að hann hefði nú aðgang að tölvu og gæti því sótt námskeiðið. Þann 27. apríl 2021 hafi Vinnumálastofnun boðað kæranda að nýju á námskeið dagana 3. maí til 12. maí 2021. Þar hafi aftur verið vakin athygli á 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, að skyldumæting væri á námskeiðið og tilkynning um forföll þyrfti að berast samdægurs.

Þann 12. maí 2021 hafi borist tölvupóstur frá kæranda þar sem segi að námskeiðið sé að fara á versta veg en síminn hans sé ekki mjög góður þegar komi að fundum á netinu. Hann komist ekki alltaf í tölvu en hann sé að vinna í því að útbúa ferilskrá sem hann muni setja inn síðar í vikunni. Þann 14. maí 2021 hafi kærandi upplýst stofnunina um að ferilskrá væri nú komin inn á „Mínar síður“.

Þann 20. maí 2021 hafi Vinnumálastofnun borist upplýsingar frá námskeiðshaldara þar sem segi að kærandi hefði aldrei mætt og ekki svarað síma.

Með erindi, dags. 16. júní 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að stofnuninni hefðu borist upplýsingar um að hann hefði hafnað vinnumarkaðsúrræði. Óskað hafi verið eftir skriflegri afstöðu kæranda til þess að hann hefði hafnað vinnumarkaðsúrræði, þ.e. vegna ófullnægjandi mætingar á boðað námskeið „Atvinnuleit frá A-Ö í maí 2021“.

Þann 17. júní 2021 hafi borist skýringar kæranda. Hann hafi talið sig þegar hafa upplýst stofnunina um að hann hefði ekki góða aðstöðu til að sækja námskeiðið og hafi hann þegar fengið aðstoð annars staðar frá og sett upp ferilskrá sem hann hafi talið verið ástæðu námskeiðsins. Hann sé mjög virkur í atvinnuleit og geti sýnt fram á það með tölvupóstum.

Vinnumálastofnun hafi fjallað um mál kæranda á fundi þann 1. júlí 2021. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna hafi bótaréttur kæranda verið felldur niður í tvo mánuði sem annars hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Skýringar kæranda hafi ekki verið metnar gildar.

Þann 2. júlí 2021 hafi kærandi óskað eftir endurskoðun ákvörðunar. Kærandi hafi sagst ekki hafa tekið þátt í námskeiðinu sökum tölvuleysis á þeim tíma sem námskeiðið hafi verið haldið. Hann hafi jafnframt talið að honum hefðu verið boðnir tveir kostir, þ.e. að fara á námskeið í ferilskrárgerð eða að skila sjálfur inn ferilskrá sem hann og gerði. Þann 9. júlí hafi Vinnumálastofnun staðfest fyrri ákvörðun sína frá 1. júlí 2021.

Þann 16. ágúst 2021 hafi Vinnumálastofnun hafnað beiðni kæranda um endurupptöku þar sem engin ný gögn hefðu borist í málinu.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Ágreiningur í máli þessu snúi að því hvort rétt hafi verið að beita kæranda viðurlögum á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar vegna fjarveru á áðurnefnt námskeið „Atvinnuleitin frá A til Ö“.

Í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Í a. lið 1. mgr. 13. gr. sé kveðið á um það skilyrði að atvinnuleitandi skuli vera í virkri atvinnuleit. Samkvæmt h-lið 14. gr. felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem standi til boða. Í 13. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir komi einnig fram skylda þess sem teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun bjóði upp á. Ákvæðið sé svohljóðandi:

„Atvinnuleitandi skal fylgja eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum skv. 11. gr. og gera það sem í hans valdi stendur til að bæta vinnufærni sína til þess að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Þar á meðal skal atvinnuleitandi ávallt mæta í viðtöl til ráðgjafa Vinnumálastofnunar skv. 14. gr. og taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum er standa honum til boða. Atvinnuleitandi skal jafnframt tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar.“

Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar segi svo:

„Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, , sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr.“

Í 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Hið sama gildi þegar hinn tryggði hafni vinnumarkaðsúrræði Vinnumálastofnunar og/eða tilkynni ekki forföll innan gefinna tímamarka.

Fyrir liggi að kærandi hafi hvorki mætt á boðuð námskeið dagana 7. apríl til 16. apríl 2021 né 3. maí til 12. maí 2021 sem liður í vinnumarkaðsúrræði Vinnumálastofnunar. Kæranda hafi verið send boðun á námskeið með tölvupósti og í uppgefið símanúmer þann 24. mars 2021 og svo þann 27. apríl 2021 þar sem hann hafi verið boðaður á nýtt námskeið. Auk boðunar á námskeið hafi athygli verið vakin á 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og ítarlegar upplýsingar um fyrirkomulag námskeiðsins svo sem að um skyldumætingu væri að ræða og að tilkynna bæri öll forföll samdægurs. Þá liggi fyrir að kærandi hafi ekki mætt á boðuð námskeið og ekki tilkynnt um forföll innan tímamarka. Í skýringum kæranda til Vinnumálastofnunar segi að hann hafi ekki getað nýtt sér námskeiðin vegna tölvuleysis. Kærandi hafi þó, áður en hann hafi verið boðaður á síðara námskeið, haldið því fram að hann hefði aðgang að tölvu og gæti því sótt námskeiðið. Þá hafi hann talið að tveir valmöguleikar hefðu staðið til boða, þ.e. að mæta á námskeið eða að útbúa ferilskrá sjálfur. Hann hafi talið sig hafa fullnægt skyldu sinni með því að útbúa ferilskrá sjálfur og setja inn á „Mínar síður“.

Hvað varði athugasemdir kæranda um að þátttaka í úrræðinu hafi verið valkvæð beri að nefna að kærandi hafi í tvígang verið boðaður á námskeiðið þar sem fram hafi komið ítarlegar upplýsingar um mætingarskyldu og að forföll skyldi tilkynna samdægurs en annmarkar á framangreindu kynnu að leiða til bótamissis í samræmi við ákvæði 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi því í tvígang verið upplýstur um þau áhrif sem fjarvera og/eða annmarkar á því að tilkynna forföll innan gefinna tímamarka kynnu að hafa.

Í ljósi þess að rík skylda hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og að tilkynna Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem verði á högum þeirra innan gefinna tímamarka sé það mat Vinnumálastofnunar að skýringar sem kærandi hafi fært fram teljist ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og að með því að hafna vinnumarkaðsúrræði hafi hann brugðist skyldum sínum samkvæmt 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 1. júlí 2021 um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 58. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað. Segir þar í 1. mgr. að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur, skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma samkvæmt 6. mgr. 9. gr., nú 7. mgr. 9. gr.,  3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr. laganna.

Í athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars um 1. mgr. 58. gr. að ekki séu tilgreindar sérstakar vinnumarkaðsaðgerðir sem geti valdið því að hinn tryggði þurfi að sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu heldur eigi það við um allar aðgerðir sem hinum tryggða sé boðið að taka þátt í til að auka líkur sínar á að fá vinnu við hæfi. Gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar. Þannig megi ætla að þeim, sem eru tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins, verði boðin þátttaka í vinnumarkaðsúrræðum við hæfi en litið sé svo á að þeim sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist hinn tryggði þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Í gögnum málsins liggur fyrir að kærandi var boðaður á námskeið á vegum Vinnumálastofnunar þar sem hann var ekki með ferilskrá vistaða hjá stofnuninni. Námskeiðið var haldið á tímabilinu 7. til 16. apríl 2021 í gegnum fjarfundabúnað og í tölvupósti frá Vinnumálastofnun, dags. 24. mars 2021, var kæranda greint frá því að um skyldumætingu væri að ræða. Kærandi hafði samband við Vinnumálastofnun þann 13. apríl 2021 og kvaðst hafa byrjað námskeiðið en komist að því að hann hefði ekki aðgang að tölvu. Kærandi óskaði eftir upplýsingum um hvort hann gæti gert eitthvað annað, útvegað sér aðgang að tölvu eða reynt að gera ferilskrá sjálfur. Þann sama dag fékk kærandi svar frá starfsmanni Vinnumálastofnunar  þar sem mikilvægi þess að hafa ferilskrá skráða á „Mínum síðum“ var ítrekað og honum veittar leiðbeiningar um ferilskrárgerð. Þann 19. apríl 2021 var kærandi minntur á mikilvægi þess að hafa ferilskrá vistaða hjá stofnuninni og tekið fram að einnig væri hægt að boða hann á námskeið í gerð ferilskrár. Kærandi var þann 27. apríl 2021 boðaður á námskeið á vegum Vinnumálastofnunar sem haldið var á tímabillinu 3. til 12. maí 2021 í gegnum fjarfundabúnað. Tekið var fram að um skyldumætingu væri að ræða. Kærandi mætti ekki á námskeiðið og hefur borið því við að hafa ekki haft aðgang að tölvu og því ekki getað sótt námskeiðið. Þá hefur kærandi borið því við að hann hafi talið að hann þyrfti annaðhvort að sækja námskeiðið eða útbúa ferilskrá sjálfur. Hann hafi talið sig hafa fullnægt skyldu sinni með því að útbúa ferilskrá sjálfur og setja inn á „Mínar síður“.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur kærandi ekki fært fram viðunandi skýringar sem réttlæta að hann hafi ekki mætt á vinnumarkaðsúrræðið sem honum var gert að sækja. Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 kemur skýrt fram að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins. Ákvæðið er fortakslaust og því er ekki heimilt að beita vægari úrræðum en þar er kveðið á um. Að því virtu er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006, staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. júlí 2021, um að fella niður bótaréttt A, í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta