Hoppa yfir valmynd

Nr. 347/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 9. ágúst 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 347/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18060010

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 5. júní 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. maí 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Póllands.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 7. febrúar 2018. Þar sem kærandi framvísaði dvalarleyfisskírteini frá Póllandi við komuna til landsins var, þann 12. febrúar 2018, send beiðni til þarlendra yfirvalda um viðtöku á kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd, sbr. 1. eða 3. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 15. febrúar 2018 barst svar frá pólskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli 1. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 22. maí 2018 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Póllands. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann sama dag og kærði kærandi ákvörðunina þann 5. júní 2018 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 18. júní 2018, ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og að hann skyldi endursendur til Póllands. Flutningur kæranda til Póllands fæli ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. og 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi þannig að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Póllands, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæra frestaði réttaráhrifum, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi flúið heimaríki sitt í kjölfar þess að hann hafi tekið [...]. Sökum þess hafi fjölskylda hans afneitað honum og það hafi tekið mikið á hann andlega. Hann hafi flúið til Póllands ásamt pólskri konu sem hann hafi kynnst í [...]. Þau hafi gift sig og hann hafi fengið dvalarleyfi í Póllandi. Kærandi kveður að í Póllandi hafi hann glímt við þunglyndi, verið atvinnulaus og upplifað niðurlægingu af hálfu fólks úti á götu vegna [...] síns. Hann hafi sótt um fjölmörg störf en ekkert fengið sökum þess að hann sé af [...] uppruna. Þá hafi fólk látið að því liggja að hann væri [...] þar sem hann væri frá [...].

Þá kemur fram í greinargerð kæranda að hann hafi dvalið í rúmlega eitt ár í Póllandi. Hann hafi komið með fjármuni frá heimaríki sínu sem smám saman hafi gengið á og þar sem hann hafi enga atvinnu fengið hafi hann staðið uppi atvinnu- og peningalaus. Þá hafi hann þurft að greiða mun hærri fjárhæð fyrir leiguíbúð en aðrir þar sem almenningur í Póllandi mismuni fólki frá öðrum ríkjum. Þá hafi hann enga hjálp fengið frá félagsmálayfirvöldum í Póllandi. Honum hafi verið tjáð að þar sem hann væri með dvalarleyfi þyrfti hann að sjá um sig sjálfur.

Kærandi kveður að í Póllandi séu mótmælendahópar sem ráðist að [...]. Kærandi hafi flutt frá einum stað til annars en það hafi engu breytt. Þá hafi fjórir ungir menn beitt hann ofbeldi, lamið hann og kastað af sér vatni í andlitið á honum. Það hafi verið afar niðurlægjandi lífsreynsla. Kærandi hafi kært árásina til lögreglu og gefið skýrslu en lögreglan hafi tjáð honum að hann þyrfti að fara til læknis til að fá áverkavottorð. Hann hafi hins vegar aldrei fengið læknistíma þrátt fyrir fyrirheit um annað. Þegar hann hafi spurst fyrir um málið hafi hann fengið þau svör að það væri komið fyrir dóm og hann þyrfti að bíða. Lögreglan hafi hins vegar ekkert gert og ekki tekið málið alvarlega. Kærandi kveður að framangreindur árásarhópur sé eins og samtök og meðlimir hans séu merktir með húðflúrum. Hópurinn hafi kallað á eftir honum [...]. Þá hafi kærandi lent í annarri árás þegar mótmæli gegn innflytjendum hafi staðið yfir í Varsjá. Mótmælendur hafi komið að íbúð kæranda með það í hyggju að lemja hann. Hann hafi læst sig inni í herberginu sínu en eigandi hússins hafi rekið hann út því hann hafi ekki viljað skapa hættu fyrir aðra í húsinu. Kærandi hafi fengið hótun í gegnum smáskilaboð frá þessum hópi, sem hann hafi kært til lögreglu. Skjáskot af hótuninni sé meðal gagna málsins ásamt gögnum frá lögreglu sem tengist umræddri árás.

Hvað líkamlegt og andlegt heilsufar varðar kveður kærandi að hann sé með verki í hné. Þá hafi hann verið lagður inn á sjúkrahús hér á landi vegna kvalafullra magaverkja sem hann sé nú í meðferð við. Þá finni hann stundum fyrir þunglyndi en honum hafi liðið betur eftir komuna til Íslands.

Þá fjallar kærandi ítarlega í greinargerð sinni um aðstæður og réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd í Póllandi. Í því sambandi vísar kærandi til ýmissa alþjóðlegra skýrslna og gagna, þ. á m. nýjustu skýrslu gagnagrunns Evrópuráðsins um flóttamenn og útlaga, Asylum Information Database, og frjálsu félagasamtakanna Freedom House frá árinu 2018 um Pólland. Þar komi m.a. fram að Pólland sé meðal þeirra ríkja Evrópu sem hafni flestum umsóknum um alþjóðlega vernd á fyrsta stjórnsýslustigi og að andúð í garð innflytjenda í Póllandi hafi aukist verulega með auknum fjölda flóttamanna í Evrópu. Þá rekur kærandi í greinargerð sinni upplýsingar um óhóflega beitingu varðhaldsvistar gagnvart umsækjendum um alþjóðlega vernd í Póllandi og atvik þar sem flóttamönnum hafi verið snúið til baka á landamærum ríkisins, þ. á m. við landamæri Hvíta-Rússlands.

Til stuðnings kröfu sinni um efnismeðferð byggir kærandi á því að sérstakar ástæður séu uppi í máli hans, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í því sambandi vísar kærandi m.a. til laga nr. 81/2017, um breytingu á lögum um útlendinga, og lögskýringargagna að baki breytingarlögunum. Lögskýringargögnin og túlkun kærunefndar þar um gefi til kynna að viðkvæm staða umsækjenda um alþjóðlega vernd skuli hafa aukið vægi andspænis sjónarmiðum sem tengist m.a. skilvirkni við meðferð umsókna og mikilvægis samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins. Kærandi hafi glímt við þunglyndi og magaverki, fjölskylda hans hafi afneitað honum og hann hafi upplifað fordóma og orðið fyrir árásum í Póllandi vegna uppruna síns. Þá vísar kærandi til úrskurða kærunefndar frá 10. október 2017 nr. 550/2017 og 552/2017, svo og úrskurða nefndarinnar frá 24. október s.á. nr. 581/2017, 583/2017 og 586/2017. Leggur kærandi áherslu á að skoða verði einstaklingsbundnar aðstæður hans í Póllandi, einkum frásögn hans af hótunum og ofbeldi sem hann hafi orðið fyrir.

Að endingu gerir kærandi athugasemd við ákvörðun Útlendingastofnunar að því leyti að stofnunin hafi í ákvörðun sinni ekki fjallað um hættu kæranda á varðhaldsvist við endursendingu til Póllands.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.

Fyrir liggur í máli þessu að pólsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli 1. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Póllands er byggt á því að kærandi sé með gilt dvalarleyfi þar í landi, n.t.t. til 23. ágúst 2019. Eru skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga því uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Í 32. gr. a-b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í 32. gr. a kemur m.a. fram að með sérstökum ástæðum sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan, aðrar en þær sem myndu að jafnaði rúmast innan 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá er m.a. nefnt í dæmaskyni ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, ef umsækjandi af sömu ástæðu getur vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki og ef umsækjandi glímir við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð við er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda í viðtökuríki taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Greining á sérþörfum sbr. 25. gr. og 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga

Kærandi var ekki metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans hjá Útlendingastofnun. Samkvæmt gögnum málsins er kærandi [...] og barnlaus karlmaður á [...]. Í endurritum viðtala við kæranda hjá Útlendingastofnun, dags. 8. og 22. febrúar 2018, kemur m.a. fram að kærandi hafi glímt við þunglyndi og orðið fyrir ofbeldi í Póllandi vegna uppruna síns. Í framlögðum komunótum kæranda frá Göngudeild sóttvarna, dags. frá 20. febrúar til 6. mars 2018, kemur m.a. fram að kærandi glími við magaverki og verki í hné.

Framburður kæranda ber með sér að hann hafi glímt við þunglyndi og sé þolandi ofbeldis. Að mati kærunefndar er kærandi þó ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu að því er varðar meðferð máls hans hér á landi, enda fær kærunefnd ekki séð af gögnum málsins að aðstæður hans séu þess eðlis að hann hafi sérstakar þarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls hans hér eða að hann geti ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum um útlendinga án aðstoðar eða sérstaks tillits, sbr. 6. tölul. 3. gr. og 25. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður og málsmeðferð í Póllandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Póllandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • 2017 Country Reports on Human Rights Practices - Poland (United States Department of State, 20. apríl 2018);
  • Freedom in the World 2018 – Poland (Freedom House, 28. mars 2018);
  • Asylum Information Database, Country Report: Poland (European Council on Refugees and Exiles, 28. febrúar 2018);
  • Amnesty International Report 2017/18 – Poland (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • World Report 2018 – European Union (Human Rights Watch, 18. janúar 2018);
  • Asylum Information Database: The detention of asylum seekers in Europe constructed on shaky ground? (European Council on Refugees and Exiles, júní 2017);
  • Victims, suspects, accused: Rights of foreigners in criminal proceedings – a guide (Helsinki Foundation for Human Rights, 2017);
  • ECRI Report on Poland (fifth monitoring cycle) (European Commission against Racism and Intolerance, 9. júní 2015);
  • Upplýsingar af vefsíðu Mannréttinda- og lýðræðisstofnunar ÖSE (Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu) og gagnagrunns Evrópuráðsins um flóttamenn og útlaga: http://hatecrime.osce.org/poland og http://www.asylumineurope.org/reports/country/poland/statistics.

Í framangreindum skýrslum kemur m.a. fram að ákvarðanir pólsku útlendingastofnunarinnar (p. Szef Urzędu do Spraw Cudzoziemców) eru kæranlegar til kærunefndar (p. Rada do Spraw Uchodźców). Úrskurði nefndarinnar er hægt að bera undir stjórnsýsludómstól (p. Wojewódzki Sąd Administracyjny w Warszawie), um lagaleg atriði, og dómum hans verður áfrýjað til áfrýjunardómstóls (p. Naczelny Sąd Administracyjny). Pólsk stjórnvöld eru í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og frjáls félagasamtök um aðstoð við flóttamenn og umsækjendur um alþjóðlega vernd. Af framangreindum gögnum verður ráðið að einstaklingar sem eru endursendir til Póllands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar hafi aðgang að viðhlítandi málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd þar í landi.

Af framangreindum gögnum má ráða að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Póllandi eiga rétt á húsnæði og annarri þjónustu þegar þeir hafa lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd þar í landi og skráð sig í eina af móttökumiðstöðvum landsins. Fellur heilbrigðisþjónusta jafnframt þar undir. Þó er fjöldi umsækjenda mikill á móti fjölda lækna og skortur á sérfræðingum. Þá gera tungumálaerfiðleikar umsækjendum og heilbrigðisstarfsfólki erfitt fyrir og dæmi eru um að fjarlægð á milli vistarvera umsækjenda og heilbrigðisþjónustu sé of mikil til að þjónustan sé nægilega aðgengileg umsækjendum. Þeir umsækjendur sem endursendir eru til Póllands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar eiga sama rétt á þjónustu og aðstoð og aðrir umsækjendur þar í landi. Þá tóku gildi lög í nóvember 2015 sem innleiða tilskipanir Evrópusambandsins 2013/32/ESB og 2013/33/ESB um málsmeðferð og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Samkvæmt ofangreindri skýrslu gagnagrunns Evrópuráðsins um flóttamenn og landflótta einstaklinga frá árinu 2017 (e. The detention of asylum seekers in Europe constructed on shaky ground?) sættu 4,9% umsækjenda um alþjóðlega vernd varðhaldsvist í Póllandi á árinu 2016, n.t.t. 603 af 12.321 umsækjanda. Varðhaldi má einungis beita að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, s.s. þegar auðkenni umsækjanda er ekki þekkt, vegna hættu á flótta, vegna öryggisráðstafana og þegar fara á fram endursending til annars ríkis á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Frjáls félagasamtök hafa gagnrýnt pólsk yfirvöld fyrir að meina umsækjendum um alþjóðlega vernd, sem koma landleiðina í gegnum Hvíta-Rússland, um inngöngu í landið. Þá hefur varðhaldi verið beitt í tengslum við slíkar aðgerðir á landamærunum.

Þá kemur fram á vefsíðu gagnagrunns Evrópuráðsins um flóttamenn og útlaga að af 5.053 umsækjendum um alþjóðlega vernd í Póllandi á árinu 2017 hafi 2.884 umsóknir beðið afgreiðslu við lok ársins, 150 einstaklingar hafi fengið réttarstöðu flóttamanns, 340 einstaklingum hafi verið veitt viðbótarvernd og 2.091 umsókn hafi verið synjað. Alls hafi því 19% umsækjenda verið veitt alþjóðleg vernd en 81% umsókna hafi verið synjað.

Á vefsíðu Mannréttinda- og lýðræðisstofnunar ÖSE kemur fram að á árinu 2016 hafi 874 hatursglæpir verið skráðir af lögregluyfirvöldum í Póllandi, þar af 592 á grundvelli kynþáttahyggju og hræðslu við útlendinga. Af 874 skráðum hatursglæpum var ákært í 281 máli og dómur féll í 236 málum. Skráðir hatursglæpir voru m.a. líkamsárásir, eignatjón, íkveikjur, vanvirðing við grafreiti, árásir á tilbeiðslustaði, hótanir og hvatningar til ofbeldis. Samkvæmt skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna um mannréttindi í Póllandi fyrir árið 2017 hafði saksóknari fengið 696 ný mál er varða hatursglæpi á sitt borð á fyrstu sex mánuðum ársins. Í ofangreindri skýrslu mannréttindastofnunar Helsinki frá árinu 2017 kemur fram að útlendingar sem eru þolendur glæpa, þ. á m. á grundvelli kynþáttahyggju, geta kært þá til lögreglu og er lögreglu skylt að skrá kæruna. Þá eiga útlendingar rétt á túlki við meðferð mála fyrir dómstólum. Sýni þeir fram á lítil efni geta þeir átt rétt á endurgjaldslausri réttaraðstoð. Þá geta umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem telja á sér brotið í samskiptum sínum við stjórnvöld, kvartað til umboðsmanns (p. Rzecznik Praw Obywatelskich).

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Póllandi hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda þangað brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Póllandi bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Póllands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Aðstæður kæranda hafa þegar verið raktar. Að mati kærunefndar bera fyrirliggjandi gögn því ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að kærandi geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Framburður kæranda ber með sér að hann hafi þolað aðkast og ofbeldi í Póllandi vegna uppruna síns. Þrátt fyrir frásögn kæranda er það mat kærunefndar, í ljósi skýrslna sem nefndin hefur kynnt sér, að kærandi geti leitað ásjár pólskra yfirvalda ef hann óttast um öryggi sitt eða verði fyrir mismunun á grundvelli kynþáttar.

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi glímt við þunglyndi og þjáist af magaverkjum og verkjum í hné. Það er mat kærunefndar, á grundvelli gagna málsins, að aðstæður kæranda teljist ekki til mikilla og alvarlegra veikinda sem meðferð sé aðgengileg við hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá er það mat nefndarinnar að ekki sé fyrir hendi ástæða í máli kæranda er varðar heilsufar hans sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Telur kærunefnd ekki forsendur til annars, í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í Póllandi, en að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi geti leitað sér fullnægjandi og aðgengilegrar heilbrigðisþjónustu þar í landi.

Vegna umfjöllunar í greinargerð kæranda um atvik þar sem flóttamönnum hafi verið snúið til baka á landamærum Póllands tekur kærunefnd fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd á Íslandi sem falla undir ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar eru sendir til baka til meginlandsins með flugi. Ljóst er því að kærandi mun ekki eiga á hættu að vera meinuð innganga í landið líkt og dæmi eru um að hafi átt sér stað, s.s. við landamæri Póllands og Hvíta-Rússlands.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtölum hjá Útlendingastofnun dagana 8. og 22. febrúar 2018 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 7. febrúar 2018.

Svo sem fram hefur komið byggir kærandi m.a. á því í greinargerð sinni að hann muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki. Vísar kærandi í því sambandi til fimm úrskurða kærunefndar frá 10. og 24. október 2017 í málum nr. 550/2017, 552/2017, 581/2017, 583/2017 og 586/2017 þar sem fallist var á kröfu kærenda, sem áður höfðu hlotið alþjóðlega vernd í Búlgaríu og Ungverjalandi, um að taka umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd byggði þá niðurstöðu sína á heildstæðu mati á aðstæðum þeirra og fyrirliggjandi gögnum um stöðu einstaklinga sem hlotið höfðu alþjóðlega vernd í Búlgaríu og Ungverjalandi. Að mati kærunefndar er ólíku saman að jafna í framangreindum málum annars vegar og máli kæranda hins vegar. Kemur þar m.a. til skoðunar að aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í Póllandi teljast ekki nægilega sambærilegar aðstæðum einstaklinga með alþjóðlega vernd í Búlgaríu og Ungverjalandi.

Athugasemd við ákvörðun Útlendingastofnunar

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi athugasemd við skort á umfjöllun í ákvörðun Útlendingastofnunar um hættu á varðhaldsvist kæranda við endursendingu til Póllands.

Af ákvörðun Útlendingastofnunar verður lesið að stofnunin hafi lagt mat á það hvort kærandi komi til með að fá vandaða og efnislega málsmeðferð í Póllandi og hvort hann standi frammi fyrir raunverulegri hættu á því að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð þar í landi. Þá telji stofnunin að ekki hafi verið sýnt fram á að pólsk yfirvöld muni ekki veita kæranda þá vernd sem honum sé áskilin í alþjóðlegum skuldbindingum Póllands á sviði mannréttinda. Það er mat kærunefndar að í ákvörðun Útlendingastofnunar sé gerð grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við mat á því hvort rétt væri að synja kæranda um efnismeðferð og helstu málsatvikum sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Hins vegar gerir kærunefnd athugasemd við tilvísanir Útlendingastofnunar til óuppfærðra skýrslna og gagna í ákvörðun sinni í máli kæranda, en líkt og heimildalisti nefndarinnar ber með sér voru komnar út uppfærðar útgáfur af a.m.k. þremur tilvísaðra skýrslna þegar Útlendingastofnun tók ákvörðun í málinu, þann 22. maí sl. Aftur á móti er það mat kærunefndar að ákvörðun Útlendingastofnunar beri að öðru leyti ekki með sér að skort hafi á að nauðsynlegar upplýsingar um aðstæður í Póllandi lægju fyrir við meðferð málsins fyrir stofnuninni. Kærunefnd gerir athugasemd við framsetningu rökstuðnings hvað þetta varðar en telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við málsmeðferð stofnunarinnar að öðru leyti. 

Frávísun

Samkvæmt gögnum málsins kom kærandi hingað til lands þann 7. febrúar 2018 og sótti um alþjóðlega vernd þann sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi skal fluttur til Póllands ekki síðar en 6 mánuðum eftir birtingu þessa úrskurðar, sbr. til hliðsjónar 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í máli þessu hafa pólsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Póllands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                     Árni Helgason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta