Hoppa yfir valmynd

Nr. 213/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 8. maí 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 213/2018

í stjórnsýslumálum nr. KNU18020049 og KNU18020050

Kæra [...]og [...]

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 19. febrúar 2018 kærðu [...], fd. [...], ríkisborgarar [...] (hér eftir M) og [...] (hér eftir K), [...], ríkisborgari [...] ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 10. febrúar 2018 um að synja kærendum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærendur krefjast þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að kærendum verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á landi með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi þann 18. júní 2017. Kærendur komu í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 13. og 14. nóvember 2017 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 10. febrúar 2018, synjaði Útlendingastofnun kærendum um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 19. febrúar 2018. Kærunefnd barst greinargerð kærenda ásamt fylgigögnum þann 1. mars 2018. Þá bárust viðbótarathugasemdir frá kærendum þann 16. mars 2018. Þann 30. apríl 2018 fór [...] túlkur yfir upptöku viðtals við kærendur hjá Útlendingastofnun og veitti kærunefnd skýringar á tilteknum atriðum.

Í greinargerð óska kærendur eftir því að þeim verið heimilað að koma fyrir kærunefnd útlendingamála og tjá sig um efni málsins. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa þeim kost á að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni máls, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að þau séu í hættu í heimaríki vegna búsetu sinnar nálægt [...], sjálfstjórnarhéraðs í heimaríki þeirra.Niðurstaða ákvarðana Útlendingastofnunar var sú að kærendur séu ekki flóttamenn og þeim skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi. Kærendum var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kærendum jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð kærenda kemur fram að þau hafi verið búsett í bænum [...] í heimaríki og er byggt á því að hluti bæjarins hafi verið hernuminn af [...]. Svæðið sé átakasvæði og það hafi reynst kærendum mjög erfitt að búa þar, en [...] hermenn hafi rænt fólki á svæðinu og krafist lausnargjalds. Fram kemur að árið 2008 hafi [...] herbúðir verið fyrir utan hús K. Byggja kærendur á því að [...] drepi fólk á svæðinu og að ekki sé öruggt að dvelja við [...]. Greint er frá því að M eigi íbúð í bænum [...] í suðurhluta heimaríkis þeirra, en íbúðin sé nálægt stórri verksmiðju sem gefi frá sér mikla mengun. Af hálfu kærenda er byggt á því að 80% fólks á því svæði látist vegna krabbameins sem hljóti að mega rekja til verksmiðjunnar. Telja kærendur sig ekki geta búið í [...] af þessum ástæðum.

Kærendur kveða handahófskenndar handtökur og manndráp af hálfu [...] stjórnavalda og de facto stjórnvalda á stjórnsýslumörkum hernuminna svæða sé mikið vandamál í [...]. Kærendur hafi flúið frá bænum [...] í heimaríki, sem sé við [...]. Alþjóðlegar skýrslur beri með sér að gaddavírsgirðingar og tilfærsla [...] hafi haft neikvæð áhrif á efnahagsleg og félagsleg réttindi íbúa á svæðinu. Eiginleg stjórnvöld í [...], sem berjist fyrir sjálfstæði héraðsins, standi utan hins [...] stjórnkerfis og njóti stuðnings mörg þúsund [...] hermanna og varða sem haldi til við stjórnsýslumörkin. Mannréttindasamtök og eftirlitsaðilar hafi takmarkaðan aðgang að svæðinu og því séu engar upplýsingar til um raunverulegt ástand á þessu svæði. Þó hafi fréttir borist af manndrápum, mannshvörfum og pyndingum á svæðinu sem tengist átökum á milli [...] hermanna og íbúa af [...] uppruna. Heimildir staðfesti að [...] hermenn stundi að ræna einstaklingum á svæðinu og krefjast svo lausnargjalds til að kúga fé út úr [...].

Kærendur byggja á því að þau falli undir sérstakan þjóðfélagshóp í ljósi þess að þau séu [...] á svæði sem sé undir yfirráðum [...], sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Byggja kærendur á því að [...] hermenn séu í þann mund að fara að hernema bæinn [...] og þá óttist þau að [...] hermenn beiti þau hótunum eða haldi þeim föngnum þar til þau greiði lausnargjald, sem þau hafi ekki efni á. Telja kærendur að stjórnvöld og lögregla geti ekki veitt þeim aðstoð. Einstaklingar á svæðinu njóti verndar [...] hermanna sem beiti fólk af [...] uppruna ofsóknum. Í greinargerð vísar kærendur til frétta og myndskeiða af ástandinu í heimaríki þeirra.

Kærendur byggja á því að með því að senda þau til heimaríkis yrði brotið gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, en samkvæmt reglunni megi ekki senda útlending til svæðis þar sem hann hafi ástæðu til að óttast ofsóknir eða sé í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þótt ákveðnar framfarir hafi orðið í löggæslu- og spillingarmálum í heimaríki kærenda á undanförnum árum bendi heimildir ennþá til þess að einstaklingar af [...] uppruna búi við ástand skertra mannréttinda og eigi í erfiðleikum með að snúa til heimasvæða sinna.

Í greinargerð vísa kærendur til þess að í hinni kærðu ákvörðun hafi Útlendingastofnun talið að ástandi íbúa á stjórnsýslumörkum [...] yrði ekki jafnað til ofsókna. Kærendur mótmæla þessari staðhæfingu enda sé mikill fjöldi heimilda sem staðfesti að [...] á svæðinu verði fyrir ofsóknum. Þótt kærendur hafi ekki sjálf orðið fyrir ofsóknum hafi þau ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu [...] yfirvalda. Þá mótmæla kærendur því mati Útlendingastofnunar að þau geti leitað til yfirvalda í heimaríki, telji þau hættu steðja að þeim.

Kærendur krefjast þess til vara að þeim verði veitt viðbótarvernd, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, en samkvæmt ákvæðinu teljist útlendingur vera flóttamaður ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi hættu á dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalandsins. Byggja kærendur kröfuna á þeim aðstæðum sem raktar hafa verið. Þá byggja kærendur á því að ekki sé hægt að ætlast til þess að þau leiti ásjár yfirvalda í heimaríki vegna ofsókna sem þau kunna að verða fyrir, enda sé svæðið í raun ekki yfirráðasvæði landsins. Þrautavarakrafa kærenda er einnig reist á framangreindum aðstæðum við [...]. [...] hafi innlimað mikið land á stjórnsýslumörkunum og hafi [...] yfirvöldum ekki tekist að hafa stjórn á ástandinu. Byggja kærendur á því að lögregla í heimaríki þeirra geti lítið gert þar sem um átakasvæði sé að ræða sem sé undir stjórn [...] hersins. Kærendur vísa einnig til þess að þau telji sig ekki geta búið í bænum [...] vegna verksmiðjumengunar sem sé hættuleg heilsu fólks. Þá telji þau að Útlendingastofnun hafi ekki rannsakað þetta atriði málsins í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga.

Kærendur byggja á því að þau geti ekki flutt innanlands til að komast undan ofsóknum, enda yrði mjög erfitt fyrir þau að flytja og að þau væru ekki örugg annars staðar í landinu. Þá sé ljóst að eiginleg stjórnvöld á því svæði sem þau búi á standi að baki ofsóknunum og því ekki hægt að búast við að kærendur geti lifað öruggu lífi með því að setjast að á öðrum stað í heimaríki.

[...]

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglgerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærendur framvísað [...] kennivottorðum. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var talið að kærendur hefðu ekki sannað auðkenni sitt með fullnægjandi hætti. Hins vegar hefði ekkert komið fram í málinu sem gæfi tilefni til að draga þjóðerni kærenda í efa og var því lagt til grundvallar að þau væru frá [...]. Þótt kærendur hafi ekki lagt fram vegabréf verður, með vísan til kennivottorða og framburða þeirra í viðtölum hjá Útlendingastofnun, lagt til grundvallar að þau sé ríkisborgarar [...].

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[...]

[...].

Þann [...] setti Útlendingastofnun [...] á lista stofnunarinnar yfir örugg upprunaríki.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að stjórnarskrá [...] kveði á um jafnrétti allra fyrir lögunum og mismunun á grundvelli kynþáttar, litarháttar, tungumáls, kyns, trúar- og lífsskoðana, stjórnmálaskoðana, þjóðernis, félagslegrar stöðu eða tengsla, uppruna, búsetu eða efnahagslegrar stöðu sé refsiverð skv. refsilöggjöf landsins. Umboðsmaður (e. [...])) hafi verið starfandi í [...] frá árinu [...]. Umboðsmaðurinn hafi eftirlit með mannréttindum og frelsi borgaranna í [...] innan lögsögu ríkisins. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. stjórnarskrár [...] gangi alþjóðasamningar, sem fullgiltir hafi verið af hálfu [...], framar landslögum. Svo framarlega sem slíkir samningar gangi ekki gegn stjórnarskrá landsins sé hægt að beita þeim sem hluta af almennri löggjöf.

[...] er svæði, um það bil [...] ferkílómetrar á stærð, sem staðsett er við austurhluta [...]. Samkvæmt ofangreindum gögnum er staða þess að þjóðarétti umdeild en það mun vera eins konar sjálfstjórnarhérað í [...]. Fram kemur að stjórnvöld í [...] hafi lýst yfir sjálfstæði þess í kjölfar stríðsátaka á svæðinu árin [...] en að örfá ríki heims hafi viðurkennt sjálfstæðisyfirlýsinguna og að yfirvöld í [...] líti á svæðið sem hluta af yfirráðasvæði landsins. Greint er frá því að eftir átök milli [...] og [...] árið [...], einkum vegna [...], hafi stjórnvöld í [...] og [...] gert með sér ýmsa samninga um stjórnmála- og hernaðarlega samvinnu. Samkvæmt gögnunum eru stjórnsýslumörk [...] mörkuð af girðingum sem enn sé verið að reisa.

Árið [...] tóku gildi lög í [...] um hernumin svæði [...]. Í formála þeirra laga er kveðið á um að [...] sé fullvalda, sameinað og óskiptanlegt ríki og viðvera vopnaðra hópa innan yfirráðasvæðis þess án skýrs og sannanlegs samþykkis [...] yfirvalda feli í sér ólöglegt hernám á svæði fullvalda ríkis samkvæmt Haag reglugerð frá 1907, Genfarsáttmála frá 1949 og viðmiðum og venjum alþjóðalaga. Í 1. gr. laganna kemur m.a. fram að markmið þeirra sé að skilgreina stöðu hinna hernumdu svæða og koma yfir þau lagalegum böndum.

Gögnin bera með sér að [...] hermenn og verðir hafi haft aðsetur á stjórnsýslumörkum [...] frá því að átök áttu sér stað árið [...], en að vopnahlé gildi á svæðinu. Í gögnunum er greint frá því að árið 2016 hafi vörður skotið [...] til bana í bænum [...] við stjórnsýslumörk [...]. [...] dómstóll dæmdi vörðinn til 12 ára fangelsisvistar en dómurinn var kveðinn upp að honum fjarstöddum. Fram kemur að [...] stjórnvöld og stjórnvöld í [...] hafi átt í viðræðum vegna málsins. Í gögnunum kemur einnig fram að reglulega hafi borist fregnir af því að [...] verðir á stjórnsýslumörkunum hafi farið inná yfirráðasvæði [...], numið fólk á brott og fært í varðhald þar sem því hafi verið haldið í [...] herstöð við bágar aðstæður. Opinberar tölur í [...] benda til þess að hundruð manna hafi verið settir í varðhald við stjórnsýslumörk [...] undanfarin ár.

Ferðafrelsi fólks í gegnum stjórnsýslumörk [...] er háð miklum takmörkunum. Þá bera gögnin með sér að fjöldi fólks hafi verið hnepptur í varðhald við för yfir stjórnsýslumörkin og að [...] verðir hafi að jafnaði sektað viðkomandi einstaklinga og í framhaldinu sleppt úr haldi. Árið 2017 kynntu stjórnvöld í [...] áætlun um bætt samskipti og friðsamlega lausn vegna aðstæðna í [...] og [...]. Í áætluninni er stefnt að ýmsum markmiðum, m.a. að draga úr spennu í samskiptum við [...] yfirvöld, ná sáttum við [...] og [...] og meta þörf fólks á átakasvæðum fyrir aðstoð.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðsambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Umsókn kærenda um alþjóðlega vernd er byggð á því að þau sé búsett við átakasvæði í heimaríki og að þau hafi, sem [...] ríkisborgarar, ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu [...] hermanna sem standi vörð á stjórnsýslumörkum [...].

Í viðtali við M hjá Útlendingastofnun kvað hann ástandið í heimaríki vera óbærilegt enda væri landið hernumið af [...]. Hann og K hafi búið í bænum [...] í grennd við stjórnsýslumörk [...], öðru megin við á sem skilji að [...] og [...]. Hinum megin við ána hafi [...] haft aðsetur og að þeir hafi sífellt fært sig innar í landið. Greindi M frá því að [...] beiti ofbeldi á stjórnsýslumörkunum og að stríðsástand ríki á svæðinu. Í viðtali Útlendingastofnunar við K kom fram að hún og M væru í hættu þar sem þau byggju við átakasvæði í heimaríki þeirra. Kvaðst K óttast um líf sitt þar sem [...] á svæðinu væru að drepa fólk. Þá rændu þeir fólki og krefðust lausnargjalds. Í viðtalinu kom fram hjá K að tilraun hafi verið gerð til að ræna bróður hennar en að hann hafi lagt á flótta og komist undan.

Af þeim gögnum og upplýsingum sem kærunefnd hefur kynnt sér í málinu verður ráðið að stjórnsýslumörk [...] liggi skammt norðan við ána [...]. Hefur K lagt fram gagn frá yfirvöldum í heimaríki þar sem staðfest er að hún hafi verið búsett í bænum [...] frá 1989 til 2017, en bærinn mun vera staðsettur í um eins kílómetra fjarlægð sunnan við ánna [...]. Verður því lagt til grundvallar að kærendur séu búsett á yfirráðasvæði [...] stjórnvalda í nálægð við stjórnsýslumörk [...]. Eins og fram hefur komið gefa upplýsingar um aðstæður í heimaríki kærenda til kynna að spenna ríki við og á stjórnsýslumörkunum, án þess þó að átök eigi sér stað. Þó renna gögnin stoðum undir þá frásögn kærenda að [...] verðir eða hermenn á stjórnsýslumörkunum hafi á síðustu árum farið inn á svæði sem sé undir stjórn yfirvalda í [...] og fært einstaklinga þar í varðhald. Benda gögnin til þess að fleiri hundruð manns hafi verið færðir í varðhald undanfarin ár þar sem þeim sé haldið við bágar aðstæður.

Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að leiddar hafi verið líkur að því að kærendur hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu [...] varða eða hermanna á stjórnsýslumörkum [...] sem gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Ótta kærenda við ofsóknir megi rekja til þjóðernis kærenda sem [...] ríkisborgara, sbr. c-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd telur að þó þeir aðilar sem valdir séu að þeim ofsóknum sem kærendur eiga á hættu á að verða fyrir teljist ekki vera á vegum [...] stjórnvalda hafi á nægilega skýran hátt verið sýnt fram á að [...] ríkið hafi ekki eða geti ekki veitt kærendum vernd, sbr. c. lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Að þessu virtu er það mat kærunefndar að kærendur uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir veitingu alþjóðlegrar verndar. Kemur því næst til athugunar hvort innri flutningur sé tækt úrræði fyrir kærendur.

Mat á möguleika á flutningi innanlands

Í 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga segir að ef útlendingur getur fengið raunverulega vernd í öðrum landshluta heimalands síns en hann flúði frá, viðkomandi getur ferðast þangað á öruggan og löglegan hátt og hægt er með sanngirni að ætlast til þess af viðkomandi að hann setjist að á því svæði getur verið að 1. og 2. mgr. eigi ekki við í þeim tilvikum og hann teljist ekki flóttamaður. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um útlendinga segir m.a. að beiting ákvæðisins geti aðeins komið til sem hluti af mati á því hvort viðkomandi einstaklingur teljist flóttamaður og geti því ekki verið grundvöllur fyrir synjun á því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. Niðurstaða um hvort útlendingur geti fengið raunverulega vernd í öðrum hluta heimaríkis geti aðeins verið byggð á einstaklingsbundnu mati á persónulegum aðstæðum útlendingsins og aðstæðum sem séu í því ríki. Við mat á því hvort hægt sé með sanngirni að ætlast til þess að útlendingur setjist að á því svæði sem talið er öruggt samkvæmt ákvæði þessu skuli tekið tillit til ýmissa þátta, svo sem aldurs, kyns, heilsu, fjölskylduaðstæðna, trúar, menningar sem og möguleika viðkomandi útlendings á vinnu eða menntun. Við mat samkvæmt ákvæðinu skuli m.a. höfð hliðsjón af leiðbeiningum flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (Guidelines on International Protection: „Internal Flight or Relocation Alternative“ within the Context og Article 1A(2) of the 1951 Convention and/or 1967 Protocol relating to the Status of Refugees, frá 23. júlí 2003).

Í leiðbeiningunum, sem varða möguleika á flutningi innanlands þegar einstaklingur hefur flúið heimaríki af ástæðuríkum ótta við ofsóknir, er lagt til grundvallar að mat á því hvort möguleiki sé á að einstaklingur geti flust búferlum til annars svæðis í heimaríki sé tvíþætt. Annars vegar verði að kanna hvort flutningur innanlands sé raunhæft úrræði. Kemur í þessu sambandi einkum til athugunar hvort það svæði sem lagt er til að viðkomandi flytjist til sé aðgengilegt á öruggan og löglegan hátt og hvort flutningur hans þangað skapi hættu á að hann verði fyrir ofsóknum eða alvarlegum skaða. Hins vegar beri að kanna hvort viðkomandi geti, með hliðsjón af aðstæðum í heimaríki hans, lifað tiltölulega eðlilegu lífi án þess að standa frammi fyrir óþarfa erfiðleikum. Við þann þátt matsins verður m.a. að horfa til persónulegra aðstæðna viðkomandi, t.a.m. félags- og efnahagslegra aðstæðna á því svæði sem lagt er til. Í leiðbeiningunum segir m.a. um síðastnefnt atriði að það sé ósanngjarnt að ætlast til þess að lífsviðurværi einstaklings verði lægra en það sem talist geti viðunandi eða að viðkomandi búi við eymd.

Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér kemur fram að sú spenna sem ríki í [...] eftir átök þess við [...] árið [...] sé staðbundin við svæðin [...] og [...] og svæði í næsta nágrenni við stjórnsýslumörk þeirra við [...]. Á hinn bóginn geti [...] yfirvöld almennt verndað grundvallarmannréttindi ríkisborgara sinna gagnvart [...] varðmönnum og hermönnum á öðrum svæðum í [...]. Að mati kærunefndar bendir ekkert til þess að önnur svæði í heimaríki kærenda, sem eru undir stjórn [...] yfirvalda, séu þeim ekki aðgengileg á raunhæfan, öruggan og löglegan hátt.

Nefndin telur því að flutningur kærenda innanlands til slíkra svæða sé ekki til þess fallinn að skapa þeim hættu á að verða fyrir ofsóknum eða alvarlegum skaða. Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að flutningur innanlands komi til álita í máli kærenda. Að uppfylltu fyrra skilyrði við mat á möguleika á flutningi innanlands verður því næst að taka afstöðu til þess hvort unnt sé, með hliðsjón af einstaklingsbundnum aðstæðum kærenda og aðstæðum þeirra í heimaríki, að ætlast með sanngirni til þess að kærendur setjist að á öðru svæði í [...].

Kærendur eru [...] ára og [...] ára gömul og benda gögn málsins ekki til annars en að þau séu við ágæta heilsu. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst M vera lögfræðimenntaður. Í viðtali greindi M einnig frá því að hann ætti hús með tveimur íbúðum í bænum [...] í heimaríki og íbúð í bænum [...]. Mun [...] vera staðsettur í suð- austurhluta [...] og [...] í austurhluta landsins. Aðspurður hvort hann teldi sig geta búið í [...] kom fram hjá M að húsið væri nálægt efnaverksmiðju og að hann gæti ekki búið þar vegna mengunar. Þá væri húsið ekki í góðu ástandi. Í viðtali við K kvað hún ómögulegt að búa í [...] vegna mengunar sem væri skaðleg heilsu fólks. Af gögnum málsins má ráða að móðir og systir M séu búsett í [...]. Í greinargerð kærenda kemur fram að hús M sé í eldri hluta bæjarins. Þá segir að um 80% fólks á svæðinu láti lífið af völdum krabbameins sem hljóti að vera að rekja til fyrrnefndrar verksmiðju og að faðir og afi M hafi látist vegna krabbameins.

Upplýsingar sem kærunefnd hefur kynnt sér gefa til kynna að um 130 þúsund manns séu búsettir í [...] og að nokkur loftmengun sé í bænum vegna málm- og efnaiðnaðar á svæðinu. Á hinn bóginn verður ekki talið að aðstæður í [...] að þessu leyti leiði til þess að ósanngjarnt sé að ætlast til þess að kærendur flytjist þangað. Þá verður horft til þess að kærendur eru tiltölulega ung að árum, við ágæta heilsu, hafa aðgang að húsnæði í [...] og að fjölskyldumeðlimir M eru búsettir þar. Er það mat kærunefndar að kærendur muni ekki standa frammi fyrir óþarfa erfiðleikum í heimaríki flytjist þau til [...] og að hægt sé með sanngirni að ætlast til þess að þau setjist að þar. Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að skilyrði 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga um flutning innanlands séu uppfyllt og að kærendur teljist því ekki flóttamenn.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærendur teljist ekki flóttamenn eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 4. mgr. 37. gr. og 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis, má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við 74. gr. í greinargerð með frumvarpi til laga um útlendinga segir m.a. að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Kærendur byggja kröfu um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á því að þau óttist að verða fyrir líkamlegu ofbeldi eða vera rænt af [...] hermönnum og að hvorki lögregla né yfirvöld í heimaríki þeirra geti verndað þau gegn ágangi [...]. Þá telja kærendur sig ekki geta búið í íbúð sem M á í bænum [...] vegna verksmiðjumengunar sem sé hættuleg heilsu fólks.

Með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum að baki 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og í ljósi þess að kærendur hafa raunhæfan og sanngjarnan möguleika á að flytjast til annarra landshluta innanlands og njóta þar verndar stjórnvalda er það mat kærunefndar að aðstæður hans teljist ekki uppfylla skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis af mannúðarsjónarmiðum.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

[...]. Í málinu hafa engar frekari upplýsingar verið lagðar fram um heilsufar kærenda og benda gögn málsins að öðru leyti til þess að þau séu við ágæta heilsu.

Þegar upplýsingar um heimaríki kærenda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að þau teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kærenda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kærendum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kærenda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í máli kærenda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kærenda þangað.

Athugasemd við málsmeðferð Útlendingastofnunar

Í greinargerð kærenda eru athugasemdir við framkvæmd viðtala við kærendur hjá Útlendingastofnun. Í greinargerð kemur fram sú afstaða kærenda að sá aðili sem hafi séð um að túlka viðtöl Útlendingastofnunar við þau hafi ekki staðið sig með fullnægjandi hætti. Í endurriti af viðtali við K segi að bróður hennar hafi verið rænt við stjórnsýslumörk [...] í heimaríki hennar og náð að flýja, en í greinargerð kærenda segir að þessi atburður hafi hins vegar aldrei gerst og stafi af misskilningi milli K og túlksins. Í viðbótarathugasemdum kærenda segir að í viðtölum hjá Útlendingastofnun hafi túlkurinn margoft gripið fram í fyrir kærendum og farið rangt með nafn K. Þá hafi enskukunnátta túlksins ekki verið fullnægjandi. Framkvæmd viðtalsins hafi ekki verið í samræmi við 2. mgr. 28. gr. laga um útlendinga.

Vegna framangreindra athugasemda kærenda óskaði kærunefnd eftir því að [...] túlkur færi yfir viðtal Útlendingastofnunar við K og legði mat á hvort misræmi væri milli svara K í viðtalinu og þess sem haft var eftir henni í endurriti viðtalsins. Hvað varðar athugasemdir kærenda er lúta að bróður K kom fram hjá túlki að framburður K í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi verið á þá leið að tilraun hafi verið gerð til að ræna bróður hennar en að hann hafi komist undan. Bróður hennar hafi því ekki verið rænt, eins og fram komi í endurriti viðtalsins. Er því misræmi á milli frásagnar K og endurrits viðtalsins að því er þetta atriði snertir en eins og að framan greinir hafði kærunefnd hliðsjón af þeim skýringum við úrlausn málsins. Að öðru leyti var það mat túlks að endurrit af viðtali við K gæfi rétta mynd af þeim svörum sem hún veitti í viðtalinu og að túlkaþjónustu þar hafi ekki verið ábótavant. Í því ljósi telur kærunefnd ekki tilefni til að gera athugasemd við framkvæmd viðtals við kærendur hjá Útlendingastofnun.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærendur komu hingað til lands 17. júní 2017 og sóttu um alþjóðlega vernd 18. júní sama ár. Eins og að framan greinir hefur umsókn þeirra um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hafa þau því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn þeirra um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kærendum því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda höfðu þau verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsókna þeirra hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærunefnd telur með vísan til atvika máls að rétt sé að vísa kærendum frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Kærendur eru við ágæta heilsu og koma frá öruggu upprunaríki. Í ljósi þess sem rakið hefur verið um aðstæður kærenda, [...], er það mat kærunefndar, með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, að 30 dagar teljist hæfilegur frestur til að yfirgefa landið. Lagt er fyrir kærendur að yfirgefa landið innan 30 daga frá birtingu úrskurðar þessa.

Kærendum er leiðbeint um að í 5. mgr. 104. gr. laga um útlendinga segir að útlendingur skuli tilkynna Útlendingastofnun um fyrirhugaða brottför sína og leggja fram sönnun þess að hann hafi yfirgefið landið. Þar segir jafnframt að ef útlendingurinn fer ekki úr landi svo sem fyrir hann er lagt eða líkur eru á að hann muni ekki fara sjálfviljugur má lögregla færa hann úr landi. Athygli kærenda er vakin á því að ef þau yfirgefa ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa þeim. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Kærendur skulu yfirgefa landið innan 30 daga frá birtingu úrskurðar þessa.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinna kærðu ákvarðana þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda.

Athygli er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda eru staðfestar. Lagt er fyrir kærendur að hverfa af landi brott. Kærendum er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug.

The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellant and are affirmed. The appellants are requested to leave the country. The appellants have 30 days to leave the country voluntarily.

 

Anna Tryggvadóttir

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                           Ívar Örn Ívarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta