Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 480/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 480/2016

Fimmtudaginn 2. febrúar 2017

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Guðrún Agnes Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags, 4. september 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 5. júlí 2016.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 21. apríl 2016, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna barnsfæðingar þann X 2016. Umsókn kæranda var samþykkt og hún afgreidd í fæðingarorlof í samræmi við þau gögn sem fylgdu með umsókninni, sbr. greiðsluáætlun til hennar, dags. 29. júní 2016. Í framhaldinu sendi kærandi Fæðingarorlofssjóði frekari gögn og fékk senda nýja greiðsluáætlun, dags. 5. júlí 2016, í samræmi við þau gögn. Þá sendi kærandi Fæðingarorlofssjóði á ný frekari gögn en með bréfi sjóðsins, dags. 14. júlí 2016, var kæranda tilkynnt að innsend gögn breyttu ekki fyrri útreikningi.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 4. september 2016. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi sé í fullu námi og hafi verið það síðan í ársbyrjun 2015. Þá hafi hún verið í fullri vinnu sumarið 2015 og unnið í 40% starfi með námi veturinn 2015-2016. Auk þess hafi hún starfað við B á kvöldin sem verktaki. Með bréfi, dags. 12. desember 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 13. desember 2016, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. desember 2016, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Viðbótargögn bárust frá kæranda 9. janúar 2017 og voru þau send Fæðingarorlofssjóði til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að í greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs frá 29. júní 2016 hafi ekki verið gert ráð fyrir launum hennar fyrir B. Eftir ábendingu þess efnis til Fæðingarorlofssjóðs hafi kærandi fengið senda nýja greiðsluáætlun þar sem meðallaun hennar hafi verið lækkuð. Kærandi tekur fram að á árunum 2015 og 2016 hafi hún verið námsmaður í fullu námi. Kærandi eigi því rétt á, samkvæmt lögum nr. 95/2000 um fæðingarorlof, að undanskilja laun sem hún hafi fengið fyrir lægra starfshlutfall en 25% við útreikning á meðallaunum hennar. Fæðingarorlofssjóður hafi vísað til þess að starfshlutfall hennar fyrir B á vormánuðum 2015 hafi verið 30,4% miðað við þá upphæð sem hún hafi borgað í reiknað endurgjald. Kærandi tekur fram að hún hafi aldrei verið í svo háu starfshlutfalli sem B og hún geti ekki séð að í lögum nr. 95/2000 komi fram að upphæð reiknaðs endurgjalds skilgreini starfshlutfall hennar.

Kærandi bendir á að í 1. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 komi fram að fullt starf sjálfstætt starfandi einstaklings miðist við að viðkomandi hafi greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemi að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein. Hvergi sé kveðið á um að ekki megi greiða yfir lágmarksupphæð í reiknað endurgjald. Að mati kæranda sé það óeðlileg krafa af hálfu Fæðingarorlofssjóðs að hún skuli ekki greiða sér hærra tímakaup í yfirvinnu en lágmarksupphæð reiknaðs endurgjalds fyrir sama starf í dagvinnu. Starf hennar fari alltaf fram snemma á kvöldin og geti því varla talist til dagvinnu.

Kærandi tekur fram að hún hafi fengið leiðbeiningar hjá starfsmanni Skattstofu C um reiknað endurgjald og verið tjáð að fyrir fullt starf á kvöldin væri eðlilegt að vera með tæplega 500.000 kr. á mánuði. Vorið 2016 hafi kæranda verið tilkynnt að hún væri að greiða sér of lág laun fyrir starf sitt. Nú greiði hún sér 120.000 kr. á mánuði í reiknað endurgjald fyrir 20% starf.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þar sem kveðið sé á um að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Í 6. mgr. 13. gr. laganna komi fram að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris sem sé bæði starfsmaður og sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 2. og 3. mgr. 7. gr., skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og reiknaðs endurgjalds sem greitt hafi verið tryggingagjald af. Starfi viðkomandi foreldri sem starfsmaður samkvæmt 2. mgr. 7. gr. í 50% eða hærra starfshlutfalli skuli miða við viðmiðunartímabil samkvæmt 2. mgr. Að öðrum kosti skuli miða við viðmiðunartímabil samkvæmt 5. mgr. Að öðru leyti gildi ákvæði 2. til 5. mgr. eins og við geti átt.

Fæðingarorlofssjóður tekur fram að á ávinnslutímabili kæranda, samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, hafi hún bæði starfað sem starfsmaður samkvæmt 2. mgr. 7. gr. og greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt og tryggingagjald af reiknuðu endurgjaldi sem sjálfstætt starfandi einstaklingur samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laganna. Óumdeilt sé að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 og eigi tilkall til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem starfsmaður samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna.

Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 sé kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og skuli miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann mánuð sem barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljist meðal annars hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Í 2. mgr. 13. gr. laganna segi enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a, án tillits til þess hvort laun samkvæmt 2. málsl. eða reiknað endurgjald samkvæmt 5. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Við mat á því hvort foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði í skilningi 2. og 6. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a laganna, verði jafnframt að horfa til 1. mgr. 13. gr. a laganna en þar komi fram að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr., eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. Fullt starf starfsmanns miðist við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljist fullt starf. Fullt starf sjálfstætt starfandi einstaklings miðist við að viðkomandi hafi greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemi að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein.

Í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2000 sé kveðið á um að útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun afli um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segi jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila samkvæmt 2., 5. og 6. mgr. 13. gr. laganna.

Fæðingardagur barns kæranda hafi verið þann X 2016 og því skuli, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna og reiknaðs endurgjalds sem greitt hafi verið tryggingagjald af þá mánuði sem kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði tímabilið desember 2014 til nóvember 2015. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafi kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram komi í staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá ríkisskattstjóra um tekjur hennar á framangreindu viðmiðunartímabili og telji Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Auk þess liggi fyrir staðfesting frá ríkisskattstjóra, dags. 28. júní 2016, í hvaða starfaflokki kærandi hafi verið skráð. Í desember 2014 hafi kærandi ekki verið á innlendum vinnumarkaði, hvorki sem starfsmaður né sjálfstætt starfandi einstaklingur, heldur í fullu námi og því beri að undanskilja þann mánuð við útreikning á meðaltali heildarlauna hennar. Aðra mánuði tímabilsins hafi kærandi verið á innlendum vinnumarkaði, ýmist sem starfsmaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur og greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt og tryggingagjald af reiknuðu endurgjaldi.

Í kæru til úrskurðarnefndar geri kærandi þá kröfu að mánuðirnir janúar til maí 2015 verði undanskildir við útreikning á meðaltali heildarlauna hennar þar sem hún hafi verið í innan við 25% starfi sem verktaki þá mánuði og í fullu námi. Fæðingarorlofssjóður bendir á að á því tímabili hafi kærandi greitt staðgreiðsluskatt og tryggingagjald af reiknuðu endurgjaldi af 103.500 kr. á mánuði. Samkvæmt staðfestingu frá ríkisskattstjóra, dags. 28. júní 2016, hafi kærandi verið í starfaflokki C9. Á árinu 2015 hafi mánaðarlaun í þeim flokki verið 340.000 kr. og því verði talið að kærandi hafi greitt sér laun fyrir 30,4% starf sem sjálfstætt starfandi einstaklingur. Í samræmi við það teljist kærandi hafa verið á innlendum vinnumarkaði mánuðina janúar til maí 2015 og því beri að hafa þá með við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda líkt og mánuðina júní til nóvember 2015.

Með vísan til framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að greiðsluáætlun til kæranda, dags. 5. júlí 2016, beri með sér réttan útreikning á greiðslum til hennar.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 5. júlí 2016, um að mánaðarleg greiðsla til kæranda yrði 213.389 kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Í 13. gr. a laganna kemur fram að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla laganna feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr., eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. Fullt starf starfsmanns miðast við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skal jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf. Fullt starf sjálfstætt starfandi einstaklings miðast við að viðkomandi hafi greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein. Þá telst enn fremur til þátttöku á innlendum vinnumarkaði meðal annars orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti, sbr. 2. mgr. 13. gr. a laganna.

Starfsmaður í skilningi laga nr. 95/2000 er hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði, sbr. 2. mgr. 7. gr. Sjálfstætt starfandi einstaklingur er sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi, sbr. 3. mgr. 7. gr. laganna. Óumdeilt er að kærandi uppfyllir skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, en hún starfaði bæði sem starfsmaður og sjálfstætt starfandi einstaklingur á ávinnslutímabili ákvæðisins.

Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna. Miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns. Auk þess segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a, án tillits til þess hvort laun samkvæmt 2. málsl. eða reiknað endurgjald samkvæmt 5. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Samkvæmt 5. mgr. 13. gr. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi einstaklings nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hafi verið tryggingagjald af. Miða skuli við tekjuárið á undan fæðingarári barns. Þá segir í 6. mgr. 13. gr. laganna að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris, sem er bæði starfsmaður og sjálfstætt starfandi einstaklingur, skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og reiknaðs endurgjalds sem greitt hafi verið tryggingagjald af. Starfi viðkomandi foreldri sem starfsmaður samkvæmt 2. mgr. 7. gr. í 50% eða hærra starfshlutfalli skuli miða við viðmiðunartímabil samkvæmt 2. mgr. Að öðrum kosti skuli miða við viðmiðunartímabil samkvæmt 5. mgr.

Barn kæranda fæddist þann X 2016. Ljóst þykir að 2. málsl. 6. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 á við um kæranda þar sem hún var í meira en 50% starfi hluta ársins 2015. Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum skal því mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna og reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af þá mánuði sem kærandi var á innlendum vinnumarkaði tímabilið desember 2014 til nóvember 2015. Óumdeilt er að kærandi var ekki á innlendum vinnumarkaði í skilningi laga nr. 95/2000 í desember 2014, hvorki sem starfsmaður né sjálfstætt starfandi einstaklingur, og var sá mánuður því undanskilinn við útreikning á meðaltali heildarlauna hennar. Þá er óumdeilt að kærandi var á innlendum vinnumarkaði á tímabilinu júní til nóvember 2015 en ágreiningur málsins lýtur að tímabilinu janúar til maí 2015. Af hálfu kæranda hefur komið fram að á því tímabili hafi hún verið í lægra starfshlutfalli en 25% og því beri að undanskilja þá mánuði við útreikning á meðallaunum hennar.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi í námi og starfaði einnig sem verktaki á tímabilinu janúar til maí 2015. Kærandi greiddi sér laun að fjárhæð 103.500 kr. á mánuði samkvæmt flokki C9 en viðmiðunartekjur ríkisskattstjóra fyrir þann tekjuflokk námu 340.000 kr. fyrir árið 2015. Líkt og áður greinir miðast fullt starf sjálfstætt starfandi einstaklings við að viðkomandi hafi greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein. Að mati úrskurðarnefndarinnar telst kærandi því hafa verið í 30,4% starfshlutfalli sem sjálfstætt starfandi einstaklingur á framangreindu tímabili. Að því virtu var kærandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi laga nr. 95/2000 mánuðina janúar til maí 2015 og ber því að taka þá mánuði með við útreikning á meðaltali heildarlauna hennar. Að mati úrskurðarnefndar er því ljóst að útreikningur Fæðingarorlofssjóðs í greiðsluáætlun, dags. 5. júlí 2015, er í samræmi við ákvæði laga nr. 95/2000. Hin kærða ákvörðun er staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 5. júlí 2016, til handa A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Guðrún A. Þorsteinsdóttir, formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta