Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 455/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 455/2016

Fimmtudaginn 2. febrúar 2017

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Guðrún Agnes Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags, 15. nóvember 2016, kærir B hrl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 7. nóvember 2016, um synjun á kröfu kæranda um hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi öðlaðist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns hennar sem fæddist X. Kærandi fékk senda greiðsluáætlun, dags. 23. júní 2016, þar sem fram kemur að mánaðarleg greiðsla hennar yrði 370.000 kr. á mánuði miðað við 100% orlof. Með bréfi, dags. 31. október 2016, fór kærandi fór fram á hærri greiðslur úr sjóðnum með vísan til reglugerðar nr. 850/2016 um breytingu á reglugerð nr. 1218/2008 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Kröfu kæranda var hafnað með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 7. nóvember 2016, á þeirri forsendu að reglugerðin ætti við um foreldra barna sem fæddust 15. október 2016 eða síðar.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 21. nóvember 2016. Með bréfi, dags. 22. nóvember 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 1. desember 2016, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. desember 2016, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti þann 11. desember 2016.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi vísar til þess að framkvæmd á nýrri reglugerð, þ.e. að hækkunin eigi aðeins við um foreldra þeirra barna sem fæðast eftir 15. október 2016 en ekki foreldra barna sem séu í fæðingarorlofi á þeim tíma, sé ómálefnaleg mismunun sem fari í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og stjórnsýslulaga. Kærandi bendir á að þeir foreldrar sem séu nú þegar í fæðingarorlofi hafi greitt í sjóðinn eftir 5. tölul. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald ákveðna prósentu af launum sínum og sama regla gildi fyrir alla foreldra. Þeir foreldrar fá þó greitt úr sjóðnum á grundvelli sitt hvorrar reglunnar á sama tímabili. Að mati kæranda sé um ómálefnalega mismunun að ræða og þar af leiðandi í andstöðu við framangreindar jafnræðisreglur.

Kærandi gerir athugasemd við að í svarbréfi Fæðingarorlofssjóðs sé ekkert fjallað um röksemdir hennar um jafnræði heldur sé málið einungis afgreitt á grundvelli reglugerðarinnar. Kærandi óskar því eftir að úrskurðarnefndin taki þá málsástæðu kæranda sérstaklega til skoðunar og þá hvort framkvæmd breytinganna í reglugerð nr. 850/2016 samræmist þeim kröfum sem jafnræðisreglan leggi á stjórnvöld.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að reglugerð nr. 850/2016 hafi verið sett með stoð í lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof og að hún hafi öðlast gildi 15. október 2016. Reglugerðin sé skýr að efni til um það að hún eigi við um foreldra barna sem fæðast eftir 15. október 2016 eða síðar. Samkvæmt orðanna hljóðan gildi reglugerð nr. 850/2016 því ekki í tilviki barns kæranda sem hafi fæðst X. Réttur kæranda til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði byggi aftur á móti á 2. mgr. 13. gr. og 3. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 26. gr. laga nr. 130/2014.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að félags- og húsnæðismálaráðherra fari með yfirstjórn fæðingar- og foreldraorlofsmála en Vinnumálastofnun fari með vörslu Fæðingarorlofssjóðs, reikningshald og daglega afgreiðslu í umboði ráðherra, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 95/2000. Fæðingarorlofssjóður sé því lægra sett stjórnvald í stjórnsýslusambandi við ráðherrann sem æðsta yfirstjórnanda fæðingar- og foreldraorlofsmála. Þá séu stjórnvaldsákvarðanir Vinnumálastofnunar kæranlegar til úrskurðarnefndar velferðarmála í samræmi við 5. gr. laga nr. 95/2000 og lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Með vísan til stigskiptingar stjórnsýslunnar og þess hlutverks sem Vinnumálastofnun sé falið með lögum nr. 95/2000 verði ekki séð að stofnunin, sem lægra sett stjórnvald, hafi stöðu að lögum til að meta hvort skýrt orðalag 4. gr. reglugerðar nr. 850/2016 um að reglugerðin eigi við um foreldra barna sem fæðast 15. október 2016 eða síðar, sem sett hafi verið með stoð í lögum af félags- og húsnæðismálaráðherra, sem æðra stjórnvaldi, feli í sér ómálefnalega mismunun sem fari í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og stjórnsýslulög eins og kærandi haldi fram.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kröfu kæranda um hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Óumdeilt er að kærandi öðlaðist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns hennar sem fæddist X.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Í 2. mgr. 13. gr. laganna segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns. Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. laganna skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi þó aldrei nema hærri fjárhæð en 370.000 kr. en sú fjárhæð kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála, sbr. 8. mgr. 13. gr. laganna. Í sömu málsgrein er kveðið á um að ráðherra sé heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta greiðslufjárhæðinni til hækkunar ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Þegar þau skilyrði leiða til hækkunar á fjárhæð hámarksgreiðslna skal ráðherra breyta fjárhæðinni í reglugerð.

Reglugerð nr. 1218/2008 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, með síðari breytingum hefur meðal annars verið sett með stoð í ákvæði 8. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000. Í 3. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og er fjárhæð hámarksgreiðslu tilgreind í 5. mgr. ákvæðisins. Við gildistöku reglugerðarinnar var fjárhæð hámarksgreiðslu úr sjóðnum 400.000 kr. en þeirri fjárhæð hefur verið breytt alls fimm sinnum, síðast með reglugerð nr. 850/2016, en þá var hámarksgreiðslan hækkuð upp í 500.000 kr. Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar öðlaðist hún gildi 15. október 2016 og á við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 15. október 2016 eða síðar.

Kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns hennar sem fæddist X og var afgreidd í fæðingarorlof með greiðsluáætlun, dags. 23. júní 2016. Þar kemur fram að heildartekjur hennar væru að meðaltali 626.563 kr. miðað við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingardag barns og því yrði mánaðarleg greiðsla til hennar úr Fæðingarorlofssjóði 370.000 kr. miðað við 100% orlof. Þegar umsókn kæranda barst var hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði 370.000 kr., sbr. reglugerð nr. 1213/2014 um breytingu á reglugerð nr. 1218/2008. Að mati úrskurðarnefndar er því ljóst að útreikningur Fæðingarorlofssjóðs í greiðsluáætlun, dags. 23. júní 2016, er í samræmi við ákvæði laga nr. 95/2000 og reglugerðar nr. 1213/2014.

Kærandi byggir á því að framkvæmd reglugerðar nr. 850/2016, um að hækkun á hámarksgreiðslu eigi aðeins við um foreldra þeirra barna sem fæðast 15. október 2016 og síðar, feli í sér mismunun sem brjóti í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til stöðu sinnar. Sömu reglu er að finna í 11. gr. stjórnsýslulaga þar sem fram kemur í 1. mgr. að stjórnvöld skuli gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.

Samkvæmt 8. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 hefur ráðherra heimild til að breyta hámarksfjárhæð til hækkunar og skal það gert með reglugerð. Reglugerð nr. 850/2016 var sett með heimild í 8. mgr. 13. gr., 5. mgr. 18. gr., 5. mgr. 19. gr. og 35. gr. laga nr. 95/2000 með síðari breytingum. Skýrt er kveðið á um að reglugerðin eigi við um foreldra barna sem fæddust, voru tekin í varanlegt fóstur eða ættleidd 15. október 2016 eða síðar, sbr. 4. gr. Ráðherra hefur lagalega heimild til þess að breyta hámarksfjárhæð til greiðslu í fæðingarorlofi og var sú heimild nýtt með reglugerð nr. 850/2016, án mismunar gagnvart þeim sem hún gildir um, þ.e. foreldra barna sem fæddust, voru tekin í varanlegt fóstur eða ættleidd þann 15. október 2016 eða síðar. Það er mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ákvörðun ráðherra hafi byggst á þeim heimildum sem honum hafa verið falin í lögum og reglum og þegar af þeirri ástæðu beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 7. nóvember 2016, um synjun á kröfu A, um hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Guðrún A. Þorsteinsdóttir, formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta