Hoppa yfir valmynd

Nr. 351/2018

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 17. ágúst 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 351/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18040049

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 25. apríl 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...], og vera ríkisborgari Srí Lanka (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. apríl 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

  1. Málsatvik og málsmeðferð

    Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 17. mars 2017. Með ákvörðun, dags. 24. maí s.á., komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi skyldi endursendur til Ítalíu á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 14. júní 2017. Kærunefnd felldi ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi með úrskurði dags. 15. ágúst 2017 og lagði fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda fyrir að nýju.

    Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 1. mars 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 4. apríl 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 25. apríl 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 16. maí 2018 ásamt fylgigögnum. Frekari gögn bárust frá kæranda þann 22. maí og 15. júní s.á. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 19. júlí 2018 ásamt talsmanni á vegum Rauða krossins. Frekari gögn bárust frá kæranda þann 23. júlí 2018. Þá bárust viðbótarathugasemdir kæranda þann 1. ágúst 2018, ásamt fylgigögnum.

  2. Ákvörðun Útlendingastofnunar

    Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun byggði hann umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna ofsókna yfirvalda sökum uppruna hans, þátttöku hans í mótmælum gegn stjórnvöldum og aðildar bróður hans að samtökum Tamil Tígra (LTTE-samtökin).

    Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

    Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. Með ákvörðuninni var kæranda veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið.

     

  3. Málsástæður og rök kæranda

    Í greinargerð kæranda kemur fram að í efnisviðtali hjá Útlendingastofnun hafi hann greint frá því að hann sé fæddur og uppalinn í bænum [...]í Kilinochi héraði í Srí Lanka. Kærandi kvaðst vera af þjóðarbroti Tamíla og sem slíkur tilheyri hann minnihlutahópi í landinu. Þá aðhyllist hann hindúatrú. Ástæða fyrir flótta hans frá heimaríki sé sú að öryggissveitir stjórnvalda í Srí Lanka leiti hans og muni herinn færa hann í pyndingarbúðir og jafnvel myrða hann snúi hann aftur til landsins.

     

    Þá hafi kærandi greint frá því að annar bræðra hans hafi verið meðlimur LTTE-samtakanna (e. The Liberation Tigers of Tamil Eleam) í heimaríki og unnið við að afla upplýsinga fyrir samtökin. Að stríðinu loknu hafi bróðir hans ekki gefið sig fram við stjórnarher landsins líkt og áskilið hafi verið að meðlimir samtakanna gerðu. Fyrrum félagi hans í samtökunum hafi hins vegar vísað á bróður kæranda og í kjölfarið hafi bróðirinn verið handtekinn af hernum og færður í varðhald hersins þar sem honum hafi verið haldið í þrjá mánuði, án þess að fá að hitta fjölskyldu sína eða lögfræðing, og hafi sætt pyndingum. Fjölskylda kæranda hafi loks náð að borga bróður hans úr varðhaldi og ráðið smyglara til að aðstoða hann við að flýja til Þýskalands.

    Í stríðinu hafi LTTE-samtökin notað hús kæranda og fjölskyldu hans sem vopnabúr. Eftir stríðslok hafi herinn fundið mikið magn af vopnum í húsinu og gert ráð fyrir að öll fjölskyldan væri með sterk tengsl við LTTE-samtökin. Í kjölfarið hafi herinn tekið yfir hús fjölskyldunnar og neitað að yfirgefa það. Kærandi kvað fjölskylduna hafa mútað hernum til að forðast vandamál vegna þessa. Þegar herinn hafi frétt af því að bróðir hans hafi flúið til Evrópu hafi hermenn farið að venja komur sínar á heimili kæranda og spurst ítrekað fyrir um bróðurinn. Þá hafi herinn handtekið elsta bróður kæranda og hafi ekkert spurst til hans eftir það. Þetta hafi verið árið 2013 og séu engar upplýsingar fyrir hendi um hvarf elsta bróður hans. Kærandi og móðir hans hafi reynt að afla upplýsinga frá hernum um bróður hans en herinn hafi ekki viljað láta þeim þær í té. Í kjölfarið hafi þau ekki séð annan kost en að taka þátt í mótmælum gegn mannshvörfum í landinu. Hafi öryggissveitir stjórnarhersins tekið mótmælin upp á myndband og hafi kærandi sést á þeim. Kærandi hafi síðan árið 2015 verið hnepptur í varðhald þar sem hann hafi sætt pyndingum. Í því varðhaldi hafi kærandi verið þvingaður til að skrifa undir játningaryfirlýsingu á tungumálinu sinhali. Kærandi kvaðst hafa spurt um hvað játningin fæli í sér og hafi uppskorið barsmíðar á höndina fyrir vikið og fingurbrotnað. Um hafi verið að ræða játningu þess efnis að kærandi hafi verið meðlimur LTTE-samtakanna og hafi kærandi ekki þorað öðru en að skrifa undir. Kærandi hafi ekki sloppið úr varðhaldinu fyrr en móðir hans hafi greitt fyrir lausn hans. Þau hafi í kjölfarið farið úr heimabæ sínum og verið í felum í fjóra til fimm mánuði. Þegar hann hafi verið í felum hafi hann orðið vitni að því að vinur hans hafi verið numinn á brott af mönnum á hvítum sendibíl. Kærandi kvaðst hafa haft samband við smyglara strax daginn eftir atvikið og flúið landið. Í viðtalinu hafi kærandi einnig greint frá því að hann telji að stjórnvöld í heimaríki séu að reyna að eyða þjóðarbroti Tamíla í landinu. Tamílar verði fyrir pyndingum og séu numdir á brott óháð því hvort þeir séu með raunveruleg tengsl við LTTE-samtökin eða ekki. Verði Tamílar fyrir mismunun sem feli m.a. í sér að Sinhalar taki yfir eignir þeirra, svo sem ræktunarsvæði og fiskimið og þá sé opinbera tungumálinu sinhala þvingað upp á Tamíla. Kærandi óttist herinn í heimaríki þar sem hann sé undir boðvaldi stjórnvalda og óttist kærandi að hann verði látinn hverfa eða myrtur snúi hann aftur til landsins. Líf hans sé í hættu vegna Tamíl-uppruna hans sem og tengsla við LTTE-samtökin. Þá hafi kærandi greint frá því aðspurður að hann geti ekki leitað aðstoðar hjá lögregluyfirvöldum þar sem að þau myndu láta herinn fá slíkar upplýsingar. Þá kvaðst kærandi ekki geta búið á öðrum stað í heimaríki. Hann þurfi að skrá sig inn í landið en herinn hafi tekið af honum öll hans persónuskilríki og gögn og hann þurfi því að búa í felum í heimaríki.

     

    Í greinargerð kæranda er saga Srí Lanka stuttlega rakin en hún hafi m.a. einkennst af langvinnri og flókinni spennu á milli ólíkra þjóðarbrota, einkum milli Sinhala sem séu í meirihluta og Tamíla sem séu minnihlutahópur í landinu. Árið 1983 hafi brotist út borgarastyrjöld í Srí Lanka milli framangreindra hópa þar sem hersveitir Tamíla, LTTE-samtökin hafi sóst eftir stofnun sjálfstæðs ríkis Tamíla í norðurhluta landsins. Hafi átökin staðið yfir í 25 ár og lokið í maí 2009. Enn ríki mikil spenna milli framangreindra þjóðarbrota og byggist samfélagið á djúpri misskiptingu.

    Þá er í greinargerð kæranda ítarleg umfjöllun um Tamíla og er vísað í ýmsar skýrslur alþjóðlegra stofnana. Fram komi m.a. í nýrri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins að Tamílar greini enn frá mismunun sem þeir sæti er varði m.a. aðgang að menntun á háskólastigi, atvinnu hjá hinu opinbera, húsnæði, heilbrigðisþjónustu og notkun á eigin tungumáli. Þá komi fram í nýrri ársskýrslu Amnesty International að löggæsluyfirvöld hafi beitt tamílska minnihlutann í landinu, einkum fyrrum meðlimi LTTE-samtakanna, áframhaldandi mismunun og áreitni. Vísað er m.a. til þess að fram komi í skýrslu sérstaks mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna um málefni minnihlutahópa að nær allar opinberar stofnanir í landinu notist einungis við sinhala í munnlegum og skriflegum samskiptum. Þá sé yfirgnæfandi hluti ríkishersveita enn staðsettur í norður- og austurhluta landsins þar sem stærstur hlutur Tamíla búi.

    Jafnframt er í greinargerð ítarleg umfjöllun um pyndingar, mannshvörf og spillingu sem eigi sér stað í landinu. Fram komi í nýjustu skýrslu Amnesty International að mannshvörf, aftökur án aðkomu dómsstóla, pyndingar og önnur alvarleg mannréttindabrot viðgangist í landinu í skjóli refsileysis. Þá hafi stjórnvöld á síðasta ári haldið áfram frelsissviptingum á Tamílum sem grunaðir séu um tengsl við LTTE-samtökin. Framangreindar athafnir séu framkvæmdar á grundvelli laga um varnir gegn hryðjuverkum (e. The Prevention of Terrorism Act) en sú löggjöf veiti stjórnvöldum rúma heimild til frelsissviptinga og setji sönnunarbyrði um pyndingar og aðra ómannúðlega meðferð á þá einstaklinga sem haldi fram slíkri meðferð. Þá sé spilling alvarlegt vandamál í Srí Lanka og sé landið í 91. sæti af 180 á lista Transparency International fyrir árið 2017. Þá hafi ýmsar mannréttindanefndir og alþjóðastofnanir lýst yfir áhyggjum af viðvarandi beitingu löggæsluyfirvalda á pyndingum, einkum pyndingum á einstaklingum sem grunaðir séu um tengsl við LTTE-samtökin.

    Kærandi krefst þess aðallega að felld verði úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans og honum verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi sem flóttamaður, með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga enda sæti hann ofsóknum í heimaríki sínu og séu grundvallarmannréttindi hans sannarlega ekki tryggð af hálfu þarlendra stjórnvalda. Kærandi hafi orðið fyrir ofsóknum í heimaríki vegna uppruna síns sem Tamíli og vegna tengsla hans við LTTE-samtökin, bæði í gegnum bróður hans sem hafi verið meðlimur í samtökunum og vegna þess að kærandi hafi verið settur í varðhald af stjórnvöldum og þvingaður til að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að hann hafi verið meðlimur í LTTE-samtökunum. Auk þess hafi hús kæranda og fjölskyldu hans verið notað sem vopnabúr fyrir LTTE-samtökin í borgarastyrjöldinni.

    Kærandi vísar í skilgreiningu í handbók Flóttamannastofnunarinnar á hugtakinu ofsóknir. Þá megi finna nánari skilgreiningu á hugtakinu í 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til þess sem rakið hafi verið í greinargerð um framkomu stjórnvalda í Srí Lanka í garð Tamíla og hvernig hann og fjölskylda hans hafi orðið fyrir ofsóknum og hvað hafi falist í þeim. Kærandi telur að upplýsingar um aðstæður í heimaríki hans sem raktar hafi verið í greinargerð styðji frásögn hans um ástæður flótta hans frá heimaríki og hvaða atvik urðu til þess að hann hafi ákveðið að flýja heimaríki sitt. Kærandi telur að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga um ofsóknir vegna þjóðernis en í c-lið 3. mgr. 38. gr. laganna komi fram skilgreining á hugtakinu.

    Þá telur kærandi að hann uppfylli jafnframt skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga um ofsóknir vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi en í d-lið 3. mgr. 38. gr. laganna segi að þjóðfélagshópur vísi einkum til hóps fólks sem umfram það að sæta ofsóknum hafi áþekkan uppruna, bakgrunn, venjur og félagslega aðstöðu eða hafi sameiginleg einkenni og lífsskoðanir. Auk þess að tilheyra minnihlutaþjóðarbroti Tamíla í heimaríki þá ætli þarlend stjórnvöld kæranda að vera fyrrum meðlimur LTTE-samtakanna og hafi þvingað hann með pyndingum að skrifa undir játningu þess efnis.

    Þá telur kærandi að hann uppfylli enn fremur skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga um ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana en í e-lið 3. mgr. 38. gr. laganna greini að stjórnmálaskoðanir vísi einkum til skoðana á stefnumótun og aðferðum stjórnvalda sem kunni að beita ofsóknum án tillits til þess hvort viðkomandi hafi aðhafst eitthvað til að tjá skoðanir sínar. Vísar kærandi í ítarlega skilgreiningu í handbók um réttarstöðu flóttamanna á því hvað geti falist í ofsóknum á grundvelli stjórnmálaskoðana. Ljóst sé af þeim atburðum sem komið hafi fyrir kæranda að stjórnvöld í heimaríki ætli að hann hafi verið meðlimur í LTTE-samtökunum og hafi þar af leiðandi skoðanir sem feli í sér gagnrýni á stefnu og aðferðir stjórnvalda sem séu þeim ekki þóknanlegar.

    Í greinargerð er þá bent á að orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að verða ofsóttur“ gegni lykilhlutverki í skilgreiningu á flóttamannahugtakinu og því sé mikilvægt að gera grein fyrir því hvað felist í hugtakinu „ótti“ og undir hvaða kringumstæðum megi telja þann ótta „ástæðuríkan“. Fram komi í handbók Flóttamannastofnunar nánari túlkun á hugtakinu „ástæðuríkur ótti“ og hvernig ákvarða skuli stöðu flóttamanns og hvaða sjónarmið skuli leggja til grundvallar við slíka ákvörðun. Fram komi m.a. að orðið „ótti“ eigi ekki aðeins við um þá sem hafi í raun verið ofsóttir, heldur einnig þá sem flýi aðstæður þar sem hætta sé á ofsóknum. Í þessu samhengi sé áréttað að kærandi hafi sjálfur þurft að þola ofsóknir í formi pyndinga, ofbeldis og eftirlits af hálfu yfirvalda í heimaríki sínu. Þá hafi bróðir kæranda sem hafi ekki verið meðlimur í LTTE-samtökunum verið numinn á brott af hernum árið 2013. Auk þess hafi vinur kæranda verið numinn á brott og síðar fundist látinn. Jafnframt liggi fyrir gögn sem staðfesti að faðir kæranda hafi verið myrtur af hernum þegar kærandi var barn.

    Vísað er til þess í greinargerð að í leiðbeiningarreglum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna komi fram að það að koma frá svæðum í norður- og austurhluta Srí Lanka sem áður hafi verið undir yfirráðum LTTE-samtakanna feli í sjálfu sér ekki þörf fyrir alþjóðlega vernd í skilningi flóttamannasamningsins. Hins vegar geri fyrrum tengsl við samtökin, raunveruleg tengsl eða tengsl sem stjórnvöld ætli viðkomandi að hafa, einstaklinga sérstaklega berskjaldaða fyrir meðferð sem grundvalli þörf á alþjóðlegri vernd.

    Með hliðsjón af öllu því sem rakið hafi verið í greinargerð um atburði þá sem hafi gerst í heimaríki kæranda og aðstæður þar þá telur kærandi að skilyrðinu um ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna þjóðernis, aðildar að þjóðfélagshópi og vegna stjórnmálaskoðana sé fullnægt. Kærandi ítrekar að þar sem hann hafi verið að flýja heimaríki vegna ofsókna af hálfu þarlendra stjórnvalda þá sé ekki raunhæft að hann geti leitað sér verndar þar í landi enda hermi landaupplýsingar að löggæsluyfirvöld og herinn í landinu áreiti einstaklinga af þjóðarbroti Tamíla, sérstaklega þá sem hafi tengsl, eða ætluð tengsl, við LTTE-samtökin. Með vísan til alls sem rakið hafi verið í greinargerð telur kærandi að með því að senda hann til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 42. gr. laga um útlendinga og þá myndi slík ákvörðun einnig brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

    Kærandi krefst þess til vara að honum verði veitt viðbótarvernd skv. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Í greinargerð er vísað til lögskýringargagna að baki ákvæðinu og komi þar m.a. fram að við túlkun á ákvæðinu skuli taka tillit til þeirra alþjóðlegu mannréttindasamninga og annarra alþjóðareglna sem Ísland sé skuldbundið af. Sé þar einkum að ræða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þá er í greinargerð umfjöllun um ákvæði 2. gr. e, 3. og 4. mgr. 4. gr. og 15. gr. tilskipunar Evrópubandalagsins nr. 2004/83/EB um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju landa eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða menn sem að öðru leyti þarfnist alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi í mál JK o.fl. gegn Svíþjóð frá 23. ágúst 2016 (mál nr. 59166/12) fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Þá er í samhengi við þær andlegu afleiðingar sem kærandi glími við vegna þeirra þjáninga sem hann hafi þolað í heimaríki vísað í dóm Evrópudómstólsins sem kveðinn var upp 24. apríl sl. (mál nr. C-353/16). Í honum hafi dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að þriðja ríkis borgari, sem sætt hefði pyndingum í heimaríki sínu og þjáðist enn af andlegum afleiðingum vegna þeirra, en væri hins vegar ekki lengur talinn í hættu á áframhaldandi pyndingum við endursendingu til heimaríkis, ætti rétt á viðbótarvernd ef hann ætti í hættu á að stjórnvöld í heimaríki af ásettu ráði veittu honum ekki viðeigandi læknismeðferð við veikindum sínum. Kærandi bendir á að hér á landi hafi hann verið greindur með áfallastreituröskun og þunglyndi. Vísar hann til þeirra læknisfræðilegu gagna sem hann hafi lagt fram sem beri vott um framangreinda greiningu og þá andlegu aðstoð sem hann þurfi á að halda og hann telji að stjórnvöld í heimaríki hvorki vilji né geti veitt honum.

    Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt ákvæðinu megi veita útlendingi slíkt dvalarleyfi á grundvelli ríkra mannúðarsjónarmiða, m.a. í þeim tilvikum er útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða annarra erfiðra aðstæðna í heimaríki. Kærandi vísar til athugasemda við 74. gr. í greinargerð með frumvarpi til laga um útlendinga þar sem fram komi að m.a. skuli líta til þess hvort grundvallarmannréttindi séu tryggð í ríkinu sem senda eigi útlending til. Með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og sem dæmi séu nefnd viðvarandi mannréttindabrot og sú aðstaða að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Í athugasemdunum greini að miða skuli við að heildarmat fari fram á öllum aðstæðum í máli áður en leyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða sé veitt. Það sem rakið hafi verið í greinargerð um aðstæður í Srí Lanka og framkomu þarlendra stjórnvalda í garð Tamíla gefi vitnisburð um að grundvallarmannréttindi Tamíla séu brotin, sérstaklega þeirra sem hafi einhvers konar tengsl við LTTE-samtökin. Þá er jafnframt áréttað það sem rakið hafi verið í greinargerð um andlegt ástand kæranda. Með vísan til nýrra landaupplýsinga um Srí Lanka og framangreinds dóms Evrópudómstólsins sé ljóst að kærandi hafi ekki aðgang að geðheilbrigðisþjónustu í heimaríki.

    Hvað varðar flutning innanlands bendir kærandi á að við mat á því hvort einstaklingur geti fengið raunverulega vernd í öðrum hluta upprunalands þurfi að fara fram einstaklingsbundið mat á persónulegum aðstæðum hans og þeim aðstæðum sem séu í landinu. Við mat á því hvort hægt sé með sanngirni að ætlast til þess að viðkomandi setjist að á því svæði sem talið sé öruggt skuli m.a. höfð hliðsjón af leiðbeiningum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna en í þeim komi fram að flutningur innanlands komi ekki til greina ef einstaklingurinn er ennþá berskjaldaður fyrir ofsóknum á hinum nýja stað. Þá vísar kærandi til þess sem fram komi í athugasemdum með 4. mgr. 37. gr. í frumvarpi því sem hafi orðið að lögum um útlendinga. Með hliðsjón af atvikum máls og því sem rakið hafi verið í greinargerð sé krafa um innri flutning hvorki raunhæf né sanngjörn en bæði skilyrðin þurfi að uppfylla til að slík ráðstöfun komi til greina.

    Þá eru í greinargerð kæranda gerðar athugasemdir við notkun og túlkun Útlendingastofnunar á þeim heimildum sem stofnunin byggir hina kærðu ákvörðun á. Kærandi telur Útlendingastofnun byggja úrlausn sína í málinu, einkum synjun á alþjóðlegri vernd, aðallega á skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá því í júní 2017. Gerir kærandi athugasemd við það að Útlendingastofnun hafi talið margar heimildir um ástandið í Srí Lanka gamlar og úreltar og geti því ekki endurspeglað núverandi veruleika. Kærandi bendir á að í greinargerð hans til Útlendingastofnunar hafi verið vísað í nýlegri heimildir þar sem ýmis alþjóðasamtök hafi lýst yfir alvarlegum áhyggjum af stöðu mannréttindamála í landinu.

    Viðbótarathugasemdir kæranda bárust þann 1. ágúst 2018. Í viðbótarathugasemdunum eru svör kæranda við einstökum spurningum kærunefndar í viðtali við hann ítrekuð og frekari útskýringar gefnar. Kærunefnd hafi gert athugasemdir við undirskrift tveggja bréfa frá þingmanni í heimaríki, sem kærandi hafi lagt fram til stuðnings umsókn sinni, og kveðið þær mismunandi. Mismunur þessi stafi af því að undirskriftin á öðru bréfinu sé á ensku en hin á móðurmáli kæranda, tamílsku, sem hafi gjörólíkt stafróf. Þá hafi kærunefnd spurt kæranda að því af hverju hann hafi ekki greint nánar frá aðstæðum sínum og pyndingum í viðtölum hjá Útlendingastofnun í mars og apríl 2017 þegar mál hans hafi verið í Dyflinnarmeðferð. Kærandi ítrekar að hann hafi ekki vitað að rétt væri að greina frá erfiðum aðstæðum sínum í heimaríki í Dyflinnarviðtali þann 26. apríl 2017 enda hafi það viðtal snúið að því að taka ákvörðun um hvort ástæða væri til þess að taka mál hans til efnismeðferðar hér á landi. Kærandi hafi ekki vitað af því að pyndingar hans hefðu þýðingu í Dyflinnarmáli hans fyrr en eftir að Dyflinnarviðtalið hafði átt sér stað. Kærandi hafi eftir það viðtal greint talsmanni sínum frá erfiðri lífsreynslu sinni. Þá vísar kærandi til þess að hann hafi í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 13. september 2017 verið sérstaklega spurður út í heilsufar sitt og hafi hann þá greint frá þeim pyndingum og áföllum sem hann hafi orðið fyrir. Kærandi mótmæli því að framburður hans hafi breyst eftir að umsókn hans hafi verið tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi og telji hann ljóst samkvæmt framangreindu að hann hafi greint frá lífsreynslu sinni þegar mál hans hafi enn verið í Dyflinnarmeðferð.

    Þá er í viðbótarathugasemdum kæranda jafnframt ítrekaðar málsástæður hans varðandi andlega heilsu hans. Kærandi hafi verið í sálfræðitímum á Göngudeild sóttvarna en hafi verið vísað til sálfræðings utan stofnunarinnar þar sem ekki hafi þótt vera fullnægjandi að hann væri í sálfræðitímum á Göngudeild sóttvarna.

  4. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi lagt fram ljósrit af þýðingu á fæðingarvottorði sínu. Taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði leitt líkur að því hver hann væri án þess þó að auðkenni hans teldist upplýst með fullnægjandi hætti. Yrði því leyst úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. Niðurstaða Útlendingastofnunar var að að teknu tilliti til ljósrits af þýðingu á fæðingarvottorði sem kærandi hafi lagt fram og trúverðugs framburðar hefði kærandi leitt líkur að því að hann væri frá Srí Lanka. Kærunefnd hefur ekki forsendur til annars en að taka undir mat Útlendingastofnunar og leggur því til grundvallar að kærandi sé ríkisborgari Srí Lanka.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Srí Lanka m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Amnesty International Report 2017/2018: Sri Lanka (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Country programme document: Sri Lanka (United Nations Economic and Social Council, 10. ágúst 2017);
  • Democratic Socialist Republic of Sri Lanka - Human Rights Priority Country Report 2016 (Foreign

    & Commonwealth Office, 21. júlí 2017);

  • DFAT Country Information Report Sri Lanka (Australian Government, Department of Foreign Affairs and Trade, 23. maí 2018);
  • Freedom in the World 2017 – Sri Lanka (Freedom House, 31. janúar 2017);
  • Freedom in the World 2018 – Sri Lanka (Freedom House, 16. janúar 2018);
  • National Health Strategic Master Plan 2016-2025 Vol. III – Rehabilitative Services (Ministry of Health – Sri Lanka, 2016);
  •  

  • Performance Report – 3rd Quarter – July to September 2017 (Human Rights Commission of Sri Lanka, september 2017);
  • Rule of Law Index 2017-2018 (World Justice Project, 31. janúar 2018);

  • Sri Lanka Country Profile (vefsíða BBC News, https://www.bbc.co.uk/news/world-south-asia-11999611, 26. febrúar 2018);
  •  

  • Sri Lanka Country Reports on Human Rights Practices – 2016 (U.S. Department of State, 3. mars 2017);

  • Sri Lanka - Country Reports on Human Rights Practices - 2017 (U.S. Department of State, 20. apríl 2018);
  •  

  • Sri Lanka: COI Compilation (Austrian Centre for Country of Origin and Asylum Research and Documentation (ACOORD), 31. desember 2016);
  • Sri Lanka: entry and exit procedures at international airports, including security screening and documents required for citizens to enter and leave the country; treatment of returnees upon arrival at international airports, including failed asylum seekers and people who exited the country illegally; factors affecting the treatment, including ethnicity and religion (2015-November 2017) (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 10. nóvember 2017);
  • Sri Lanka: Treatment of Tamils in society and by authorities; the Eelam People's Democratic Party (EPDP), including relationship with the Tamil population (2014-February 2017) (Immigration and Refugee Board of Canada, 1. mars 2017);
  • Sri Lanka: Helserelaterte forhold (Landinfo, 7. janúar 2016);

  • Sri Lanka: Rehabilitering og reintegrering av tidligere LTTE-kadre (Landinfo, 23. ágúst 2016);
  •  

  • Sri Lanka: ”White van”-bortføringer (Landinfo, 9. febrúar 2016);
  • Sri Lanka 2016 International religious freedom report (U.S. Department of State, 15. ágúst 2017);

  • Upplýsingar af vef mannréttindanefndar Srí Lanka - Human Rights Commission of Sri Lanka – vefsíða: http://www.hrcsl.lk/ (sóttar þann 1. ágúst 2018);
  • Upplýsingar af vef mannréttindasamtaka Srí Lanka - Human Rights Organization of Sri Lanka – vefsíða: http://slhro.org/ (sóttar þann 1. ágúst 2018);
  • Upplýsingar af vef skrifstofu þjóðarsameiningar og sáttar - Office for National Unity and Reconciliation – vefsíða: http://onur.gov.lk/ (sóttar þann 1. ágúst 2018);
  •  

  • World Report 2017 – Sri Lanka (Human Rights Watch, 12. janúar 2017) og
  • World Report 2018 – Sri Lanka (Human Rights Watch, 18. janúar 2018).

 

Srí Lanka er stjórnarskrárbundið, fjölflokka lýðveldi með ríkisstjórn sem kosin er í frjálsri kosningu. Landið hlaut sjálfstæði frá Bretum árið 1948 en er í dag eitt af 53 fullvalda ríkjum breska samveldisins. Íbúar Srí Lanka eru u.þ.b. 21 milljón manna. Srí Lanka gerðist aðili að alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi þann 11. júní 1980, alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi þann 11. júní 1980, alþjóðasamningi um afnám alls kynþáttamisréttis þann 18. febrúar 1982 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu þann 3. janúar 1994. Srí Lanka, sem er aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, hefur ekki enn staðfest flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna frá 1951, sbr. einnig bókun við samninginn frá 31. janúar 1967.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að Sameinuðu þjóðirnar áætli að 69% þjóðarinnar séu búddistar, 15% hindúar, 8% múslímar og 8% kristnir. Meirihluti múslima séu súnní múslímar en minnihlutinn sjítar. Trú og þjóðerni séu mjög samofin í Srí Lanka. Þannig séu flestir búddistar Singalesar en hindúar að mestu Tamílar. Það að vera múslimi, gefi til kynna bæði þjóðerni og trú og kristnir séu hvort heldur Singalesar eða Tamílar. Trúfrelsi sé varið í stjórnarskrá landsins en búddisma sé þó gert hærra undir höfði en öðrum trúarbrögðum. Mismunun á grundvelli trúarbragða beinist fyrst og fremst að múslimum og kristnum. Hreyfingar þjóðernissinnaðra búddista, líkt og hreyfingin Budda Bala Sena (BSS), hafi farið þar fremst í flokki með skemmdarverkum, árásum og hatursorðræðu gegn múslimum og kristnum.

Frá árinu 1983 til 2009 geisaði borgarastríð í Srí Lanka þar sem svonefndir Tamíl tígrar (e. Liberation Tigers of Tamil Ealam (LTTE-samtökin)) börðust fyrir stofnun sjálfstæðs ríkis Tamíla í norður- og austurhluta landsins. Vopnahléi hafi verið komið á með aðstoð alþjóðasamfélagsins árið 2002 en því hafi verið rift árið 2006. Stjórnarherinn í landinu braut síðan uppreisn LTTE-samtakanna á bak aftur árið 2009. Á árunum eftir að borgarastríðinu lauk hafi ríkt mikil spenna og togstreita í landinu og bera heimildir með sér að lögreglan og stjórnarherinn hafi áreitt og ofsótt einstaklinga af tamílskum uppruna, einkum fyrrum meðlimi LTTE-samtakanna og þá er tengdust þeim eða hafi verið grunaðir um að tengjast samtökunum eða meðlimum þeirra. Heimildir séu um að einstaklingar hafi verið numdir á brott af hálfu stjórnvalda, þeir settir í varðhald að ástæðulausu, pyndaðir og þeim meinað að njóta aðstoðar lögfræðings eða að hafa samband við fjölskyldumeðlimi sína. Einnig kemur fram í heimildum að á meðan Mahinda Rakapakse hafi verið forseti, á árunum frá 2005 til 2015, hafi ríkisstjórn hans gert singalískum þjóðernissinnuðum búddistum hærra undir höfuð á kostnað minnihlutahópa. Margir hafi því bundið vonir við að ný ríkisstjórn, sem komst á í september 2015 undir stjórn Maithripala Sirisena, myndi leggja meiri áherslu á mannréttindi og bættan hag allra íbúa ríkisins.

Ofangreindar skýrslur benda til þess að ástandið í landinu hafa batnað eftir breytingar á stjórn landsins árið 2015. Mannréttindi séu virt í meira mæli en áður og dregið hafi úr ofbeldi og refsileysi þó það sé enn til staðar að einhverju leyti. Samkvæmt skýrslu Landinfo frá febrúar 2016 hafði tilfellum mannshvarfa sem tengdust framangreindum átökum fækkað verulega. Næstum engin dæmi væru lengur um að ungir einstaklingar af tamílskum uppruna væru numdir á brott vegna afskipta öryggislögreglunnar af þeim. Gögn málsins bera þó með sér að enn sé tilkynnt um að lögreglan beiti sakborninga pyndingum og annarri ómannúðlegri meðferð til að knýja fram játningu, bæði í sakamálum og málum er varði þjóðaröryggi, þrátt fyrir að stjórnarskrá landsins banni pyndingar og ómannúðlega meðferð. Flestir þeirra sem tilkynnt hafi pyndingar séu karlmenn af tamílskum uppruna.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi hefur borið fyrir sig að hann hafi orðið fyrir ofsóknum af hálfu yfirvalda í heimaríki og muni verða settur í varðhald, myrtur eða látinn hverfa ef hann verður endursendur þangað. Ofsóknirnar stafi m.a. af því að hann sé af tamílskum uppruna og hafi haft tengsl við LTTE-samtökin, m.a. vegna aðildar annars af tveimur bræðrum hans að samtökunum. Eftir að sá bróðir hafi flúið til Evrópu hafi annar bróðir kæranda verið handtekinn árið 2013 og í kjölfarið horfið. Kærandi hafi síðan tekið þátt í mótmælum í heimaríki gegn mannshvörfum í landinu. Árið 2015 hafi kærandi verið handtekinn af yfirvöldum í heimaríki, verið settur í varðhald, pyndaður og þvingaður til að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að hann viðurkenni að hafa verið í LTTE-samtökunum. Kærandi telji að hann geti ekki leitað til lögreglu þar sem samstarf sé á milli hennar og öryggissveita hersins.

Kærandi kom í viðtal hjá kærunefnd þann 19. júlí sl. og er það mat kærunefndar ákveðins misræmis hafi gætt í frásögn hans um ástæður flótta milli viðtala, sem tekin voru við hann hjá Útlendingastofnun í mars og apríl 2017 og viðtala sem tekin voru við kæranda eftir að mál hans var sent til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun með úrskurði kærunefndar kveðnum upp þann 15. ágúst 2017. Misræmið felist í því að frásögn hans varðandi varðhald sem hann kveðst hafa sætt og pyndingar af hálfu yfirvalda í Srí Lanka kom ekki fram hjá stjórnvöldum fyrr en í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 13. september 2017. Fyrri ákvörðun í máli hans hafði þá þegar verið tekin af Útlendingastofnun og kærð til kærunefndar sem í ágúst 2017 felldi ákvörðun stofnunarinnar úr gildi vegna annmarka á rannsókn málsins og skorts á leiðbeiningum til kæranda og lagði fyrir stofnunina að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 20. mars 2017, við fyrri málsmeðferð hjá stofnuninni, var kærandi spurður um ástæður flótta frá heimaríki. Kærandi nefndi þar m.a. handtöku bróður síns en ekki að hann hafi sjálfur sætt varðhaldi og verið beittur harðræði. Aðspurður sagðist hann þó hafa verið handtekinn vegna tengsla bróður síns við LTTE en fjallaði ekki nánar um það. Kærandi kvaðst jafnframt vera andlega og líkamlega heilbrigður. Þá var kærandi spurður í öðru viðtali hjá Útlendingastofnun þann 26. apríl s.á. hvort hann vildi segja frá einhverjum atburðum sem hafi haft áhrif á líkamlega eða andlega heilsu hans. Kærandi sagði þá að bróðir sinn væri horfinn. Kærandi minntist ekki á að hafa verið settur í varðhald eða að hann hafi orðið fyrir pyndingum af hálfu yfirvalda í heimaríki. Þá var ekki vikið að varðhaldi eða pyndingum í greinargerðum sem talsmaður lagði fram fyrir hönd kæranda á báðum stjórnsýslustigum þótt efni málsins og þau álitaefni sem uppi voru gæfu ástæðu til að ætla að slík atvik teldust til kjarna máls kæranda á þessum tíma. Enn fremur benda gögn ekki til þess að kærandi hafi minnst á þessa atburði í viðtölum við lækna og í samtali við sálfræðing vorið og sumarið árið 2017.

Aðspurður í viðtali hjá kærunefnd kvað kærandi misræmið stafa af því að hann hafi verið beðinn um að vera hnitmiðaður í svörum í viðtölum þeim er áttu sér stað í mars og apríl 2017 og þá hafi fyrsta viðtal við hann, þann 20. mars 2017, eingöngu snúið að þáttum er varði þjónustu við hann og heilsufar hans. Í viðbótarathugsemdum frá kæranda sem bárust kærunefnd þann 1. ágúst sl. eru framangreindar ástæður misræmis ítrekaðar og tekið fram að kærandi hafi ekki vitað að rétt væri að greina frá erfiðum aðstæðum sínum í heimaríki í viðtali þann 26. apríl 2017 enda hafi það viðtal snúið að því að taka ákvörðun um hvort ástæða væri til þess að taka mál hans til efnismeðferðar hér á landi. Þá hafi kærandi verið nýkominn úr átta daga varðhaldi og ekki hægt að ætlast til að hann opni sig um pyndingar við ókunnugt fólk á þeim tímapunkti.

Samkvæmt framansögðu kom frásögn kæranda um varðhald og pyndingar fyrst fram í september 2017, um hálfu ári eftir að hann kom til landsins. Að mati kærunefndar dregur framangreint ósamræmi úr trúverðugleika frásagnar kæranda um að hann hafi sætt varðhaldi og meðferð þeirri sem hann kveðst hafa orðið fyrir af hálfu stjórnvalda í Srí Lanka. Þá liggur fyrir að kærandi hefur ekki lagt fram frekari gögn sem gætu stutt þessa frásögn. Þá benda skýrslur sem kærunefnd hefur kynnt sér eindregið til þess að árið 2015, sem kærandi kveðst hafa orðið fyrir umræddum atburðum, hafi tilvik eins og kærandi lýsir verið afar sjaldgæf.

Kærunefnd telur að í ljósi þessa misræmis og annarra gagna málsins sé ekki unnt að byggja á frásögn kæranda um að hann hafi sætt varðhaldi og pyndingum af hálfu stjórnvalda í Srí Lanka, enda hefur hann ekki lagt fram önnur gögn sem styðja þennan hluta frásagnar hans. Að mati kærunefndar hefur kærandi þó með framburði sínum gert nægilega líklegt að hann sé af tamílskum uppruna og að í heimaríki hans kunni að vera litið svo á að hann hafi haft tengsl við LTTE-samtökin í borgarastríðinu í Srí Lanka.

Í viðtali hjá kærunefnd var kærandi jafnframt spurður nánar út í tvö bréf sem hann lagði fram sem undirrituð eru af þingmanni í heimaríki kæranda, annars vegar bréf varðandi aðstæður bróður kæranda og hins vegar bréf varðandi aðstæður kæranda. Var kærandi m.a. spurður að því hvernig sambandi hans og þingmannsins væri háttað. Kærandi kvaðst ekki þekkja þingmanninn en móðir hans hafi farið til hans, útskýrt aðstæður kæranda fyrir þingmanninum og fengið hann til að skrifa umrædd bréf. Kærandi kveður þingmanninn þó hafa þekkt til þess að hús fjölskyldu kæranda hafi verið notað af LTTE meðan á borgarastríðinu stóð. Í ljósi framburðar kæranda um þekkingu þingmannsins á aðstæðum kæranda telur kærunefnd að umrædd bréf hafi ekki sérstaka þýðingu við úrlausn þessa máls. Í bréfi þingmannsins er ekki minnst á varðhald kæranda eða að hann hafi orðið fyrir pyndingum.

Af ofangreindum skýrslum er ljóst að aðstæður í Srí Lanka hafi verið sérstaklega erfiðar á árunum frá 1983 til 2009 á meðan á borgarastríðinu hafi staðið. Mikið hafi verið um mannréttindabrot af hendi stjórnvalda sem og LTTE-samtakanna og hafi saklausir borgarar í mörgum tilvikum lent í miðjum átökum oft með þeim afleiðingum að mannfall hafi orðið. Þá hafi aðstæður í landinu á árunum eftir framangreint borgarastríð verið að nokkru leyti varhugaverðar, einkum fyrir einstaklinga af tamílskum uppruna og þá sem taldir voru meðlimir LTTE-samtakanna, grunaðir um aðild að þeim eða taldir tengjast þeim með einhverjum hætti. Landið og samfélagið hafi því verið í sárum fyrstu árin á eftir og mikil tortryggni ríkt í garð tamílskra einstaklinga. Skýrslur alþjóðastofnana, mannréttindasamtaka, eftirlitsaðila o.fl. renna stoðum undir þá frásögn kæranda að einstaklingar sem hafi fallið í framangreinda hópa hafi verið, oft og tíðum handahófskennt, áreittir, hótað og þeir beittir ofbeldi af lögreglu og hernum.

Á hinn bóginn, og með hliðsjón af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér, hafa talsverðar framfarir orðið á stjórnarfari í Srí Lanka og unnið hefur verið að því að uppræta spillingu á meðal lögreglu og öryggissveita. Engu að síður eru dæmi um að rannsóknarlögregla ríkisins (e. Criminal Investigation Department (CID)) hafi beitt einstaklinga sem hafa komið til landsins án vegabréfs illri meðferð en þar hafi fyrst og fremst verið um að ræða einstaklinga sem taldir voru tengjast LTTE-samtökunum eða voru grunaðir um hryðjuverk. Þá hafi stjórnvöld gripið til fjölda aðgerða til að koma á sátt í samfélaginu, m.a. með stofnun skrifstofu sameiningar og sáttar og þá hafi stjórnvöld lýst yfir vilja til að breyta alræmdri löggjöf um varnir gegn hryðjuverkum, en þeirri löggjöf hafi verið beitt til að hneppa einstaklinga sem grunaðir hafi verið um tengsl við LTTE-samtökin í varðhald þar sem þeir hafi verið beittir ofbeldi.

Þá sé starfandi í Srí Lanka sjálfstæð mannréttindanefnd (e. Human Rights Commission of Sri Lanka (HRCOSL)). Hafi nefndin það hlutverk að hafa eftirlit með því að mannréttindi séu virt í landinu og að stuðla að frekari mannréttindum. Nefndin, sem sé með aðalstöðvar í höfuðborg landsins ásamt 10 svæðisnefndum víðsvegar um landið, taki við kvörtunum vegna mannréttindabrota og rannsaki þau. Nefndin hafi hins vegar ekki heimild til að saksækja vegna mögulegra brota á mannréttindum en geti hins vegar m.a. beitt sér fyrir því að koma á sátt milli aðila eða beint tilmælum til þar til bærra stjórnvalda að saksækja þá aðila sem að hún telji að séu brotlegir. Sjá megi m.a. í fjórðungsskýrslu nefndarinnar frá því í september 2017 að nefndin hafi tekið á móti 1747 kvörtunum, þar á meðal 125 kvörtunum sem lutu að störfum lögreglumanna. Þá sé nefndin í ráðgefandi hlutverki þegar kemur að lagasetningu á sviði mannréttinda og hafi eftirlit með því að innlend lög og stjórnsýsluframkvæmd samræmist alþjóðlegum reglum um mannréttindi.

Með vísan til ofangreinds telur kærunefnd að heimildir beri ekki með sér að ofsóknir viðgangist almennt í landinu gegn Tamílum eða einstaklingum sem hafi, eða grunaðir séu um að hafa, tengsl við LTTE-samtökin. Kærunefnd telur jafnframt að þær heimildir sem nefndin hefur kynnt sér bendi ekki til þess að Tamílar og/eða einstaklingar sem hafi haft tengsl við LTTE-samtökin sæti áreiti af hálfu stjórnvalda, lögreglu eða hersins í Srí Lanka sem nái því alvarleikastigi að geta talist ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. 

Kærandi hefur einnig borið fyrir sig að hann telji sig vera í hættu þar sem hann hafi tekið þátt í mótmælum í heimaríki. Í ofangreindum heimildum kemur fram að 1. mgr. 14. gr. stjórnarskrá Srí Lanka verndi málfrelsi manna, félagafrelsi og rétt þeirra til að safnast saman friðsamlega. Séu heimildir um nokkur tilvik þar sem gagnrýnendur stjórnvalda hafi verið áreittir og þeir sætt eftirliti, einkum aðgerðarsinnar eða stúdentar sem hafi tekið þátt í mótmælum. Þá sé ákvæði í þarlendri reglugerð um lögreglusamþykktir sem kveði á um það að mótmælendur þurfi að fá leyfi frá lögregluyfirvöldum á þar til bærum stað áður en mótmæli séu haldin. Þó beri heimildir með sér að stjórnvöld hafi í vaxandi mæli meiri þolinmæði gagnvart mótmælum þrátt fyrir að einhver takmörk séu þar á, svo sem í þágu trúarlegrar sáttar, þjóðaröryggis, allsherjarreglu eða til verndar lýðheilsu og siðferðis. Þá bera ofangreindar heimildir ekki með sér að fólk hafi verið sett í varðhald eða horfið eftir að hafa tekið þátt í mótmælum.

Þegar litið er til framangreindra skýrslna telur kærunefnd ljóst að aðstæður Tamíla og þeirra sem grunaðir eru um tengsl við LTTE hafi breyst verulega til batnaðar á síðustu árum. Kosningarnar árið 2015 hafi markað nokkur tímamót en þá tóku við völdum stjórnvöld sem lögðu áherslu á sameiningu þjóðarinnar og aukna virðingu fyrir mannréttindum. Þá benda skýrslur ekki til annars en að þessi þróun haldi áfram í sömu átt.

Með vísan til alls ofangreinds er það því niðurstaða kærunefndar að kærandi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna, snúi hann til heimaríkis.

Með hliðsjón af þeim umbótum sem hafa átt sér stað í Srí Lanka og þeim breyttu aðstæðum sem Tamílar búa við, þ.m.t. þeir sem grunaðir eru um tengsl við LTTE, telur kærunefnd að jafnvel þó að frásögn kæranda um varðhald og pyndingar yrði lögð til grundvallar myndi það ekki raska ofangreindri niðurstöðu nefndarinnar. 

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Kærandi hefur m.a. byggt á því að hann glími við alvarleg andleg vandamál vegna þeirra pyndinga og illu meðferðar sem hann hafi sætt. Hann þurfi á meðferð og læknisaðstoð að halda vegna þeirra. Hann telji að hann muni ekki fá þá læknisaðstoð sem honum beri í heimaríki. Í málinu liggja fyrir gögn m.a. frá sálfræðingum, Göngudeild sóttvarna og Göngudeild geðsviðs dagsett frá 29. mars 2017 til 16. júlí 2018. Fram kemur m.a. í þeim gögnum að kærandi sýni einkenni áfallastreituröskunar og þurfi á meðferð að halda til að vinna frekar með einkennin og vanlíðan sem tengist þeim. Í vottorði sálfræðings frá því í maí sl. kemur m.a. fram að kærandi sé mjög dapur, stöðugar sjálfsvígshugsanir leiti á hann auk þess sem hann glími við mikinn kvíða og sé félagslega einangraður. Það sé mat sálfræðingsins að kærandi þurfi á áframhaldandi viðtals- og lyfjameðferð að halda. Þá kemur fram í vottorði sálfræðings frá því í júlí sl. að kærandi glími við flókin og erfið einkenni áfallastreitu og hafi sálfræðingurinn hafið svonefnt CPT meðferðarferli til að vinna með þau einkenni. Í afritum af samskiptaseðlum af Göngudeild sóttvarna sem ritaðir voru í júní og júlí sl. kemur m.a. fram að kærandi sé kvíðinn og taki lyf við því. Þá sé kærandi stressaður og angistarfullur. Með tilliti til þeirra læknisfræðilegu gagna sem kærandi hefur lagt fram í málinu leggur kærunefnd það til grundvallar að kærandi eigi við andlega erfiðleika að stríða og þurfi meðferð við þeim.

Í þeim skýrslum og gögnum sem kærunefnd hefur farið yfir við vinnslu máls kæranda kemur fram að í Srí Lanka séu til staðar fordómar gagnvart geðrænum vandamálum og hafi stjórnvöld lengi vel lítið hugað að þeim þætti innan heilbrigðiskerfisins. Hins vegar hafi orðið vitundarvakning meðal ráðamanna og hafi stjórnvöld á undanförnum árum viðurkennt mikilvægi geðheilbrigðis og gert geðheilbrigðisþjónustu hærra undir höfði. Árið 2016 hafi stjórnvöld til að mynda gefið út heilbrigðisáætlun fyrir árin 2016-2025 (e. National Health Strategic Master Plan 2016-2025 Vol. III – Rehabilitative Services) sem miði að því að þróa heilbrigðisþjónustu í landinu til samræmis við sambærilega þjónustu þróaðra ríkja. Markmið framangreindrar áætlunar er m.a. að bæta aðstæður í samfélaginu sem auki andlega vellíðan íbúanna og leggja áherslu á forvarnir, meðferð og endurhæfingu sem allir landsmenn geti haft aðgang að. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér er besta aðgengið að geðheilbrigðisþjónustu í kringum höfuðborg landsins en torveldara sé að sækja slíka þjónustu á dreifbýlli svæðum. Stjórnvöld séu þó meðvituð um vandann og hafi það að markmiði að dreifa þjónustunni betur um landið. Með vísan til þess sem fram hefur komið í gögnum málsins og ofangreindum gögnum um heilbrigðisaðstæður í Srí Lanka og á grundvelli heildstæðs mats á aðstæðum kæranda telur kærunefnd að hann geti fengið aðstoð í heimaríki sem og aðgang að meðferðum og lyfjum sem hann þurfi á að halda vegna heilsufarsvandamála sinna, leiti hann eftir því.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar

Kærandi gerir í greinargerð sinni athugasemdir við notkun og túlkun Útlendingastofnunar á þeim heimildum sem stofnunin byggir hina kærðu ákvörðun á. Kærandi telur Útlendingastofnun byggja úrlausn sína í málinu, einkum synjun á alþjóðlegri vernd, aðallega á skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá því í júní 2017. Gerir kærandi athugasemd við það að Útlendingastofnun hafi talið margar heimildir um ástandið í Srí Lanka gamlar og úreltar og geti því ekki endurspeglað núverandi veruleika. Kærandi bendir á að í greinargerð hans til Útlendingastofnunar hafi verið vísað í nýlegar heimildir þar sem ýmis alþjóðasamtök lýsi yfir alvarlegum áhyggjum yfir stöðu mannréttindamála í landinu.

Af rökstuðningi Útlendingastofnunar í máli kæranda verður lesið að farið hafi verið yfir þá þætti sem koma til skoðunar við veitingu alþjóðlegrar verndar og viðbótarverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, og dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. sömu laga, með vísan til framburðar kæranda og aðstæðna í heimaríki hans. Þá sé jafnframt ljóst af ákvörðun Útlendingastofnunar að stofnunin hafi byggt niðurstöðu sína á fleiri heimildum en eingöngu tilgreindri skýrslu breska innanríkisráðuneytisins. Telur kærunefnd að ákvörðun Útlendingastofnunar beri ekki með sér að skort hafi á að nauðsynlegrar upplýsingar um aðstæður í heimaríki kæranda lægju fyrir við meðferð málsins fyrir stofnuninni. Í því sambandi er tekið fram að kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við rekstur málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Þá hefur kærandi lagt fram greinargerð í málinu og haft tækifæri til að leggja fram gögn fyrir kærunefnd. Það er því mat kærunefndar að málsmeðferð og rökstuðningur Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 9. mars 2017 og sótti um alþjóðlega vernd 17. mars 2017. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

 

The Decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                                        Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta