Hoppa yfir valmynd

Nr. 45/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 31. janúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 45/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU18120038

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Þann 6. desember 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 17. maí 2018 um að synja einstaklingi er kveðst heita [...], vera fæddur [...], og vera ríkisborgari Pakistan (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 10. desember 2018. Þann 14. desember 2018 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar sem og beiðni kæranda um að nefndin endurskoðaði úrskurð hans. Þann 8. janúar 2019 barst kærunefnd greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum. Þá bárust kærunefnd frekari gögn frá kæranda þann 31. janúar 2019.

Kærunefnd leggur þann skilning í beiðni kæranda að hann fari þar fram á endurupptöku í máli hans á grundvelli 1. og 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 1. og 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, þar sem ákvörðun í máli hans hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Ennfremur á nýjum gögnum sem komið hafi fram eftir að úrskurður nefndarinnar hafi verið kveðinn upp þann 6. desember sl. því hafi ákvörðunin byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðunin hafi verið tekin.

Kærandi heldur því fram að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hafi ekki sinnt skyldu sinni skv. 10 gr. stjórnsýslulaga sem kveði á um skyldu íslenskra stjórnvalda til að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Af hálfu kæranda er því haldið fram að stjórnvöld hafi ekki gengið nægilega vel úr skugga um þær aðstæður sem bíði hans í heimaríki. Í því samhengi vísar kærandi m.a. til þess að í viðtali hans hjá kærunefnd hafi sá talsmaður sem annaðist mál hans hjá Rauða krossinum ekki verið viðstaddur, heldur hafi annar talsmaður mætt í hans stað. Hafi sá einstaklingur að mati kæranda ekki lagt sig nægilega fram við að fylgjast með viðtalinu og ekki séð til þess að viðtalið hafi verið túlkað með réttum hætti og til samræmis við málatilbúnað kæranda. Af þeim sökum hafi rangfærslur orðið á staðreyndum í máli kæranda sem hafi orðið forsendur fyrir niðurstöðu kærunefndar.

Þá eigi kærandi við andleg veikindi að stríða og hafi honum ekki liðið vel í viðtali hjá kærunefnd. Kærandi eigi í erfiðleikum með að treysta fólki og trúa því að fólk vilji honum vel og hafi það ollið kæranda miklum kvíða í viðtalinu sem hafi í kjölfarið orðið til þess að kærandi hafi ekki skilið allar spurningar kærunefndar jafnframt sem hann hafi átt erfitt með að svara spurningunum. Kærandi eigi í erfiðleikum með að muna hluti og sé skammtímaminni hans skert jafnframt sem kærandi eigi erfitt með að gefa skýra frásögn. Kærandi óskar eftir því að fá að koma að nýju í viðtal hjá kærunefndinni til að leiðrétta þær rangfærslur sem fram hafi komið í fyrra viðtali.

Kærandi kveðst óttast um líf sitt í Pakistan. Verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis telji hann að það brjóti gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Kærandi lagði fram ýmis gögn með beiðni sinni, m.a. sálfræðimat, dags. 10. febrúar 2018, sem kærunefnd tók afstöðu til á fyrri stigum máls kæranda. Einnig lagði kærandi fram fæðingarvottorð hans, dags. 7. ágúst 2018, fjölskylduvottorð konu að nafni [...], dags. 28. mars 2013, skjáskot af ættartali föður kæranda og staðfestingu pakistanskra stjórnvalda á gildi persónuskilríkja kæranda. Þá lagði kærandi fram ýmis persónuskilríki og af einu þeirra sé ljóst að kærandi sé með dvalarleyfi á Ítalíu sem gildir fram í september 2020.

Þann 31. janúar 2019 barst kærunefnd tölvupóstur þar sem kærandi kveður mann að nafni [...] vera stjúpföður hans. Í tölvupóstinum kemur fram að árið 2004 hafi [...] kvænst móður kæranda en hún hafi árið 2008 látist af barnsförum við fæðingu tvíbura. Árið 2008 hafi stjúpfaðir kæranda gifst annarri konu sem hafi átt dóttur að nafni [...]. Sú kona hafi látist árið 2007 úr krabbameini og hafi stjúpfaðir kæranda því tekið [...] að sér. Í tölvupóstinum kemur fram að kærandi telji nú að [...] sé stjúpsystir sín. Þá fylgir tölvupóstinum ljósrit af fjölskyldutengslum kæranda.

Í ljósi alls framangreinds telji kærandi tilefni til þess að mál hans verði tekið upp að nýju og að uppfyllt séu skilyrði 1. og 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 6. desember 2018 og var úrskurðurinn birtur fyrir kæranda 10. desember 2018. Með úrskurðinum komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli hvorki skilyrði 1. né 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því eigi hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í úrskurði kærunefndar, dags. 6. desember 2018, kemur fram að kærunefnd hafi metið framburð kæranda ótrúverðugan að verulegu eða öllu leyti.

Kærandi byggir beiðni um endurupptöku aðallega á skjölum sem kærandi telur styrkja frásögn sína. Í fjölskylduvottorði konu að nafni [...], dags. 28. mars 2013, sem kærandi hefur lagt fram kemur fram að hún sé skráð móðir kæranda. Í vottorðinu kemur einnig fram að faðir kæranda sé maður að nafni [...] og að systir kæranda sé stúlka að nafni [...]. Í viðtali kæranda hjá kærunefnd þann 20. september 2018 hélt kærandi því m.a. fram að móðir hans væri látin og að hann ætti tvær yngri alsystur í Pakistan. Í viðtalinu hélt kærandi því fram að [...] væri ekki blóðtengd systir hans en kvað [...] hafa ættleitt [...] í því skyni að hún kæmist með kæranda til Evrópu. Samkvæmt upplýsingum frá sænskum stjórnvöldum er [...] fædd þann [...], en ekki þann [...] líkt og kemur fram í umræddu fjölskylduvottorði. Samkvæmt fæðingarvottorði kæranda, dags. 7. ágúst 2018, sótti [...] um vottorðið sl. haust fyrir hönd kæranda. Í fylgigögnum með beiðni kæranda um endurupptöku eru skjáskot af ættartali [...] sem bera með sér að hafa verið tekin af vefsíðu pakistanskra stjórnvalda. Þar kemur fram að hann eigi einungis þrjú börn, kæranda, [...] og ungabarn að nafni [...], en enga fæðingardaga er að finna á ættartalinu.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á framangreindum úrskurði ásamt þeim gögnum sem kærandi vísar í, þ.e. fjölskylduvottorð, ættartal og fæðingarvottorð ásamt þýðingu. Telur kærunefnd að umrædd gögn dragi enn frekar úr trúverðugleika frásagnar kæranda enda eru gögnin í engu samræmi við frásögn kæranda hjá kærunefnd eða fyrri frásagnir kæranda. Þá telur kærunefnd að fullyrðingar kæranda um að túlkun viðtals hjá kærunefnd kunni að hafa verið ábótavant ekki standast þar sem viðtalið fór fram á ensku. Er því óbreytt það mat kærunefndar er fram kom í úrskurði hennar 6. desember 2018 að frásögn kæranda hafi verið að verulegu eða öllu leyti ótrúverðug. Að teknu tilliti til frásagnar kæranda og gagna málsins er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 6. desember 2018 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi hefur framvísað til kærunefndar afriti af dvalarskírteini útgefnu af ítölskum stjórnvöldum skv. því hefur kæranda dvalarleyfi þar í landi fram í september 2020. Þar sem úrskurður Útlendingastofnunar laut að aðstæðum í heimaríki kæranda Pakistan er ljóst að ofangreind dvalarleyfi verður ekki talið leiða til þess að atvik hafi breyst verulega frá því að úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Rétt er þó að leiðbeina kæranda um að samkvæmt 5. mgr. 104. gr. laga um útlendinga er heimilt ef sérstaklega stendur á að færa útlending inn til annars lands en þess sem hann kom frá. Þar kemur einnig fram að ef útlendingur hefur gilda heimild til dvalar í öðru EES- eða EFTA-ríki skuli hann fluttur þangað. Sé kærandi með gilt dvalarleyfi á Ítalíu kann það að hafa áhrif á framkvæmd ákvörðunarinnar, sbr. 5. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd er því hafnað.

 

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Anna Tryggvadóttir                                                                    Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta