Mál nr. 173/2016
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 173/2016
Miðvikudaginn 1. febrúar 2017
A
gegn
Sjúkratryggingum Íslands
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.
Með kæru, dags. 6. maí 2016, kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 8. febrúar 2016 um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga vegna slyss sem hún varð fyrir X.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með tilkynningu, dags. 1. september 2015, tilkynnti kærandi Sjúkratryggingum Íslands að hún hefði orðið fyrir slysi við vinnu X. Í tilkynningunni er slysinu lýst þannig að kærandi hafi verið að lyfta upp [...] og fengið í bakið við það. Með bréfi, dags. 23. september 2015, óskuðu Sjúkratryggingar Íslands eftir nánari lýsingu á slysinu frá kæranda og varð hún við þeirri beiðni með bréfi, dags. 28. janúar 2016. Sjúkratryggingar Íslands höfnuðu bótaskyldu með bréfi, dags. 8. febrúar 2016, á þeirri forsendu að ekkert bendi til þess að um skyndilegan utanaðkomandi atburð hafi verið að ræða heldur hafi meiðslin stafað af innri verkan í líkama kæranda. Tilvikið teljist því ekki slys í skilningi laga um almannatryggingar og skilyrði til greiðslu bóta úr slysatryggingum almannatrygginga því ekki talin uppfyllt.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. maí 2016. Með bréfi, dags. 9. maí 2016, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 20. maí 2016, barst greinargerð Sjúkratrygginga Íslands og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Læknisfræðileg gögn bárust úrskurðarnefnd frá kæranda sama dag og voru þau kynnt Sjúkratryggingum Íslands með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. maí 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um synjun bóta úr slysatryggingu almannatrygginga vegna vinnuslyss hennar X verði hrundið.
Í kæru segir að þegar slysið varð hafi kærandi verið að [...]. Kærandi hafi ásamt samstarfsmanni verið að færa [...] þegar slysið varð. Við verkið hafi kæranda því verið nauðsynlegt, ásamt hinum starfsmanninum, að færa [...]. Að sögn vinnuveitanda hafi verkið lengi verið unnið með þessum hætti og leiðin sem hafi þurft að bera [...] verið stutt. Kærandi hafi hlotið bakmeiðsli við þetta verk sem hafi ekki verið rakin til innra ástands í líkama hennar heldur utanaðkomandi atburðar, þ.e. vinnu hennar við að flytja [...] á milli staða. Samkvæmt áverkavottorði hafi kærandi leitað strax á heilsugæslu. Hún hafi þá gengið skökk og haft eymsli í vöðvum frá herðum og niður allt bak.
Kærandi hafi farið í myndgreiningu X og komi niðurstöður hennar fram í vottorði C læknis, dags. 4. september 2015. Einnig komi fram að kærandi hafi farið í spengingu á hrygg X og verið í sjúkraþjálfun til að styrkja bak og vöðva. Um sjúkrasögu kæranda segi í læknisvottorðinu að kærandi hafi áður verið hraust kona. Hún hafi aldrei áður þurft að leita læknisaðstoðar vegna bakvandamála.
Kærandi hafi verið óvinnufær frá slysdegi til X og aftur frá 21. janúar 2015. Kærandi hafi verið óvinnufær fram til janúar 201[6] þegar hún hafi farið í 35-40% starf hjá sama vinnuveitanda og hlutfallið aukist fram í mars 2016 þegar hún hafi hætt störfum. Á sama tíma hafi hún notið aðstoðar VIRK starfsendurhæfingarsjóðs.
Slysið hafi verið tilkynnt af hálfu vinnuveitanda til Sjúkratrygginga Íslands og tryggingafélags vinnuveitanda með tilkynningum, dags. 1. september 2015. Sjúkratryggingar Íslands hafi hafnað bótaskyldu eftir að hafa fengið senda nánari lýsingu á atvikum slyssins en hafi verið til staðar í tilkynningunni.
Kærandi byggi kröfu sína á því að um vinnuslys sé að ræða sem falli undir slysaskilgreiningu sem tilgreind sé í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar: „Með slysi er átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans.“
Kærandi byggi á því að meiðsli hennar hafi orðið þar sem hún hafi verið við störf ásamt öðrum starfsmanni að flytja [...], líkt og fram komi í málsatvikalýsingu. Meiðslin hafi þannig orðið strax við atvikið. Vinnuveitandi hafi einnig sent tilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands, dags. 1. september 2015, þar sem atburðarás slyssins sé lýst eins og í atvikalýsingu og því sé ljóst að enginn ágreiningur sé um að slysið eða meiðslin hafi orðið með þeim hætti sem lýst hafi verið og verið tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands.
Kærandi byggi á því að atburðurinn falli undir slysahugtak almannatryggingalaga. Skilyrði um utanaðkomandi atburð feli í sér að orsök meiðslanna eigi sér rætur utan líkama tjónþola. Í tilviki kærandi hafi hún hlotið bakmeiðsli við vinnu sína sem ekki hafi verið rakin til innra ástands hennar, svo sem sjúkdóms, svima eða annars innra ástands í líkama hennar, en þó vísi stofnunin til þess í niðurstöðu sinni að meiðslin stafi af innri verkan í líkama kæranda. Því hafni kærandi og vísar til þess sem læknir hennar votti um sjúkrasögu hennar í vottorði sínu, dags. 4. september 2015, um að kærandi hafi áður verið hraust kona. Slysið verði því ekki rakið til eldri bakmeiðsla eða slíks og geti ekki flokkast sem álagsmeiðsli.
Kæranda hafi verið nauðsynlegt að nota handafl til að sinna umræddu starfi eins og komi fram í tilkynningu kæranda og vinnuveitanda til Sjúkratrygginga Íslands ásamt nánari skýringum og einnig tilkynningu sem send hafi verið til tryggingafélags. Atburðurinn hafi valdið meiðslum á líkama kæranda og ljóst sé að orsök meiðslanna hafi átt sér rætur utan líkama hennar. Það að bera [...] hafi verið sá atburður sem hafi valdið meiðslum hennar. Þessu til stuðnings megi vísa til dómafordæma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 412/2011, 289/2010 og 128/2013. Dómafordæmi sýni að skyndilegur, utanaðkomandi atburður þurfi að vera eitthvað sem sé ekki innri verkan að kenna, þ.e. ekki sjúkdómur, svimi eða annað slíkt. Ekkert bendi til þess í tilviki kæranda að um innri verkan hafi verið að ræða. Hluti dómanna fjalli um slysahugtak vátryggingarréttar en dómarnir verði þó að teljast eiga við í máli þessu.
Kærandi telur að hún hafi sannað með nægilegum hætti hvernig slysið hafi atvikast, enda hafi verið sjónarvottur að því líkt og fram komi í tilkynningum og það sé ljóst af læknisvottorðum að orsakatengsl séu á milli meiðsla og einkenna kæranda við skoðun lækna og slyssins sem hún hafi orðið fyrir. Þá liggi einnig fyrir að meiðsl kæranda hafi stafað af slysinu en ekki innri verkan í líkama hennar. Kærandi telji með vísan til ofangreinds að sýnt hafi verið fram á að atburðurinn falli undir slysahugtak almannatrygginga.
III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands
Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að í lýsingu á tildrögum og orsökum slyssins í tilkynningu kæranda komi fram að hún hafi lyft upp [...] ásamt öðrum starfsmanni og fengið tak í bakið við það. Samkvæmt læknisvottorði, dags. 4. september 2015, hafi kærandi verið að lyfta þungum hlut í vinnu og fengið þá slæman bakverk í mjóhrygg.
Með bréfi, dags. 22. september 2015, hafi stofnunin óskað eftir að kærandi tilgreindi nákvæmlega hvernig staðið hafi verið að því að lyfta umræddum hlut, hvort eitthvað sérstakt hefði komið upp á og hvernig aðstæður hafi verið að öðru leyti þegar atvikið átti sér stað, til dæmis hvort það hafi verið þröngt, dimmt, sleipt undirlag og svo framvegis. Svar hafi borist með tölvupósti 28. janúar 2016 þar sem fram komi að þegar atvikið varð „var A að vinna við að [...]. A var síðan ásamt samstarfsmanni að færa [...], þegar slysið varð. Að sögn vinnuveitanda hefur verkið lengi verið unnið með þessum hætti og leiðin sem þurfti að bera [...] hafi verið stutt. Tjónþoli hlaut bakmeiðsli við þetta verk sem hafa ekki verið rakin til innra ástands í líkama tjónþola heldur utanaðkomandi atburðar, þ.e. vinnu hennar við að flytja [...] á milli staða.“
Í hinni kærðu ákvörðun komi fram að samkvæmt skilgreiningu á slysahugtaki 5. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga þurfi að vera um skyndilegan utanaðkomandi atburð að ræða svo að atvik teljist vera slys. Ekkert bendi til þess að um skyndilegan utanaðkomandi atburð hafi verið að ræða heldur stafi meiðslin af innri verkan í líkama kæranda. Umrætt tilvik teljist því ekki slys í skilningi slysatrygginga almannatrygginga og séu skilyrði til greiðslu bóta samkvæmt lögunum því ekki uppfyllt.
Að sögn kæranda sé haft eftir vinnuveitanda að verkið hafi lengi verið unnið með þeim hætti sem gert var í þessu tilviki. Það breyti því þó ekki að óhappið verði ekki rakið til skyndilegs utanaðkomandi atburðar.
Kærandi byggi á því að atburðurinn falli undir slysahugtak almannatryggingalaga þar sem hún hafi hlotið bakmeiðsli við vinnu sína sem ekki hafi verið rakin til innra ástands hennar, svo sem sjúkdóms, svima eða annars innra ástands í líkama hennar, en þó vísi Sjúkratryggingar Íslands til þess í niðurstöðu sinni. Því sé hafnað af hálfu kæranda með vísan til þess að læknir hennar hafi vottað að hún hafi áður verið hraust. Slysið verði því ekki rakið til eldri bakmeiðsla eða slíks og geti ekki flokkast sem álagsmeiðsli.
Einnig vísi kærandi til þess að nauðsynlegt hafi verið að nota handafl til að sinna umræddu starfi. Atburðurinn hafi valdið meiðslum á líkama kæranda og ljóst að orsök meiðslanna hafi átt sér rætur utan líkama kæranda, en það að bera umrædda [...] hafi verið sá atburður sem hafi valdið meiðslum kæranda, auk þess sem óumdeilt sé að slysið hafi orðið án vilja kæranda. Þessu til stuðnings sé vísað til tiltekinna dóma Hæstaréttar.
Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 412/2011 hafi verið fallist á að líkamstjón hafi hlotist af skyndilegum utanaðkomandi atburði í skilningi vátryggingarskilmála þegar viðkomandi hafi stokkið yfir borð og við það misst jafnvægi, fallið við og hlotið áverka á hné þegar hún lenti. Niðurstaða dómsins byggi á því að stökkið yfir borðið hafi verið þess valdandi að hún missti jafnvægið. Með vísan til þess hafi orsökin verið utanaðkomandi. Dómurinn hafi því að mati stofnunarinnar ekkert fordæmisgildi í máli þessu þar sem óhapp kæranda hafi hvorki orsakast af utanaðkomandi atburði né hafi verið um frávik frá eðlilegri atburðarás að ræða.
Ekki verði séð að dómur Hæstaréttar í máli nr. 289/2010 hafi áhrif á niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands, en dómurinn taldi að líkamstjón sjómanns hafi hlotist af skyndilegum utanaðkomandi atburði í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga um almannatryggingar þegar hann hafi sofnað með þeim afleiðingum að bátur hans skall á fjörugrjóti.
Þá eigi dómur Hæstaréttar í máli nr. 128/2013 ekki við í máli þessu þar sem ekki sé uppi ágreiningur um málsatvik. Í þessum dómi hafi viðkomandi ekki verið viss um hvað af tilteknum atriðum hafi valdið því að hún féll á heimili sínu.
Stofnunin leggi áherslu á að það hvíli ekki á stofnuninni að sýna fram á að orsakir óhappsins sé að rekja til einhvers sem hafi gerst innan líkama kæranda, heldur beri henni að sýna fram á að óhappið hafi orsakast af skyndilegum utanaðkomandi atburði. Meiðsli, sem eigi sér stað innan líkama einstaklinga, séu almennt ekki talin slys í skilningi slysahugtaksins. Slíkir áverkar komi gjarnan vegna rangra hreyfinga eða álags og þar af leiðandi sé orsök þeirra ekki utanaðkomandi. Sú athöfn að færa […] geti ekki talist skyndilegur utanaðkomandi atburður, en kærandi hafi sérstaklega verið innt eftir því af hálfu stofnunarinnar hvort eitthvað sérstakt hefði komið upp á og hvernig aðstæður hafi verið að öðru leyti þegar atvikið átti sér stað. Til dæmis hvort það hafi verið þröngt, dimmt, sleipt undirlag og svo framvegis en svo hafi ekki verið.
Skilyrði um utanaðkomandi atburð sé því ekki fullnægt og að mati stofnunarinnar sé ljóst að orsök óhappsins X sé að rekja til innri verkan kæranda.
Kærandi telji að hún hafi sannað með nægjanlegum hætti hvernig slysið hafi atvikast, enda verið sjónarvottur að því. Þá sé ljóst af læknisvottorðum að orsakatengsl séu á milli meiðsla og einkenna kæranda við skoðun lækna og slyssins sem hún hafi orðið fyrir. Þá liggi einnig fyrir að meiðsl kæranda hafi stafað af slysinu en ekki innri verkan í líkama hennar.
Sjúkratryggingar Íslands taki undir með kæranda að hún hafi sannað með nægjanlegum hætti hvernig óhappið hafi atvikast, enda sé enginn ágreiningur um málsatvik. Ágreiningur felist í því að kærandi telji þá athöfn að færa [...] með þeim afleiðingum að hún hljóti bakmeiðsli, án þess að nokkuð utanaðkomandi hafi komið til, falli undir slysahugtak slysatrygginga almannatrygginga. Á það verði ekki fallist af hálfu stofnunarinnar með vísan til ofangreindrar umfjöllunar. Um langt skeið hafi stofnunin skýrt ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga samkvæmt orðanna hljóðan og gert kröfu um að fyrir liggi skyndileg utanaðkomandi orsök. Í sumum tilfellum verði meiðsli vegna óhapps án utanaðkomandi þátta eða vegna undirliggjandi veikleika eða sjúkdómsástands sem þegar sé til staðar og falli þar af leiðandi ekki undir slysahugtakið. Vegna umfjöllunar kæranda um orsakatengsl á milli meiðsla og einkenna kæranda sé orsök meiðslanna ekki að rekja til slyss í skilningi almannatryggingalaga og falli óhappið því ekki undir bótasvið laganna.
Samkvæmt ofangreindu hafi kærandi að mati stofnunarinnar hvorki fært sönnur á að óhapp hennar falli undir hugtakið slys í áðurnefndum skilningi né að það hafi orsakast af skyndilegum utanaðkomandi atburði. Máli sínu til stuðnings vísi stofnunin til nýfallins héraðsdóms þar sem reynt hafi á sambærilegt atriði og í máli þessu. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-4079/2015 frá 14. mars 2016 hafi túlkun stofnunarinnar á slysahugtaki laganna, sem hér hafi verið kærð til nefndarinnar, verið staðfest. Úrskurðarnefnd almannatrygginga hafi komist að sömu niðurstöðu í máli nr. 363/2014 frá 18. febrúar 2015.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur vegna slyss sem kærandi varð fyrir X.
Við úrlausn þessa máls ber að leggja til grundvallar gildandi rétt á þeim tíma sem slysið átti sér stað. Í X voru ákvæði um slysatryggingar í IV. kafla laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Sá kafli hefur nú verið færður í sérstök lög og eru þau nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga. Samkvæmt þágildandi 1. málsl. 1. mgr. 27. gr. fyrrnefndu laganna taka slysatryggingar almannatrygginga til slysa við vinnu, iðnnám, björgunarstörf, hvers konar íþróttaæfingar, íþróttasýningar og íþróttakeppni, enda sé hinn slasaði tryggður samkvæmt ákvæðum 29. eða 30. gr. Í 2. málsl. sömu greinar segir að með slysi sé átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans. Ákvæði samhljóða þágildandi 1. mgr. 27. gr. laga um almannatryggingar er nú að finna í 1. mgr. 5. gr. laga um slysatryggingar.
Ekki er ágreiningur um að kærandi hafi verið við vinnu þegar hún varð fyrir meiðslum í baki. Til álita kemur hins vegar hvort skyndilegur utanaðkomandi atburður hafi valdið meiðslum á líkama kæranda og hafi gerst án vilja hennar, sbr. þágildandi 2. málsl. 1. mgr. 27. gr. laga um almannatryggingar.
Hvorki í lögunum sjálfum né í athugasemdum með tilvitnuðu frumvarpi til breytinga á lögunum er skilgreint hvað átt sé við með því að atburður sé „utanaðkomandi“ og „skyndilegur“. Að mati nefndarinnar verða atvik að vera rakin til þess að eitthvað óvænt hafi átt sér stað og að óhapp verði ekki rakið til undirliggjandi sjúkdóms eða meinsemda hjá þeim sem fyrir óhappi verður. Tryggingaverndin nær því ekki til allra atvika, óhappa eða meiðsla sem geta átt sér stað við vinnu heldur einungis ef um slys er að ræða.
Í tilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands um slysið þar sem óskað er nákvæmrar lýsingar á tildrögum og orsökum slyssins, segir svo:
„A lyftir upp [...] ásamt [samstarfsmanni] og fær í bakið við það.“
Í beiðni um sjúkraþjálfun undirritaðri af D lækni, dagsettri á slysdegi, segir að kærandi hafi verið slæm í baki í nokkurn tíma og að bráð versnun hafi orðið X þegar hún hafi lyft þungum hlut í vinnu.
Í vottorði C læknis, dags. 4. september 2015, vegna slyssins kemur fram að kærandi hafi verið að lyfta þungum hlut í vinnu og þá fengið slæman bakverk í mjóhrygg. Kærandi fékk greiningarnar hryggjarliðaskrið (spondylolisthesis) og hryggjarliðslos (spondylolysis) þegar hún leitaði á heilsugæsluna eftir slysið Einnig segir í vottorðinu að kærandi hafi áður verið hraust kona. Þá er niðurstöðu skoðunar og rannsóknar lýst svo í vottorðinu:
„Í byrjun árs 2015 voru gerðar myndgreiningarrannsóknir sem sýndu spondylolisthesu á L5 með framskriði á L5 miðað við S1. Fór í spengingu á hrygg í framhaldinu og hefur verið í sjúkraþjálfun til að styrkja bak og kviðvöðva.“
Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 23. september 2015, var farið fram á að kærandi myndi tilgreina nákvæmlega hvernig staðið hafi verið að því að lyfta umræddum hlut, hvort eitthvað sérstakt hafi komið upp á og hvernig aðstæður hafi verið að öðru leyti þegar atvikið hafi átt sér stað, til dæmis hvort það hafi verið þröngt, dimmt, sleipt undirlag og svo framvegis. Með bréfi lögmanns kæranda, dags. 28. janúar 2016, var beiðninni svarað þar sem segir:
„Þegar slysið varð var A að vinna við að [...]. A var síðan ásamt samstarfsmanni að færa [...], þegar slysið varð. Að sögn vinnuveitanda hefur verkið lengi verið unnið með þessum hætti og leiðin sem þurfti að bera [...] hafi verið stutt. Tjónþoli hlaut bakmeiðsli við þetta verk sem hafa ekki verið rakin til innra ástands í líkama tjónþola heldur utanaðkomandi atburðar, þ.e. vinnu hennar við að flytja [...] á milli staða. Samkvæmt áverkavottorði leitaði tjónþoli strax á heilsugæsluna á E. Hún gekk þá skökk og hafði eymsli í vöðvum frá herðum og niður allt bak.“
Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur á það sjálfstætt mat hvort bótaskylda vegna slyss kæranda telst vera fyrir hendi og metur það á grundvelli fyrirliggjandi gagna málsins sem nefndin telur nægileg. Við úrlausn máls þessa ber að líta til þess hvort utanaðkomandi atburður hafi átt sér stað í tengslum við hinn tryggða. Eitthvað verður að hafa gerst sem veldur tjóni á líkama hans. Verði ekki frávik frá þeirri atburðarás sem búast mátti við og engar óvæntar aðstæður koma upp, er ekki um slys að ræða í skilningi almannatryggingalaga.
Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi eymsli í bak þegar hún var við störf sín að lyfta [...] með samstarfskonu sinni. Að mati úrskurðarnefndar getur það eitt að lyfta [...] við vinnu ekki fallið undir skyndilegan utanaðkomandi atburð í skilningi þágildandi 1. mgr. 27. gr. laga um almannatryggingar. Sjúkratryggingar Íslands óskuðu nánari lýsingar á slysinu með sérstöku tilliti til þess hvort eitthvað skyndilegt eða utanaðkomandi hefði átt sér stað. Að mati úrskurðarnefndar hafa ekki komið fram upplýsingar í þá veru. Auk þess telur úrskurðarnefndin að ráða megi af gögnum málsins að bakverkir kæranda hafi staðið yfir í einhvern tíma en einungis versnað við hið umdeilda atvik. Þá er það mat úrskurðarnefndarinnar, með hliðsjón af læknisvottorði C, dags. 4. september 2015, og niðurstöðu röntenrannsóknar frá X, að meinsemd sú sem í ljós kom hjá kæranda, þ.e. hryggjarliðaskrið, sé að öllum líkindum afleiðing af hryggjarliðslosi en ekki áverka. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd að gögn málsins bendi til þess að umrædd einkenni kæranda hafi verið að rekja til innra ástands hennar en ekki skyndilegs utanaðkomandi atburðar. Dómar Hæstaréttar í málum nr. 412/2011, 289/2010 og 128/2013, sem kærandi vísar til máli sínu til stuðnings, hafa ekki áhrif á þá niðurstöðu, enda voru málsatvik í þeim málum ekki sambærileg við atvik máls þessa.
Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd að skilyrði þágildandi 2. málsl. 1. mgr. 27. gr. laga um almannatryggingar um að skyndilegur utanaðkomandi atburður hafi valdið meiðslum á líkama kæranda sé ekki uppfyllt. Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur vegna slyss A, sem hún varð fyrir 21. nóvember 2014 er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir